Drekkti sér í Lómatjörn...

Fátt í haginn framsókn gengur
furðu lin í sókn og vörn.
Og Bjarni þessi dáðadrengur
drekkti sér í Lómatjörn.

Þessa rakst ég á inni á vef vinar míns Dofra Hermannssonar og er talin eftir Jóhannes á Gunnarsstöðum. Hann hefur fyrr ort listilega um mig og aðra.

Enn er fólk að býsnast yfir þessu og vottar mér jafnvel samúð,- þeir sem þora. Aðrir verða vandræðalegir. Ekki þó hún frænka mín í Rangárþingi sem sagði af þeirri einurð og heiðríkju sem mér jafnan þykir yfir konum í þeirri sýslu:

- Ertu ekki hnugginn yfir þessu, frændi!

En ég er það ekki. Flesta daga manna sælastur og hefði illa unað mér í  þingflokknum að Guðna gengnum. Þar hefði ég illa átt heima undir ESB forystu Valgerðar. Kannski jafn illa og Valgerður átti heima undir forystu Guðna! Og jafnt þó aldrei hefðu nein tölvuskeyti skotist úr tölvunni minni.

Fólk á aldrei að vera þar sem það unir sér ekki og kemur sínum baráttumálum ekki fram.

Þegar þetta kom uppá voru margir sem skoruðu á mig á að sitja sem fastast - ég gæti bara sagt mig úr flokknum og látið þar við sitja. Enn heyri ég þessu haldið fram. Ég hefði sjálfur aldrei fellt mig við það. Ég fór inn á vegum Framsóknarflokksins og vilji ég sitja án þess að vera í honum þá vil ég gera það undir nýrri kosningu. Nýju umboði kjósenda. Sem vel getur orðið, ef það er bæði vilji kjósenda og minn. Veit auðvitað ekki með kjósendur og ég veit ekki heldur með sjálfan mig.

Og svo er ég spurður hvort ég sjái eftir þessu. Ég veit það varla, - held kannski að þetta hafi átt að fara svona. Ég er baráttumaður og hef barist fyrir hugsjónum fullveldisins inni í Framsóknarflokknum. Gengið þar vasklega fram auðvitað farið aðeins framúr mér í þessu síðasta. En það allt í sama baráttuhug gert. Innanhúss í okkar flokki var ástandið fyrir löngu orðið óbærilegt vegna baráttunnar milli sanntrúaðra ESB - sinna og fullveldissinna. Það varð einhvernveginn að höggva á þann hnút. Ég hefði auðvitað kosið að spottarnir skytust öðruvísi við það högg - en það er léttir að það er af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Í þínum sporum myndi ég sitja sátt við mitt, þú ert með pálmann í höndunum. Halldóri Ásgrímssyni er trúlega að takast að láta sína langþráðu ósk verða að veruleika, Páll Magnússon ( einn af gullkálfum Halldórs ) er búinn að tilkynna sitt framboð í formann Framsóknarflokksins. Valgerður gefur ekki kost á sér. Halló ! Ekki er allt gull sem glóir.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 6.12.2008 kl. 01:16

2 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Langar að segja svo miklu meira ...   

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 6.12.2008 kl. 01:20

3 Smámynd: Stefanía

Þú ert hugaður að viðurkenna að þú sért enn Framsóknarmaður.....eða ertu það ekki ?

Stefanía, 6.12.2008 kl. 02:15

4 Smámynd: Magnús Jónsson

Bjarni: er ekki komin tími á flokk fyrir fólkið, í landinu sem ekki sætir sig við að men nefni arftaka sin, sem ekki kyngir því kynroðalausust að þingmennska sé ævistarf, sem ekki sættir sig við að frændur eða nánustu séu settir í mikilvæg embætti, sem ekki vill gamla sjálfstæðisflokkinn en eru sjálfstæðismen, eða framsóknarmenn sem telja núverandi framsókn ekki standa undir nafni, er ekki komin tími á að sameina óánægða stjórnarsinna, þá sem blöskrar óstjórnin en geta ekki hugsað sér vinstri stjórn, sem vilja koma spillingunni fyrir kattarnef en skortir umboð, ég tel að við þú og ég séum skoðanabræður um að byggja betra ísland, einu má gilda að mínu áliti hvaðan men koma, svo lengi sem hagur landsins gengur fyrir hag einstaklingsins, er það ekki ásættanlegt til að byrja með.

Lýðræði er ekki sjálfgefið það er áunnið.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson, 6.12.2008 kl. 03:14

5 Smámynd: halkatla

þú ert meira en framsókn gæti nokkru sinni dreymt um, of góður, eiginlega framsókn 2

halkatla, 6.12.2008 kl. 03:39

6 identicon

Og hér má bæta við:

Framsókn út á fenjasvæðiflúin er, með skurn og skæðifylgi rúin feigðarsönginn syngur.Engin  von að auðnu græðiÍhalds-taglhnýtingur. En ,,þið”,  sem þennan flótta rekiðog þjóðin hefur eftir tekið,þið ættuð ekki að þjösnast nærriþegar skolast niður sprekið.Fenin rúma fríðari flokka,,, og stærri.

Jökull Guðmundsson á Akureyri. (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 23:43

7 identicon

Og hér má bæta við:

Framsókn út á fenjasvæði

flúin er, með skurn og skæði

fylgi rúin feigðarsönginn syngur.

Engin  von að auðnu græði

Íhalds-taglhnýtingur. 

En ,,þið”,  sem þennan flótta rekið

og þjóðin hefur eftir tekið,

þið ættuð ekki að þjösnast nærri

þegar skolast niður sprekið.

Fenin rúma fríðari flokka,,, og stærri.

Jökull Guðmundsson á Akureyri. (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband