Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Alvarleiki Grímseyjarferjumáls

Grímseyjarferjumálið snýst ekki um venjulegan yfirdrátt eða umframkeyrslu á fjárlögum og enn síður um það hvort gott skip hafi verið valið. Mál þetta snýst um það hvort fjármálaráðherra geti ráðstafað fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis,- þ.e. hvort ráðstöfun úr ríkissjóði sé einkamál fjármálaráðuneytis.

Á hverju ári fara fjölmargir fjárlagaliðir fram yfir veittar fjárheimildir og það er vitaskuld alvarlegt mál. En þar er þó um það að ræða að verkefni sem hafa hlotið formlegt samþykki Alþingis og ákveðinni upphæð ætlað til verksins.

Engin fjárveiting = engin framúrkeyrsla
Í Grímseyjarferjumálinu eru ráðist í verk sem hefur ekki fengið lögformlega afgreiðslu á fjárlögum og hvergi hægt að benda á að tiltekinni upphæð hafi verið varið til verksins. Eina viðmiðið er minnisblað á ríkisstjórnarfundi. Um það snýst gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem sér ástæðu til að „gagnrýna harðlega" málsmeðferðina og segir ennfremur um ráðslag fjármálaráðuneytisins:

„Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu."

Ráðherrar sem taka gagnrýni ekki alvarlega
Ef framkvæmdavaldið tæki þessa gagnrýni alvarlega og ef fjárlaganefnd hefði borið gæfa til að taka undir með Ríkisendurskoðun þá væri mál þetta í allt að því viðunandi farvegi. En því er ekki að heilsa.

Sjálfur fjármálaráðherrann, Árni Mathiesen, leggur þegar í sumar í opinbera ritdeilu við ríkisendurskoðanda Sigurð Þórðarson um málið. Slík opinber deila milli ráðuneytis og eftirlitsstofnunar þingsins er algert fádæmi í stjórnsýslu vorri og þó víðar væri leitað.

Heimasíða hæstvirts iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar er líka mikið fádæmi þó með öðrum hætti sé. Þar er í sumar skrifað um málið í strákslegum varnarpistil fyrir ráðslagi framkvæmdavaldsins sem helst má skilja sem svo að hefð sé nú komin á það að ráðherrar hundsi Alþingi og Stjórnarskrá.

Meirihluti fjárlaganefndar undir forystu Samfylkingar kemur svo með þriðja innslag þessa máls í nýliðinni viku þar sem því er haldið fram að skerpa þurfi á reglum og vinnulagi eins og um smámuni sé að ræða. Nefndin tekur ekki undir með ríkisendurskoðun heldur sníður sér til þann sannleika að hér hafi bara vantað reglur, án þess að nefna hvaða regluskortur það er. Í munnlegri málsvörn meirihlutans var því haldið fram að um þetta mál séu skiptar skoðanir meðal lögfræðinga. Nú eru til virtir lögfræðingar hallir undir Sjálfstæðisflokk en enginn þeirra gefur sig nú fram til varnar í þessu máli. 

Meint skilningsleysi ráðherra
Allt er þegar þrennt er var sagt í minni heimasveit en á ekki við hér því svo er Samfylkingu í mun að verja samstarfsflokk sinn í þessu einstaka máli að um helgina kemur Kristján L. Möller fram og læst nú ekki skilja skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Um leið og ráðherrann flytur síðbúna og sjálfsagða afsökun vegna fyrri orða um málið kveður hann upp úr með það að mistökin í máli þessu hafi aðallega legið hjá Siglingamálastofnun, Vegagerð og Samgönguráðuneyti.

Meiri firru er eiginlega ekki hægt að hafa uppi um þetta mál sem allt veltist í reynd um þann gerning fjármálaráðuneytis að gefa ótakmarkaða heimild til fjárausturs úr ríkissjóði þegar skrifað er uppá hina einstöku heimildargrein 25. nóvember 2005: „Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur." 

Óeðlilegt útboð
Eftir þessa heimild, sem vart á sér fordæmi er í raun og veru haldlaust að tala um að kostnaður við ferjuna hafi farið framúr fjárheimildum. Heimildin var takmarkalaus og í því liggur hin algera sérstaða þessa máls og agaleysi bæði hjá opinberum stofnunum og við afar sérstætt útboð á endurbótum á skipinu.

Við upphaf endurbóta eru áhöld um að hin hafnfirska skipasmíðastöð VOOV sé með jákvæða eiginfjárstöðu. Hún verður samt óvart fyrir valinu þrátt fyrir að eiga aldrei löggilt boð í verkið.
Umsögn Ríkisendurskoðunar er því líkust að sagt sé frá stjórnarfari í fremur broguðu þriðja heims ríki:

„Almennt á það við í samningum sem þessum að óskað er tilboða frá verksala í aukaverk og síðan gerður formlegur samningur á grundvelli þeirra. Ákvæði þessa efnis er í samningum um endurbætur á nýrri Grímseyjarferju. VOOV hefur nær aldrei skilað formlegum tilboðum í aukaverk þrátt fyrir ítrekaðar tilraunar eftirlitsaðila til að fá slík tilboð. Verkin hafa þrátt fyrir það verið unnin og Vegagerðin greitt fyrir þau, þó að henni hafi nær undantekningarlaust þótt þau mjög dýr og jafnvel þótt formlegir reikningar hafi ekki borist." 

Til hvers er eftirlit?
Nú þegar þrír ráðherrar og meirihluti fjárlaganefndar sjá ástæðu til að meta áfellisdóma Ríkisendurskoðunar sem léttvæga hljótum við hin að spyrja hvort það sé þá til nokkurs að halda úti hlutlausri eftirlitsstofnun með hinu sterka framkvæmdavaldi á Íslandi!

(Áður birt í Morgunblaðinu 29. sept.2007)


Með góðu fólki á Snæfellsnesi

IMG_0948Þingflokkur og landsstjórn Framsóknarflokks situr í þessum töluðu orðum á fundi á Grundarfirði og fórum í gærdag í heimsóknir til útgerðarjaxla og fiskverkenda. Ræddum þar um stöðuna vegna skertra þorskveiðiheimilda. Sjónarmiðin þar eru mjög mismunandi og ljóst að niðurskurðurinn kemur misjafnlega niður á einstökum svæðum og einstökum fyrirtækjum.

Um kvöldið var kvöldvaka og etið lamb úr Hnappadalnum. Við formaðurinn tókumst á um meint atgervi Gunnars á Hlíðarenda en frændur James Bond úr Helgafellssveitinni glottu kalt. Birkir Jón kynnti fyrir okkur söngva um kramaraumingja í Fljótum en Magnús söng um traustan vin. Á myndinni erum við Valgerður, G. Valdemar, Magnús Stefánsson á heimaslóð og Hildur Gísladóttir. Myndina tók Sigfús Ingi.


Er Ingibjörg enn og aftur ofjarl Davíðs

Þau láta ekki mikið yfir sér ummæli Péturs Blöndal formanns efnahagsnefndar Alþingis um peningastefnu Seðlabankans en eiga þó eftir að marka mikil tímamót. Á undan honum fór Vilhjálmur Egilsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og báðir eru samdóma í gagnrýni sinni á peningastefnu bankans. petur_blondal

Þar með hafa tveir málsmetandi Sjálfstæðismenn sagt það sem beðið var eftir. Að Seðlabankinn færi villur vegar og væri að verða að hálfgerðu nátttrölli í efnahagsumræðunni. Þetta þýðir með öðrum orðum og það sem enginn í stóra flokkinum þorði almennilega að segja,- tími Davíðs Oddssonar í stjórnmálum er liðinn. Reyndar löngu liðinn og þar með á hann ekki að fara með stjórn efnahagsmála.

Þetta segi ég þrátt fyrir talsverða aðdáun á þessum fjarskylda frænda mínum af Sámsstaðakyni og þrátt fyrir að hafa dáðst að því hvernig hann hélt Sjálfstæðisflokki við rétta skoðun í Evrópusambandsmálum. En þó svo að ég sé forsætisráðherranum fyrrverandi algerlega sammála þegar kemur að hugmyndum um aðild að Evrópusambandinu held ég vandamál vegna krónunnar verði ekki afgreidd með vaxtaokri. Þvert á móti viðveldur vaxtaokur á lánamarkaði alþýðunnar vaxandi óánægju með krónuna og getur grafið undan sjálfstæði þjóðarinnar.

Það skondnasta í málinu er vitaskuld það að þessa lotu í umræðu um Seðlabankann og vaxtastefnu hans byrjaði enginn annar en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og eiginlega finnst mér sjálfum að það sé högg langt undir beltisstað ef Sjálfstæðismenn ætla að nota hennar orð til að klekkja á löngu úreltu veldi Davíðs...


Össur skrifar um Framsókn

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra á það til að vera málefnalegur í bloggi sínu og nú eru á síðu hans nokkrir pistlar sem eru alveg þess virði að renna yfir þá. Ég er raunar sammála þeim Össuri og Steingrími Hermannssyni sem telja að Írakstríðið hafi verið sú eiturpilla sem mestu réði um fylgishrun flokksins.

Hitt er svo einfaldur útúrsnúningur iðnaðarráðherrans að gagnrýni framsóknarmanna á heimkvaðningu friðargæsluliða hafi verið einhverskonar staðfesting á stríðsvilja austur þar. Fyrst og fremst var þessi heimkvaðning óheppileg vegna þess að okkur ber að sýna samstöðu með öðrum þjóðum í uppbyggingu í Írak og því fer fjarri að friði í Írak hafi stafað ógn af sómastúlkunni Herdísi Sigurgrímsdóttur. Hún er eins og nafnið bendir til af Holtskyni hér úr Flóa og að nokkru leyti uppalin af prófasti okkar Árnesinga. Betra eintak finnst ekki til að koma lagi á hluti þar eystra.

Reyndar er allt það besta í pistli Össurar tilvitnun í Steingrím Hermannsson og góðra gjalda vert. Steingrímur telur í sjónvarpsviðtali að Framsóknarmenn hafi ekki staðið sig sem skyldi í velferðarmálum og undir það geta allir tekið,- að auðvitað vildu allir okkar flokksmenn gera þar betur. Hitt má ekki gleymast að íhaldið hefur í þessu sem öðru haldið um budduna og það er drýgst. Kannski var feill okkar að taka ekki fjármálaráðuneyti fyrir fjórum árum í stað forsætisráðuneytis.

En hafi Framsókn farið illa út úr velferðarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk þá horfir ekki betur fyrir Samfylkingu sem í fyrsta lagi gefur heilbrigðisráðuneytið eftir til íhaldsins,- svo lágt þurftum við aldrei að leggjast. Og í öðru lagi lætur Sjálfstæðisflokkinn leiða velferðarráðstafanir á vorþinginu sem eru margar þær vitlausustu sem framkvæmdar hafa verið. Ég er ekki viss um að krötum gangi hér betur en Framsóknarmönnum að koma vitinu fyrir súkkulaðidrengi íhaldsins. En guð láti samt gott á vita, Össur!

 


Sumarverkið var milljón króna salerni

Meðan eðlilegir þingmenn stunda laxveiðar í frístundum hefi ég gamnað mér við að smíða salerni fyrir bókakaffið sem við hjónin rekum. Hlálegast við þetta er að ég er með þessu að uppfylla reglugerðarákvæði varðandi salernisaðstöðu sem eru auðvitað ekki annað en skrýtla skrifræðisins.

IMG_8497

Það er ekki að ég kvarti yfir að heilbrigðiseftirlit taki út kaffihús í landinu. Það hlýtur að teljast eðlilegt. En sú regla að ekki mega selja molasopa í húsi nema þar séu tvö salerni er svo órökrétt að engu tali tekur. Við erum ekki að tala um karlaklósett og kvennaklósett. Nei, við erum að tala um eitt klósett fyrir gesti og annað fyrir starfsfólk. Lögfróðir hafa sagt mér að grundvöllurinn undir þetta sé að ekki megi nú setja starfsfólk kaffihúsa í þá bráðu hættu að setjast á salernisskálar sem illa siðaður og smitandi almenningur hefur aðgangur að. Hvers eiga þá vammlausir kúnnar að gjalda!!!

Það alvarlega í þessu öllu er að reglugerðarfár eins og þetta er íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja, bæði stórra og smárra. Hjá okkur var ekki möguleiki að uppfylla þetta skilyrði nema með töluverðum breytingum á húsnæðinu og við notuðum tækifærið til að fá um leið fram nokkurra fermetra stækkun á búðinni. En þrátt fyrir að erfitt hafi verið að fá iðnaðarmenn til starfa og vinnan því mest verið í sjálfboðavinnu er kostnaður vegna efnis og lítilsháttar sérfræðivinnu rafvirkja og pípara kominn í milljón kallinn. Og það er heilmikil blóðtaka fyrir litla einingu í leiguhúsnæði...

Ps. Ekki að ég hafi gert allt einn - í dag kom ofan úr Hreppum miskunnsamur Guðmundur og hjálpaði mér daglangt en auk þess hafa lagt hönd á plóginn vinnuþrælkuð börn að ógleymdum völundinum Gylfa frá Húsatóftum, Valla Reynis og Guðmundi úr Litlu Sandvík. Húsfreyjan á Jörfa málar millum bókhaldsverka...


Niðurlæging Alþingis og lögfræðiálit sem ekki mátti panta

Meirihluti fjárlaganefndar sýndi í dag sorglega þjónkun við framkvæmdavaldið þegar hann kaus að sýkna fjármálaráðherra opinberlega af ásökunum ríkisendurskoðunar í svokölluðu Grímseyjarferjumáli. Í skýrslu meirihlutans er beinlínis gengið út frá því sem gefnu að ástæða fyrir aðfinnslum ríkisendurskoðunar sé að reglur séu óskýrar og yfirfara þurfi í samvinnu við fjármálaráðuneyti verklag. FerjaStor

Það er vitaskuld góðra gjalda vert að yfirfara vinnulag í þessum efnum en breytir þó engu um það að í þessu tiltekna máli var farið á svig við reglur, hefðir og venjur. Fullyrðingar um að sambærileg mál séu fjölmörg eða að brotið sé léttvægt eru ekki rökstuddar.

Áður en skýrslan var afgreidd með meirihlutavaldi felldi sami meirihluti tillögu okkar minnihlutamanna (sem eru auk mín Jón Bjarnason og í þessu tilviki Grétar Mar í forföllum Guðjóns Arnars) en í tillögunni lögðum við m.a. til að kallað væri eftir lögfræðiáliti um ágreining fjármálaráðherra og ríkisendurskoðunar. Svar meirihlutans við þessari málaleitan var meðal annars á þá leið að lögfræðiálit um þetta hlytu að verða mjög misvísandi. Ég á bágt með trúa því og hefi talað við lögfræðinga sem fullyrða að engin virðingarverð lögfræðistofa gæti í þessu máli stutt álit fjármálaráðuneytisins í þessum ágreiningi.

Spyrja má hvort slíkt lögfræðiálit væri ekki löngu komið fram í dagsljósið þar sem mál þetta hefur nú kvalið Valhallaríhaldið mánuðum saman og þar á bæ hafa fram undir þetta verið bærilega góð tengsl við lögfræðingastéttina í landinu. Ef fjárlaganefndin hefði leyft sér að panta lögfræðiálit er líklegt að það hefði gert sitjandi fjármálaráðherra virkilega erfitt fyrir.

Með kattarþvotti sínum hefur fjárlaganefndin brugðist Alþingi og hlutverki sínu sem er í þessu máli að standa vörð um þá þrískiptingu valdsins sem gengið er út frá í Stjórnarskrá landsins.


Sorglegt slys fjallmanna

"... væri gaman ef þér tækist að útskýra fyrir mér hvernig drekking 108 kinda (maður hefur á tilfinningunni að pynding og aftaka hafi stafað af hefð, öllu heldur íslenskri karlmennskuhefð og þvermóðsku í stíl framsóknarmannsins Bjarts í Sumarhúsum) getur peppað upp sjálfsmynd mína eða tínt saman hugsanleg framtíðarbrotin.

Göngur og réttir eru ekkert annað en dýramisþyrmingar, framdar af mismunandi sauðdrukknu fólki.  Ég mun fagna þeim degi þá þetta athæfi leggst af!"saudfe_skaldabudir

Sko,- ég var ekki þar sem 108 kindur drukknuðu á Flóamannaafrétti en klausan hér á undan var í athugasemdum á blogginu og svipað hefi ég heyrt úr ýmsum áttum undanfarna daga. Frá venjulegu fólki sem gengur illa að skilja hvernig slys sem þetta getur átt sér stað. Eða öllu heldur undrast eitthvað sem þeir telja augljósan aulaskap og kæruleysi við rekstur. Já og að ölvun hljóti að hafa spilað hér inn í.

En flestir þeir sem sjá þetta með þessum hætti hafa ónóga reynslu af hegðan hinnar merku sauðkindar til þess að gera sér grein fyrir eðli málsins. Sjálfur bý ég ekki að áralangri reynslu af smalamennsku en hef komið þar nálægt og geri mér grein fyrir að við rekstur yfir á er alltaf hætta á ferðinni. Eins og alltaf þegar slys verða er auðvelt að vera vitur eftir á og segja að smalamenn hafi ekki gætt sín nægilega.

Kindur eru hópdýr og oft styggð í fjallfé sem gengið hefur sumarlangt á afrétti,- margt af því eiginlega alla ævi! Þegar ein kind byrjar að fara vitlaust í vað eða út í vatn sem hún ræður ekki við þá fylgja hinar eftir og gæta ekki sérstaklega að sér. Slys eins og þetta eru sem betur fer ekki tíð en þau hafa samt orðið og eru nánast jafn óumflýjanleg og umferðarslys. Mig minnir menn nefna ártalið 1989 sem síðasta sambærilega atvikið á þessu tiltekna svæði.

Í gömlum frásögnum af vetrarbeit og fjörubeit sem hvorutveggja var stunduð hér á landi í 1000 ár sjáum við fjölmörg dæmi um menn hafi misst fé vegna hliðstæðra atvika. En einnig fjölmörg dæmi um að forystufé og dugmiklir smalar hafi afstýrt slysum.

Fjallmenn hefi ég hitt drukkna og ódrukkna en man samt aldrei eftir að hafa séð vín á manni utan að það sé að kvöldi í náttstað eða þá réttum. Slysið sem hér um ræðir gerðist snemma morguns og samkvæmt mínum heimildum alveg ljóst að þar spilaði enginn drykkjuskapur inn í. Það eiginlega segir sig sjálft að menn sem vinna aðra eins púlsvinnu og smalamennska er geta hvorki verið daglangt drukknir eða vakað næturlangt við ölið.

Talandi um hundruðustu og elleftu meðferð á dýrum. Af henni er vissulega of mikið - en þó allra síst gagnvart sauðkindinni sem gengur frjáls í fjallasal sumarlangt og smalamennskur eru sauðfé tæpast  kvalræði. Fjallferðir leggjast heldur ekki af nema hvíta kjöt verksmiðjubúanna yfirtaki alveg kjötmarkaðinn en það er síður en svo dýraverndinni þóknanlegt. En nú er ég kominn inn á jarðsprengjusvæði í umræðunni og mál að hætta.

(Myndin sem sýnir hreinsunarstarf eftir slysið er af fréttavef Suðurlands, sudurland.is og er tekin af Guðmundi Karli Sigurdórssyni.)


Ríkidæmið er réttarsúpunnar

Góðbændur og sænskar hestastelpur, þingmenn og kaupstaðarfólk í lopapeysum
hnappar sér allt saman í miðjum almenningnum og syngur um blágresi en í
nálægum dilk er verið að segja sögur innan úr Arnarfelli hinu mikla og
aðrar af orðtaki héraðslæknis. Allt í einni kös. Tveir kenndir en flestir
aðeins ölvaðir af gleði dagsins. Það er nefnilega réttadagur. 
 
Í dag í Hreppunum báðum og á morgun í Tungum og Skeiðum. Í þeim öllum fleira fólk
en fé og stemmningin eins og hvort sem hann rignir eða ekki. Ósvikin og
íslensk. Á eftir er réttasúpa á Hrafnkelsstöðum.
IMG_8000
Þeir eru til sem halda að sauðfjárbúskapur á Íslandi sé aukaatriði,
réttagleðin eins og hvert annað fyllerí og hvorugt komi velsæld okkar
Íslendinga við.  En án þess að við gerum krónum og hagnaði of hátt undir
höfði þá er það samt svo að við erum aðeins ríkir út á réttarsúpuna og
systur hennar í hinni þjóðlegu menningu.

Ríkidæmið er ekki reiknisdæmi...
Ef kaldur veruleiki reiknivélarinnar réði gæfu þjóða þá er það
fljótreiknað að Íslendingar hljóta að vera allra þjóða fátækastir. Fáir og
smáir í hörðu landi, langt frá heimsins glaumi. Veðrið rysjótt og við
sjálf frek til fóðurs og mörg gírug. Ekkert í spilunum sem gefur tilefni
til að hér sé standandi velsæld.

Reiknivélamenn hafa reyndar margir reiknað út að við ættum að hætta
landbúnaði, leggja sveitirnar af og Vestfirðina líka, flytja suður sem
flestir en vera kannski örfáir eftir við hringveginn með þjóðvegasjoppur
fyrir ferðamenn. Þessir menn eru að reikna á sömu reiknivélar og sýna
okkur að við hljótum að vera fátækir í öðru eins landi. Og ef við gefum
reiknivélamönnunum frítt spil þá fer það líka að vonum að við verðum fátæk
og vesæl í litlu borgríki.
...velsældin er í sérviskunni!
Það er langt síðan alvöru hagfræðingar áttuðu sig á því að ríkidæmi er
ekki reiknisdæmi. Það er spurning um afstöðu,- einkanlega svokallaða
sjálfsmynd. Við Íslendingar erum ríkir af því að við trúum á mátt okkar og
megin. Afar okkar (OG ÖMMUR SAMKVÆMT VINSAMLEGRI ÁBENDINGU HÉR AÐ NEÐAN,TAKK FYRIR ÞAÐ, ÞETTA VAR KARLREMBULEGUR KLAUFASKAPUR!) tóku við boðskap ungmennafélaga og þjóðernisrómantíkur
og drukku í sig óbilandi trú á sveitinni, firðinum, fjöllum sínum og
afdölum. Lögðu vegi heim að hverju koti og spurðu ekki um arðsemi.
Úrelt segir sumt nútímafólkið. Hefur vitaskuld rétt fyrir sér í því að það
eru nýir tímar með nýjum viðhorfum. Við lifum ekki öll á fjárbúskap feðra
vorra eða skaki úti fyrir Skerprestinum í Eyjum.  Nýir tímar útheimta
vissulega að við horfum til fleiri átta.
En til þess að vita þvert á alla skynsemi að okkur mörlandanum séu allir
vegir færir þá þarf sjálfsmyndin að vera í lagi. Án hennar komust við
hvergi, hvorki í útrás eða uppgangi. Grunnurinn að sjálfsvitund og kannski
á köflum svolitlu stórmennskubrjálæði eru hinar menningarlegu rætur.
Ef við Íslendingar verðum svo lánlausir að klúðra ofan í landbúnaðarstefnu
kratanna og byggðastefnu frjálshyggjunnar bæði sauðfjárbúskapnum í
Hreppunum og mannlífinu í Vestmannaeyjum þá er kominn kengur í þá
sjálfsmynd sem við hljótum að byggja á. Það sem sparast verður klink eitt
í samanburði við það sem tapast.
Brotin sjálfsmynd mun svo sannarlega bitna á peningalegu ríkidæmi okkar í
bráð og lengd fyrir nú utan hvað það verður leiðinlegt að geta ekki farið
í réttasúpu á Hrafnkelsstöðum.
 
(Áður birt í Blaðinu sl. laugardag og skrifað á bænum Jörfa á Flúðum á sjálfan Hreppa-réttadaginn.)

Réttarsúpa, rakaraskrall og... æi já R.Marshall

Engir dagar jafnast á við réttardaga en í dag var réttað í Hreppunum og á morgun í Tungunum. Á flakki millum Hruna- og Skaftholtsrétta var hringt og ég beðinn að skila grein í Blaðið. Gamalt loforð um grein aðra hverja viku og á til að lenda í gleymsku svo nú var ekki annað að gera en fá að skjótast inn á tölvu í Hreppunum og hripa þar niður pistil um gildi réttanna í Hreppunum...IMG_7801

Dagurinn endaði svo í frábærri afmælisdagskrá 60 ára afmælis Selfossbæjar í Hótelinu sem rakarinn Kjartan Björnsson stóð að. Áður en það yrði var ég beðinn að eiga tal við mann í beinni útsendingu ríkissjónvarpsins sem hefur kosið að hafa um mig fúkyrði og illyrði. Auðvitað getum við sem erum í stjórnmálum alltaf átt von á dembum ýmiskonar og verðum að taka því en mér er til efs að ég eigi að gera slíkum mönnum þann óleik að mæta þeim í fjölmiðlum. Sjónvörp hafa auðvitað gaman af sensasjónum en samt...

Myndina sem Egill sonur minn tók er frá afmælishófinu en hér er meistari Kjartan að afhenda jafnöldrum Selfossbæjar glaðning. Eins og bærinn bera íbúarnir aldurinn ótrúlega vel og ekkert sem bendir til að þessar konur sem hér sjást séu að komast á sjötugsaldurinn. En svona er nú gott að búa á bökkum Ölfusár!


Reiðilestur Marshallsins og píslarvætti kratanna

Margir hafa haft á orði við mig reiðilestur Róberts Marshalls aðstoðarsamgönguráðherra í sunnudagsmogganum þar sem hann kýs að kalla mig ómarktækan og óvandaðan rudda, fíl, tudda, grjótkastara, naut (sem er reyndar það sama og tuddi Róbert!) og endar palladómana á að halda því fram að ég sé í vandlætingarrússi. robert_marshall

Sé Róbert vini mínum fróun að munnsöfnuði sem þessum þá er honum ekki nema velkomið að skrifa um mig á þessum nótum og birta svo lengi sem íslensk dagblöð telja slík fúkyrði innan velsæmis. En þetta er vitaskuld langt utan þess sem getur talist málefnalegt og algerlega óþarft að hafa slík orð um pólitíska andstæðinga.

Ástæða alls þessa ku vera að ég var ósammála sleggjudómum sem samgönguráðherra kaus að viðhafa um Einar Hermannsson og tel þá byggja á ákveðnum ósannindum um þann mæta mann. Verst er þó að samgönguráðherra skuli hafa látið sér detta í hug að gefa stofnunum sínum pólitísk fyrirmæli um að ekki mætti framar skipta við skipaverkfræðinginn Einar Hermannsson. Það er langt utan þess sem getur talist hlutverk stjórnmálamanna að gefa út slík fyrirmæli enda ekki hægt að flokka þetta undir annað en pólitískar ofsóknir. Morgunblaðið gengur raunar svo langt í fréttaskýringu sinni að segja það aðeins tímaspursmál hvenær Kristján L. Möller biðjist afsökunar á þessum ummælum.

Í einu Reykjavíkurblaðanna var því á dögunum haldið fram að aðförin að Einari Hermannssyni væri runnin undan rifjum Róberts Marshall. Stóryrði aðstoðarráðherrans útaf málinu styður heldur þá kenningu.

Skrýtnast af öllu er píslarvætti þeirra Össuar Skarphéðinssonar, Kristjáns L. Möller og nú Róberts Marshall í Grímseyjarferjumáli sem þeir allir áttu að geta leitt hjá sér. Þess í stað hafa allir þessir skaðað sig pólitískt á máli sem snýst þó ekki um annað en ráðslag Sturlu Böðvarssonar og Árna Mathiessen og þessir þurftu aldrei að skipta sér af. Eini Samfylkingarmaðurinn sem virkilega þarf að láta þetta mál til sín taka er Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar og hann hefur líka gert það mjög faglega og af myndarskap!

PS: Í síðustu viku skrifaði ég pistil um Grímseyjarferjumálið í Morgunblaðið sem ég læt fylgja hér neðanmáls. Tek samt fram að ég tel Morgunblaðið mjög hafa tekið sig á í málinu síðan þetta var skrifað þó svo að leiðarahöfundur þess blaðs reyni í morgun að draga athyglina mjög frá aðalatriði málsins sem er vitaskuld ráðslag fjármálaráðherra:

 

Af Össuri og fjölmiðlum ríkisstjórnarinnar

Grímseyjarferjumálið er merkilegt fyrir tvennt. Annarsvegar þann dæmafáa valdhroka sem málið sjálft endurspeglar og hinsvegar fyrir það hverjir taka nú að sér þann flórmokstur að verja gjörðir Sjálfstæðisflokksráðherranna í málinu. Þeir sem ávirðingum eru bornir hafa að mestu kosið að þegja sem í minni sveit var nú talið jafnast á við samþykki.

Össur Skarphéðinsson hefur nú gengið fram fyrir skjöldu í vörn fyrir vini sína og samstarfsmenn í Sjálfstæðisflokki og heldur því meðal annars fram á heimasíðu sinni að hliðstæða þessa séu svokölluð Byrgismál. Sjálfur sat Össur í fjárlaganefnd á Byrgistímanum og hreyfði þar aldrei þeim andmælum við fjárveitingum til Byrgisins sem honum var þó í lófa lagið. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka voru grunlausir í Byrgismálinu og höfðu raunar enga ástæðu til annars. Þegar upp komst um vafasama meðferð bæði fjár og fólks á því meðferðarheimili þá var það þáverandi félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson sem kallaði tafarlaust eftir skýrslu um málið og lét stöðva greiðslur. En allar greiðslur vegna Byrgisins voru samkvæmt fjárlögum.
Vöntunarákvæði fjármálaráðherra

Grímseyjarferjumálið snýst um hálfs milljarðs króna fjársukk án heimildar í fjárlögum. Ráðslag þetta er gert með sérstöku leyfi fjármálaráðuneytis sem á sér enga hliðstæðu. Það er vissulega ekki einsdæmi að embættismenn geti fært fé milli fjárlagaliða þó slíkt ráðslag sé illa samrýmanlegt lögum. En til að kóróna hina algeru lítilsvirðingu sem ákveðið er að sýna Alþingi í málinu kemur í framhaldinu lokaorð minnisblaðs fjármálaráðuneytisins: “Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.” Hér eru engar skorður settar við hversu miklu fé megi eyða; hið einstaka vöntunarákvæði kveður á um að ef það vanti pening sé ríkissjóður galopinn.
40. grein stjórnarskrárinnar tekur af allan vafa um að fjármálaráðherra hefur ekki undir neinum kringumstæðum heimild til að veita slíkan aðgang að ríkissjóði án samþykkis Alþingis. Um það snýst Grímseyjarferjumálið og þrátt fyrir nokkurt ábyrgðarleysi og samsekt þáverandi samgönguráðherra í málinu er sökin fyrst og síðast hjá fjármálaráðherra. Það er haldlaust að drepa málinu á dreif með umræðu um það hvort rétt ferja eða réttur ráðgjafi hafi verið valin í upphafi líkt og núverandi samgönguráðherra hefur gert með afar ósmekklegum hætti.


Einn flokkur...
Og þó svo að hinn sérlegi talsmaður Sjálfstæðisflokksins í málinu, Össur Skarphéðinsson kjósi að dylgja um að sambærilegar uppákomur séu þekktar í öðrum málum þá er alvarleiki þessa máls hafinn yfir slík vinnubrögð. Ef slík dæmi eru til, hversvegna hafa þau þá ekki verið tilgreind nú mörgum vikum eftir að Grímseyjarferjumálið kom upp? Og hvers fjármálaráðherratíð er Össur að tala um. Það hefur bara einn flokkur haldið um þetta ráðuneyti, allt frá því flokksbróðir Össurar, Ólafur Ragnar Grímsson lét af því embætti árið 1991.
Össur er reyndar ekki einn og það er honum nokkur huggun í vondu hreti. Morgunblaðið hefur tekið að sér að þegja um Grímseyjarferjumálið af meiri ákefð en dæmi eru til. Það er raunalegt fyrir íslenska blaðamannastétt að horfa á hversu mjög Morgunblaðið hallar sér á síðustu misserum að nýju að sínu gamla hlutverki að vera grímulaust flokksmálgagn.


...og allir fjölmiðlar!
Ritstjóri fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson hefur einnig tekið að sér vörn fyrir fyrrum samverkamann sinn, Árna Mathiesen og færir fyrir því einstök rök að menn eigi ekki að tala um þetta mál í leiðara um síðastliðna helgi; það ku nefnilega víðar vera sólundað með opinbert fé!
Það er alveg rétt hjá fjármálaráðherranum fyrrverandi að oft er sólundað með opinbert fé í okkar landi en Grímseyjarferjumálið snýst ekki um það. Þorsteinn Pálsson var fjármálaráðherra fyrir liðlega 20 árum. Af hverju tilgreinir hann ekki að sambærilegt ráðslag hafi þá eða síðar verið haft í fjármálaráðuneytinu eins og gerðist í Grímseyjarferjumálinu? Ástæðan er einföld, - málið á sér ekki hliðstæður.
Málflutningur Þorsteins Pálssonar minnir okkur á að Sjálfstæðisflokkurinn á núna algerlega öll dagblöð landsins. Þeir fjölmiðlar sem ekki eru undir ægivaldi Sjálfstæðisflokks er flestum stjórnað af flokkssystkinum Össurar Skarphéðinssonar. Málflutningur Össurar verður seint til alvöru metið en ægivald ríkisstjórnarflokkanna yfir fjölmiðlum þessa lands er mikið áhyggjuefni fyrir lýðræðið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband