Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Afi sem var 'á mat' á Ormsstöðum
5.3.2009 | 15:17
Í kreppunni miklu um 1930 vann Bjarni Sæmundsson afi minn sumarpart við brúargerð í Grímsnesinu með mági sínum Jóni Dagssyni brúarsmið. Þeir smíðuðu brú yfir þar sem heitir held ég Grjótá skammt frá Eyvík og voru þar í vist meðan á brúarsmíði stóð.
Þetta var í miklu atvinnuleysi og brúarsmíði kærkomin vinna fyrir fátæka menn. Hvort það var í beinu framhaldi eða með smá útúrdúrum lífsins að þá var afi atvinnulaus rétt seinna en fékk þá að vera á mat" milli sláttar og vertíðar hjá góðu fólki á Ormsstöðum sem er bær rétt undir Hestfjalli.
Að vera á mat merkti einfaldlega að hann vann kauplaust en fékk mat og húsaskjól þennan tíma. Það er innan við öld síðan þetta var en stór hluti heimsins býr enn við fátækt og öryggisleysi sambærilegt því sem mætti afa mínum þetta síðsumar, líklega árið 1932. Nú er aftur kreppa á Íslandi og atvinnuleysi. Það ríður á að velferðarkerfið okkar haldi þannig að fátækir og atvinnulausir Íslendingar þurfi ekki að selja vinnu sína slíku verði sem algengt var fyrir tæpum 80 árum.
Þó að þetta sé blogg um afa minn er það ekki síður um pólitík - sem er raunar langt því frá að vera andlausari eða ómerkilegri en ýmsar aðrar tíkur og bráðnauðsynleg núna á ögurtímum.
(Söguna sagði mér Emma Kolbeinsdóttir úti í Bónus í Hveragerði núna áðan. Emma er fædd í Eyvík árið 1923 og býr þar. Myndin er af Bjarna afa sem hafði mig í miklu uppáhaldi en hann dó 1973, gamlaður mjög en þó ekki nema sjötugur að aldri.)
Til hamingju O - listi
4.3.2009 | 22:12
Ég undra mig reyndar á að þau skuli nota stafinn O því flestir sem komnir eru vel af barnsaldri muna O flokkinn sem var einhverskonar grínframboð. Síðan markar framboð þetta nokkur tíðindi. Hér er komin fram hreyfing sem setur stefnuna mjög ákveðið á ESB. Á Eyjunni segir um O - listann:
Herbert Sveinbjörnsson, formaður hreyfingarinnar sagði á kynningarfundi í dag að æskilegt væri að fara í samningaviðræður um aðild að ESB og í kjölfarið leggja málið í hendur þjóðarinnar.
Með óformlegu kosningabandalagi VG og Samfylkingar og ESB daðri bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er ljóst að ESB andstæðingar eiga aðeins einn valkost! X - L.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Lýðræðið er ekki í flokksræðinu
4.3.2009 | 14:05

Þótti vænt um frétt RÚV í hádeginu um fyrirkomulag okkar L - listamanna við uppröðun lista. En auðvitað reyna andstæðingar okkar að gera okkur tortryggileg fyrir að efna ekki til prófkjörs sem kostar ekki nema svo sem 3 milljónir í hverju kjördæmi,- nærri 20 í öllum kjördæmum!
Aðalatriðið er þó að sýndarlýðræði flokkanna við uppröðun á lítið skylt við raunverulegt lýðræði því það er aldrei nema lítill hluti af raunverulegum kjósendum flokkanna sem kjósa í prófkjöri/forvali/póstkosningu. Síðan er það talsverður hópur manna sem kýs í prófkjörum margra flokka. Og raunar tekur það enginn alvarlega að þetta sé hluti af lýðræðinu. En vegna prófkjöra selja frambjóðendur sig peningaöflum og berjast innbyrðis með þeim árangri að jafnan liggja margir sárir á eftir. Stundum heilu héruðin.
Það er heldur sameiginlegur skilningur til með þjóðinni eða innan neins flokks hvernig eigi að gera þetta. Í sama flokki er póstkosning í einu kjördæmi, prófkjör í öðru og uppstilling í þriðja. Sumsstaðar endurröðun vegna kynjakvóta o.s.frv.
Hið raunverulega lýðræði landsins liggur í sjálfum kosningunum og það er mikilvægt að einstaklingar sem ekki eru á framfæri ríkis og stórfyrirtækja nýti sér þann rétt. Það gera menn ekki með því að gangast inn á umdeilt og spillt fyrirkomulag gömlu flokkanna heldur einfaldlega með því að bjóða sig fram. Það er það sem við L - listafólkið ætlum að gera og með því teljum við okkur styrkja lýðræðið.
(Hér er betri hópmynd frá í gær. Þetta var vitaskuld tilviljanakennt úrtak okkar stuðningsmanna og sumir þessarar hafa þegar lýst yfir að þeir muni ekki setjast á lista en bjóðast til að styðja okkur með ráðum og dáð. Aðrir verða á lista. Í hópnum hér að ofan eru: f.v. talið Már Mixa, Friðrik Daníelsson, Kristbjörg Steinunn Gísladóttir, Ísleifur Gíslason, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þórhallur Heimisson, Anna Jóna Einarsdóttir, Ásdís Óladóttir, Bjarni Harðarson, Sigurbjörn Svavarsson, Helga Ágústsdóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson (sem lenti inni á myndinni í bríaríi), Axel Kolbeinsson, Ingólfur Sveinsson og Jakob Þór Haraldsson.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
L - listinn er valkostur
3.3.2009 | 19:42
L - listinn hélt blaðamannafund sem markar upphaf okkar kosningabaráttu okkar og að þessu sinni læt ég myndina tala og bæti fleiri við á morgun en nú bíður næsti fundur, fundur með Femínistum á Hallveigarstöðum þar sem ég geri grein fyrir stefnu minni í jafnréttismálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
L - listinn að verða að veruleika
3.3.2009 | 11:17
L - listinn, óháð framboð einstaklinga í öllum kjördæmum heldur opinn blaðamannafund í Súfistanum í Lækjargötu í dag klukkan 15. Fundur þessi er raunar opinn öllum stuðningsmönnum okkar og markar ákveðið upphaf í grasrótarhreyfingu sem stefnt er gegn því ólýðræðislega flokksræði sem hefur ráðið ríkjum hér á landi.
Það eru allir velkomnir í Súfistann en kaffi eða aðrar trakteringar verður hver og einn að borga fyrir sig enda stjórnmálahreyfing þessi ekki á ríkisframfæri.
L - listinn er ekki stjórnmálaflokkur. Það þýðir að allir kjósendur L - listans verða á einu gólfi, jafnréttháir. Í flokkunum er kjósendum skipt í tvo bása, harla misjafna. Annarsvegar bás flokksbundinna þar sem æðstu sæti mynda einskonar eignarhaldsfélag alþingismanna. Hinsvegar bás óflokksbundinna sem eru algerlega réttlausir og þó að þeim sé lofað einhverri stefnu í kosningum þá geta hinir æðri flokksbundnu kjósendur breytt því loforði með einfaldri handauppréttingu í klúbbherbergi úti í bæ. Þannig eru flokkarnir í reynd eyðilegging á lýðræðinu og ólýðræðislegri stofnanir getur varla í vestrænum stjórnmálum.
Með L - listanum fylkja sér saman frambjóðendur í öllum kjördæmum sem hafa nokkra sameiginlega snertipuntka í sinni pólitísku sýn, með lýðræði og endurreisn, á móti flokksræði og ESB aðild. Það eðlilegt að spurt sé afhverju einstaklingar sem bjóða sig þannig fram þurfa endilega að sammælast um stefnumál. Svarið er einfalt; það gerir jöfnunarkerfi atkvæðanna. Atkvæði greitt t.d. Þórhalli Heimissyni í Kraganum getur einfaldlega færst yfir á L - lista í öðru kjördæmi og þá er mikið atriði að það færist ekki á einhvern sem hefur allt aðra sýn á mannlífið.
Helstu stefnuatriði L - listans má lesa hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/818590/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ofurbloggarinn Gunnar Rögnvaldsson í Kaffi Rót núna kl. seytján
2.3.2009 | 16:30
Íþróttakennarinn minn í barnaskóla sagði alltaf seytján í staðin fyrir sautján. Líklega var þetta það eina sem ég lærði af þessum sómamanni því ég varð aldrei mjög menntaður í íþróttum en framburðurinn seytján er miklu vinalegri heldur en sautján.
En núna klukkan seytján er semsagt spjallfundur Heimssýnar í Kaffi Rót í Hafnarstræti seytján.Gunnar þessi er atvinnurekandi í ESB landinu Danmörku og bloggar um tilveruna í ESB á síðunni http://tilveran-i-esb.blog.is
Nú gefst okkur tækifæri á að hitta manninn í eigin persónu en mörg okkar sem fylgst höfum með ESB málum og fjallað um þau af gagnrýni eigum mikið af okkar upplýsingum Gunnari að þakka.
Mætum öll. Nánar heimssyn.is
Hvenær kalla íslenskar þingnefndir víkingana fyrir sig
2.3.2009 | 00:32
Enron-þátturinn í sjónvarpinu var magnaður. Hér var verið að lýsa atburðarás sem var svo sláandi lík íslenska fylleríinu. Græðgin sem leiddi menn út á einnættan ís þar til allt brotnaði sem brotnað gat.
Stóra spurningin hér og nú er hvenær komi að því að íslenskar þingnefndir kalli fyrir sig íslensku útrásarvíkingana að ég ekki tali um hvenær við fáum að sjá einhverja þessara kappa leidda inn í lögreglubíla. Líklega aldrei ef bankaflokkarnir þrír halda áfram meirihluta á Alþingi...
Barómeter á vitleysur og bjórlandið á hvolfi...
1.3.2009 | 13:50
Jón Baldvin Hannibalsson er einn af skemmtilegustu stjórnmálamönnum landsins en líka einn öruggasti barómeter þjóðarinnar á vitleysur. Var að hlusta á þennan mælska vestfirðing í Silfrinu Egils (eða er þetta Silfur ESB).
Jón Baldvin telur að þeir sem bera ábyrgð á hruninu eigi að segja af sér og hann eigi sjálfur að koma í staðin. Staðreyndin er að enginn pólitískur gerningur hefur verið eins afdrifaríkur fyrir fall bankakerfisins eins EES samningurinn sem Jón plataði Davíð inná í tveggja manna tali úti í Viðey fyrir næstum tveimur áratugum. Jón er svo guðdómlega ósvífinn að það liggur við að ég finni auðmýkt í Davíð Oddssyni.
Jón Baldvin fullyrðir nú en algerlega án þess að rökstyðja að hér hefði ekki orðið hrun ef við hefðum verið í ESB. Eina ESB landið sem var í sambærilegu flugi og Ísland síðustu árin var Írland og nú segja allar fréttir að hrunið þar sé að verða jafnvel enn verra en á Íslandi.
Það rifjast upp fyrir mér þessa dagana þegar bjórinn er búinn að vera 20 ár í landinu gömlu skrýtnu templararnir sem börðust gegn bjórnum. Mig minnir það hafa verið Halldór á Kirkjubóli sem hélt því fram að ef bjórbanninu yrði aflétt færi Ísland til helvítis á fáum árum. Allir yrðu alltaf rakir við öll störf og nú gæti maður næstum trúað að þetta væri rétt. Þetta er auðvitað bara skrýtla en óneitanlega vitrænna samt en pólitískar skýringar Jóns Baldvins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)