Bannaða greinin til varnar Davíð...

Í framhaldi af bloggi mínu í gær um Fréttablaðið hef ég fengið áskoranir um að birta hér greinina sem Fréttablaðið neitaði að birta - á þeirri forsendu að það hefði ekki pláss fyrir greinar frá almenningi. Eftir að hafa skensað okkur um að líklega væri sá höfundur sem skrifaði til varnar Davíð Oddssyni geðveikur og mætti því bíða lengi, svaraði umsjónarmaður aðsendra greina í Fréttablaðinu svo:

En að öllu gamni slepptu þá er staðan hjá okkur þannig að við hreinlegum getum ekki boðið fólki að senda inn aðsendar greinar - plássið er hreinlega ekki fyrir hendi.

Það var semsagt tekið til baka að við þyrftum að bíða lengi - sem hefði verið ásættanlegt. Okkur var tilkynnt að grein þessi myndi hreinlega aldrei birtast.

Það má margt um Davíð Oddsson segja og sjálfur hefði ég aldrei skrifað undir þá varnargrein sem vinur minn og frændi Benedikt Guðmundsson kaus að skrifa. En það síst ofsagt að Fréttablaðið og allir Baugsmiðlarnir lögðu sig í líma við að gera seðlabankastjórann fyrrverandi tortryggilegan og lögðust þar í hatursáróður.

Það er því er það enn merkilegra að blaðið telji sig hafa rétt til að neita þeim sem snýst Davíð til varnar um birtingu. Hvort grein Benedikts hafi á einhvern hátt ekki verið birtingarhæf læt ég lesendum hér á bloggsíðunni um að dæma um leið og ég birti hana með góðfúslegu leyfi höfundar. Greinin er hér:

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/833310


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Baugsmiðlarnir eru og hafa verið smánarblettur á stétt blaðamann.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.3.2009 kl. 14:10

2 identicon

Félagi Bjarni !

 Býsna snjöll grein hjá Benna.

 Því ekki að fá inni í Morgunblaðinu ?

 Þarf aðeins að stytta töluvert.

 Akkur að greinin komist fyrir almenningssjónir.

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:21

3 identicon

Já, það er hreint út sagt ótrúlegt hve Fréttablaðið og Samfylkingin hefur lagt mikið á sig til að koma þessum "óvini"eigenda sinna, út úr Seðlabankanum. Skyldi Fréttablaðið hafa lagt í þessa aðför ef Seðlabankinn hefði getað reynst banki til þrautavara fyrir Glitni? Það held ég ekki.

Soffía (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:55

4 identicon

Þessi grein var einskisvirði og ekki undarlegt að Fréttablaðið nenni ekki að fylla blaðið af svona nokkru.  Það er búið að skrifa nóg um Davíð að sinni.  Hann er hættur og menn eiga bara að láta við það sitja og leyfa manninum að vera í friði og hvíla þessar fylkingar með og móti Davíð.

Skil nú ekki afhverju Bjarni er að gera eitthvað mál úr þessu og enn síður afhverju Eyjan er að gera tengil á þetta "ekkineitt".

Baldur (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 14:57

5 Smámynd: Ibba Sig.

Sé ekki betur en að bara lengdin á greininni sé næg ástæða til að birta hana ekki. Þar fyrir utan segir hún ekki neitt.

Ibba Sig., 20.3.2009 kl. 15:04

6 identicon

Þessi grein er alveg ágætlega skrifuð. Vissulega mætti stytta hana aðeins. Ég er alls ekki sammála öllu í þessari grein en það mætti alveg birta hana.

Arnaldur Gylfason (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:19

7 identicon

Hefði nú ekki verið bara betra að birta greinina strax í stað þess að standa í þessu þráhyggjurausi um hvað blöðin birti og hvað ekki?    Það er víst í tísku að allir vilji tjá sig um alla skapaða hluti.   Bloggið er fínn vettvangur fyrir slíkt.

Alfred Styrkársson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:19

8 identicon

Í framhaldi að grein Bjarna um það hverjir fái að skrifa í Fréttablaðið, tel ég að það sé ekkert undarlegt við það.  Fréttablaðið er jú óopinbert málgagn Samfylkingarinnar og þar með ekki frjálst né óháður miðill.  

Þar inni fá þeir einir að skrifa og birta greinar sem er sanntrúað Samfylkingarfólk og ESB-sinnar.  Þetta ýmsir leigupennar, "álitsgjafar", svokallaðir sérfærðingar og aðrir fótgönguliðar Samfylkingarinnar sem þarna einir fá að tjá sig.  Þarna getur þetta fólk fengið að tala um illa um Framsókn (líkt og gert var fyrir kosningarnar 2007) og Sjálfstæðisflokkinn, og svo náttúrulega Davíð á meðan hann var og hét.  Ekki má gleyma að ESB-trúboðið fær mikið pláss á síðum Fréttablaðins.

Einar Ó. Sturlaugsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:48

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég er fegin að fá að lesa greinina en er ekki öllu sammála.  Fréttablaðið hefði verið meira trúverðugt að birta hana.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.3.2009 kl. 15:53

10 identicon

Blessaður Bjarni.

Hér að ofan skrifar þú:

„Eftir að hafa skensað okkur um að líklega væri sá höfundur sem skrifaði til varnar Davíð Oddssyni geðveikur og mætti því bíða lengi, svaraði umsjónarmaður aðsendra greina í Fréttablaðinu svo:

En að öllu gamni slepptu þá er staðan hjá okkur þannig að við hreinlegum getum ekki boðið fólki að senda inn aðsendar greinar - plássið er hreinlega ekki fyrir hendi. Það var semsagt tekið til baka að við þyrftum að bíða lengi - sem hefði verið ásættanlegt.“

Þegar þú raktir málið í gær gerðir þú það svona (fyrst kemur bréf þitt til Bergsteins og svo svar hans):

From: Bjarni Harðarson [mailto:bjarnih@althingi.is]

Sent: 29. október 2008 14:30

To: Bergsteinn Sigurðsson

Subject: RE: tölur

Thetta er alger timamotagrein -baedi thvi ad her er borid lof a DO sem engir nema einstök kjarkmenni thora ad lofa idag og svo eru her lofadir i senn DO og ORG sem er algirlega unik.-b.

Svar Bergsteins:

Þetta sætir reyndar svo miklum tíðindum að sá grunur læðist að manni að höfundur gangi varla heill til skógar.

En að öllu gamni slepptu þá er staðan hjá okkur þannig að við hreinlegum getum ekki boðið fólki að senda inn aðsendar greinar - plássið er hreinlega ekki fyrir hendi.

M.kv.

bs

----

Mér sýnist á þessu að brandarinn gangi út á að sá maður gangi vart heill til skógar sem lofar í senn DO og ORG (hann vísar í þín orð). Það gefur til kynna að fyrirsögnin þín og útlegging hér að ofan séu útúrsnúningur (varla er það í frásögur færandi að DO og ORG séu lofaðir af stuðningsmönnum sínum, en eins og þú sjálfur bendir á er hitt „algirlega unik“ ad lofadir seu „i senn DO og ORG“). Nú hef ég ekkert í höndum annað en það sem þú birtir hér á vefsíðu þinni, en mér þætti vænt um að þú færðir málefnaleg rök fyrir þeirri túlkun þinni sem birtist hér að ofan. Mér sýnist hún vera útúrsnúningur en hef auðvitað ekkert fyrir því annað en þín orð.

Bestu kveðjur,

Guðni Elísson

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 16:35

11 identicon

Sæll og blessaður, Bjarni minn Harðarson.

 Alltaf hef ég nú staðið í þeirri bjargföstu trú að þeir væru íslenskir í þér innviðirnir. Íslenskir innviðir eru nefnilega sterkir og heilir.

En nú óttast ég að það sé farið að rotna í kringum einstaka kvist í þér.

Hvað veldur því að þú hefur nennu og tíma til þess að verða að raðhólkast á blaðamanni á Fréttablaðinu? Ég sé ekki betur heldur en að þú hafir sent honum tölvupóst í hálfgerðu glensi og hann svarað í sömu mynt.

En ég sé að þetta er kærkomið tækifæri ýmsum til þess að draga heilindi þess ágæta fólks sem á Fréttablaðinu starfar í efa, svo vægt sé til orða tekið.  Og það eru eins og sætindi á tungu þeirra sem þannig eru þenkjandi. Ég þekki það, en skil ekkert í þér.

Annað var  það nú ekki í bili.

Með góðri kveðju,

Jóhanna S. Sigþórsdóttir

blaðamaður á Fréttablaðinu.

Jóhanna S. Sigþórsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 17:05

12 Smámynd: Bjarni Harðarson

Sæl Jóhanna, Guðni og þið öll. Óskaplega kann ég vel við svona alvöru íslensku eins og að segja mig raðhólkast á blaðamanninum. En það alvarlega í þessu Jóhanna er að blaðamaður gaf mér einfaldlega þau svör að blaðið birti ekki greinar frá almenningi. Á sama tíma hefur blaðið pláss til þess að birta 4-6 pólitískar viðhorfsgreinar blaðamanna og fastra pistlahöfunda. Hafandi sjálfur verið ritstjóri blaða nær alla mína starfstíð þá þykir mér þetta mjög alvarleg vanvirðing við frjáls skoðanaskipti almennings. Og ég er bara sannfærður um það-án þess að ætla að gefa komment um þína innviði Jóhanna-að í hjartanu finnst þér það líka. Við Guðna vil ég segja; ég útiloka ekkert að það hafi verið húmor og segi það í dag en það skiptir einfaldlega engu máli. Hafi ég verið of fornyrtur að nota orðið "skenska" biðst ég forláts á því en það upplýsist hér að það merkir í minni sveit sama og að grínast!

Bjarni Harðarson, 20.3.2009 kl. 17:49

13 identicon

Þú víkur þér sem sagt undan því að svara mér Bjarni minn.

Kveðja,

Guðni

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 18:13

14 Smámynd: Bjarni Harðarson

Guðni- hverju vík ég mér undan?

Bjarni Harðarson, 20.3.2009 kl. 18:48

15 identicon

Að vísu hafði ég lofað að fá mér pulsu í staðinn fyrir að svara þvælunni í þér, en þegar ég sá síðuhöldinn hálfberan í auglýsingu frá SS í gær, spillti það allri lyst minni á þeirra afurðum. Það er reyndar umhugsunarvert að þér fannst ekkert athugavert að leika fáklæddur í auglýsingu fyrir eitt stærsta fyrirtæki landsins á matvælamarkaði, rétt eftir að þú varst kjörinn á þing. Ætli þar hafi ekki haldist í hendur græðgis- og klámvæðingin.

En allt um það. Ef þú varst svona miður þín yfir því að grein félaga þíns fékkst ekki birt á sínum tíma,  ef þú varst svona sannfærður um að það stafaði af andúð minni á almenningi og skoðunum þeirra, hvers vegna hafðirðu ekki orð á því þá? Ég veit ekki betur en að þú hafir tekið skýringar mínar góðar og gildar. Þú hefur að minnsta kosti aldrei gert athugasemdir við þetta mál fyrr en nú. Og hvers vegna hafðir þú samband við mig fyrir hönd mannsins? Var það kannski vegna þess að þú taldir að gæti greitt fyrir honum að þingmaður sendi greinina fyrir hann? Bauðstu öllum umbjóðendum þínum á Suðurlandi upp á þessa þjónustu?  Þú varst að minnsta kosti ekki hneykslaðri á afgreiðslu minni en svo að þú hélst áfram að senda greinar. Og ekki bauðstu svo mikið sem til að draga eigin grein til baka ef það yrði til þess að greinin eftir félaga þinn birtist.

Það er líka rétt að halda því til haga að þótt ég hafi tekið þátt í einhverju glensi sem þú áttir frumkvæði að, þá hef ég ekki látið uppi neina afstöðu hvað mér finnst um þessa grein eftir vin þinn, ólíkt þér sem skrifar að þú "hefðir aldrei skrifað undir þá varnargrein sem vinur minn og frændi Benedikt Guðmundsson kaus að skrifa".

Það er ekki langt síðan þú hlaust fyrstu verðlaun  í ýkjusögukeppni. Það er án  efa verðskuldað. En satt best að segja finnst mér þú ekki setja markið nógu hátt. ég legg til að þú leitir uppi meðalstórt héraðsmót í lygum og skráir þig til leiks. Þaðan færirðu varla tómhentur.

Bergsteinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 19:01

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

 Jóhanna svarar Bjarna og ég tek eftir verulegum skorti á málefnalegu rökum?

 Hún segir m.a...

Alltaf hef ég nú staðið í þeirri bjargföstu trú að þeir væru íslenskir í þér innviðirnir. Íslenskir innviðir eru nefnilega sterkir og heilir.

Þetta eru ekki rök og sýna innviði fréttablaðsins, útrásarvíkinganna og forseta lýðveldisins ekki síður en innviði Bjarna!

En nú óttast ég að það sé farið að rotna í kringum einstaka kvist í þér.

Af hverju spyr ég?

Hvað veldur því að þú hefur nennu og tíma til þess að verða að raðhólkast á blaðamanni á Fréttablaðinu? Ég sé ekki betur heldur en að þú hafir sent honum tölvupóst í hálfgerðu glensi og hann svarað í sömu mynt.

Hefur Bjarni raðhólkast á blaðamanni? Ég sé bara tilvitnun í svar?

Hvar er glensið? Gaman væri að sjá það?

En ég sé að þetta er kærkomið tækifæri ýmsum til þess að draga heilindi þess ágæta fólks sem á Fréttablaðinu starfar í efa, svo vægt sé til orða tekið.  Og það eru eins og sætindi á tungu þeirra sem þannig eru þenkjandi. Ég þekki það, en skil ekkert í þér.

Ég skil ekkert í þessu hjá Jóhönnu??? Hvað skrifaði Bjarni? Hvers vegna notar Jóhanna svna tungutak? "  .....draga heilindi þess ágæta fólks sem á Fréttablaðinu starfar í efa "....?

Ég er alltof vitlaus til að skilja svona "háfleygt" svar kæra Jóhanna, nema að þú lumir á miklu meiri bréfaskriftum?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.3.2009 kl. 19:04

17 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mig skal ekki undra þótt Fréttablaðið hafi ekki pláss fyrir aðsendar greinar. Allt tiltækt rými er tekið undir auglýsingar. Fréttaefni og greinar hljóta því að mæta afgangi.

Ég hef aldrei tekið við Fréttablaðinu frá því það var fyrst sett á flot. Hef ekki talið mig nægilega stóran neytanda til að standa undir auglýsingaflóðinu. Svo er ruslatunnan mín bara í heimilisstærð og ekkert gámastæði við húsið.

En Fréttablaðið er ekki háð neinum nema eigendum sínum og því gerir það bara það sem hentar þeim best. Ef þið eruð að uppgötva það núna þykir mér nokkuð langt í leiðslunum hjá ykkur.

Ragnhildur Kolka, 20.3.2009 kl. 19:35

18 identicon

Ég skal reyna að svara spurningu þinni Bjarni.

Það er ekkert í samskiptum þínum og Bergsteins sem styður fullyrðingarnar í pistlinum hér að ofan (ég hef reyndar ekkert annað í höndunum en það sem þú birtir í gær).

1) Fyrirsögnin er villandi. Þar stendur: „Bannaða greinin til varnar Davíð“. Samkvæmt því sem þú sjálfur segir í annarri færslu er greinin einstök vegna þess að þar er haldið uppi vörnum fyrir Ólaf Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson. Hvers vegna heitir pistillinn þinn ekki „Bannaða greinin til varnar ÓRG og DO?“ eins og samskipti þín við Bergstein og efni greinarinnar gefa tilefni til?

2) Þú segir: „Eftir að hafa skensað okkur um að líklega væri sá höfundur sem skrifaði til varnar Davíð Oddssyni geðveikur …“ Um þetta má segja það sama og í lið eitt. Af þeim köflum sem þú birtir sjálfur er nánast útilokað að túlka orð Bergsteins öðruvísi en svo en að brandari hans gangi út á að sá maður gangi vart heill til skógar sem lofar í senn DO og ORG. Bergsteinn er sem sagt líklega að vísa til þeirra fáránlegu fylkinga sem myndast hafa um mennina tvo og tekur því undir þín eigin orð úr bréfi þínu til hans (en þú segir „og svo eru her lofadir i senn DO og ORG sem er algirlega unik“). Fyrirsögnin þín hér að ofan gefur glögglega til kynna hversu brjálæðisleg hugmynd Benedikts er því að þar er DO einn eftir og ekki minnst á ORG.

3) Þú gefur villandi mynd af efni greinar Benedikts og samskiptum þínum við Bergstein, líklega til þess að geta sýnt fram á að blaðamaður Fréttablaðsins hati Davíð og sú ákvörðun hafi ráðið ferð þegar hann hummaði fram af sér grein Benedikts. Þú leggur sjálfur út af ákvörðuninni svona: „Það má margt um Davíð Oddsson segja og sjálfur hefði ég aldrei skrifað undir þá varnargrein sem vinur minn og frændi Benedikt Guðmundsson kaus að skrifa. En það síst ofsagt að Fréttablaðið og allir Baugsmiðlarnir lögðu sig í líma við að gera seðlabankastjórann fyrrverandi tortryggilegan og lögðust þar í hatursáróður.“ Getur þú fært fyrir því málefnaleg rök að hatur Bergsteins á Davíð hafi ráðið þeirri ákvörðun að birta ekki greinina?

4) Nú spyr ég eins og sá sem ekkert veit. Hvers vegna getur mögulegt hatur Bergsteins á Ólafi Ragnari Grímssyni ekki hafa ráðið ferðinni þegar hann „hafnaði greininni“? Mig rámar eitthvað í það að hann hafi gert grín af Ólafi í Bakþönkum sínum. Er það vegna þess að allir fréttamenn Fréttablaðsins hata Davíð Oddsson og elska Ólaf Ragnar Grímsson? Er það vegna þess að allir fréttamenn Fréttablaðsins eru leigupennar sem skrifuðu aðeins áróður fyrir fyrrum eigendur sína í Baugi sem forsetinn studdi?

5) Af athugasemdunum hér að ofan má sjá að skoðanasystkini þín eru mörg. Getur einhver útskýrt fyrir mér (og fært fyrir því málefnaleg rök) hvers vegna blaðamenn Fréttablaðsins eru handbendi eigenda sinna, en ekki t.d. blaðamenn Morgunblaðsins? Er það vegna þess að á Fréttablaðið veljast aðeins ákveðnar manngerðir? Leggur ritstjórnin fyrir þá persónuleikapróf og velur svo úr mannleysurnar? Eða er allt sjálfstæði smám saman barið úr þeim af ritstjórninni? Endilega útskýrðu þetta fyrir mér Bjarni, en færðu fyrir því alvöru rök.

Bestu kveðjur,

Guðni

Gudni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 20:20

19 Smámynd: Bjarni Harðarson

úff Guðni,- þú ert meistari í langsóttum túlkunum. Ég hef gagnrýnt að blað hafi að stefnu að birta ekki greinar almennings. (Punktur) Ég hef ekkert fyrir mér í því að Bergsteinn hati Davíð, að það séu bara blaðamenn Fréttablaðsins lúti eigendum sínum eða að það séu mannleysur í ritstjórn Fréttablaðsins. Það eru þínir órar. En ég held að eigendur Fréttablaðsins séu frekar óvandaðar persónur og hafi beitt áhrifum sínum á ritstjórninni meira en góðu hófi gegnir-enda hafi sömu menn haft tilburði til að ná nokkurskonar alræðisvaldi á Íslandi með svikamyllu viðskipta. Og þjóðin veit að þetta er svo!

Bjarni Harðarson, 20.3.2009 kl. 20:49

20 identicon

Það er ekkert langsótt við þetta. Ég geri ráð fyrir að finna megi rökrétt samhengi í hugsuninni hjá þér og það gera reyndar einnig flestir þeir lesendur þínir sem taka undir með þér og líta svo á að Fréttablaðið sé áróðurssnepill. Þú klikkir út með því að segja: „Það er því er það enn merkilegra að blaðið telji sig hafa rétt til að neita þeim sem snýst Davíð til varnar um birtingu.“

Þú víkur þér svo enn og aftur undan því að svara mér með haldbærum rökum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Ég skal því bara spyrja þig einnar spurningar sem ég geri ráð fyrir að þú munir koma þér undan að svara: Hvers vegna heitir pistillinn þinn ekki „Bannaða greinin til varnar ÓRG og DO?“ eins og samskipti þín við Bergstein og efni greinarinnar gefa tilefni til?

Bestu kveðjur,

Guðni

Gudni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 21:42

21 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Guðni...svo við gerum langt mál stutt! Greinin um Davíð var ekki birt vegna plássleysis?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.3.2009 kl. 21:45

22 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

„Eftir að hafa skensað okkur um að líklega væri sá höfundur sem skrifaði til varnar Davíð Oddssyni geðveikur og mætti því bíða lengi“

Ég hef oft varið Davíð Oddsson;)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.3.2009 kl. 21:47

23 identicon

Þakka þér fyrir að tala hreint út Anna. Segðu mér þá hvers vegna greinin um Davíð, Ólaf Ragnar og útrásarvíkingana var ekki birt þó að það sé í sjálfu sér ekki það sem ég var að elta í gagnrýni minni á pistil Bjarna sem snerist frá því að vera gagnrýni á eitthvað sem má kalla Fréttablaðssnobb (sem má hugsanlega halda fram) yfir í órökstutta greiningu á því að greininni hafi verið hafnað vegna þess að DO var varinn í henni. Heimir misskilur þannig punktinn hér fyrir ofan. Hann er ekki geðveikur nema hann hafi líka varið Ólaf Ragnar og þá helst í sömu andránni. Við skulum öll vona að það hafi ekki gerst og ef sú er raunin verðum við að koma honum til hjálpar.

Bestu kveðjur,

Guðni

Gudni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 22:05

24 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Guðni, ég skil ekki ennþá hversvegna greinin var ekki birt?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.3.2009 kl. 22:51

25 identicon

Fyrirgefðu Anna.

Guli karlinn þinn skyggði á spurningarmerkið og ég las það sem yfirlýsingu. Bjarni segir hér að ofan: „úff Guðni,- þú ert meistari í langsóttum túlkunum. Ég hef gagnrýnt að blað hafi að stefnu að birta ekki greinar almennings. (Punktur)“ Bjarni virðist sjálfur ekki leggja trú á þessa skýringu sína ef marka má það sem hann segir í pistli sínum „Bannaða greinin til varnar Davíð …“ og fyrirsögnin ýtir undir þá tilfinningu (greinin var hreinlega bönnuð). Þó væri hugsanlega hægt að færa rök fyrir því að Fréttablaðið hafi það síður sem stefnu að birta greinar almennings en t.d. Morgunblaðið, t.d. væri hægt að telja þær aðsendar greinar sem birst hafa í blöðunum tveimur síðustu mánuði frá almennum borgurum. Í fljótu bragði og án ábyrgðar myndi ég telja verulegan mun á blöðunum tveimur hvað þetta varðar og það er sannarlega forvitnilegt og efni í frekari greiningu. Annað þori ég hreinlega ekki að fullyrða.

Bestu kveðjur,

Guðni

Gudni Elísson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 23:41

26 identicon

Jóhanna og aðrir almannatenglar Baugsmiðla. 

Heilindi blaðamanna Fréttablaðsin þarf aðeins einn maður ekki að efast um, sama undir hvaða kringumstæðum sem er.

 Hann heitir Jón Ásgeir Jóhannesson.

Þjóðin getur og á svo sannarlega að leyfa sér að efast, að gefnu tilefni.

http://baugsmalid.is/?k=ritskodun

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 00:02

27 identicon

Það virðist gleymast að þjóðarbúið fór á hliðina út af efnahagsstefnu Davíðs Oddssonar. Þó stóð hann sig sínu verst í Seðlabankanum, í staðin fyrir að koma böndum á útlánaþenslu bankanna þá bætti hann í, lækkaði bindiskyldu og svo framv. Ef einhver maður í Íslandssögunni hefur átt skilið að vera rekinn með skömm þá er það Davíð Oddsson. Því finnst mér að þeir sem eru að tala um að upsögn Davíðs sé einelti og annað eftir því, séu hreinlega fífl (fyrirgefið orðbragðið en fífl var það allramildasta orð sem ég fann)

Jónas Kristjánsson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 08:03

28 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón Ásgeir og ritstjóri Fréttablaðsins væri hollt að lesa Voiltaire þar sem hann segir:

I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.

Andri Geir Arinbjarnarson, 21.3.2009 kl. 08:28

29 identicon

Helvíti hefur Voltaire verið sleipur í enskunni.

Hilmar Hilmarsson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 09:40

30 identicon

Bjarni, þú mikli verndari málfrelsins, viltu hafa samband við Moggann og biðja hann um að birta svar mitt við grein séra Þórhalls félaga þíns sem ég sendi þeim í lok nóvember. Síðan væri gott ef þú myndir skrifa nokkrar bloggfærslur um það hvað Mogginn sé vondur.

Með fyrirfram þökk,

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 10:32

31 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Það er á þessu svona línulaga mynstur öllu saman.  Sem kemur reglulega uppá yfirborðið.   Ef einhver hallar orði á fjölmiðlana sem voru til skamms tíma í eigu Baugs og nú Jóns Ásgeirs þá snúast starfsmenn og á stundum eigandinn sjálfur til mikilla varna.

Almennt hefur fólk tilhneigingu til að gleyma flestu jafnóðum, nema því sem nauðsynlega þarf að muna.     Þöggun og meðdans allra þessara miðla kringum gullkálfinn síðustu ár situr hæst í mínum huga.  Þetta með "að bíta ekki í höndina sem fæðir þig", og allur sá pakki.    Ergo vöntun á vandaðri og gagnrýnni blaðamennsku frá þessari stóru samsteypu átti sinn ákveðna hlut í öllu hruninu.  Glamúr og sykursleiktur tíðarandi meðan ausið var lánsfé í eyðslu.  Þessum tíðaranda viðhélt og ýttu miðlar Baugs undir.  Í stað  þess að vera gagnrýnir á fleiri en DO.     

Að ekki sé minnst á hluti sem hreinlega hafa verið afhjúpaðir, nefni ég þá opinberun Reynis Trausta svo dæmi sé tekið. (Sem fyrrverandi starfsmaður gerði af hugrekki)

Hitt er svo auðvitað skiljanlegt að almennir starfsmenn taki til varna.  Starfið og lífsafkoman er hverjum einstakling heilög, ekki síst á síðustu og verstu.   En óneitanlega breytist hljóðið í mörgum fyrir og eftir.  Nefni ég þá umsögn Sigmundar Ernis um sinn vinnustað og vinnuumhverfi fyrir og eftir uppsögn.

P.Valdimar Guðjónsson, 21.3.2009 kl. 11:11

32 identicon

Það er áhugavert viðhorf sumra hér að það sé eitthvað undarlegt og vafa á seyði þegar starfsfólk Fréttablaðsins tekur sig til og ver sig og starfsfélaga sína. Á fólkið bara að þegja þegar á það er ráðist?

Búinn að skrifa Mogganum Bjarni?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 13:05

33 identicon

Ég get ekki trúað því að nokkur manneskja, sem gengur heill til skógar, láti glepjast af framsetningu Bjarna af samskiptum sínum við Bergstein. Því ætla ég ekki að elta ólar við að reyna leiðrétta skrif Bjarna, sem ég hef hingað til talið ærlegan Sunnlending.

Hins vegar vil ég nota tækifærið og benda Bjarna á að hann ætti að hvetja vin sinn til að færa skrif sín á visir.is. Á þeim fjölfarna og góða vef veit ég að Fréttablaðið býður fólki að setja inn greinar, sem til dæmis þykja of langar. Þetta er þjónusta sem blaðið hefur boðið upp á frá því blaðið tók á dragast saman vegna samdráttar á auglýsingamarkaði. Þjónustan þykir mér til marks um að á Fréttablaðiðnu er lögð áhersla á að gera skoðunum lesenda blaðsins eins góð skil og aðstæður leyfa.  Þá má einnig benda á að fólki býðst einnig að tjá skoðanir sínar á bloggsíðum , sem það getur til dæmis sett upp endurgjaldslaust á visir .is. 

Þá ætti hver maður að geta gert sér grein fyrir því að ritstjórn er ekki það sama og þöggun. Það getur ekkert blað ábyrgst að geta birt allar aðsendar greinar. Þeir sem eru ósáttir við það geta huggað sig við bloggið en á því má tjá sig í löngu máli án þess að annmarkar pappírs eða dreifingar valdi vandkvæðum.Nánari upplýsingar má til að mynda finna á eftirfarandi vefslóð http://blogg.visir.is/wp-signup.php

Rógburðurinn um Fréttablaðið og starfsmenn þess sem sjá má á í færslum hér fá mig aðeins til að velta því fyrir mér hvers konar vinnubrögð voru viðhöfð á Sunnlenska í tíð Bjarna eða á vinnustöðum annarra sem hafa í frammi slíkar aðdróttanir.

Kveðja

Karen Kjartansdóttir

blaðamaður á Fréttablaðinu 
 

Karen D. Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 13:24

34 identicon

Karen.  Lestu "VEL" meðfylgjandi link, þar sem blaðamenn (almannatenglar) Baugsmiðilsins Fréttablaðsins skýra ásamt fleirum, frá ritskoðun þeirri sem tíðkast þar á bæ.

Endilega láta okkur svo vita og hversu mikið þú skammast þín fyrir þetta bull sem þú lætur frá þér til að hugnast Jóni Ásgeiri og hans hyski.

http://baugsmalid.is/?k=ritskodun

 PS.  Mannstu eftir könnuninni sem nemendu Háskólans á Akureyri gerðu fyrir nokkru þar sem almannatenglar eins og þú á Fréttablaðinu skýrðu frá því að helmingur ykkar hefðu verið neyddir beint til að hyggla og hugnast eigandanum og hans mafíu í skrifum sínum fyrir snepilinn.

Við vitum síðan mæta vel að hinn helmingurinn gerir sér klárlega grein fyrir að hundurinn á ekki að býta höndina sem fóðrar hann.

Starf ykkar og hinna á sneplinum nýtur ekki neins trausts, sama hvað þið hamist að afvegaleiða almenning.  - Sorrý.

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 14:18

35 identicon

 Hver man ekki þegar Ísland var iðulega efst á lista yfir minnst spilltu lönd í heimi, frjálsusutu fjölmiðla etc. etc. Varla lengur eða hvað.

Viðkomandi stofnanir spurðu einhvern á Íslandi um spillingu (líklegast blaðamann) og svarið neitandi. Eftir á verður einasta skýringin að landinn viti ekki hvað spilling sé eða frjálsir fjölmiðlar. Framandi hugtök í landi þar sem er sjálfsagt að hugsa um sína og reka fjömiðla sem valdatæki.

Ég hef ítkrekað orðið fyrir sömu útúrsnúningum og lygum þegar ég hef beðið um birtingu á greinum, sérstaklega á Morgunblaðinu. Eins og viðkomandi væri nákvæmlega sama þó þeir væru gripnir í lygi, skipti þá engu máli.

Hin opinbera lína að umræðan væri frjáls og að allir hefðu rödd, meðan að á bak við tjöldin að vissum er haldið í burtu og sum viðhorf fá enga umfjöllun.

Ef það er eitthvað sem hefur farið í mig í viðskiptum mínum við íslenskt fjölmiðlafólk er það þessi innbyggði óheiðarleiki. Virðist að til þess að vera blaðamaður á Íslandi verðir þú að geta logið blákalt fyrir hverja þú vinnir og að eftir það verði allt sem þú gerir ein stór blekking. Endanlega veit viðkmomandi ekki muninn, trúir lyginni úr sjálfum sér. Þetta hinn íslenski fjölmiðlamaður.

Kv. Ingimundur Kjarval

Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 14:40

36 identicon

Guðmundur, ef þú værir ekki svona blindaður af Baugshatri þá myndirðu líklega átta þig á því að enginn þessara blaðamanna væru sérstaklega líklegir til þess að verja Jón Ásgeir ef Bjarni væri að atyrða hann hér á blogginu? Þau eru hins vegar að verja samstarfsfólk sitt og vini, eitthvað sem almennilegt fólk gerir og það er afskaplega lítilmannlegt að reyna að útmála slíkt sem eitthvað gruggugt samsæri. Af sömu ástæðum og ég ver þau, því ég veit að Karen og Bergsteinn eru heiðarlegir blaðamenn (Jóhönnu þekki ég ekki). Það geri ég þótt ég hafi aldrei unnið á Fréttablaðinu, þvert á móti raunar unnið hjá aðalsamkeppnisblaðinu.

Það er vissulega margt sem þarf að fara í saumana á, bæði hjá Mogganum og Fréttablaðinu, sem bæði hefðu mátt standa sig miklu betur við að fletta ofan af góðærinu - og sjálfsagt má finna þar eitthvað gruggugt. Það breytir því ekki að margir fyrirtaks blaðamenn vinna á báðum blöðum og álíka málefnalegt að brennimerkja þá alla og ef ég færi út í banka til þess eins að sparka í næsta þjónustufulltrúa.

Ásgeir H Ingólfsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 02:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband