Ímuskarð og spor eftir steina

Veit ekki nema ég hafi skrifað um þetta skarð áður sem enda er maklegt - það hafa svo fáir aðrir gert og mörg önnur skörð miklu þekktari. Er þó Ímuskarð ekkert ómerkara en Khyperskarðið í Pakistan eða Almannaskarð austur við Hornafjörð.

Skarð þetta er utast af skörðunum framan í Ingólfsfjalli, næst vestan við Djúpadal þar sem malarnáman er. Það er bratt og ekki neitt alltof árennilegt. En samt segja kerlingabækur úr Ölfusinu að Íma sem var frilla Ingólfs Arnarsonar hafi farið um þetta skarð til útfarar húsbónda síns uppi á hábungu fjallsins, í Inghól. Hún hefur auðvitað ekki mátt fara með líkfylgdinni og Hallveigu Fróðadóttur landnámskonu. Frillur eru lágt metnar - sérstaklega ef ástmaður þeirra er dauður.

Mig hefur lengi langað um Ímuskarð upp á fjallið og lét það eftir mér í dag. Er reyndar að verða búinn að riðlast á öllum skorum þessa fjalls og fæ aldrei af því nóg. En ég ætla ekkert að mæla með þessu sem almennri gönguleið,- hún er frekar ill og mikið lausagrjót eftir skjálftana í vor. Reyndi við Ímu einu sinni fyrr en lenti þá í myrkri og ófæru utan megin í skarðinu. Nú fór ég austanað og reyndar aldrei ofan í sjálfa bláskoruna heldur þvældi mér upp kletta í austurbarminum. Þurfti að klifra þar sem verst var en allt samt skaplegt.

Neðst í rótunum má sjá spor eftir steina, manndrápsbjörg sem hafa skoppað og hoppað niður hlíðina og skilið eftir sig sár sem verða lengi að hverfa. Sum aldrei. Stórfenglegt að sjá hvernig skjálftinn hefur leikið þetta fjall og hrikaleiki náttúrunnar engu líkur...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég var utandyra í Hveragerði þegar skjálftinn reið yfir og mun aldrei gleyma þeirri sjón þegar stór björg hrundu niður hlíðina í átt að garðyrkjuskólanum.  Það og sjá gluggana í húsinu sem ég bý í bylgjast inn og út vitandi það að konan var innandyra.

Axel Þór Kolbeinsson, 26.11.2008 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband