ðe big red bastard - im memorian -

2374420.jpg

Lengi og raunar mjög lengi getur vont versnað. Fyrir ári síðan fóru nokkrir sparisjóðir vestanhafs á hausinn og í framhaldi af því var lokað fyrir nokkra glæpabanka á Íslandi sem enginn þurfti að býsnast yfir. 

Nú réttu ári eftir þennan atburð verða enn verri tíðindi og alvarlegri því Stóri Rauður er dauðvona. Eftir mat sérfræðinga er það samdóma álit að þessi trausta og hrausta skepna sé nú komin með þau innanmein að enginn mannlegur máttur fái þar rönd við reist.

Stóri Rauður sem er hálfþrítugur að aldri hefur marga fjöruna lapið, ausuna étið, brekkuna dregið og fjallveginn að velli lagt á langri og viðburðaríkri ævi, hýst jafnt höfðingja sem portkonur, verið vettvangur heimspekilegra samræðna og drykkjutúra og yfirleitt átt ævi bæði mikla og stóra.

Hann var skapmikill, dyntóttur eins og títt er um kana, dekurrófa hin mesta og ekki nema í meðallagi félagslyndur. En vinur vina sinna og gat komið á óvart með óvæntum rykkjum. Í yfirferð var hann sem sambland af þýskri herfreigátu eða norðlenskri prestmaðdömu. Riðaði á malbiki en gat verið allra fastastur fyrir í vondu og festist aldrei svo séð væri. 

Við Rauður minn vorum lengi jafnaldrar. Kom þar mest til að fram eftir vist sinni hér á Sólbakka sýndi Rauður þann sprækleik að ætla mætti að hann yrði á dögum lengur en yngstu menn sem þá lifðu og mátti á stundum ætla að skepna þessi hefði mannsvit. Síðustu tvö ár hafa aftur á móti verið kvellisöm með drunti og oftlega að hlutar lágu eftir í hlaði þá farið var af bæ og höfðu þá oxast af undirvagni ofan í malarhlaðið.

Rauður var mikil áhugaskepna um landgræðslu og vann ötullega að landbótum. Hann stóð lengstum á gróðurleysu en hafði farið langt með að rækta upp þann skika á langri ævi svo þar má nú heita beit fyrir hálft geitfé dagpart og mest gómsætur arfi.

Stóri Rauður verður haugsettur á Sólbakka. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Samúðarkveðjur frá okkur feðgunum.

Axel Þór Kolbeinsson, 14.9.2009 kl. 17:01

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Samúð úr vesturbænum.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.9.2009 kl. 17:06

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, ég veit þú ert bara hálfþrítugur, Bjarni minn.

Vonandi við betri heilsu en hann jafnaldri þinn.

Jón Valur Jensson, 14.9.2009 kl. 17:21

4 identicon

Þetta er ein skemmtilegasta minningargrein sem ég hef lesið, Bjarni minn, en ég vottta þér að sjálfsögðu mína dýpstu samúð. Vona að þú jafnir þig hægt en örugglega. Minningin lifir. Knús, Edda.

edda (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 17:37

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Eitt augnablik hélt ég að þú værir að minnast fyrrum foringja þíns, sem einnig lagðist í landgræðslu og náttúruvernd á eftir árum.

Ragnhildur Kolka, 14.9.2009 kl. 17:56

6 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Það er virkileg ástæða til að samhryggjast þér .... og er þettaein besta minningargrein sem ég hef lesið.

Minningin lifir.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 14.9.2009 kl. 18:04

7 Smámynd: Jón Magnússon

Ég segi eins og Ragnhildur. Fyrrum foringi Framsóknarflokksins var kallaður Big Red ef ég man rétt þegar hann keppti í fjölbragðaglímu vestra.

Jón Magnússon, 14.9.2009 kl. 18:05

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Megi þessi merki samferðaaðili þinn lengi njóta hvíldar.

 Ekki er af Ryð-veikinni að spyrja, hef misst vænann Rússajeppa í slíkt.

Heigður er Húsafells í túni var sagt um fráann gæðing.

Samúð er öll með þér, úr 101 Miðbæ

Bjarni Kjartansson, 14.9.2009 kl. 20:35

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er ekki til eitthvert tryppi undan þessum rauða?

Árni Gunnarsson, 14.9.2009 kl. 22:01

10 Smámynd:

Samúðarkveðjur - erfitt að kveðja vini sína.

, 14.9.2009 kl. 22:27

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Úff, nú fer ég út á hlað & klappa gamla rauða Fordinum mínum, hann er að nálgazt eilífðina líka.

Steingrímur Helgason, 14.9.2009 kl. 22:57

12 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Ég átti einn svona traustann en hann var Rússneskur, en hann var ekki stöðutákn hann var bara vinalegur og traustur..

Ég gat ekki annað en pikkað smá í tilefni dagsins

http://friggi.blog.is/blog/friggi/

Friðrik Björgvinsson, 14.9.2009 kl. 23:10

13 identicon

Það er löngu ljóst að þú gefst alltaf upp við minnsta mótbyr. Að jarða þennan vin þinn yrði það næstvitlausasta sem þú hefur gert á þinni opinberu ævi. Það eru allir varahlutir til í þennan gæðing og boddýhlutir eru framleiddir á Íslandi. Nú er bara að finna ungan mann, samt helst yfir sjötugu, sem kann að fara með gömlu gerðina af logsuðutækjum og nennir að dunda við þann rauða. Í þínum heimabæ eru menn sem eru öðrum fremri í undirvagnasmíði og viðhaldi þessa stofns. Ekki láta þér detta í hug að annar komi stað þessa gæðings – ég hef verið í þessum sporum og hélt að nýrra, dýrara og flottara væri betra (enda Sjálfstæðismaður) en það reyndist hin mesta vitleysa. Hott hott – drífa sig svo !!

Sigurður Grímsson (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 08:14

14 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Frábær grein og einnig athugasemdir , margar. Ég vil taka undir allt með honum Sigurði Grímssyni, ef ekki er til tryppi undan skepnunni, eins og hann Árni kom hér inná, er ekki um annað að ræða en að finna laghentan "ungan" Selfyssing, nóg er til af þeim, og lengja líf Rauðs...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 15.9.2009 kl. 09:03

15 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mögnuð gein Bjarni eins og þérr einum er lagið,er ekki búin að jafna mig ebnþá/en kveðja frá Akureyri Halli gamli P/S þetta varðu koperað' og geymt/sami 

Haraldur Haraldsson, 15.9.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband