Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Er þá ekkert hægt að gera?
31.3.2008 | 20:35
Í nýlegri úttekt hins ameríska Bloomberg kemur fram að stjórnvöld á Íslandi séu enn aðgerðalaus þrátt fyrir gengishrun og nú fær aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þá einkunn að þykja í meira lagi undarlegt. Viðmælandi fréttamanns Bloomberg, sérfræðingur hjá BNP Paribas SA sem er stærsti banki Frakklands, notar reyndar hugtakið somewhat bizarre" sem ég eftirlæt stjórnarliðum þessa lands að þýða eftir eigin smekk. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um páskana tekur í sama streng og hvarvetna heyrast nú áhyggjur af þyrnirósarsvefni ríkisstjórnarinnar. Svefnmóki sem við Framsóknarmenn höfum í mánuði vakið athygli á.
Öðrum að kenna!
Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru þau ein að efnahagsvandinn sé öðrum að kenna og eiginlega ekkert hægt við honum að gera. Á meðan æðir verðbólgan upp, vaxtasvipa Seðlabankans er þanin til hins ýtrasta og trúverðugleiki íslenskra viðskipta á heimsvísu hangir á bláþræði. Að ekki sé hér talað um hlutafjármarkaðinn.
Það er vissulega rétt sem komið hefur fram hjá bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra að hin alþjóðlega efnahagskreppa sem nú ríður yfir hefur mikil áhrif hér á landi og ef allt væri með felldu á heimsmarkaði hlutabréfa þá væru vandamálin hér heima vel viðráðanleg. En það breytir ekki því að sólarmerki þeirra kreppu sáust fyrir misserum síðan og stjórnvöld gátu gripið til aðgerða strax á síðasta ári en gerðu það ekki og það er þegar farið að valda þjóðarbúinu ómældum fjárhagslegum skaða. Áframhaldandi aðgerðaleysi er þjóðarbúinu háskalegt. Það er ekki rétt sem hinir úrræðalausu ráðherrar segja - að ekkert sé hægt að gera.
Samhljóm við hagstjórn
Það hefur mikið skort á samstöðu innan ríkisstjórnarinnar og víst er að þrálátar upphrópanir um Evrópusambandsaðild hafa ekki verið til að styrja samstarfið. Í reynd er landsstjórnin þríklofin þar sem eru Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Seðlabanki Íslands.
Það er alveg ljóst að við núverandi aðstæður verður ríkisstjórnin að ná samhljómi við Seðlabankann jafnvel þó að það þýði breytingar þar. Það er beinlínis háskalegt að Seðlabanki og ríkisstjórn gangi ekki í takt á viðsjártímum. Þar ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð, einkanlega þegar hér var farið fram með gassaleg og ábyrgðarlaus fjárlög á haustdögum. Þjóðin öll sýpur nú seyðið af þeirri eyðslustefnu sem ný ríkisstjórn ákvað að framfylgja þvert á alla skynsemi en fjárlög hafa ekki hækkað viðlíka milli ára síðan fyrir tíma þjóðarsáttar.
Fjárlögin voru þannig andstæð markmiðum Seðlabanka, andstæð ráðleggingum hagfræðinga og andstæð ráðum stjórnarandstöðu. En þau gengu líka þvert á kosningastefnur stjórnarflokkanna beggja þar sem m.a. var gert ráð fyrir jafnvægi og ábyrg í hagkerfinu til þess að vextir og verðbólga gætu lækkað. Við fjárlagagerðina í desember síðastliðnum varð hver stjórnarliði að fá að leika hinn gjafmilda og ábyrgðarlausa jólasvein og það veldur miklu um hversu erfið staðan er í dag.
Aðgerðir strax!
En talandi um núninginn sem greinilegur er milli ríkisstjórnar og Seðlabanka þá eru vitaskuld á því máli tvær hliðar þar sem viljaleysi til samstarfs hefur löngum virst gagnkvæmt. En einnig þar ber stjórnin ábyrgð. Það er í hennar valdi og verkahring að haga málum þannig innan Seðlabanka að gott samstarf ríki milli aðila. Það er löngu augljóst að stjórnvöld verða að færa verðbólgumarkmiðin nær raunveruleikanum og endurskoða stýrivaxtavopnið en sú stefna að berja gengið upp með vöxtum er háskaleg gagnvart skuldsettum almenningi og ekki farsæl. Þá þarf ríkissjóður að gefa hressilega á garða í sjóði Seðlabanka og saman verða ríkissjóður og Seðlabanki að liðka eftir mætti til fyrir viðskiptabönkunum.
Á sama tíma verða stjórnvöld að gíra verðbólguna niður sem er hægt með lækkun á hverskyns neyslutollum á matvælum, eldsneyti og ýmsum öðrum varningi. Slíkar aðgerðir geta skilað árangri ef um leið er kallað eftir samstöðu og skilningi allra landsmanna. Með aðgerðum sem þessum má verja skuldugan almenning, húsnæðiseigendur og fyrirtækin fyrir verðbólgubáli.
Í landi þar sem önnur hver króna rennur í ríkissjóð er fráleitt að halda því fram að ríkið geti ekki haft áhrif á verðlag. Það er vissulega gott að eiga traustan ríkissjóð en ef allt annað brennur upp í verðbólgubáli er það til lítils. Ríkissjóður er ekki sjálfbær til langframa og verður því aðeins traustur að undirstaða hans sé traust í fyrirtækjum og heimilum landsmanna. Því getur verið meira virði að voga innistæðu ríkissjóðs til þess að halda þjóðarbúinu í viðunandi stöðu.
Það er vond búmennska að svelta búsmalann en safna firningum!
(Birt í Morgunblaðinu 31. mars - nema síðasta setningin sem var af ráðgjöfum talin of forn og tyrfin til að eiga erindi á prent...)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Rabb í ráðleysi eftir eldmessu Davíðs
28.3.2008 | 19:25
Var að koma af aðalfundi Seðlabankans sem var nú aðallega meinleysislegur rabbfundur um ráðleysi. Þar kom ekkert nýtt fram. Seðlabankastjóri hélt þar ágæta og skemmtilega eldmessu þar sem hann undir rós skammaði ríkisstjórnina fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum og sagði m.a.:
Ríkissjóður hefur verið rekinn með bærilegum afgangi og er vel aflögufær og þess vegna er mikill þrýstingur á hann um aukin útgjöld, sem hvorki atvinnuástand né önnur efnahagsleg skilyrði hafa enn sem komið er þó kallað á. Það þarf staðfestu til að standa af sér kröfur um aukin útgjöld, þegar ekki er hægt að segja með trúverðugum hætti að peningarnir séu ekki til, en þá staðfestu verður þó að sýna, því fullyrða má með öruggri vissu, að það verður vaxandi og raunverulegri þörf fyrir peningana innan tíðar og því mikill skaði og fyrirhyggjuleysi, ef menn gleyma sér svo í góðærinu, að þeir eigi ekki nóg til mögru áranna, sem mæta örugglega og það nokkuð stundvíslega.
Það var vitaskuld ekki öfundsverð staða fyrir forsætisráðherra að koma upp og flytja ræðu eftir eldmessu Davíðs enda fór svo að margt í ræðu Geirs var með þeim hætti að betur hefði verið ósagt. Hér skal aðeins drepið á nokkur gullkorn:
"Allt bendir til að lokið sé að sinni mikilli uppsveiflu í íslensku efnahagslífi" - þetta vissi hvert mannsbarn fyrir misseri síðan en ekki Geir því í næstu setningum kom fram sú fullyrðing að samdráttur á heimsvísu hefði verið óþekkt þegar Alþingi samþykkti fjárlög!!! Vorum við þó margir í þingsalnum sem vöruðum þá strax við að vegna heimskreppu þyrfti að gæta varúðar.
"Aðgerðir Seðlabankans síðastliðinn þriðjudag flýta augljóslega fyrir því að krónan leyti nýs jafnvægis," - þetta er svo augljóslega rangt. Gengið er komið í sömu stöðu og það var fyrir þessu síðustu vaxtaskrúfu bankans sem gerir því ekkert annað en að skrúfa upp verðlag eins og allt okur hlýtur að gera.
"Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu." Þessi tími loforða er löngu liðinn og komið að athöfnum. Ef ríkisstjórnin sýndi einhverja tilburði til að gera í stað þess að tala væri ástandið betra. Það er fyrir löngu komin upp alvarleg staða í þjóðarbúinu og óðaverðbólgan er nú á þröskuldinum. Mig minnir að Björn Bjarnason hafi um daginn verið að tala um doers og talkers sem þýða mætti sem framkvæmdamenn og málæðismenn.
Bara það að Geir hefði tilkynnt á fundinum í dag um að ríkið hefði tekið verulegt lán og lagt til bankakerfisins hefði haft þau áhrif að styrkja krónuna,- það veit hvert mannsbarn! "Somewhat bizarre" sagði greiningaraðili Blomberg um athafnaleysi íslenskra stjórnvalda í vikubyrjun og þetta aðgerðaleysi verður bara meira og meira bizarrre eftir því sem á líður - hugtakið er eðlilegast að þýða með orðinu afbrigðilegt,- einhvernveginn mjög afbrigðilegt aðgerðaleysi!
Ríkisstjórnin býr til óðaverðbólgu
27.3.2008 | 12:53
Hækkun á mjólkurdropanum er bara einn dropi af mörgum, raunar hefur bensín hækkað miklu meira og yfirleitt er allt komið á fleygiferð. Óðaverðbólgan nú er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hefur í allan vetur hamrað á því að ekkert skuli gert og ekkert sé hægt að gera. Sem er einfaldlega rangt.
Það er vitaskuld ekki lausn á vandanum að okra á einni vöru - þ.e. peningum. Peningar og lán á þeim er markaðsvara og sú lausn að halda uppi gengi með ofurvöxtum er til lengri tíma litið olía á verðbólgubálið. Mjólkin sem verðlögð er samkvæmt frekar gamaldags verðútreikningakerfi hækkar að hluta til nú vegna hærri vaxta því vitaskuld velta okurvextir út í verðlagið. Það eina sem vextirnir hafa gert gegn verðbólgunni er að halda uppi fölsku gengi og niðurgreiða þannig innflutning á kostnað innlendra atvinnuvega. En það er ekki lausn enda hefur það aldrei verið svo að hægt sé að fela Seðlabankanum einum að stýra hagkerfinu.
Núna þegar áhættufælni verður almenn á hinum alþjóðlega markaði eru engar líkur á að það takist að greiða verðbólguna lengur niður með froðugengi á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Staðan í bönkunum og á fjármálamörkuðum er fyrir löngu orðin grafalvarleg og ekki ósennilegt að enn ein dýfan komi fyrir helgi!
Hin alþjóðlega fjármálakreppa var þekkt þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð og stjórnin hefur nú haft mánuði til að bregðast við en ekkert gert. Við Framsóknarmenn höfum boðið stjórnvöldum að vinna að þjóðarátaki gegn hinni válegri stöðu en ekki uppskorið annað en hroka og sjálfumgleði stjórnarliða. Þar fer saman sinnuleysi og valdþreyta. Í samfélaginu ríkir sambland af svartsýni og sjóræningjaeðli þar sem allir reyna að græða eins og nú séu seinustu forvöð...
Það sem þarf að gera er einhvernveginn á þessum nótum - og auðvitað þarf að útfæra þetta allt:
- nota sterka stöðu ríkissjóðs til að dæla gjaldeyri inn í bankana í gegnum Seðlabanka
- taka lækkun gengis sem óumflýjanlegum hlut enda annað tóm blekking
- lækka alla neysluskatta (vsk, olíugjöld, jafnhliða því sem unnið er að þjóðarsátt um verðstöðvun þrátt fyrir gengissig.
- ná samstöðu með launþegum, atvinnulífi og allri þjóðinni um að við sameiginlega verjum þjóðarbúið fyrir áföllum með því að allir herði sultarólina.
- LÆKKUN VAXTA verður að vera einn þáttur í þessari þjóðarsátt enda eykur það möguleika á verðstöðvun og léttir byrðar allra í samfélaginu...
Mjólkurlítrinn í 100 krónur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Evrópustefna Framsóknarflokksins
20.3.2008 | 14:34
Nýleg skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins um afstöðu landsmanna til inngöngu í Evrópusambandið staðfestir það sem áður hefur komið fram í könnunum að andstaða við aðild er hlutfallslega meiri í Framsóknarflokki en nokkrum öðrum stjórnmálaflokki. Og staðfestir líka að fylgið við ESB aðild er ekki að breytast svo nokkru nemi, hvorki meðal Framsóknarmanna né annarra landsmanna.
Sé Framsóknarflokkurinn klofinn vegna þessa máls eru aðrir flokkar það ekki síður. Þannig er andstaða við aðild innan Samfylkingar litlu minni en fylgi við aðild innan Framsóknarflokks. Eini flokkurinn sem kemur nú og fyrr einkennilega út í könnunum um þetta mikilsverða mál er Sjálfstæðisflokkurinn því þar er meira en helmingur flokksmanna fylgjandi aðild að ESB meðan forystan talar einum rómi gegn aðild. Sá málflutningur segir meira en mörg orð um lýðræðislega umfjöllun í þeim stjórnmálaflokki.
Er uppgjör framundan
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur flokkur og umburðarlyndur. Þannig er innan flokksins rúm fyrir fleiri en eina skoðun í þessu máli og flokksmenn takast þar almennt á í bróðerni og án heiftar um ESB mál sem önnur. Jafnt á fundum sem og með tölvupósti og ekkert athugavert við það. Þegar reynt er að skipa mönnum innan flokksins í fylkingar þá riðlast það eftir málefnum. Þannig hafa sá sem hér skrifar og varaformaður flokksins talað einum rómi í ýmsum umdeildum málum eins og kvótamálum og þjóðlendumálum. En við sjáum Evrópumálin vissulega ekki sömu augum.
Nú ber svo við að Egill vinur minn Helgason og fleiri stjórnmálaskýrendur þessa lands telja að skammt sé að bíða uppgjörs innan Framsóknarflokksins um Evrópustefnu. Það er rétt að ef sitjandi ríkisstjórn ákveður að hefja aðildarviðræður hefst mikið uppgjörstímabil innan allra stjórnmálaflokkanna. Jafnvel í Samfylkingu eru menn sem munu ókyrrast í slíkri stöðu eða að minnsta kosti ekki fylgja forystunni í þessu einstaka máli. En í þeim efnum verður staða Framsóknarflokksins síst erfiðari en annarra. Stefna flokksins frá síðasta flokksþingi rúmar báða hópa en er skýr að því leyti að við teljum Ísland ekki á leið í ESB að sinni.
Alþjóðahyggjan mikilvæg
Það kann vel að vera að allir flokkarnir verði að skerpa á sínum Evrópustefnum á næstu misserum. Mín tilfinning er að átökin í þessu máli verði Sjálfstæðisflokki erfiðust og margendurtekin orð Björns Bjarnasonar styðja það. Mögulegt er að hluti af flokksforystu Sjálfstæðisflokksins muni á þessu eða næsta kjörtímabili halla sér að aðildarumsókn. Flokkur Vinstri grænna er hluti af alþjóðlegu andófi gegn alþjóðavæðingu viðskipta og hann mun hér eftir sem hingað til leiða þá sem vilja standa utan Evrópusambandsins á forsendum einangrunar.
Hlutverk Framsóknarflokksins í hinni pólitísku mun væntanlega taka mið af þjóðhyggjunni og verður þá eins og nú að standa vörð um fullveldi landsins samhliða því að vinna að aukinni alþjóðavæðingu og opnun viðskiptalífsins. Gríðarleg tækifæri bíða Íslands í viðskiptum við rísandi efnahagsveldi í Asíu og víðar. Við stefnumótun flokka er mikilvægast að þeir fari í takt við vilja meginþorra sinna kjósenda og í takt við þær meginlínur sem liggja í hugmyndafræði flokksins til lengri tíma litið.
Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið flokkur einangrunarstefnu hvorki í utanríkismálum né viðskiptum. En hann er jafnframt sá flokkur íslenskur sem hefur sterkastar rætur í fullveldisbaráttu þjóðarinnar og hugsjónum hins unga lýðveldis. Menn geta svo deilt um hvernig þær meginlínur flokksins ríma við afstöðuna í ESB málum. Við Framsóknarmenn höfum um það skiptar skoðanir og mikilvægt að við berum virðingu hvort fyrir öðru. Í mínum huga ríma ESB - aðild og Framsókn illa saman og fátt er betur fallið til einangrunar nú um stundir en að lokast inni í þröngum skrifræðisskápum Brusselveldisins.
Það er allavega ekki frjálslynd stefna.
(Birt í Mbl. á skírdag sem heitir reyndar græni fimmtudagurinn á þýsku og er því örugglega mikill framsóknardagur... gleðilega páska!)
Svarfdælir á góu og brunnar skræður...
17.3.2008 | 21:14
Ef frá er talið að áðan brann til skemmda hamsatólgin mín svo saltfiskurinn var með sméri,- já að þessu frátöldu er lífið gott. Ekki að neinn skuli gera lítið úr því að ég hafi misst af mínum skræðum og það þegar mér hafði nýlega áskotnast hangiflot sem ég henti ofan á skræðurnar og vissi að þær yrðu enn gómsætari. En þær enduðu semsagt í allar í lífræna haugnum hér í garðshorninu og verða þannig Sólbakkamaðkinum einum til gleði. Lífið er stundum óréttlátt þó maðkarnir séu góðs maklegir...
Hitt tel ég eiginlega ekki til ótíðinda að vera með slæmsku og hafa sofið að mestu í dag því sumpart er þetta kærkomið frí. Eiginlega þarf eitthvað í þá áttina til þess að ég hvíli mig almennilega og ég naut þess út í æsar að hafa smá hitavellu með reifara og miklum svefni. Byrjaði reyndar daginn á að keyra suður í morgunútvarp Bylgjunnar þar sem við sátum saman Kristján Þór Júlíusson og tókumst hressilega á. Kristján er með skemmtilegri mönnum þingsins en líka hvass andstæðingur eins og ég hef áður rifjað hér upp fyrr. Og svo ræddum hans heimasveit Svarfaðardal sem ég var svo lánsamur að heimsækja um helgina. Frændi minn Hjörleifur á Laugasteini fékk mig til að mæta þar í málþing um héraðsfréttablöð en um þessar mundir er blað þeirra Svarfdæla 30 ára.
Aldrei þessu vant dróst þingmannsfrúin á að líta upp úr tónsmíðunum og kom með mér svo við áttum þar nyrðra skemmtilega helgi saman. Fórum á Svarfdælskan mars á Húsabakka þar sem ég dansaði eða reyndi að minnsta kosti að dansa en fótamennt öll er mér frekar framandi. Kvefpestin gerði svo að verkum að mig svimaði meira og minna þannig að ekki var þetta þrautalaust!
Hápunktur ferðalagsins var samt að koma í morgunkaffi hjá þeirru mætu konu Sigríði Hafstað á Tjörn. Einhverntíma spaugaði ég með frændsemi okkar Hjörleifs og nú var komið að skuldadögum þeirrar ættrakningar þegar ég hitti þessa gömlu konu. Hún og faðir minn eru þremenningar frá skagfirskum ævintýramanni sem ég segi svo frá á góðum degi að hafi meðal annars smíðað Nýju Jórvík vestra og verið fljótur að. Ekki hefur nú samband við þennan ættlegg ekki verið mikið en þó þekkti faðir minn Ingibjörgu ömmu Sigríðar vel og hún sömuleiðis afa hans, Benedikt frá Keldudal. Ég læknast seint af þeirri bakteríu að hafa gaman af ættrakningum og örlagasögum af fólki, bæði mínu fólki og annarra.
Og hér fékk ég Sigríði gömlu til að segja mér hina rómantísku sögu ömmu sinnar sem ung og gjafvaxta vakti upp draum hjá jafnaldra sínum á bænum Vatnsskarði í Skagafirði. Þar lenti hún sem unglingur þegar móðir hennar, snikkarakona í Reykjavík, dó um aldur fram árið 1885. 1889 heldur faðir hennar til Vesturheims og tekur barnið Sigurbjörn með sér. Þeir feðgar héldu þó ekki til Kanada eins og flestir heldur hafnaði karl í smíðavinnu í New York, enda snikkari sem var þá hið virðulega starfsheiti trésmiða. Þangað kominn gerir hann boð fyrir börn sín nyrðra og sendir þeim farareyri. Benedikt langafi minn sem var elstur þeirra systkina var þá í vinnumennsku í firðinum og mun hafa aftekið að fara en Ingibjörg sem var komin í vist á Króknum reiknaði með að hlýða boði föður síns. Á tilteknum degi kemur agentaskipið inn á fjörðinn og er þá búið að safna vesturförum víðsvegar um landið.
En rétt á eftir skipinu kemur hafís inn Skagafjörðinn og það verður innlyksa þar í tvær örlagaríkar vikur. Bóndasonurinn ungi fréttir af fyrirætlunum vinkonu sinnar rétt um það leyti að ísinn er að losna af firðinum og ríður í hendingu norður á Krók. Með tvo til reiðar og kvensöðul á öðrum. Má þá ekki tæpara standa að hann nái Ingibjörgu áður en hún stígur ferðbúin á Vesturfaraskipið. Rómantískara upphaf er varla hægt að hugsa sér. Þau giftust skömmu síðar og urðu mektarbændur á Geirmundarstöðum. Halldór vesturfari kom skömmu eftir aldamót heim aftur og settist í hornið hjá þessum ungu hjónum og dó þar árið 1919.
Um soninn Sigurbjörn sem fór með honum vestur var aldrei talað!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2008 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Leifsstöð, löggæslan og landamærin - já og súrálsskál Þórunnar!
17.3.2008 | 16:51
Á undanförnum misserum hefur náðst einstæður og mikilvægur árangur í fíkniefnaleit á komufarþegum í Leifsstöð. Embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli hefur líka náð mjög góðum tökum á rekstri embættisins á mörgum sviðum ef marka má skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þrátt fyrir þetta allt og þrátt fyrir mikla fjölgun bæði íbúa á Suðurnesjum og aukna umferð um Leifsstöð ber nú svo við að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum er gert að skera niður um liðlega 200 milljónir króna.
Embætti þetta hefur alla löggæslu á Suðurnesjum á hendi, alla tollskoðun í Leifsstöð, landamæraeftirlit og öryggisþjónustu í Leifsstöð.
Stórhættulegt ástand
Ef ekkert verður að gert getur það þýtt:
- - að bið í hliðum bæði inn í landið og út úr því lengist um fleiri klukkutíma
- - að brottafararfarþegar sem ætla út klukkan 8 að morgni þurfi að mæta um klukkan þrjú að nóttu í Leifsstöð.
- - að lögreglubílarnir sem eiga að vera 6 á götum Suðurnesja verði aðeins tveir í notkun vegna manneklu. Gárungar syðra tala um að þróa þurfi upp fjarstýringu í lögreglubílana.
- - að þjónusta við hraðflutningafyrirtæki sem nýlega hafa komið sér fyrir á gamla hersvæðinu flytji aftur til Reykjavíkur vegna þess að embættið syðra geti hreinlega ekki þjónustað þau sómasamlega.
- - að ólöglegur innflutningur á tollskyldum varningi getur aukist svo nemi milljarða veltu og hefur áhrif bæði á verslun í landinu og hag ríkissjóðs.
- - að aukin hætta verði á innflutningi dýrasjúkdóma.
Og þetta eru mjúku hliðar málsins. Þær hörðu og grafalvarlegu snúa að bættri vinnuaðstöðu alþjóðlegra glæpahringa:
- - að stórfelld aukning á innflutningur getur orðið á fíkniefnum inn í landið bæði með fólki og almennum sendingum.
- - að hættan á að stóraukin hætta er á að eftirlýstir glæpamenn og menn með langan sakaferil fari óáreittir inn í landið.
Það mætti halda hér áfram og minna á hryðjuverkaógnina og margskonar aðra vá. Aðalatriðið er þó að dómsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti komi strax að lausn málsins. Fundur sem haldinn var um málið síðastliðinn mánudag gaf því miður ekki fyrirheit um lausn þess heldur voru skilaboð hans frekar í þá átt að skorið skyldi niður.
Þegar lögreglan á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt voru gefin fyrirheit um að heimamenn fengju löggæslu eflda. Staðreyndin er að löggæslumönnum á svæðinu hefur fækkað stórlega þrátt fyrir aukin umsvif.
Á fjölmennum fundi í Duushúsi í vikunni bundu menn vonir við að dómsmálaráðherra muni leysa aðsteðjandi vandamál á Suðurnesjum. Undirritaður vakti athygli á vandanum á Alþingi í vikunni og fékk þar þau svör frá samgönguráðherra sem hefur með Leifsstöð að gera að hann væri bjartsýnn á lausn málsins. Það sem blasir við er samt að vandamálið hefur verið uppi í ráðuneytunum um margra mánaða skeið en nú eru aðeins nokkrar vikur til stefnu. Tími orðagjálfurs er liðinn.
Súrálsins nú sýpur skál
Í orðagjálfri er nóg að umhverfisráðherra sendir heimamönnum tóninn vegna framkvæmda við Helguvíkurálver og telur sig greinilega geta verið í senn í stjórn og stjórnarandstöðu.
Göngukonur af Suðurnesjum segja mér að á miðri Strandarheiði standi nú beinakerling og út úr nára hennar hvalbein mikið. Gæti verið af nýhafinni hvalveiði og er á beinið krotað:
Týnd er æra, töpuð sál
tignarstorð skal blóta
súrálsins nú sýpur skál
Sveinbjörnsdóttir Tóta.
Vísan er heldur torræðari og fráleitt eins vel gerð og sú sem hér er stæld*) og fjallaði um breyskan sýslumann sem gerði dæmdri hórkonu barn. Það var stórpólitík og sáluhjálparmál þess tíma - nú eru það álver. Til orðskýringar skal þess getið að tignarstorð merkir hér um það bil það sama og fagra Ísland en algengt var að fornkonungar færðu fórnir á blótum, oft til árgæsku og valda.
________________________
Upphaflega var vísan svona:
*) Týnd er æra, töpuð sál,
tunglið veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wíum.
(Höfundur talinn Sveinn lögmaður Sölvason sem deyði 1782)
Svissneski frankinn er möguleg leið
12.3.2008 | 21:17
Þorvaldur Gylfason fer mikinn í umfjöllun um bankakreppuna og gjaldmiðilsmál í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum. Þar eru grafalvarleg vandamál fjármálamarkaðarins í landinu afgreidd sem hrapaleg mistök eigenda, stjórnmálamenn sem óábyrgir kjánar og hugmyndir um annan gjaldmiðil en evru eða krónu sem óábyrgar furðuhugmyndir. Vandamálin eru semsagt heimska mannanna og hana þarf svo sem ekki að ræða.
Greinin er reyndar mjög dæmigerð fyrir þennan greinda fræðimann sem oft á athyglisverð innskot í þjóðmálaumræðuna en er samt oftar en ekki of bölsýnn og neikvæður til þess að hitta í mark. Þannig hefur Þorvaldur lengi talið allt vera hér á niðurleið, einkum vegna þess sem hann kallar mosavaxna andstöðu manna við að ganga í ESB. Hér ætti fyrir löngu allt að vera komið á vonarvöl miðað við Evrópu ef Þorvaldur hefði í áranna rás haft rétt fyrir sér.
Vindgangur vanmetakenndar
Það vakti athygli mína að Þorvaldur afgreiðir hugmyndir um upptöku á svissneskum franka sem óraunsæja tillögu manna með lélegt hagskyn. Þar fer ekkert fyrir rökum öðrum en þeim að þessa leið hafi aðrar Skandinavaþjóðir ekki hugleitt. Síðar segir Þorvaldur að upptaka myntar af öðru svæði sé leið utangarðsþjóða eins og Svartfellinga. Sjálfur hef ég notið gestrisni Svartfellinga þegar ég var þar við kosningaeftirlit fyrir nokkrum árum og tel þá eiga betri einkunn skilið en að vera utangarðsmenn. Það er enda svolítið skoplegt ef að Evrópusambandssinnar geta ekki talað um íslenskt efnahagslíf öðru vísi en að bera okkur saman við milljónaþjóðir. Þá er von vindgangs.
Líklega er Lichtenhstein líka einhverskonar óvirðuleg utangarðsþjóð en íbúafjöldi þar er tíundi hluti þess sem hér er og þeir nota Svissneskan franka með formlegu myntbandalagi við Sviss frá 1980. Og Lictenstein er aðili að EES eins og við.
Að vera smáþjóð
Við Íslendingar hljótum og eigum að bera kjör okkar saman við það besta og hefur þar orðið vel ágengt, þökk sé fullveldi landsins og farsælli stjórn. En það eru alvarlegar ranghugmyndir þegar menn bera heildarafl og möguleika hagkerfis hjá þrjú hundruð þúsund manna þjóð saman við það sem er hjá milljóna þjóðum. Meira að segja hin Norðurlöndin eru of stórar hagfræðieiningar til þess að við getum mælt okkur við þær. Þar með eigum við ekki að hafa minnimáttarkennd yfir smæðinni,- en við þurfum að taka mið af henni.
Frá 1997 hefur verið gerð sérstök og djörf tilraun til að láta gjaldmiðil okkar litla hagkerfis fljóta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það eru engin dæmi um svo lítinn gjaldmiðil í þeim ólgusjó, ekki í allri veraldarsögunni. Og það fer ekki milli mála að í þessu er fólgin mikil áhætta og einnig kostnaðarauki fyrir fólk og fyrirtæki. Afleiðingin er að hér er nú hafin óformleg og stjórnlaus upptaka annarra gjaldmiðla á svig við ákvarðanir stjórnvalda. Þegar við bætist að íslenski Seðlabankinn er vegna smæðar sinnar tæplega fær um að veita íslensku viðskiptabönkunum eðlilega starfstryggingu í ólgusjó alþjóðaviðskipta er það skylda stjórnvalda að láta málið til sín taka.
Erum í tilraunastarfi
Ein þeirra leiða sem þar ber að skoða er að stjórnvöld leggi formlega blessun sína yfir upptöku erlendra mynta í fjölmyntarsamfélagi. Önnur er upptaka annarrar myntar. Hvorutveggja eru tilraunir en við erum líka í tilraunastarfi í dag og höfum verið frá 1997. Það breytir engu þó að milljónaþjóðir í nágrenni við okkur hafi ekki hugleitt þessar sömu leiðir. Þær hafa heldur ekki þurft að gera tilraun með fljótandi örmynt. Smæðin skapar Íslandi margháttaða sérstöðu en einnig að við þurfum í mörgu að fara aðrar leiðir en hinar fjölmennari þjóðir.
Þeir sem telja sjálfsagt að bera myntkerfi íslensku krónunnar og hagkerfið okkar saman við það þýska eða breska en er síðan gróflega misboðið þegar minnst er á Lictenstein eða Svartfjallaland,- þeir skulda okkur rökstuðning sem byggir á öðru en því að þá langi til að vera hluti af milljónaþjóð. Sjálfur er ég hæstánægður með að tilheyra smáríki og skora á Þorvald Gylfason að vera það líka.
(Birt í Fréttablaðinu 12. mars 2008 - myndin er frá Lictenstein)
Af kærkomnu bréfi, ESB og heimatúni ömmu minnar...
11.3.2008 | 15:53
Og skyldi Anna nú hafa gengið úr flokknum vegna þess að við Guðni Ágústsson séum að fara með hann upp í sveit, útaf því að við séum svo vondir við alla í Reykjavík og alla sem hafa aðrar skoðun en við á Evrópumálum. Nei ekki aldeilis. Anna gekk einfaldlega úr flokknum vegna óánægju með vinnubrögð fólks sem nú leggur til atlögu í flokksstarfinu gegn Guðna og gegn mér. Það var það sem hún var að segja mér með þessu bréfi sem hún sendi og skrifar undir fyrirsögninni Friðarhreyfingin farin af stað. Já það er best ég birti hér bréfið:
Friðardúfur Framsóknar
10.3.2008
Sæll,
Hef beðið undanfarna daga hvar menn beri næst niður í árásum innan flokksins. Hafði heyrt af því að nú myndi næsta orrusta um yfirráðin hefjast.
Síðan kom fyrsta bloggið, frá þeim sem allt veit og kann, og nú var höggið í átt að Guðna, hans stefna, og þá þín í evrópumálunum, er ástæða fylgishrunsins.
Síðan koma fylgissveinarnir, hver af öðrum, halda áfram að berja járnið.
Skilaboðin skulu komast til flokksmanna með góðu eða illu. Þið eru holdgerfingar þess sem er að drepa flokkinn.
Síðan er lekið um fund þeirra ungu og upprennandi af orðinu á götunni.Friðardúfur sveima yfir og allt um kring. Nú skal upphefja ný vinnubrögð á milli allra fylkinga.
Og svo.... halda menn áfram að berja á andstæðingum evrópuaðildar. Út skulu þeir með góðu eða illu.
Fyrr en varir kemur krafan um flokksþing, nú þarf að ræða málefni flokksins og skoðanir flokksmanna til evrópumála. Þá stíga nýjir forystumenn fram, með nýja og ferska strauma. Nú þarf að kjósa nýtt fólk, fá ferska vinda til að ná flokknum upp úr öldudalnum.
Mér evrópusinnanum verður hálf illt af svona vinnubrögðum, hér einu sinni máttu menn hafa sínar skoðanir á málefnum án þess að á þá væri ráðist.
Miðjuflokkur án öfga með pláss fyrir allar skoðanir...
Þetta er bréfið. Og það auðvitað margt til í þessu og rétt að því er nú skrökvað að ungliðafundurinn um helgina hafi verið fundur Evrópusinnan innan Framsóknar. Sem hann alls ekki var - þar voru einfaldlega menn beggja helminga. En það sannaðist þar sem endranær hið fornkveðna að það er gikkur í hverri veiðistöð. Gæfan er sú að hampa gikknum ekki og að fólk vinni saman án þess að vera með persónuleg spjótalög og rógburð. Ég hefi á undanförnum vikum fengið yfir mig hverja dembuna af annarri frá mönnum sem telja sig Framsóknarmenn og ég stilli mig um að svara þeim. Mest er þetta á bloggsíðum og ég ætla ekki að gera þeim mönnum þann greiða að vísa hér í þær færslur og ekki að svara þeim sérstaklega eða nafngreina þessa menn. En fæst ef nokkuð af þessu hefur verið málefnalegt. Það er einfaldlega notuð sú aðferð að nefna nafn mitt og segja - það er Bjarna að kenna að fólk í Reykjavík vill ekki styðja Framsóknarflokkinn. Engin rök, engin málefni. Stundum tæpt á Evrópumálum eins og það sé goðgá að þingmaður hafi þar sömu skoðun og mikill meirihluti kjósenda flokksins. Ég veit að þetta er rangt en auðvitað þreytir þetta blaður. Það er reyndar mjög fráleitt og langsótt að telja mig andstæðing byggðar hér við Faxaflóa því bæði átti ég hér heima um árabil og rek ættir mínar langt aftur hér á höfuðborgarsvæðið. Hér í miðbæ Reykjavíkur bjuggu bæði afi minn og amma!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ríkisútvarpið setur niður...
9.3.2008 | 23:39
Í landinu eru reknar nokkrir þeir ljósvakamiðlar sem hafa trúboð sem yfirlýst markmið, heita Omega og eitthvað annað. Hefi stundum dottið inn á að hlusta á brot af þessu og ef þar er verið að lesa beint úr Gamla Testamentinu getur það verið ágæt hvíld frá síbyljunni í plötusnúðastöðvunum. En því er ég að tala um þetta að Ríkisútvarpið hefur fram til þessa staðið upp úr meðal fjölmiðla í landinu en setti óneitanlega niður um helgina.
Fyrst var Hallgrímur vinur minn Thorsteinsson með þáttinn í Vikulokin á laugardegi sem hann helgaði sérstaklega umræðu um ESB og fékk eingöngu til þeirrar umræðu þrjá gallharða fylgismenn inngöngu í ESB. Síðan tók Egill Helgason (sem hefur fram undir þetta verið einn okkar besti sjónvarpsmaður) við á sunnudegi og hélt úti Silfri sem einnig var helgað sama umfjöllunarefni og eiginlega bara ESB sinnum hleypt að borðinu. Fyrir vikið voru báðir þættirnir leiðinlegir og staglkenndir. En aðallega er það raunalegt að sjá annars góða fréttamenn verða svo helteknir af trú sinni að þeir gera hið virðulega útvarp allra landsmanna að trúboðsstöð og virða ekki lengur grundvallarreglur pólitískrar umræðu. Þátttaka þeirra beggja, Egils og Hallgríms, var líka í þessum þáttum með þeim hætti að skoðanir þeirra sjálfra fóru varla milli mála. Það er ekki viðeigandi.
Nema þá að ætlunin sé að næsta helgi verði helguð þeim stjórnmálamönnum sem helst tala gegn ESB aðild en þá er þetta uppskrift að skemmtilegum umræðum. Vonlítið reyndar að það standi til að hleypa nokkrum trúvillingum að því Hallgrímur Thorsteinsson gengur svo langt að halda því fram í umræðu um val þátttakenda í þætti sínum að það endurspegli vilja þjóðarinnar sem er alls ekki rétt og ég læt vini mínum Andrési Magnússyni eftir að hrekja þær fullyrðingar. Þetta minnir mig helst á vin minn einn og flokksbróður sem hélt því fram í blöðum um helgina þvert ofan í allar Galluptölur að stór hluti Framsóknarmanna séu hlynntir aðild að Evrópusambandinu. Það má svo sannarlega segja um málflutning þessara manna að trú þeirra flytur fjöll...
Umræðan í Silfursþættinum var á köflum yfirgengileg. Að heyra menn éta það hver upp eftir öðrum að Evrópusambandið myndi drífa í að leggja fyrirtaksvegi um allt dreifbýli á Íslandi ef það kæmist til valda er svo barnalegt að það nær eiginlega ekki máli. Best gæti ég líka trúað að hér yrði betra veður! Staðreyndin er að það eru innan ESB talsverðar og raunar eðlilegar skorður við því að styðja jaðarbyggðir þar sem íbúarnir aka um á milljónajeppum. Og í öðru lagi eru vegir í dreifbýli á Íslandi tiltölulega góðir miðað við það sem víða gerist víða í Evrópu þar sem endalausir stórhættulegir einbreiðir malbikaðir vegir hlykkjast víða um blindhæðir í dreifbýli - og það í héruðum þar sem umferð er þó álíka mikil og á Hellisheiðinni þeirri syðri hér heima. Þetta vita allir sem keyrt hafa í spænskum og frönskum sveitum. Og ekki eru þeir skárri í Austur Evrópu.
(Myndin hér að ofan er af tákni Evrópusamtakanna sem bæði hafa að baráttumarkmiði að Ísland gangi í ESB og að ESB þróist yfir í að verða sambandsríki,- þ.e. að Ísland verði hérað í Evrópu. Jú bara nokkuð snoturt merki og kemur boðskap innlimunarinnar vel á framfæri.)
Af föngum og fátæklingum
9.3.2008 | 01:35
Var við opnun á frábærri myndlistarsýningu í Listasafni Árnesinga í dag. Þar sýna listakonurnar Borghildur Óskarsdóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir verk sem eiga svo sannarlega erindi við samtíma okkar og ekki síst okkur Árnesinga.
Sigríður sýnir okkur teikningar af föngum á Litla Hrauni í sýningu sem ber heitið Guð sér um vini mína, ég sé um óvini mína. Vægast sagt áhrifamikil sýning þar sem listamanninum tekst að draga fram nálægð heims sem er okkur framandi en samt nærri. Myndirnar eru flestar dúkristur unnar með indígó lit sem gefa þeim sem hér párar blúsað og tregafullt yfirbragð.
Sýning Borghildar Óskarsdóttur, Opna, er óvanaleg og heillandi. Hún segir hér fjölskyldusögu föður síns en afi Borghildar og amma voru flutt hreppaflutningum af Álftanesi austur í Gaulverjabæjarhrepp á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og börn þeirra boðin niður til fátækraframfærslu. Hér birtist harðneskja fátæktarinnar í sögum sem ekki eru aldargamlar.
Borghildur segir þessa sögu af nákvæmni en samt með afar sérstæðum hætti þar sem saman spila viðtalsbútar við föður hennar og föðursystkini, ljósmyndir og dagbókarmyndir úr lífi listamannsins. Sýningarstjóri er Hjálmar Sveinsson sem kynnti sýningarnar sem saman bera nafnið Er okkar vænst - leynilegt stefnumót í landslagi. Já og ekki má gleyma því að Ásgerður Júníusdóttir sem er líkt og Borghildur ættuð úr Flóanum, söng...
Annars var dagurinn tíðindalítill og ljúfur sem var líka gott eftir ærið annasama viku...