Varist jólasveininn

Jólasveinar eru skemmtilegir í skammdeginu en jólasveinar sem birtast rétt fyrir kosningar eru varasamir, jafnt hvort þeir heita Ástþór.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú upplýst að allir landsfundir stóru stjórnmálaflokkanna og önnur framboð hafi nú tekið undir þá kröfu að lán húsnæðiseigenda verði færð niður á kostnað ríkisins. 

L-listinn hefur ekki gert þetta og mun ekki gera. Sú hugmynd að ríkissjóður yfirtaki hluta af skuldum hjá jafnt ríkum sem fátækum er svo fráleit og hættuleg að til algerra fádæma horfir.

Með glópsku og stjórnleysi EES-tímans  höfum við þegar skuldsett komandi kynslóðir þjóðarinnar langt fram eftir öldinni. Að bæta enn ofan á þær klyfjar er ekki bara vanhugsað heldur beinlínis ófyrirleitið.

Frambjóðendur í slíkum jólasveinaleik ættu að halda sig á fjöllum fram á aðventu. Eina raunhæfa tillagan sem komið hefur fram vegna vanda heimilanna er að við stofnum hér Kreppulánasjóð og aðstoðum þá sem aðstoðar eru þurfi gegn því að ríkið fái eitthvað fyrir sinn snúð. Bendi ennfremur á afar athyglisverða grein Þorsteins Guðnasonar um þetta mál en þar er horft til þess hvernig standa megi að lánalengingum til þeirra sem duga slík úrræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver er þín skoðun og framtíðarsýn varðandi EES?

E (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 11:54

2 identicon

Ég skal ekki segja hver er hinn eiginlegi jólasveinn en eitt er víst og það er að þú ert allaveganna kominn út af mínum jólagjafalista.

Þórður (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 13:04

3 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Bjarni minn Jóla hvað ?   Kreppulánasjóð sem eignist Ísland og allan þann sparnað sem þjóðin hefur lagt í íbúðarhúsnæði.   Kreppusjóður sem leiðir til verðfalls á fasteignum þar sem hér verður bara einn kaupandi.  Kreppulánasjóður sem leggur byggingariðnaðinn í rúst þar sem hér verður þá bara einn aðili sem byggir.  Sennilega blokkir að Rúmenskri fyrirmynd frá því milli 1970 og 1980.   Kanntu annan betri ?

G. Valdimar Valdemarsson, 2.4.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: ragnar bergsson

Bjarni ég var að lesa stefnuskrá ykkar hvar er talað um að kvótanum sé skilað til eigenda sinna. Það var kvótinn sem var upphafið að hruninu. Bjarni kvótaviðbjóðinn í burtu!!

kv. ragnar

ragnar bergsson, 2.4.2009 kl. 13:09

5 identicon

"Sú hugmynd að ríkissjóður yfirtaki hluta af skuldum hjá jafnt ríkum sem fátækum er svo fráleit"

 Hver er þá þín skoðun varðandi það að bankarnir yfirtaki eignir fátækra jafnt sem meðaltekjufólks?

 Í fyrra átti ég 50% í húsi , nú á bankinn það,  hvers vegna? M.a. vegna flokks sem kennir sig við framsókn og þú barst með öðrum fulla ábyrgð á.  Hvers vegna eiga heimilinn að vera þeir einu sem þurfa að gjalda að fullu fyrir lélega fjárhagsstjórn liðinna ára?

 Verðtryggingin var ekki hugsuð til að gera fjölskyldur landsins eignarlausar, undarlegar aðstæður leiddu til þess, og er hægt að taka til baka með pennastriki.

Jólasveinninn (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 13:12

6 Smámynd: ragnar bergsson

Hvað er þetta byggingaryðnaðurinn er í rúst þurfti engan krepplánasjóð til þess heldur var það sjálfstæðisflokkurinn ásamt spilltum framsóknarmönnum.

ragnar bergsson, 2.4.2009 kl. 13:33

7 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ágæti Bjarni.  Þar fór atkvæðið mitt.  Hver fékk peningana sem lánin mín hafa hækkað um frá því um mitt síðasta ár?  Ekki ég.  Á ég að gjalda fyrir klúður útrásarvíkinganna og aðgerðarlausa ríkisstjórn, sem heyrði hvorki né skildi, þó allar aðvörunarbjöllur blikkuðu?  Svo við tölum nú ekki um börnin mín, sem þurfa að borga fyrir allt saman á næstu árum og áratugum.

Sigríður Jósefsdóttir, 2.4.2009 kl. 13:39

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

Kæra Sigríður. Stjórnmálamaðurinn sem segir þér að hægt sé að endurgreiða þér þetta fé án þess að það sé tekið frá einhverjum er jólasveinn. Hugmyndin um 20% niðurfærslu til allra er ávísun á að setja þessar skuldir - allar, líka skuldir óhófsfólksins - á börn okkar beggja, barnabörn og barnabörn. Við skulum ekki taka þátt í því þó ég viti að G.Vald geri það. Ríkisjóður dagsins í dag getur ekki skilað því sem horfið er nema taka andvirðið einhversstaðar og öruggt mál er að Evrópusambandið borgar þetta ekki fyrir okkur. En ég er sammála þvi að 90% lánaregla Framsóknarflokksins sem Finnur kallinn fann upp á, - það voru stór mistök...

Bjarni Harðarson, 2.4.2009 kl. 13:47

9 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ég veit ósköp vel að ESB borgar þetta ekki, enda er ég einn harðasti ESB andstæðingur hér á landi.  Ég reiknaði nú heldur ekki með að þessi niðurfelling (hvort sem hún heitir 20% eða eitthvað annað) myndi gilda um öll lán, heldur eingöngu húsnæðislán.  Ég held að það sé alveg hægt að útfæra þessa hugmynd þannig að hún gagnist því fólki sem mest þarf á að halda.  En almenningur í landinu þarf að fara að sjá einhverjar lausnir, ekki bara einhverjar úrtölur, og umræður um að þessi hugmyndin og hin hugmyndin séu ekki góðar.  Ég skal gjarnan ræða þetta við þig hvar og hvenær sem er og uppfræða þig um í hvaða aðstöðu ég er. 

Sigríður Jósefsdóttir, 2.4.2009 kl. 13:56

10 identicon

Bjarni...  Nú skalt þú hugsa þessa hugsun til enda.   Ákveðinn hópur fólks lendir í ófyrirsjáanlegum skaða sem það ber sjálft enga ábyrgð á.  Tjónið er þess eðlis að margir munu þurfa að glíma við afleiðingarnar alla ævi.

 Á meðan sigla aðrir lignan sjó, þurfa kannski að takast á við smá kaupmáttarskerðingu en geta alveg haldið áfram að versla í Hagkaup og fylla tankinn.  

Það sem lækkun á höfuðstóls íbúðalána gengur út á er einmitt að jafna skellinn á milli allra, þeirra sem skulda og þeirra sem eiga. Sparifjáreigendur hafa fengið sinn skaða bættann þar með er fordæmið komið.

Jafnaðarmennska snýst einmitt um jöfnuð.  Að láta heimilinn í landinu taka allan skellinn af hruninu er ekki jafnaðarmennska og þar að auki ókristilegt.

Þórður (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 14:05

11 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Með virðingu segi ég eftirfarandi:

1.  Verðtryggingin er Exelformúla sem settar eru inn tölur í.  Ekkert af því kemur frá Drottni sem RAUNVERULEG VERÐMÆTI né er þar á ferða eitthvað sem menn greiða til baka ef það reiknast til baka.

2.  Viðsemjendur mínir (bankamenn) re´ðust að grunni sinna útreikninga og gerðu mér að greiða af einhverju sem ekki fær staðist (höfuðstólnum verðbættum og bólgnum).

3.  Það er grunnur siðaðs samfélags, að ekki geti annar aðili samnings, fiktað í grunni hans að vild á meðan hinum eru bjargir allar bannaðar.

Því er ekki um verðmæti að ræða, frekar en annað sem fylgir bóluhagkerfi nýliðina ára.

ERGO

Ekkert þarf að greiða til baka, þar sem ekkert hefur verið til fært nema í reiknivélum Verðtryggingar og lygavefum banka.

Ekkert að ofanrituðu er þér sagt til hnjóðs, trúðu me´r í því.

ég stundaði nám í löggjöf sem snýr að viðskiptum og slíku í haust og fram að jólum.  Þar kemur skýrt fram(andstætt því sem gefið er í skyn í dómum sumum, sem víkja frá dómi málum í lang baner.

Lögin eru skýr og þar er allt í boðhætti og ekkert í viðtengingarhætti.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.4.2009 kl. 14:25

12 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda Þórði á að jafnaðamennska felur ekki í sér að fella jafnt niður á öllum! Það er einmitt að þeim sem standa illa sé hjálpað meira! T.d. er 20% leiðin leið ójöfnuðar þar sem að í krónutölu fá þeir sem eiga stærstu eignirnar og skuldinar í krónutölu miklu hærri niðurfellingu. Sá sem skuldar 50 milljonir fengi 10 milljónir í afslátt. Sá sem skuldar 20 milljonir fengi 4 milljónir.  Sá sem er kannski með 1 milljoni á mánuði og borgar um 150 þúsund af húsnæði þarf enga aðstoð. En sá sem er með 250 þúsund á mánuði og er að borga 150 þúsund á ekki nóg til að lifa af líka.

Magnús Helgi Björgvinsson, 2.4.2009 kl. 14:27

13 identicon

Ég benda Magnúsi Helga á eftirfarandi atriði:

20% leiðin er hugsuð til að leiðrétta misfellu sem varð í til í réttu hlutfalli við hversu mikið fólk skuldar.  Þannig að sá sem skuldar 50 milljónir hefur þurft að þola allt upp í 15 milljón kr. skuldaaukningu en sá sem skuldar 20 milljónir hefur þurft að taka á sig 6 milljónir.

 20% eru leiðrétting.

 Hins vegar má líta svo á að sá sem tekur hærra lán gerir það á sína ábyrgð.  Þess vegna hafa langflestir stungið upp á því að þak yrði á leiðréttingunni.

 Einhverra hluta vegna kjósa allir sem gagnrýna 20% leiðina að líta fram hjá því atriði

Þórður (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 14:47

14 identicon

Sammála (meintum) "jólasveini" hér að ofan sem sagði:

"Verðtryggingin var ekki hugsuð til að gera fjölskyldur landsins eignarlausar, undarlegar aðstæður leiddu til þess, og er hægt að taka til baka með pennastriki. "

Hvers vegna skyldi fjármagnseigandinn, sem lánaði, sleppa við rýrnun, á meðan sá sem skuldar og keypti húsnæði, ber allan skaðan. Það yrði stórfelld eignaupptaka.  Hugmyndin með vísitölum er einmitt að tryggja nokkurn veginn jafnvægi í fjárhagsstöðu lánveitanda og lánþega.

Sambandi skuldara og lánadrottna í þessu samhengi má líkja við það að leigja íbúð með því skilyrði að "skila henni í sama ástandi" að loknum leigutíma. Þá búast menn við að þurfa kannski að mála, þrífa, laga brotinn gluggakarm etc. þegar hann flytur út. En svo verður jarðskjálfti (efnahagshrun), húsið hrynur, og leigusalinn ætlar sér að ganga að leigjandanum og heimta að hann endurbyggi húsið. Það er auðvitað ekki inní myndinni!.

Bankar og lífeyrissjóðir geta á sama hátt ekki ætlast til þess að þeir sem tóku lánin til húsbygginga beri einir skaðann af því að botninn datt úr hagkerfinu hér. Ástandi, sem þeir sjálfir áttu, með glæfralegum og heimskulegum fjárfestingum, ekki sístan þátt í að skapa.

ragnar (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 14:49

15 identicon

Bjarni, ef þú gætir svarað í mjög stuttu máli. Hver er þín skoðun (a) og framtíðarsýn (b)  varðandi EES samninginn ?

E (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 16:22

16 Smámynd: Bjarni Harðarson

Þakka mjög málefnalegar umræður. Verð að hryggja þann sem kallar sig E með  því að spurningu hans er ekki hægt að svara í stuttu máli! Ég hef skrifað mikið um þau mál sem má finna hér á þessum vef og er ekki sérstakur aðdáandi EES samningsins,- tel raunar lag að endurskoða hann. (Sjá hér)Svo eru aðrir farnir að svara hinu, en ég vísa á mjög mikla umræðu sem var um meintan jólasveinahátt á þessari síðu fyrir nokkrum vikum, t.d. hér.

Bjarni Harðarson, 2.4.2009 kl. 17:54

17 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Sæll Bjarni, samantekt HH í þessu máli má sjá hér.

Þórður Björn Sigurðsson, 5.4.2009 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband