Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Allir hneykslaðir en flokksræðið blívur!
8.3.2009 | 12:43
Mín jómfrú blívur, sagði hinn svarti Jón Hreggviðsson þegar hann treysti á liðsinni Snæfríðar í Bræðratungu. Nú eru það flokksvélarnar sem blíva. Ekki til varnar þjóðinni heldur fyrir auðmannaklíkurnar og þarf engan að undra. Svo vel sem helstu viðskiptaklíkur landsins hafa komið sér fyrir í bæði Samfylkingu og með formönnum í bæði Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem báðir koma úr innsta hring stórbísnesmanna þjóðarinnar.
Og það er fleirum en mér og þeim Vinstri grænum sem ekki hafa fengið dúsu. Eftirfarandi bloggar einn af bestu og dyggustu Sjálfstæðismönnum landsins, Halldór Jónsson sem þekktur er fyrir allt annað en vinstri slagsíðu. En hvenær ætli Halldór geri sér grein fyrir að málið snýst í engu um hugsjónir hægri og vinstri heldur klíkuvald gömlu flokkanna.
Fréttir helgarinnar og blaðaskrif um viðskiptin á fullu hjá Kaupþingsgreifunum vekja mann til umhugsunar um hvernig tekið var á Enrongæjunum í Bandaríkjunum. Okkar gæjar eru enn á fullu úti í London að selja Kaupþing í Luxemburg til Libýu svo að við getum ekki skoðað neinar bækur þar í framtíðinni.
Það er líka upplýst í Morgunblaðinu hvernig sömu menn hreinsuðu Kaupþing innanfrá fyrir hrunið. Þeir halda bara áfram að víla og díla. Ekkert gert í að tala við þá einslega þrátt fyrir nefndir og ráð. Þeir eru bara enn úti og virðast hafa nóg fyrir stafni.
Mútugreiðslur stjórnmálamanna!
7.3.2009 | 19:27
Ert þú þá með öðrum orðum Bjarni að viðurkenna að ykkur í framsókn (þegar þú varst í þeim ágæta flokki) hafi verið borgaðar mútur??
Umræðan um siðferði í stjórnmálum og sambland stjórnmála og viðskipta er að vonum mikið. Í framhaldi af bloggi hér í morgun var ofanskráð athugasemd sett inn af nafnlausum lesara. Og það er von að spurt sé.
Ég get strax svarað því til að ég varð aldrei var við það að neinn reyndi að bera fé mig eða samstarfsmenn mína í Framsóknarflokki. Ég veit aftur á móti að flokkurinn, einstök kjördæmissambönd og í einhverjum tilvikum stakir þingmenn áttu sér sína velgjörðarmenn í atvinnulífinu. Það er fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í stjórnmálum um marga áratugi og virkar sakleysislegt í Kardimommubæ þar sem engir glæponar eru verri en Jónatan. Þannig héldum við mörg að Ísland væri.
Þegar svo kemur í ljós að hér hefur þrifist algerlega glórulaust fjárhættuspil með þjóðarauð okkar, barna okkar og barnabarna þá er myndin einfaldlega talsvert önnur og krefst allt annarra siðferðisviðmiða. Því auðvitað eru allir háðir sínum velgjörðamönnum og föstum styrktaraðilum. Það segir sig sjálft...
Svo eru þetta Hreppafjöllin...
7.3.2009 | 18:30
Við erum uppi á Reykholtinu nokkur saman og Arnór er foringinn. Kann allar sögur og öll öfnefni. Það er albjart eins og í dag og sér allaleið vestur í Selvog. Vesír okkar og fræðaþulur er að segja nöfn fjallanna og það er eins og romsan ætli aldrei að enda. Fingurinn rétt bifast eftir fjallahringnum og alltaf getur Arnór bætt inn í því skyggnið er svo gott og hann þekkir svo sannarlega hverja þúfu í Árnesþingi. Ég er hálfvegis farinn að halda að hann klári þetta aldrei. Það er Geitafell og Ingólfsfjall, Búrfell tvö og ótal mörg fleiri sem ég ekki kann að nefna. Loks er hann kominn hálfan fjallahringinn í hánorður að því fegursta, Bláfelli á Biskupstungnaafrétti. Og nú tók ég eftir að hann dró djúpt andann - ekki yfir fjallinu heldur af því að það sem eftir var afgreitt á innsoginu með einni handarsveiflu svo bendingin náði alla leið til suðurs:
- Og svo eru þetta Hreppafjöllin!
Í dag var Arnór borinn til grafar og það sá vel yfir Hreppafjöllin, Tungnafjöllin, Grafningsfjöllin og Ölfusfjöllin. Það var heiðskýr og fagur dagur og átti við þann mæta dreng sem í dag var kvaddur hinstu kveðju. Sjálfur naut ég þess að kynnast Arnóri vel sem kennara og fræðimanni. Hann var hreinn og beinn í samskiptum eins og Kotsfólkið allt er. Laus við uppgerð og flas. Og hann var náttúrubarn.
Annað náttúrubarn og ólíkt þó var borið til grafar í Tungunum í gær. Það var Þorlákur Jónsson frá Kiðjabergi sem tilheyrði tengdafólki mínu alla sína ævi sterkum böndum, fyrst sem tökubarn og seinna vinnumaður hjá búhöldum þeirrar ættar. Mikill sómadrengur sem kvaddi sattur lífdaga eftir braut sem á stundum var þyrnum stráð.
Þökk þeim gengnu heiðursmönnum.
...en lögreglan er að skoða mótorhjólastráka!
7.3.2009 | 11:26
Ekki að ég telji að það eigi að hleypa skráðum vandræðamönnum inn í landið. En ég veit ekki hvort virkar vitleysislegra á mig, þráhyggja yfirvalda hér vegna tattóveraðra mótorhjóladrengja eða afneitun stjórnmálamanna gömlu flokkanna á að það þurfi að taka hvitflibba þessa lands til yfirheyrslu.
En hvernig læt ég. Vítisenglarnir borguðu aldrei í kosningasjóði en það gerðu Baugur og bankarnir og þessvegna eru þeir látnir í friði.
![]() |
Lánuðu sjálfum sér milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á baráttudegi kvenna
7.3.2009 | 10:23
Á morgun 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna.
Af því tilefni efnir kona mín og vinkonur hennar nokkrar til tónleika í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík þar sem flutt verða tónverk eftir íslensk kventónskáld.
Hefst klukkan 17 - nánar hér.
Lýðræðið og flokksræðið
6.3.2009 | 17:50
Gunnar Karlsson ritar athyglisverða grein um lýðræðið í Fréttablaðið fyrir skemmstu og tekur þar til varna fyrir margt í okkar kerfi. Þó að ég sé sammála ýmsu sem Gunnar segir um ágæti fulltrúalýðræðisins langar mig að gera athugasemd við hugmyndir hans um flokksræðið sem er tvímælalaust mikill áhrifavaldur um ógöngur okkar Íslendinga í dag.
Innan gömlu flokkanna er því á tyllidögum haldið fram að flokkarnir sjálfir séu lýðræðislegar stofnanir enda geti hver sem er tekið þátt í starfi þeirra. Staðreyndin er aftur á móti sú aðeins prósentubrot kjósenda tekur raunverulegan þátt í starfi stjórnmálaflokka og þeir sem reynt hafa vita að ótrúleg hending, baktjaldamakk og hrossakaup ráða niðurstöðum stofnana flokkanna. Þetta á jafnt við um þá alla.
Stjórnmálaflokkanna er í engu getið í stjórnskipan Íslands og þar er gert ráð fyrir að alþingismenn séu engu háðir nema samvisku sinni og standi kjósendum einum reikniskil gerða sinna. Staðreyndin er allt önnur. Stjórnmálamenn eru með fáeinum undantekningum í starfi hjá sínum flokkum og þurfa raunar ekki að hafa áhyggjur af því að þeir séu að gera eitthvað rangt, þeir geta stutt sig við flokkinn. Þeir eru að spila í liði, hluti af heild og beygja sig undir lýðræðislega" ákvörðun flokksins.
Um leið er hið raunverulega lýðræði fótumtroðið þar sem fólk kýs sér fulltrúa til þingsetu sem það treystir. Þegar svo sömu fulltrúar eru frjálsir frá eigin samvisku og eigin sannfæringu er sú kosning til lítils. Gott dæmi um þetta flokksræði er umræða vetrarins um að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur breyti ESB afstöðu þingmanna sinna með flokksþingum. Þar með breyta flokkarnir í raun og veru niðurstöðu kosninganna þar sem tiltekinn fjöldi ESB andstæðinga var kosinn til þings en flokkarnir geta fækkað þeim svo um munar!
Annað dæmi um flokksræðið er þegar tveir menn, Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson, sömdu um það á fundi úti í Viðey að Ísland tæki þátt í EES. Ákvörðun sem hefur orðið þjóðarbúinu dýrkeypt. Eftir Viðeyjarfundinn var aðkoma Alþingis að EES ákvörðuninni meira skuespil heldur en raunveruleg málstofa valdastofnunar.
Flokksræðið er einnig stór þáttur í óförum okkar þjóðarbús í dag þegar kemur að gagnrýninni hugsun á Alþingi Íslendinga. Í stað þess að alþingismenn starfi eftir samvisku sinni og beiti sér til að komast að niðurstöðum um flókin mál er þeirra hlutverk að rugga ekki viðkvæmum bát vinsælda og tískustrauma. Þessvegna var það illa séð að nokkur þingmaður væri að agnúast út í útrásarvíkingana sem voru, eins og Gunnar Karlsson bendir á, vinsælir meðal þjóðarinnar. Þingmenn sem vinna hjá stjórnmálaflokkum verða að læra að haga sér. En þjóðin hefur í raun og veru ekkert við þannig þingmenn að gera.
(Birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.)
R - listi eða L - listi og fleira gómsætt tanna í millum
6.3.2009 | 15:57
Það fylgir því að vera í pólitík að vera milli tannanna á fólki og það má hafa af því gaman eins og öðru. Á nokkrum stöðum er nú bloggað um að listinn okkar hafi náttúrulega átt að heita R - listi en starfsmenn kjörstjórnar ekki skilið betur en þetta hvað undirritaður var að segja, t.d. hér:
http://sunnlendingur.is/folk_fjor/news_details/103
og hér
http://www.malefnin.com/ib/index.php?showtopic=114520&mode=threaded&pid=1450101
og kostulegust er þó þjóðarsálin sem sneri skemmtilega út úr gagnrýni minni á kosningalagafarsanum:
http://kermit.blog.is/blog/kermit/entry/820760/
Hér í lokin er svo Eiríkur, en honum tekst nú aldrei að vera mjög fyndinn:
http://www.dv.is/blogg/eirikur-jonsson/2009/3/4/x-leidinlegi-flokkurinn/
Missögn Morgunblaðsins - og sýndarmennska stjórnarinnar
6.3.2009 | 11:47
Morgunblaðinu skriplast aðeins í frásögn af viðtali mínu um ÖSE þegar þeir segja í morgun að ég telji mig vita að ÖSE komi hér til kosningaeftirlits. Ég veit ekkert um það og hef aldrei sagt neitt í þá veru. Og ég hef ekki lagt fram formlega kvörtun en komið ábendingum mínum á framfæri sem voru svona (http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/821285) í óformlegri þýðingu.
Það sem ég veit og allir vita sem vilja vita er að breytingar á kosningalögum korteri fyrir kosningar eykur til muna líkurnar á að ÖSE sendi hingað sveit manna til eftirlits. Hitt er svo umhugsunarvert að líklega eru engar líkur á að umrædd lagabreyting verði samþykkt því það eru áhöld um að til samþykkisins dugi einfaldur meirihluti. Stjórnskipanin gerir einmitt ráð fyrir að það þurfi 2/3 til að breyta lögum á borð við þessi og því nær Jóhönnustjórnin aldrei - jafnvel þó Sigmundur Davíð leggi líka fram atkvæðin sín...
Land þagnarinnar er áhrifarík bók
6.3.2009 | 09:02
Enn af bókabloggi. Var að leggja frá mér Land þagnarinnar eftir Ara Trausta Guðmundsson (Einarssonar frá Miðdal.) Í þessari mögnuðu bók rekur Ari fjölskyldusögu sem er með miklum eindæmum. Það er þó fjarri bókarhöfundi að fella dóma heldur rekur hann tilfinningar sínar og annarra fjölskyldumeðlima allt frá barnæsku þar sem hann elst upp með móður og ömmu sem báðar höfðu átt sama manninn.
En sagan er um leið magnaður hluti af 20. aldar sögu álfunnar því hér segir einnig frá gyðingaofsóknum í Þýskalandi, kvikmyndaiðnaði í Weimarlýðveldinu og ótal mörgu öðru. Mögnuð bók sem snertir strengi í öllum, hvort sem það eru áhugamenn um ættarsögur, pólitík eða ástarævintýri.
Af valdaráni fjórflokksins
5.3.2009 | 18:17
"Þessar kosningar verða ekkert annað en valdarán fjórflokksins," sagði vinur minn hér af Hreppaættum sem er ögn róttækari en ég sjálfur. Ég vil ekki taka svona djúpt í árinni og vil virða niðurstöður kjósenda, hverjar sem þær verða.
En - ég er hneykslaður á fyrirætlunum stjórnarflokkanna að láta sér detta í hug að breyta kosningareglunum núna rétt fyrir kosningar. Og sú breyting að bjóða upp á óraðaða lista er til þess fallinn að tryggja nefnt valdarán betur en ella.
Við sem erum af veikum mætti að koma upp listum eigum ekki þann mannskap í handraðanum að geta sett 20 manns á lista ef allir þeir geta átt á hættu að verða settir í efstu sæti. Mjög margir vilja alls ekki vera með nema í 10 sæti eða neðar. Við getum auðvitað valið að hundsa þetta frjálsræði en fáum þá bágt fyrir eins og Steingrímur J. sagði sjálfur á fundi um daginn:
Kjósendur geta svo gert upp hug sinn meðal annars með tilliti til þess hvort viðkomandi stjórnmálahreyfing er tilbúin til að leyfa kjósendum að raða sjálfum á lista.
Sjá nánar í grein sem ég skrifa um málið á splunkunýjum og glæsilegum fréttavef sem heitir Sunnlendingur.is en greinin eftir mig er hér: http://sunnlendingur.is/pistlar/pistlar_details/8