Af háborgarkomplexum og minnimáttarkennd

Ágætu borgarbúar og aðrir lesendur Sunnlenska. Ég hef að undanförnu flutt erindi í útvarpinu hér á staðnum, Suðurland FM sem næst á bylgjulengdinni FM983. Fæst af þeim erindum hafa ratað á prent enda verið um þau alvanalegu mál sem flestir þrasa um núna, Icesave, ESB, IMF og önnur hégómamál háloftanna. Það var ekki fyrr en í síðustu viku að ég aðeins kom niður á jörðina og fór að tala um þorpið mitt, mitt nærumhverfi eins og það heitir á vondu stofnanamáli, átthagana eins og þetta hét hér áður og fyrr.

Og ég byrjaði þennan pistil sem ég ætla hér að deila með lesendum Sunnlenska á því að tala um borgarbúa því það er jú svo að sveitarfélagið okkar hér við Ölfusá heitir Árborg sem er gamalt heiti, það má rekja það aftur til einhverrar gamansemi í Guðmundi Daníelssyni rithöfundi og kannski lengra aftur.

 

Vond er upphefðin

En síðasta áratuginn hefur þetta verið nafn á sveitarfélagi og stundum hefur mér dottið í hug að það hafi stigið valdhöfum hér til höfuðs að vera eiginlega orðnir borgarstjórnarmenn. Sá sem ræður yfir borg verður auðvitað að vera á einhvern hátt meiri en sá sem bara er í hreppsnefnd, sveitarstjórn eða þá bæjarstjórn. Öll þessi titlatog sveitarfélaga bera raunar með sér einhverja þá heimóttakennd að það er illa hægt að verjast brosi.

Lengst af var talað um bæjarstjórn í Reykjavík og bæjarfulltrúa þar en tildrið með heitin þar hófst um svipað leyti og þorpin í landinu hættu að hafa yfir sér hreppsnefndir og það komu til skjalanna sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn. Lengi vel var svolítið önnur stjórnsýsluleg merking í því að gera hrepp að bæ eða kaupstað. Þorp af tiltekinni stærðargráðu gátu fengið kaupstaðarréttindi þannig að yfir þeim væri þar með sérstakur bæjarfógeti í stað sýslumanns viðkomandi sýslu.

Oft var þessi nafnbreyting þó innihaldslaus því bæjarfógetastarfinu var einfaldlega hnýtt við skyldur sitjandi sýslumanns sem hét þá hér sýslumaður Árnessýslu og bæjarfógeti Selfoss meðan kollega í næstu sýslu varð að láta sér duga sýslumannsheitið.

 

Þegar hér bjuggu hégómalausir menn

Hégóminn lætur aldrei að sér hæða en lengi vel máttu Selfyssingar eiga það að vera lítt hégómlegir og höfnuðu því allt fram á áttunda áratuginn að vera kaupstaður þannig að hér var bara hreppsnefnd og sýslumaður þó að bærinn væri löngu orðinn stærri en margir kaupstaðir fyrir norðan og austan. Flestum mátti líka vera sama og var svosem líka sama þegar hégóminn hafði betur og þorpið okkar hér við Ölfusá fékk kaupstaðarréttindi. Þá bjuggu enn þeir menn hér að þeir þoldu slíkan hégóma bara vel og gengu til hvunndagsins eins og alltaf áður. Vissu sem var að þeir voru fyrst og fremst sveitamenn og Flóamenn og kunnu því mæta vel. Höfðu sjálfstraust til að vera það sem þeir voru.

Það er ekki fyrr en á seinustu árum 20. aldar og þeirri 21. að við förum að hafa verulegar búsifjar af hégómanum og þær hafa síðan vaxið ár af ári. Allt í einu voru komnir upp á dekk menn sem töluðu drýgindalega um að losa þyrfti Selfoss úr viðjum þorpsins.

Já, ég er ekki að vitna bara í einhverja afbökun frá sjálfum mér á hugsun annarra manna. Þetta var orðað með nákvæmlega þessum orðum í blaðagreinum bæjarblaðanna hérna og átt við að hér þyrfti nú að þróast og þroskast einhver   stórborgarbragur í staðin fyrir smábæjarkotungsháttinn. Viðjar þorpsins hlýtur þá að vera þessi óþolandi nánd og náungavitneskja sem alltaf fylgir smáum samfélögum.

Og orðum fylgdu athafnir. Allt í einu var farið að ryðja um löndum til að byggja upp og sumt af því heppnaðist vel. Bærinn okkar var og er eftirsóttur til búsetu, ekki vegna þess að hér væri stórborgarbragur á öllu heldur miklu frekar vegna þess að við erum laus við þá ókosti sem fylgja of miklu þéttbýli. Byggðin tók að teygja sig niður undir Síberíuna, ofan í Flóa og eftir Ölfusárbökkum. Ekki nema gott um það að segja svo langt sem það nær. En um leið komu upp hugmyndir um að hér yrði að rísa miðbær skýjakljúfa, 12 og 16 hæða turnar beint á móti Ölfusárbrú og glerhallir allt í kring. Rífa átti allar byggingar við Eyraveg ofanverðan að austanverðu og sömuleiðis hús þar bakvið og hér átti að rísa háborg líkust ferlíkjunum í Borgartúni og Skúlagötu í Reykjavík.

 

Skýjakljúfar sem gengu aftur

Það sannaðist samt að byggðin hér er ekki öll vitinu skroppin og svo fór að langvinn og upplýsandi umræða um kosti og galla þess að setja upp skýjakljúfa í miðbæ Selfoss lytkaði með því að tillögurnar arfavitlausu voru dregnar til baka. Eftir því sem teygðist á þessari umræðu varð fleiri og fleiri enda ljóst að allar þessar hugmyndir voru eins og skrípamynd af stórborg, Bör Börsson steyptur í gler og stál. Það sá líka hvert mannsbarn að hér á Suðurlandsundirlendinu voru engan þau landþrengsli að við þyrftum að haga málum með þessum hætti.

Við önduðum mörg léttara þegar ákveðið var að ekkert yrði úr ósköpunum. En eins og fyrri daginn var Adam ekki lengi í Paradís. Borgarstjórn Árborgar efndi enn til hugmyndasamkeppni og enn komu fram monthús, ekki alveg eins háreist en algerlega úr takti við það sem tíðkast í litlum bæjarfélögum, hvort sem er austanhafs eða vestan. Þegar hér var komið hafði tekist að þreyta svo skynsamt fólk í andstöðu við 16 hæða turnana að enginn nennti í annan slag og menn létu á slag standa þó allt væri þetta frekar vitlaust. Enn var það jarðýtan, glerið og hinir köldu stálsprossar sem gengu hér aftur, aftur og aftur.

 

Hin eftirsóknarverðu gæði

Í Bandaríkjunum eru að sönnu skýjakljúfar og það stærri en þeir sem hér er talað um en aðeins í milljónaborgum. Bæir á stærð við Selfoss og Reykjavík eru yfirleitt aldrei meira en tveggja og þriggja hæða. Sama má segja um byggðir í Evrópu. Haag þar sem ég eyddi sjálfur vetri er nánast allur lágreistur og þó búa þar fleiri en á öllu Íslandi. Það er rétt í miðbænum þar sem reist hafa verið háar glerhallir, stálgrindarhús með kuldalegu útliti sem henta fyrir skrifstofuhald og verslanir en það vill enginn búa í grennd við þau skrímsl.

Þar vilja allir búa í manneskjulegum eins, tveggja og í mesta lagi þriggja hæða íbúðabyggðum. Hér á landi hafa í góðærinu vaðið uppi peningamenn sem hafa meðal annars skrökvað því að fákænum hreppsnefndarmönnum beggja megin Hellisheiðar að hin eftirsóknarverðustu gæði heimsins að gera mannlegt umhverfi sem ómannlegast með steinsteypu, gleri og stáli. Þá blómgist hagvöxturinn sem aldrei fyrr.

Þessir sömu peningamenn skilja okkur Selfyssinga nú eftir með miðbæ sem er harla nöturlegur. Því líkastur að hér hafi orðið einhverskonar loftárás. Og kannski var þetta loftárás manna sem aldrei áttu annað en loftið og belgingin í eigin brjósti en peninga miklu minni en núll. Eitt fallegasta hús bæjarins og prýði hans við innkomuna, Ingólfur sem á sér mikla sögu og tengist Tryggvaskála var hafinn á loft upp og hent eins og hráviði á árbakkann neðan við Leikhúsið okkar. Gömlu Hafnarhúsunum rutt um koll frekar en að leyfa krökkum að nota það fyrir rúlluskautasal eða hvað annað sem það hefði getað nýst okkur. Og verst af öllu er að enn vofa yfir okkur enn frekari niðurrif húsa niður með Eyravegi og víðar um bæinn.

Eðlilegast væri úr því sem komið er að breyta þessu auða svæði í miðbænum í opinn garð fyrir almenning og mun ekkert af veita í vaxandi bæjarfélagi. Það er ekki of seint að setja Ingólf aftur á sinn stað og vel má byggja lágreist hús í gömlum anda í sum götin sem myndast hafa undan jarðýtugleði liðinna missera.

Viljum við samt glerhallirnar

En nú eru nýjir tímar og nýtt Ísland og ný hugsun að fæðast.

Græðgisöflin sem ruddu hér öllu um koll bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi hafa beðið skipbrot. Það er ekki bara í bankamálum, fyrirtækjarekstri og samskiptum við önnur lönd sem við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Við þurfum líka að gera það í okkar heimabyggð. Við þurfum að horfa á það hvaða gildi það eru sem við viljum raunverulega leggja áherslu á.

Peningamennirnir sem töluðu yfir hausamótunum á okkur og sögðu að allir sem væru með efasemdir töluðu gegn hagvexti, þessir peningamenn reyndust allir hafa rangt fyrir sér. Við borgum nú skuldir slíkra manna og til þess að borga þær duga okkur lengst og best þær gamalkunnu aðferðir til verðmætasköpunar sem dugað hafa þjóðum. Við þurfum einfaldlega að framleiða verðmæti. Það eru engin verðmæti fólgin í því að reisa skýjaborgir.

Við hér í Árborg eigum að velta því fyrir okkur hvort við viljum raunverulega að það gangi eftir sem samþykkt meðan vitleysan stóð sem hæst. Viljum við samt glerhallirnar í miðbænum og viljum við ryðja hinu fallega og mannlega mjólkurbúshverfi niður fyrir aðrar glerhallir. Eða viljum við nýja hugsun.

Höfundur er bóksali í miðbæ Selfoss


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband