Í faraldri heimskunnar...

Það er utan þess sem ég almennilega nenni að elta ólar við umræðuna sem verið hefur undanfarið um tóbaksfaraldur þjóðarinnar enda er nær í þessum efnum að tala um faraldur heimsku og sefjunar.

Staðreyndin er að tóbak er eitt af meinlausustu nautnalyfjum mannkyns og fráleitt eins mikill skaðvaldur í samfélaginu eins og til dæmis majones og áfengi. Áfengið eitt og sér útheimtir margfalt meiri löggæslu, stærri fangelsi og fleiri sjúkrastofnanir en væru í áfengislausu landi. Ekki að ég vilji banna áfengi og þaðan af síður majones enda trúi ég lítið á bönn. Við höfum þegar gengið allt of langt með því að banna fólki að leyfa tóbaksnotkun á veitingastöðum. 

Lífið hefur þann einan tilgang að njóta þess og þeir sem ekki skilja lífsnautnina eru og verða eins og segir í alþekktri stöku eftir Martein Lúter siðbótarmann, andstyggð góðra manna. Hvert nýtt líf sem kviknar felur í sér dauða og það er hin eðlilega hringrás. Hvort sá dauði er tímabær eða ótímabær þegar hann mætir er eins og hver annar útúrsnúningur. Dauðinn bara er. 

Að við sem reykjum kostum samfélagið svo mikið er byggt á afar hæpnum grunni. Ef það er rétt að við deyjum ungir þá spörum við heilbrigðiskerfinu einmitt milljónir.  Það gleymist algerlega í útreikningum að hinir þeir deyja víst líka og þannig eru nú dánir í landinu allir landnámsmennirnir og er þó næsta öruggt að enginn þeirra reykti. 

Stóri kosturinn við tóbak sem nautnalyf er að öfugt við áfengi, amfetamín og hass sturlar það neytendur frekar lítið. Það er aftur á móti bæði ávanabindandi og óhollt en þeir sem trúa því að heimur án lasta sé virkilega eftirsóknarverður hafa illilega misskilið lífið og mannskepnuna. 

Reyndar er helsta ástæðan fyrir því hvað hart er sótt að reykingafólki meðan t.d. áfengisneysla er látin í friði og engum dettur í hug að banna franskar kartöflur er að við tóbaksmenn erum að lenda í afgerandi minnihluta. En þessar árásir á okkur lýsa óneitanlega lágkúrulegri skrílmennsku.

Eins og ég sagði ætlaði ég alls ekki að skrifa tóbaksvarnapistla (sannar tóbaksvarnir eru auðvitað varnir okkar sem reykjum) núna en meðfylgjandi mynd sem vinur minn Ólafur Örn Haraldsson sendi mér í morgun og er tekin á liðnu sumri inni í Þverbrekknamúla kveikti í mér. Á henni sést beinlínis hvað það getur verið gaman að reykja.

img_3068.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Ja ef menn dyttu bara dauðir niður úr reykingunum þá væri þetta ekki svo slæmt og jafnvel bara gott. Þá myndu þeir hala inn í ríkissjóð tekunum fyrir tóbakið og falla frá yngri en ella þannig að ekki myndu þeir teppa elliheimilisplássin. En sá böggull fylgir skammrifi að þeir sem reykja eru oft í mörg ár að velkjast um í heilbrigðiskerfinu með allskyns reykingatengda sjúkdóma sem verið er að reyna að lækna (því jú - flestir vilja nú halda áfram að lifa þótt þeir kenni sér einhvers krankleika) og því kosta þeir þjóðfélagið heilmikla peninga.  Fyrir utan svona smáhluti eins og lyktina sem fylgir reykingafólki líkt og húsdýrailmur sem ekki öllum (lesist fæstum) finnst góður og óbeinu reykingarnar sem þeir þröngva upp á sitt samferðafólk.

, 15.9.2009 kl. 12:25

2 identicon

Mér finnst að það ætti að banna majónes, remúlaði, kókosbollur, rjóma ...

Það er sko enginn smápeningur sem fer í það árlega að lækna "sjúkdóma" sem þyrfti ekki að lækna ef "sjúklingurinn" hefði bara ekki borðað svona mikið ... áunna "sjúkdóma" sem orsakast eingöngu vegna þess að fólkið sem þjáist af þeim borðaði bara miklu meira en nokkur þörf var á.

Hefur annars einhver reiknað það út hvað ofneysla á majónesi og öðrum fitusprengjum kostar þjóðfélagið á hverju ári?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:08

3 identicon

Dagný talar um að þröngva upp á sitt samferðarfólk ? Þetta finnst mér alltaf jafn hjákátlega rök, þegar í fyrsta lagi er hægt að ganga út og sýna þar með fyrirlitningu á því,  og svo ef við tökum dæmi úr örðum málaflokki sem er líka heilbrigðiskerfinu mjög dýr, að þá telja margir karlmenn að mjög margar konur ættu ekki að fá að aka, því þær séu stórhættulegar í umferðinni   Ekki þannig að þær beint valdi fleiri slysum en karlar heldur óbeint, svona eins og óbeinar reikingar. Eigum við að banna konum að aka?

Rök þessara karla eru að t.d út á þjóðvegum vita þær alls ekki hvar á veginum þær eru,  og víkja því mjög ílla og hefur margur lent útaf vegna þessa og menn slasast, en konan verður ekki var við neitt,  og heldur bara áfram með augun frosin á miðjuveglínu, því þær keyra eftir strikinu sko   Ég tek undir rök þessara karla að svona eru margar konur, alls ekki allar auðvitað en margar mjög óbeint......   

 En svo er annað með greiningar lækna á hverjir eru lasnir vegna reykinga og hverjir ekki.  Minn maður hefur nú farið í mjög ítarlega rannskókn á hjarta  og lungum, svo var sest niður og málin rædd, læknirinn sagði að það væri alveg greinilegt að þú hefur ekki reykt væni minn, maður á þínum aldri væri ekki í svona góðu formi ef hann reykti En því miður urðum við að hrella hann með því að hann Siggi minn er búin að vera stórreykingamaður frá unglinsaldri og þegar best lætur og rettur við hendina,  fer það  í 2-3 pakka á dag, en það er auðvitað svo dýrt að pípan hefur lengst af verið notuð

Það er nefnilega ekki allt svart og hvítt í þessum efnum elskurnar

(IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:20

4 identicon

Þakka ber hvern vonarneista sem góðir menn tendra í myrkrinu sem lykur um þessa vegvilltu þjóð. Stöndum gegn þeim sem vilja drepa í glóðinni sem enn lifir. Látum þá soga oní sig mökkinn af „manngæskunni, rétthugsun sinni og siðbót“. Tóbaksfíkn hefur valdið minni skaða í íslensku samfélagi en fégræðgin. Bönnum heldur Íslendingum að brúka peninga.

Jón Örn Marinósson (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:35

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Man nokkur eftir því hver urðu örlög kardemommudropanna og hvers vegna?

"Kardemommudropabanar" eru samir við sig og ráðast enn á garðinn þar sem hann er árennilegastur.

Kolbrún Hilmars, 15.9.2009 kl. 15:53

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll Bjarni

Mætti í Sunnlenska á laugardaginn og Egill afgreiddi okkur með bréðhollar tertusneiðar.

Ég er sammála þér með mikilvægi þess að kunna að njóta. En það er ekki skilyrt við það að moka í sig fæðu eða efnum.

Viðmiðin eru í okkur sjálfum, hvenær nautn verður fíkn. Þannig að þetta snýst um sjálfstjórn og skert frelsi.

Það er einmitt helsta afleiðing fíknarinnar að geta ekki lengur stjórnað sínu eigin lífi.

Vann á Reykjalundi og það er óhugnanlegt að sjá allt það fólk sem var með lungnasjúkdóma v. reykinga.

Það hafði svo sannarlega ekki verið "meinlaust" fyrir lungnasjúklingana að reykja.

Reykingarnar stuðla að skertum lífsgæðum og oft hægfara þróun sjúkdóms og dauða með miklum samfélagskostnaði. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.9.2009 kl. 16:37

7 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Djöfull ertu flottur á myndinni. Ég kveikti mér strax í einum þó ég viti að þetta sé nú ekki beinlínis bráðhollt. Ég hef stundum sagt við blessað fólkið sem hefur ráðlagt mér að hætta að gamall lífsnautnamaður verði nú að hafa svo sem eina synd eftir. Löngu hættur að eltast við pils og drekk ekkert strekara en kók.

Sigurður Sveinsson, 15.9.2009 kl. 18:39

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég get tekið undir margt af því sem Gunnlaugur segir. Einnig það að á Reykjalundi dvelja margir með lungnasjúkdóma sem taldir eru reykingatengdir. En sannfærð verð ég aldrei aftur eftir að hafa fylgt æskuvini til grafar sem dó úr lungnakrabbameini langt fyrir aldur fram - sem var sportidiot ef nokkuð var og bindindismaður á bæði vín og tóbak.

Man proposes - God disposes.

Kolbrún Hilmars, 15.9.2009 kl. 19:16

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

"Lífið hefur þann eina tilgang að njóta þess...." Heyr heyr Bjarni! Þú nýtur þíns cigars af svo mikilli nautn að það jaðrar við að ég byrji að reykja aftur

Hrönn Sigurðardóttir, 15.9.2009 kl. 21:12

10 Smámynd: Katrín

Mikið er nú gott að einhver skuli hafa húmorinn í lagi og að þessi einhver sért þú sjálfur:)+  Nægt framboð er víst að hinum sem sjá hörmungar í öllum hornum...nema náttúrulega sínum eigin:)

Katrín, 15.9.2009 kl. 21:20

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er ekkert vit í að verða eldgamall og seníl og vera alveg út úr heiminum.  Menn eiga að deyja í blóma lífsins og deyja stórfenglega. Þinn tími mun koma!

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.9.2009 kl. 21:40

12 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

GÓÐUR Bjarni...

kv. Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.9.2009 kl. 01:56

13 identicon

Góður pistill.

Við vitum að reykingar eru ekki hollar

en undanfarin ár hefur farið fram alheims

heilaþvottur og skipulagður áróður

gegn reykingum.

Kveðja

Dagný

Dagný (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 02:02

14 identicon

Wer will, der raucht.

Wer nicht, der stirbt auch.

AndyHofer (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 06:56

15 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hva............. ég lít ævinlega þannig á þegar ég versla tóbakið mitt að nú skaffi ég vel í kassa fjármálaráðherra .......

Í þjóðfélagi og heimi þar sem allt miðast við hagvöxt - þá fæ ég ekki betur séð en að það auki hagvöxt umtalsvert að einhverjir reyki.  Skaffar vinnu - bæði við að selja tóbak - og heilbrigðisstarfsfólki sem tekur við sjúklingum til lækninga hvort sem þeir hafa reykt eður ei.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 16.9.2009 kl. 13:43

16 identicon

Hrópandi hugsunarleysi hjá thér kallinn minn.  Ímyndadu thér bara hve slaem áhrif thessi ábyrgdalausa faersla thín og mynd! hefur á óharnada unglinga.

Nú gaeti hugsast ad thú hafir framtídaróheilsu áhrifagjarnra ungmenna á thinni samvisku.

Leidin til hamingusams lífs er miklu frekar hollt faedi, gódur svefn og haefileg hreyfing.  Fólk nýtur tilverunnar miklu betur ef thad lifir sínu lífi á heilsusaman hátt.

Öll samskipti eru thá miklu heilbrigdari og nánari.  Thessi "nautnaefni" sem thú talar um hafa sína svörtu bakhlid sem vegur thyngra en sú skammtíma nautn sem hún veitir.

Nei....svona á ekki vel gefid fullordid fólk eins og thú ad hegda sér.

Med vinsemd og djúpri virdingu,

Haxmel Daxfel

Hrópandi hugsunarleysi (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 18:16

17 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni þú stendur á þínu máli!!!!,eru það  ekki mannréttindi einnig/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 17.9.2009 kl. 18:14

18 identicon

Jahérna hér. Stynja nú reykingamenn yfir bönnum og boðum.  Og heill búnki af athugasemdum með lágmarks tilvitnun í réttindi þeirra sem ekki reykja. Sem eru einfaldlega sú að vera ekki því bundinn að anda þessum viðbjóði að sér. Að geta komið inn á veitingastað án þess að  láta súrsa sig í brælunni, geta leyft börnunum sínum að fara með á opinbera staði án þess að þau séu eins og hangiket fyrir vikið, og spara sér stórfellda þvotta og fatahreinsanir sem alltaf voru nauðsyn vegna pestarstybbunar á öllum þeim stöðum sem notast var við spariföt.

Sjálfur rek ég gistiheimili og beiti þar reykingarbanni með mikilli gleði. Mikill munur að þurfa ekki að þrífa sósuna af veggjunum á hverju ári, nú eða mála yfir hana. Og svo eru þessir non-smokers himinlifandi yfir ferskloftinu á meðan "hinir" hafa sitt skjól fyrir fýluna. En innan dyra mega þeir taka í nefið og snafsa sig einsogþeir vilja. Þar er sá megin-munur að með því menga þeir ekki oxýgenið oní annað fólk. Lágmarks réttindi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband