Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Loksins út í vorið...

Kosningabaráttan hefur tekið allan minn tíma og ekki laust við að mér finnist ég hafa misst af vorinu þangað til núna á sunnudaginn að mér tókst að komast frá í klukkustund með Elínu og Gunnlaugi til að borða ís úti í guðsgrænni náttúrunni, spottakorn utan við Þrastalund.

Toppurinn var svo á sunnudagskvöldinu að moka úr lífræna haugnum sem hefur núna beðið ósnertur í nokkur ár. Reyndar ekkert nýtt að hann fái að malla lengi hér á bæ en það er hreint með ólíkindum hvað verður úr öllu lífrænu sorpi heimilisins þegar hann fær að gerjast vel og lengi í safntunnu í garðhorninu. Þarna tók ég heilt ár neðst úr eldri tunnunni og brytjaði það niður með gafli og skóflu. Líklega 3 ára gamalt. Allt nema nokkrir sviðakjammar orðnir að úrvals áburðarmold sem var skipt bróðurlega milli fjögurra fermetra gulrótagarðs og nokkurra rabbabarahnausa. Samtals var þetta, sem samt er helmingur af öllu eldhússorpi 5 manna fjölskyldu í heilt ár, orðið að hálfum rúmmetra af svörtum skít. Yndislega vorlegum skít. Við setjum allt sem flokkast getur undir að vera lífrænt í þennan haug og slatta af dagblöðum með. Merkilegast hvað sviðakjammarnir eru lengi að brotna niður meðan stórgripabein úr vikulegu hrossaketsáti hverfa.

Sæt er lykt úr sjálfs rassi segir í gömlum íslenskum málshætti sem ég hef alltaf tekið fyrir sönnun þess að smávegis pervertismi hafi alltaf verið til með þjóðinni. En þetta vorkvöld öðlaðist þessi orðskviður nýja merkingu fyrir mér þegar mér var hugsað til þess að ef þetta hefði verið lífrænn eldhúshaugur frá einhverjum öðrum hefði ég jafnvel viljað hafa hanska en þar sem þetta voru okkar eigin matarafgangar gekk lyktin hreint ekkert fram af mér. Andaði að mér vorinu og fann að hvað sem allri þingmennsku líður er lífið samt við sig...


Takk og aftur takk!

Takk, takk, takk, takk, takk, takk - kæru stuðningsmenn, velunnarar, vinir, kjósendur, flokkssystkin og öll sem hafið sent mér sms og kveðjur á þessari nótt. Allir sem hafa snúist fyrir okkur undanfarnar vikur, setið við símann, steikt vöfflur og talað máli okkar. Við getum þolanlega við unað í erfiðri stöðu hér í Suðurkjördæmi, - unnum varnarsigur og fengum fylgi eins og spáð var í okkar hagstæðustu könnunum. En töpuðum auðvitað fylgi frá því síðast!IMG_1692

En í heildina tekið þá er útreið Framsóknarflokksins ekki góð. Raunar eins slæm og verst mátti ætla af skoðanakönnunum. Fengum ekki þau 14% sem nokkrar kannanir á síðustu metrunum spáðu okkur. Þetta þarf samt ekki að koma að öllu leyti á óvart. Þrátt fyrir að við séum yfirleitt alltaf betri í könnunum en kosningum þá höfum við samt yfirleitt náð kjörfylgi á síðustu metrunum fyrir kosningarnar og stundum áður eins og núna, meira fylgi í síðustu könnunum heldur en kosningunum.

Niðurtúr flokksins byrjaði snemma á síðasta kjörtímabili og við tókum of seint í taumana. Okkar góða formanni dugði ekki þessi stutti tími til að vinna sig inn í hjörtu þjóðarinnar og það er eins og við óttuðumst margir,- það tekur einfaldlega lengri tíma en þetta að snúa þróuninni við og vinna nýjum manni traust og álit hjá þjóðinni. Auk þess sem innkoma Jóns Sigurðssonar inn í stjórnmálin var honum þrándur í götu allan tímann. Þannig er það bara.

Nú erum við á núllpuntki. Með minnsta fylgi sem flokkurinn hefur haft í kosningum og leiðin héðan af liggur ekkert nema uppávið...

(Já, - myndin er bara til að undirstrika að nú eftir margra mánaða törn við kosningabaráttu er kominn tími til að taka dakarinn og þeysa á fjöll!)


Auðvitað spenntur - enda að lesa spennubók!

Auðvitað er ég spenntur - svo spenntur að ég reyni að slá á hina pólitísku spennu með því að lesa spennubók eftir mikinn uppáhaldshöfund, Ævar Örn. Reyndar er það fágætur munaður að ég leyfi mér að lesa reifara en taldi það rétt núna í törninni. Sturlunga var of þung og Svartir englar er svo sannarlega spennandi bók. Las mig í svefn og vaknaði snemma til að lesa meira um Birgittu Vésteinsdóttur kerfisfræðing og afdrif hennar.

En það er semsagt borgaraleg skylda að kjósa í dag og enginn ætti að leiða það hjá sér. Og allir eiga að kjósa eins og samviskan býður. Meira förum við ekki framá enda kominn kjördagur og ekki við hæfi að hafa þá yfir áróður á þessum degi. Gleðilega hátíð og takk fyrir ómetanlega hjálp undanfarna mánuði.2. maí  2007 080

Verð á flakki í dag í kosningakaffi um allt kjördæmið og byrja í naglasúpu í Reykjanesbæ í hádeginu...

(Myndin sem er sett hér til skrauts er frá fundi á Klettinum fyrir nokkrum dögum, hér má sjá Magnús í Hveratúni, Guðjón á Tjörn, Guðmund á Vatnsleysu, Benna Skúla, Gunnar í Reykholti, Snorra á Tjörn og Óla á Reykjum - og mig)


Hækkum lægstu laun!

Aukin misskipting og bág kjör bótaþega eru tískuumfjöllunarefni undanfarinna ára. Á sama tíma ber lítið á baráttunni fyrir því að hækka lægstu laun og er mikil glámskyggni.

Miklum hagvexti undanfarinna ára hefur fylgt mikil auðsöfnun og hópur allsnægtanna fer ört stækkandi. Þetta er óhjákvæmilegur fylgifiskur og helst í hendur við útrás okDSCF0168kar, hlutafjármarkaðar og þess að hagur þjóðarbúsins fer batnandi. Vissulega er hægt að býsnast yfir að einstaka síldarbersar strái um sig gullinu en sá pirringur er samt aukaatriði í pólitíkinni.

Hitt vandamálið, bág kjör bótaþega eru miklu alvarlegra vandamál og þarfnast úrlausna. En fyrst þarf að leysa hitt, - að hækka lægstu laun. Harðir markaðsmenn yppta hér öxlum og segja að þetta sé markaðarins að gera, ekki hins opinbera. Verkalýðsforingjar virðast margir sofnaðir og þeir virkustu eru gjarnan fulltrúar hálaunastétta. Málið er engu að síður pólitískt vandamál sem líður fyrir að vaxandi hluti láglaunafólks í landinu er af erlendu bergi brotinn og hagsmunagæslu þess fólks er ábótavant. Stjórnvöld koma að kjarasamningum og geta í þessu beitt sér, bæði með hækkun skattleysismarka og ef ekki vill betur, lögbindingu lágmarkslauna. Lægstu laun nema nú um 690 krónum á tímann og því innan við 120 þúsundum á mánuði. Það má öllum vera ljóst að slík laun eru langt innan við framfærslukostnað.

Bætur, hvort sem er til öryrkja eða ellilífeyrisþega er ekki hægt að hækka upp fyrir lægstu laun og það er þegar varasamt hversu bilið hér í milli er stutt. Undirritaður heitir því að beita sér á þessum vettvangi í pólitískri baráttu næstu ára.

(Myndin er af okkur Rúnari frá Litlu Heiði í Mýrdal, tekin af Sigurði Hjálmarssyni við opnun kosningaskrifstofunnar í Ársölum, Vík.)


Framtíðarmenn

Tungnamenn

Á dögunum náðist þessi skemmtilega mynd af okkur Guðna með ungum og upprennandi Framsóknarmönnum úr Tungunum sem mættu við opnun kosningaskrifstofu á Selfossi. Þarfnast varla frekari skýringa...


Kosið um skynsemi

Það verður kosið á Íslandi á laugardag. Þann dag stendur valið milli skynseminnar og þess sem er um margt miður skynsamlegt. Framsóknarflokkurinn hefur ásamt Sjálfstæðisflokki haldið um stjórnartaumana í landinu síðastliðin 12 ár. Á þessum tíma hefur ríkt mikið hagvaxtarskeið og velsæld. Það var sagt í gamla daga að það þyrfti sterk bein til að þola góða daga. Hlutverk Framsóknarflokksins hefur ekki síst verið að halda aftur af óheftri markaðsvæðingu og peningahyggju sem má sín jafnan mikils hjá okkar góða samstarfsflokki. Framsóknarflokkurinn hefur þannig verið hið mildandi og skynsama afl í stjórnarsamstarfinu.

Það er ljóst að margir vilja horfa til þess að sama stjórnarsamstarf verði áfram. Til þess að svo geti orðið þarf Framsóknarflokkurinn að halda stöðu sinni og verða þess megnugur að starfa með hinum öfluga Sjálfstæðisflokki. Vitaskuld er margt mjög gott við samstarf sem þetta svo fremi að Framsóknarflokki takist að halda aftur af enn frekari einkavæðingu sem Sjálfstæðismenn sumir vilja nú keyra yfir einkageirann og Ríkisútvarpið. Það er löngu tímabært að unnið verði markvisst að því að færa hagvöxtinn út til almennings í landinu, frekar en bara til fáeinna útvalinna.

Vitaskuld ganga flokkarnir allir óbundnir til þessara kosninga en það er samt ljóst að margir hugsa sér gott til að komast í samstarf með Sjálfstæðisflokki í tveggja flokka stjórn. Margir horfa nú til þess að hér verði samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og það er ljóst að slakt gengi Framsóknar í kosningum gæti orðið til að tryggja slíkri stjórn brautargengi.

Sé það í spilunum að Samfylkingin komist hér til valda munar miklu með hverjum hún vinnur. Gagnvart hagsmunum landsbyggðar og landbúnaðarins í landinu getur þar skipt sköpum að sá samstarfsflokkur sé Framsóknarflokkurinn en ekki Sjálfstæðisflokkur og þriggja flokka vinstri stjórn væri mun gæfulegri kostur en ný Viðeyjarskotta. Þar með væri komin til valda vinstri stjórn í landinu. Vinstri stjórn er því aðeins lífvænleg að hún njóti trausts í atvinnulífinu sem hið svokallaða kaffibandalag stjórnarandstöðunnar gerir ekki.

Það er því sama til hvorrar áttar er litið. Skynsemi og jarðsamband sækja jafnt hægri og vinstri stjórnir til Framsóknarflokkurinn. Látum skynsemina ráða á kjördag.

Leynivopnið er candífloss...

Hátt í þúsund manns mættu á útihátíð Framsóknar á gamla Hafnarplaninu á Selfossi, borðuðu 400 vöfflur, 500 pylsur og óteljandi íspinna og candífloss. Aðsóknin í gær var ekki alveg eins góð en þá var sambærileg hátíð í Reykjanesbæ. Mestu réði að þar viðraði ekki vel en hér á Selfossi fengum við við sól og íslenskan vorþyt. Myndin hér til hliðar er af okkur Guðna á skrafi undir dagskránni í img_4313_stdReykjanesbæ og ekki annað að gera en að beygja sig hvor að öðrum enda yfirgnæfði frábær söngur Harasystra bæði regn og vind og fékk mann til gleyma því hvað veðrið var hryssingslegt!Skemmtilegt var svo í dag að hafa hið fornfræga íhaldsplan Hafnarkaupfélagsins undir. Hér stigu á stokk Íma tröllastelpa, Harasystur, Hljómsveitin Vein og frambjóðandinn Fjóla Ólafsdóttir og voru hvert öðru betra. Ég fann kannski mest til mín að horfa á son minn 14 ára syngja af lífi og sál en grunar samt að leynivopn samkomunnar og það sem laðaði flestar fjölskyldur að hafi verið kandíflossvélin sem þau Bryndís Gunnlaugs, Haukur Gíslason og fleiri stýrðu af mikilli fagmennsku. Allan daginn var standandi röð við þessa vél alveg út að götu og undir lokin var vafamál hvort var sykursætara, kandíflosspinnarnir eða peysan hjá Hauki sem var orðinn bleik á litinn af sykurtjásum,- sbr. mynd!img_4405_std

 


Skynsemin ræður - líka í vinningsliðinu!

Tvö af tíu boðorðum Mósesar gamla fjalla um öfundina. Menn skulu ekki girnast það sem aðrir eiga. Lærdómsríkt í pólitíkinni. Það sem verst íldir í pólitíkinni er einmitt öfundin og sú endemis hugsun að girnast það sem aðrir hafa. Við sveitamennirnir á þessu plani höfum fengið okkar skammt af þessu á undanförnum árum og kannski löngu tímabært að við verjum okkur aðeins. moses

Valdamikill miðjuflokkur 

Það kennir nefnilega giska mikillar öfundar í garð Framsóknar yfir því hversu valdamikill sá flokkur er, einkanlega miðað við slakt gengi í skoðanakönnunum. Og grínlaust þá er það alveg satt að flokkur okkar hefur oft og einatt mikil áhrif miðað við kjörfylgi. En hversvegna skyldi það svosem vera?

Vinstri flokkarnir berjast úti í kuldanum og kenna Framsókn um sem í bæði landsstjórninni og víða í hreppsnefndum sitja í lykilstöðum. Vinstri grænir berjast á móti öllu sem gert er og leggja upp með þá stjórnmálastefnu að eytt skuli en einskis aflað. Og skilja svo ekkert í því að þeir skuli ekki hefjast til valda. Þá sjaldan þeim tekst að komast í valdastóla vill þar á sama bæ loga ófriður eins og við þekkjum best í Mosfellssveitinni um þessar mundir.

Samfylkingin er til í að vera með hvaða stefnu sem er og breytir henni jafnharðan í takt við blaðafréttir og skoðanakannanir. Og skilja heldur ekki afhverju enginn býður þeim upp í dans. Ástæðan er samt einföld. Það er iðulega skynsemin sem verður ofaná. Sem betur fer. Í samstarfi hefur Framsóknarflokkurinn verið skynsamlegasti kosturinn, bæði í landsstjórn og sveitarstjórnum.

Farsæl sjónarmið 

Flokkurinn hefur verið áhrifamikill á mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar síðastliðinn 12 ár. En flokkurinn hefur líka innan stjórnarsamstarfsins séð til þess að hóflega hefur verið farið í einkavæðingu og markaðshyggju jafnframt því að verja eftir föngum kjör hinna lægstu í samfélaginu. Það er ekki nóg að í landinu sé stjórn sem leiðir þjóðarbúið til hagsældar, sú hagsæld þarf að vera allri þjóðinni farsæl.

Það er heldur ekki nóg að í landinu sé gjafmild og vel meinandi vinstri stjórn eins og fulltrúa bæði Samfylkingar og Vinstri grænna dreymir um. Sú stjórn þarf jarðsamband og hún þarf að öðlast traust atvinnuveganna. Ef hana vantar þetta tvennt þá er hún hvorki líkleg til raunverulegra afreka né langlífis.

Vertu í vinningsliðinu

Versta útkoman fyrir byggðir landsins væri þó ný Viðeyjarskotta sem stofnuð yrði af Ess-flokkunum tveimur, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Slík stjórn varð síðast til fyrir 16 árum og slíkt sjórnarsamstarf gæti þá sem nú orðið bæði landsbyggðinni og fullveldisbaráttunni skeinuhætt. Fullveldisstefna Sjálfstæðisflokksins er brothætt og getur breyst á einni nóttu og áhyggjur vekur hversu byggðastefna þessara flokka ristir grunnt. Fjallagrasapólitíkin sem hefur að keppikefli að engan stein megi hreyfa austan Elliðaáa á sér nú fylgismenn marga og heilt málgagn þar sem Morgunblaðið er.

Framsóknarflokkurinn er ekki stærstur stjórnmálaflokka landsins en hann er sá áhrifamesti vegna þess að í stefnu hans liggur sú málamiðlun sem auðveldast er að ná sátt um. Þessvegna erum við Framsóknarmenn alltaf í sigurliðinu á kjördag og þér býðst að vera þar með okkur 12. maí næstkomandi.


Fréttastofa í kviksyndi

Lítil þúfa getur velt þungu hlassi. Vinur minn Helgi Seljan hefur varla séð fyrir það kviksyndi sem hann var að koma sér og sinni stóru stofnun út í með Bjartmarsmálinu. En áður en lýkur á þetta mál eftir að verða Ríkisútvarpinu dýrkeyptara en nokkru sinni okkar Framsóknarmönnum og það er greinilegt af athugasemdum Þórhalls Gunnarssonar í dag að hann gerir sér grein fyrir þessari grafalvarlegu stöðu.

Nú ætla ég ekki að gera Helga það upp að hafa sett fréttina fram í pólitískum tilgangi en vitaskuld hefði verið heppilegra fyrir RÚV að setja varkárari fréttamann í málið í byrjun og helst fréttamann sem ekki var alinn upp á DV og á ekki að bakgrunni að hafa verið starfsmaður Samfylkingarinnar.

"Fréttin" um meinta spillingu við veitingu ríkisfangs Gvatemalastúlkunnar byggir frá fyrstu tíð á getgátum og það sér hver vanur fréttamaður að í hana vantar alveg allan trúverðugleika og heimildir. Það hefur einfaldlega enginn, hvorki Kolbrún Halldórsdóttir, Sigurjón Þórðarson né nokkur annar sýnt fram á hið óeðlilega. Ef  við skoðum þetta útfrá hefðbundnum glæpafræðum þá vantar bæði sannanir og ástæðu fyrir glæp. Það segir sig algerlega sjálft í þessu máli að hagsmunir Jónínu Bjartmars af því að tilvonandi tengdadóttir hennar fengi ríkisfang á Íslandi eru ekki svo ríkir að líklegt sé að hún hafi þar hætt pólitískum frama sínum og beitt bellibrögðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hafa vitnað um það að afgreiðsla á erindinu var algerlega eðlileg og það er ekkert handfast til þess að draga yfirlýsingar þeirra í efa enda hefðu þau haft meiri pólitískan hag af öðru svari eða hreinlega því að þegja. Ásakanir Kolbrúnar og Sigurjóns eru aftur á móti ótrúverðugar og lykta af því að kosningar eru í nánd.

Það alvarlegasta í fréttaflutningi RÚV er svo hvernig allar venjulegar reglur um mikilvægi mála og forgangsröð hafa verið brotnar á undanförnum dögum með því að margendurtaka þessa frétt án þess að nokkuð nýtt hafi komið fram. Hér er frekar um að ræða krossferð en venjulegan fréttaflutning. En hversvegna, kann einhver að spyrja? Er þeim Þórhalli Gunnarssyni og Helga Seljan svo mikið í mun að klekkja á okkur Framsóknarmönnum? Ég held ekki. Ég held að þeir hafi einfaldlega starfsheiður sinn og stofnunarinnar að verja. Þeir brjótast hér um í kviksyndi sem þeir sökkva dýpra ofan í með degi hverjum. Það er nefnilega allt sem bendir til að allt Bjartmarsmálið sé frá upphafi stormur í vatnsglasi. En það er fyrir heiður og hlutleysi virðulegustu og bestu fréttastofu landsins mjög alvarlegt að hafa fallið í aðra eins og gryfju. Það að gera þannig atlögu að einum stjórnmálaflokki korteri fyrir Alþingiskosningar er algerlega utan þess sem hægt er að réttlæta.

Daginn eftir viðtal Jónínu og Helga Seljan hafði útvarpsstjóri tvær leiðir út úr stöðunni. Önnur var að reka Helga og veita Þórhalli alvarlega áminningu. Hin var að berja í brestina og reyna að hrópa hærra og vinna traust almennings aftur með því að hamast á málinu og grafa dýpra í þeirri veiku von að finna eitthvað sem gæfi málinu rætur og festu.

Sú von fréttastofunnar hefur nú fyrir löngu brugðist og við Framsóknarmenn skemmtum okkur því það er langt síðan þetta mál hætti að skemma fyrir okkur. Við skemmtum okkur því eftir því sem fréttirnar verða fleira verður trúverðugleiki RÚV í málinu minni...


mbl.is Kastljós svarar Jónínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...að Framsóknarjötunni marga þú laðar!

Þó ég eigi vinkonur í öllum sveitum hér austanfjalls eru margar af mínum allra bestu í Grímsnesinu og sannaðist rækilega á hagyrðingakvöldi sem haldið var á Borg í Grímsnesi um daginn. Þar stóð upp Guðrún Þórðardóttir fyrrum húsfreyja á Svínavatni og formaður kvenfélagsins og kvaddi sér hljóðs með eftirfarandi drápu frá Unni Halldórsdóttur á Borg og frábærri lopapeysu frá Halldóru Jónsdóttur í Stærri Bæ. Ástarþökk. Á myndinni er ég með þeim Halldóru og Guðrúnu.

1544564 003

 

Loks ertu Bjarni hjá kvenfélagskonum

ja, konurnar fagna því mikið að vonum.

Þær biðluðu til hans að birtast á fundi

en blessaður drengurinn aumur þá stundi,

að hann yrði að funda með Framsóknarmönnum

það var framboð og prófkjör og Bjarni í önnum.

 

Með Margréti Frímanns að Borg þér svo buðum

bökuðum flatbrauð og hangikjöt suðum.

Um sveitina hljómaði hástöfum  vælið

er við heyrum að þú værir lagstur í bælið.

Þínum frama í pólitík fögnuðum glaðar

að Framsóknarjötunni marga þú laðar.

 

En inni á þingi er ógrynni af jökkum

og eflaust er mikið af bindum og frökkum.

Í þessa hjörð má hann Bjarni ei blandast

nei, blessaður reyndu þá freistingu að standast.

Til þess að uppruninn alls ekki gleymist

þú aldrei á glapstigu spillingar teymist

færa þér konunar peysuna penu

á pöllum á þinginu stelur þú senu.

Hún er prjónuð af frábærri Framsóknarkonu

í frostinu á toppnum hún yljar að vonum.

 

Þín býður að hausti framtíðin fögur

og fljótlega af þingmönnum heyrum við sögur

hvort sem þær birtast í ljóðum og letri

eða lesnar af Bjarna í drauganna setri.

Leiði þig gæfan á leiðinni nýju

þú ert ljómandi sætur í peysunni hlýju

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband