Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Á móti ESB hvað sem tautar eða raular...
13.3.2009 | 16:56
Setningin hér að ofan er úr síðustu kommentasúpu og frá lesanda sem hefur fyrir satt það sem fulltrúi Vinstri grænna lét um okkur falla í Kastljósviðtali um daginn og er hreinasta vitleysa. Álíka mikil vitleysa eins og að það ríki eitthvert einræði hjá okkur við val á framboðslistum.
Þingmenn eiga ekki að vera bundnir neinu öðru en sannfæringu sinni en í dag eru þeir múlbundnir af flokksapparötum. Við bjóðum okkur fram án þess að bakvið okkur sé flokkur sem geti síðan ráðskast með okkur.
Við höfum tekið okkur saman um þetta form hópur ESB andstæðinga og þar með eiga kjósendur lýðræðislegan kost á að krossa við kost á kjörseðlinum sem þeir vita hvar stendur í þessu stóra máli. Þetta er eini valkostur ESB andstæðinga í kosningunum í ár því ekki er Bjarni Ben. það og varla Kata Jak.
Og já, það er rétt að við verðum bundnir af því sem við lofum. Sjálfur lofa ég kjósendum því að ég mun aldrei samþykkja inngöngu í Íslands í ESB eins og það fyrirbæri er í dag. En ef ESB væri breytt úr stórríki í það að vera bara fríverslunarbandalag og án þeirrar pólitísku þvingunar og valdaafsals sem fylgir því í dag, - þá teldi ég mér ekki bara heimilt heldur skylt að endurmeta afstöðu mína. Ég mun í því fylgja sannfæringu minni því það er enginn frjáls sem gerir það ekki. (Og ég er eins og velflestir ESB andstæðingar hér á landi afar elskur að Evrópu, rétt eins og andkommúnistar höfðu margir dálæti á Rússum í den.)
Hvað sem tautar og raular er afskaplega skemmtilegt orðatiltæki en það á illa við í þessu tilviki.
L - listinn kominn á kortið
12.3.2009 | 23:47
Sígandi lukka er best og ég er ánægður með að L - listinn er kominn á blað með um það bil það fylgi sem þarf bakvið einn þingmann. Og það í könnun sem verður til áður en við tilkynnum um nokkra lista. Nú er að sjá hvað setur í næstu könnunum og hvort fylgið potast ekki upp.
Svo má ekki gleyma því að óráðnir kjósendur eru fleiri nú en nokkru sinni og það er hefð fyrir að ný framboð mælast verr í könnunum en í kosningum.
Semsagt - full ástæða til bjartsýni.
Af hverju á að hafna ESB fyrirfram?
12.3.2009 | 12:36
Er ekki rétt að leyfa fólki að kjósa? Er ekki rétt að sækja um ESB og sjá hvað við fáum út úr því? Við vitum það ekkert í dag! Við verðum að sjá hvað þeir hafa að bjóða, mennirnir!
Fullyrðingar sem þessar dynja á daglega, á netinu, blogginu og í heitu pottunum og þetta er það hættulegasta í ESB áróðrinum. Tökum þær eina af annarri og ég ætla að byrja á þessari:
Er ekki rétt að leyfa fólki að kjósa? Svarið er mjög róttækt því það er í mínum huga nei. Ef að fólk krefst þess að fá að kjósa yfir sig afnám lýðræðis þá leiðir það hið sama yfir afkomendur sína, óborin börn og barnabörn. Í dag höfum við þau réttindi að geta kosið yfir okkur valdhafa og af okkur og þessir valdhafa hafa fullt vald yfir lagasetningu og framkvæmdavaldi. Við getum valið góða fulltrúa og vonda, vitra og heimska, allt eftir því hvernig vindarnir blása, en engir af þessum hafa réttindi til að ráðskast með okkur lengur en fjögur ár og engir þeirra geta flutt þetta vald fyrirvaralaust í hendur fjarlægra embættismanna, einræðislegra skriffinnskubákna eða yfir á þingsamkomur þar sem Íslendingar hafa minni áhrif en Grímseyingar í dag við stjórnun Íslands. Það að leyfa 51% þjóðarinnar að kjósa af okkur lýðveldið og þar með um leið lýðræðið er ekki lýðræðislegt heldur andstætt lýðræði.
Það er ekki bara af hégóma sem fullveldið er varðveitt í stjórnarskrá - heldur vegna þess að menn vissu og vita að það eru til réttindi sem þarf að verja gagnvart skyndilegum hugdettum sem taka það frá okkur sem ekki er aftur tekið.
En verðum við ekki að sjá hvað kemur út samningum áður en við sláum svona bara fram, hvaða öfgar eru þetta??? Það liggur algerlega fyrir hvað kæmi út úr aðildarumsókn Íslands og lönd semja ekki um aðild, þau einfaldlega eru tekin inn á þeim skilyrðum sem ESB ákveður og er hægt að lesa um í dag. Ég skil aftur á móti ósköp vel að venjulegt fólk leggi ekki á sig þau leiðindi að lesa Rómarsáttmálann, Lissabonstjórnarskrána og önnur býsn sem þetta ólýðræðislega bákn dembir yfir okkur.
En það er mikill misskilningur að þessi mynd verði skýrari eftir við höfum sótt um aðild eða eftir að svokallaður aðildarsamningur er lagður fyrir kjósendur. Þeir pappírar verða eins og allir ESB pappírar tröllauknir, óskiljanlegir og margræðir þannig að áfram verða einhverjir sem halda að innan í stafahrúgunni óskiljanlegu þar sé sjálft himnaríki. Rétt eins og sömu menn hafa haldið því fram sýknt og heilagt að EES samningurinn hafi skilað Íslandi framförum á undanförnum árum. Og ef spurt er hvaða framförum, hvað er svona gott í þeim samningi (sem enginn hefur lesið) verður yfirleitt fátt um svör.
Í ESB málinu gildir spakmæli frá löngu gengnum Palestínumanni:
Já þitt skal vera já og nei þitt skal vera nei og ekkert þar í millum.
Höfðu Bretar rétt fyrir sér?
12.3.2009 | 00:06
Bretar beittu íslenska þjóð miklu harðræði með því að setja hryðjuverkalög á ríkið allt og öll íslensk fyrirtæki. Við þær aðstæður vantaði mikið á að stjórnvöld sýndu þann myndugleika sem þjóðríki þarf að sýna gagnvart slíkum yfirgangi.
En getur það verið að framkoma íslenskra stjórnvalda hafi beinlínis kallað á þessa misbeitingu valds. Nú hafa komið fram mjög ákveðnar vísbendingar um að íslenskir fjármálafurstar hafi hreinlega látið greipar sópa um breskt sparifé í aðdragana þess að bankakerfið hér hrundi.
Ef grunsemdir slíkt athæfi vakna í öðrum vestrænum ríkjum eru hinir grunuðu kallaðir fyrir, jafnvel hnepptir í stofufangelsi eða gæsluvarðhald. Við sáum skýrt dæmi um það í málum hins Ameríska Madoffs fyrir nokkrum vikum og sömu vinnubrögð voru viðhöfð í Enron-svindlinu þar vestra sem margir hér þekkja af sjónvarpsmynd.
En hér á landi ber svo við að mörgum mánuðum eftir að bankar hrynja og grunsemdir vakna um stórfellt misferli þá eru helstu leikendur í því leikriti enn á sviðinu. Ýmist að selja þar banka til Lýbíu eða sýsla með sparisjóði sem þiggja ríkisstyrki. Það sem koma átt fram hratt og örugglega við yfirheyrslur berst okkur hægt og treglega í gegnum leka hér og leka þar í vanmáttugu batteríi. Og hinir meintu gerendur sem eiga bæði sjónvarpsstöð og dagblöð vinna að því nótt sem nýtan dag að telja fólki almenningi trú um að þetta sé allt skrök illviljaðra fjölmiðlamanna.
Fyrir Breskum stjórnvöldum hlýtur þessi hegðan að koma mönnum spánskt fyrir sjónir. Þegar við bætist að fólksfjöldi hér er mjög lítill og tengsl manna mikil þá getur verið að bresk stjórnvöld hafi álykta sem svo að íslenskum stjórnvöldum væri til þess trúandi að standa með og hylma yfir með þeim sem ráku banka eins og spilavíti. Stjórnvöld þar hafi talið sig geta treyst því að á litla Íslandi yrði gengið gegn þessum mönnum með sama hætti og til dæmis Bandaríkjastjórn gerir gagnvart fjárfestingafyrirtæki Maddoffs.
Bresk stjórnvöld hafa vafalaust aflað sér upplýsinga um hin nánu tengsl stjórnmála og viðskipta sem viðgengist hafa á Íslandi allan lýðveldistímann. Í þeim efnum er spilling meiri á Íslandi en almennt þekkist í vestrænum samfélögum. Hluti af henni kristallaðist margháttaðri í vörn íslenskra ráðherra fyrir útrásarvíkingunum sumarið 2008.
Nú þegar liðnir eru meira en 150 dagar frá setningu hryðjuverkalaganna og við lesum enn fréttir af umsvifum Kaupþingsmanna í Luxemburg þá læðist að mér ákveðinn efi um frammistöðu íslenskra stjórnvalda. Það meira að segja hvarflar að mér sú óskemmtilega hugsun að kannski hafi Bretar haft rétt við í þessu máli.
Ég ætla samt rétt að vona ekki!
Fram til þingmennsku í Reykjavík
11.3.2009 | 18:37
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til þingmennsku fyrir Reykvíkinga. Ástæðan er einföld. Ég tel mig geta gert L - listanum mest gagn með því fara fram í stærsta kjördæminu. Það er auðvitað þannig að við eins og öll ný framboð glímum við 5% múrinn illræmda.Nái ég milli 5-10% fylgi hér í borginni þá aukast verulega líkur okkar á landsvísu.
En auðvitað tek ég ögn meiri áhættu með þessu en mér er ekki kappsmál að koma þingmannsstól undir eigin rass. Mér er aftur á móti kappsmál og mikið kappsmál að fullveldissinnar eigi valkost í þessum kosningum. Og ennfremur að það sé raunverulegur valkostur utan við hina gamalgrónu stjórnmálaflokka. Þjóðin þarf að sleppa undan ægivaldi stjórnmálaflokkanna.
Einhverjum þykir máske skrýtið að jafn ötull talsmaður landsbyggðar bjóði sig fram í Reykjavík en ég er mjög elskur að þessari borg og borgin heldur ekki stöðu sinni nema landsbyggðin þrífist. Svo er mjög í tísku að menn bjóði sig fram á sínum ættarslóðum. Og ég á mínar ættir hér í þessari borg þar sem afi minn var póstmaður í miðbæjarpósthúsinu, amma mín húsfreyja í hóteli í miðborginni og formæður hennar héðan, afar hennar af Kjalarnesi og Weldingar í Hafnarfirði.
En grínlaust þá tel ég mig eiga erindi í stjórnmálin hér í höfuðborginni en það verða kjósendur í borginni sem kveða endanlega upp sinn úrskurð.
(Myndin er afa mínum, Sigurði Benediktssyni póstmanni í Reykjavík sem var ekki borgari hér í borg heldur mikill heimsborgari og dvaldi löngum í hinni sælu Evrópu við listmálarastörf og ferðalög.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Einfaldar lausnir en réttlátar
11.3.2009 | 10:48
Skuldastaða heimilanna eru stærsta vandamál komandi kjörtímabils. Margar hugmyndir hafa komið fram, m.a. um flatan niðurskurð allra lána, jafnvel þannig að það nái til bæði fyrirtækja og einstaklinga. Í óskaveröld væri vitaskuld gott að geta gripið til slíkra ráða en mér er nokkuð til efs að þessi leið sé raunhæf vegna kostnaðar og það er líka vafamál að hún leysi vandamál þeirra sem verst eru staddir. Til dæmis hafa þeir sem tóku öll íbúðarlán í erlendum lánum margir tapað miklu meiru en svo að 20% niðurfelling dugi.
Með 20% leiðinni erum við líka að láta mesta peninga til þeirra sem mest eiga! Skrýtin jafnaðarstefna það.
En vitaskuld er þessi leið skárri en að gera ekkert eins ogbæði núverandi og síðasta ríkisstjórn eru svo leiknar í. En það eru til betri leiðir.
Þórhallur Heimisson félagi minn á L - listanum skrifar um Kreppulánasjóð í Morgunblaðinu í dag en þar er komin fram hugmynd að einfaldri og skilvirkri lausn sem við þekkjum úr sögunni. Þessari aðferð var beitt í gömlu kreppunni 1930 og gafst vel. Ríkissjóður einfaldlega leysi til sín eignir og leigði þær til viðkomandi sem jafnframt fékk forkaupsrétt.
Helstu rök fyrir flötu 20% niðurfellingunni, er að það sé svo mikil vinna að fara í gegnum hvert einstakt mál. En það er enginn vafi á að 20% niðurfellingin er dýrasta leiðin og ef að við getum sparað nokkur hundruð milljarða með því að fara í gegnum hvert einstakt mál þá er allt í lagi að nýta þann sparnað að hluta til í að kosta tímabundið her manna sem myndu vinna hjá Kreppulánasjóði. Því hvað er það sem okkur vantar meira nú en einmitt vinnu fyrir bankamenn og fasteignasala.
Förum einfalda og þekkta leið og sláum um leið tvær flugur í einu höggi.
Brjóstumkennanlegur trúarhiti fréttamanns
10.3.2009 | 18:44
Gunnar Gunnarsson fréttamaður á Spegli RÚV flytur nú hverja predikunina á fætur annarri um nauðsyn þess að Ísland gangi í ESB og hikar ekki við að fella salómonsdóma og halda ESB áróðri fram sem staðreyndum þegar hann talar við viðmælendur sína. Nýjast var viðtal hans við Ernu Bjarnadóttur hagfræðing Bændasamtakanna um það sem fréttamaðurinn leyfir sér að kalla einangrunarstefnu íslenskra bænda. Í viðtalinu vitnar fréttamaðurinn aftur og aftur, t.d. með eftirfarandi:
Nú virðist það vera áríðandi að taka upp annan gjaldmiðil, helst.
Hverjum virðist það áríðandi? Það sem er áríðandi er eitthvað sem menn eiga að gera strax og tafarlaust og ég veit að ESB sinnar telja það vera svo. En var Gunnar sjálfur í viðtali við sjálfan sig. Hagfræðingurinn Kenneth Rogoff sem er einn fremsti ráðgjafi Bandaríkjastjórnar í peningamálum og prófessor í Harward kallaði það tilraun til sjálfsmorðs að taka upp annan gjaldmiðil nú.
Allir sem hafa sæmilega reiknikunnáttu sjá það augljósa að þrátt fyrir allt er sjálfstæður gjaldmiðill að lyfta Íslendingum upp úr alvarlegum öldudal þessa dagana. Öldudal sem við lentum í vegna þess að við hleyptum ESB til of mikilla valda á Íslandi í gegnum EES og leysum það vandamál ekki með því að ganga lengra á þeirri leið.
Lýðræði fjórflokkanna og kosningar sem þeir eiga einir
9.3.2009 | 18:38
Dr. Gunni segir frá því á bloggi sínu að hann hafi kosið í prófkjörum hjá bæði Samfylkingu og VG, http://eyjan.is/goto/drgunni/.
Á sama tíma sjáum við að þeir sem kusu í prófkjöri VG í Reykjavík telja í örfáum hundruðum og ljóst að það hafa verið rétt um hundrað atkvæði sem skildu milli feigs og ófeigs, Kolbrúnar og Lilju Mósesdóttur svo dæmi sé tekið.
Ef lýðræði merkir að allir eigi að hafa sama atkvæðisrétt þá eru prófkjör, póstkosningar og forvalskjör eins fjarri því og frekar getur orðið. Venjulegt fólk hefur einfaldan og ómerkilegan kosningarétt en hinir flokksbundnu eru í allt annarri stétt.
Á sama tíma sendir fulltrúi fjórflokksins út þau skilaboð að Alþingiskosningarnar séu ekki fyrir aðra en gömlu flokkana.
Sjá nánar í pistli a Smugunni, http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1218
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
ESB kosningar eru andstæðar lýðræðinu
9.3.2009 | 13:46
ESB sinnum er gjarnt á að kalla eftir virku lýðræði með því að þjóðin fái að kjósa um ESB aðild. En er það svo að ESB kosningar séu samrýmanlegar lýðræðinu eða eru þær kannski andstæða þess.
Flest Evrópuríki hafa gengið inn á þá braut að hefja ESB kosningar. Engin dæmi eru um að þar hafi verið látið staðar numið eftir fyrstu kosningar þar sem kjósendur hafna ESB. Undantekningarlaust kallar slík niðurstaða á nýjar kosningar þar til fengin er niðurstaða sem er hinu ólýðræðislega ESB valdi að skapi. Hvort sem um er að ræða beina aðild eða einstök skref innan aðildar þá er alltaf um það að ræða að "jákvæð og rétt niðurstaða" kosninga er þegar vald hefur verið flutt frá þjóðríkinu til ESB.
Hugtakið lýðræði felur í sér að fólk hafi nokkuð um sín mál að segja og geti kosið af sér þá valdhafa sem hún treystir og kosið þá af sér ef það traust er ekki lengur til staðar. Með því að fólk kýs fulltrúa sína til löggjafarsamkomu er að nokkru tryggt að ekki séu sett á almenning þau lög og þær reglur sem almenningur er alvarlega ósáttur við. Í okkar lýðræðiskerfi eru þó margir þættir sem skekkja þessa mynd og sá stærstur að milli kjósenda og fulltrúa þeirra starfa stjórnmálaflokkar með alræðisvald yfir kjörnum fulltrúum. Því fyrirkomulagi geta kjósendur breytt ef þeir beita sér í þá veru.
En lýðræði er vitaskuld ekki mögulegt ef að almenningur hefur ekki tök á að koma að kosningu þeirra sem setja lög og semja lög. Með yfirfærslu löggjafarvaldsins til yfirþjóðlegra stofnana er í raun og veru bundinn endi á lýðræðið. Þegar við bætist fyrrnefnd regla um að þjóðir Evrópu eru látnar kjósa aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst er ljóst að ESB kosningar eru andstæða lýðræðisins.
Raunverulegir lýðræðissinnar hljóta að berjast gegn því að íslenska þjóðríkinu verði hent á evrópuhraðlestina.
(Birt í Mbl. 6. mars 2009)
Stjórnmálamennirnir með pokahornin
9.3.2009 | 09:37
Því er fljótsvarað Kolla að ég veit ekkert í þessu sambandi umfram það sem ég hef lesið í blöðum og heyrt í ljósvakamiðlum. Þú getur algerlega treyst því að ég mun ekki þegja um neitt í þessum efnum.
Fráfarandi Seðlabankastjóri hefur lýst því yfir að stjórnmálamenn hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu en það hefur ekki komið fram hvaða stjórnmálamenn það eru.
Ég undrast mjög lélegra eftirfylgni fjölmiðla á Íslandi, bæði gagnvart viðskiptavíkingum og stjórnmálamönnum. Þannig hefur fjöldi sterkefnaðra stjórnmálamanna - eða sem allavega voru sterkefnaðir - lýst því yfir upphátt í fjölmiðlum að þeir ÆTLI að gera hreint fyrir sínum dyrum og upplýsa allt. En hafa þeir gert það?
Ég veit að þú spyrð Kolla eða þá einhver annar hér úti í rafheimum tölvunnar, hvaða stjórnmálamenn? Það er mikil vinna að fletta þeim öllum upp en til þess að gæta jafnræðis er hægt að nefna þrjá sem koma úr jafnmörgum stjórnmálaflokkum. Varaformaður Sjálfstæðisflokks og formaður Framsóknarflokks hafa lýst því yfir að þau ætli eða séu að hugsa um að upplýsa allt sem viðkemur þeirra eigin fjárhag. En svo ekki söguna meir.
Fráfarandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson hér á Selfossi hefur ekki komið með eins skorinorð loforð en nætursetur hans með FL - group nóttina sem allt hrundi kalla svo sannarlega á að hann geri það rækilega upp hvernig hann tengist auðmönnum þessa lands.
Ég er ekki að sakfella neitt af þessu fólki - en ég bíð eins og svo margur eftir að það sjálft færi fram þær málsvarnir að mér takist að sýkna það áður en til kosninga kemur. Við verðum öll að vita hvað er í pokahornum þeirra sem við ætlum að kjósa...