Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Ekki mistök heldur meðvituð ákvörðun
4.4.2009 | 01:56
...ég held þú hafir gert afgerandi mistök með því að bjóða þig ekki fram í Suðurlandskjördæmi, þar sem þú nauzt mikils persónufylgis, skrifar Jón Valur Jensson inn sem athugasemd hjá mér nú fyrir stundu og notar enn zetu sem er alltaf svoldið skemmtilegt.
En þetta voru ekki mistök Jón heldur meðvituð ákvörðun. Til þess að hafa þau áhrif sem við þó höfðum á ESB afstöðu Sjálfstæðisflokksins þurftum við að tjalda öllu til og þar taldi að vera með nógu sterkan lista í höfuðvíginu. Og það var miklu meira virði að hafa þau áhrif heldur en það hvort ég eignaðist aftur þingsæti.
L - listi fullveldissinna mun ekki bjóða fram í komandi Alþingiskosningum. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi sem haldinn var í Hafnarfirði í dag, föstudaginn 3. apríl. Hreyfingin mun áfram starfa sem frjáls framboðs- og sjálfstæðishreyfing.
L-lista fullveldissinna treystir sér ekki til að uppfylla þau skilyrði sem ólýðræðislegar aðstæður skapa nýjum framboðum á þessum stutta tíma sem liðinn er frá því ákvörðun var tekin um kosningar. Þaulseta Alþingis fram undir kosningar með allri þeirri athygli sem störf þess fá skipta hér miklu.
Annað sem skiptir máli er sá múr sem 5% lágmark setur nýjum framboðum og krafa um 126 frambjóðendur í sex kjördæmum. Þá skapar opinber fjárstuðningur ríkisins til eldri stjórnmálahreyfinga mikinn aðstöðumun framboða. Síðast en ekki síst vegur þungt hvernig fjölmiðlar hafa hundsað óskir okkar um jafnræði í umfjöllun.
Þegar boðað var til framboðs L-listans var því spáð að bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð myndu kúvenda í afstöðu til aðildar Íslands að ESB.
Niðurstöður þessara flokka urðu aftur á móti að halda í fyrri stefnur um andstöðu við aðild. Í því er fólginn mikill varnarsigur eftir stórsókn ESB sinna á nýliðnu ári. Svo virðist sem aðildarsinnum hafi um sinn mistekist að nota sér ótta almennings í fjármálahruninu til að grafa undan fullveldi Íslands. Í bæði Sjálfstæðisflokki og VG var þó gefinn óþarflega mikill slaki gagnvart þeim þjóðhættulegu hugmyndum sem nú ríða yfir að Ísland skuli setjast á kosningavagn Brusselvaldsins.
L-listi fullveldissinna varar við allri tilslökun í þessu máli og hvetur stuðningsmenn sína til að kjósa ekki þau framboð sem hafa beinar aðildarviðræður að ESB á stefnuskrá sinni.
L-listi fullveldissinna þakkar fjölmörgum stuðningsmönnum framboðsins ómælda elju og baráttu og minnir á að barátta smáþjóðar fyrir frelsi sínu og fullveldi er ævarandi.
Þórhallur Heimisson
Kristbjörg Gísladóttir
MárWolfgang Mixa
Sigurbjörn Svavarsson
Bjarni Harðarson
Guðrún Guðmundsdóttir
Að verðlauna klúður!
3.4.2009 | 12:50
Ný búsáhaldabylting gegn stjórnarandstöðunni!
2.4.2009 | 19:00
Fyrsti apríllinn var í gær og þessvegna hlýt ég að telja frétt Vísis um nýja búsáhaldabyltingu rétta.
Ekki samt til að mótmæla ríkisstjórninni og ekki til að mótmæla stórkostlegum peningastuldi útrásarvíkinga sem fjórflokkurinn lætur viðgangast.
Nei, það á að mótmæla stjórnarandstöðunni á Alþingi fyrir það að hún skuli vilja ræða mál eins og breytingar á kosningalögum sem einhverjum dettur enn í hug að hægt sé að keyra í gegn rétt fyrir kosningar. Mótmæla semsagt lýðræðinu. Koma svo!
Ég hef fyrr sagt mína skoðun á þessum flausturslegu breytingum en það verður sagt um þessa byltingu eins og margar aðrar - hún er farin að éta börnin sín.
Handtökum þá strax
2.4.2009 | 13:53
Nokkrir hafa hringt í mig í dag á innsoginu yfir því að ég hafi sagt að handtaka beri velgjörðarmenn þjóðarinnar í morgunútvarpi Rásar eitt. Ég stend við hvert orð í þeim efnum.
Í siðuðum löndum gilda ein lög fyrir alla menn. Á liðnum vetri hefur Ísland sett ofan. Ekki bara í augum umheimsins heldur ekki síður í okkar eigin sjálfsmynd. Dag eftir dag birtast okkur fréttir af undanskotum, málamyndasölu, ofurlánveitingum og annarri fjármálalegri spillingu í aðdraganda bankahrunsins.
Tugmilljarða lánveitingar eigenda bankanna til eigin fyrirtækja rétt í þann mund sem allt riðaði. Millifærslur til félaga í skattaparadísum, málamyndakaup arabískra aðalsmanna, undanskot lúxuseigna o.s.frv. o.s.frv.
Vitaskuld er hver maður saklaus uns sekt er sönnuð en komi upp rökstuddur grunur um saknæmt athæfi ber yfirvöldum að grípa inn í. Sé brotið stórfellt ber jafnvel að hneppa menn í gæsluvarðhald meðan rannsókn stendur yfir.
Í litla kunningjasamfélagi og alræði stjórnmálaflokkanna standa lögregluyfirvöld lömuð. Krafa heiðarlegra áhorfenda er vitaskuld að hinir meintu auðjöfrar og skósveinar þeirra allir verði teknir til tafarlausrar yfirheyrslu og eftir atvikum fangelsaðir.
Allt hik í þeim efnum getur verið þjóðinni dýrkeypt.
Varist jólasveininn
2.4.2009 | 11:43
Jólasveinar eru skemmtilegir í skammdeginu en jólasveinar sem birtast rétt fyrir kosningar eru varasamir, jafnt hvort þeir heita Ástþór.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú upplýst að allir landsfundir stóru stjórnmálaflokkanna og önnur framboð hafi nú tekið undir þá kröfu að lán húsnæðiseigenda verði færð niður á kostnað ríkisins.
L-listinn hefur ekki gert þetta og mun ekki gera. Sú hugmynd að ríkissjóður yfirtaki hluta af skuldum hjá jafnt ríkum sem fátækum er svo fráleit og hættuleg að til algerra fádæma horfir.
Með glópsku og stjórnleysi EES-tímans höfum við þegar skuldsett komandi kynslóðir þjóðarinnar langt fram eftir öldinni. Að bæta enn ofan á þær klyfjar er ekki bara vanhugsað heldur beinlínis ófyrirleitið.
Frambjóðendur í slíkum jólasveinaleik ættu að halda sig á fjöllum fram á aðventu. Eina raunhæfa tillagan sem komið hefur fram vegna vanda heimilanna er að við stofnum hér Kreppulánasjóð og aðstoðum þá sem aðstoðar eru þurfi gegn því að ríkið fái eitthvað fyrir sinn snúð. Bendi ennfremur á afar athyglisverða grein Þorsteins Guðnasonar um þetta mál en þar er horft til þess hvernig standa megi að lánalengingum til þeirra sem duga slík úrræði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Varist einangrunarsinna og úrtölumenn
2.4.2009 | 09:07
Tveir hópar vaða nú uppi með mestu háreisti. Einangrunarsinnar og úrtölumenn. Sumir eru bæði, sumir bara annað og fáir tala á móti þessu liði.
Einangrunarsinnar birtast okkur í endalausum áróðri fyrir ESB aðild. Líklega er ekkert sem getur einangrað þjóðina jafn illa eins og einmitt að loka sig inni í tollamúrum þeirra þjóða sem standa verst allra í heimskreppunni. Framtíð okkar viðskipta er ekki síst austur og vestur þar sem blasa við tækifæri við hvert fótmál og hnattstaða okkar gefur ótrúlega möguleika á nýrri öld. Möguleika sem við höfum ekki ef við setjum frá okkur réttinn til að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir. Þann rétt hafa aðildarlönd ESB ekki. Svo einfalt er það.
Úrtöluliðið riðlast nú á krónunni (raðhólkast á henni eins og Jóhanna Sigþórsdóttir blaðakona myndi orða það). Það er rétt að krónan er ekki falleg þessa dagana en það er af því að gjaldmiðillinn er spegill hagkerfisins. Meðan það er að rétta við mun krónan margar kárínur fá en hún verður líka okkar öflugasta vopn til viðreisnar.
Nýlega sagði viðskiptaráðherrann okkar að krónan væri ónýt - sniðugt að vera ráðherra og tala svona - og bætti við að hún hefði alltaf verið ónýt. Ónýt til hvers. Ekki til að byggja hér upp hagkerfi sem okkur Íslendingum tókst betur en nokkurri annarri þjóð í Evrópu og hófum okkur hér frá krónustofnun úr því að vera fátækasta þjóð allrar Evrópu yfir í að vera sú ríkasta. Við fórum út af sporinu síðustu ár,-einmitt þegar við fórum að láta útlendinga stjórna hér í gegnum EES.
Ótrúlegar gripdeildir og yfirhilmingar
1.4.2009 | 22:45
Nýjustu fréttir af tugmilljarða lánveitingum bankanna til eigenda í hruninu miðju, kaup Jóns Ásgeirs á eigin lúxusvarningi og Tortolamillifærslur Landsbankans - allt ber hér að sama brunni.
Og verum þess nú minnug hverjir töluðu harðast gegn því að nokkrar eignir væru kyrrsettar eða nokkur skerti hár á höfði gangsteranna. Hverjir nema bankaflokkarnir þrír og VG kinkaði kolli.
Í öðrum löndum væri búið að setja handjárn á þessa menn og ég hef áður rökstutt að þessi linkind er réttlæting Bretanna fyrir að setja á okkur hryðjuverkalög. Meðan stjórnvöld eru hér algerlega meðvirk með þeim mönnum sem fóru ránshendi um eigur jafnt Breta sem landa sinna,- þá er von að bresk yfirvöld taki íslenskum stjórnvöldum af tortryggni...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hagfræðin deyfir skynsemina
1.4.2009 | 20:55
Allan útrásaráratuginn vissu gamlar konur sem ekki hlustuðu um of á fréttir að það væri vitaskuld vitleysa að allir gætu lifað af að skiptast á pappírum. En enginn hlustaði á þær.
Við hlustuðum flest á hagfræðinga sem hlustuðu svo á aðra hagfræðinga. Af frábærri rannsókn sem segir hér frá má ráða að það hafi einmitt verið sérfræðingatrú Vesturlanda að svo fór sem fór. Verum þess minnug að hagfræði er ekki raunvísindagrein heldur hugvísindi með mjög háu flækjustigi. Guð hjálpi þeim sem halda að ráðið út úr vandanum nú sé að hlusta meira á sérfræðingana.
Fjármálakreppa tengd heilastarfsemi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meistaralegt aprílgabb
1.4.2009 | 20:28
Af því sem ég hef séð er aprílgabb Baugsmiðlanna það besta,- opinn borgarafundur með Davíð og Jón Ásgeir. Og það eina sem ég aðeins féll fyrir þó ég hlypi ekki upp í háskólabíó. Ætti þó að þekkja lundarfar gamla Seðlabankastjórans betur en svo að láta mér detta í hug að hann láti plata sig í slíkan leik.
Annars hef ég verið lítið við tölvu í dag,- lenti í að leiðsegja eldri borgurum í morgun og síðan á fundasnatti fram eftir degi. Bæti úr með nokkrum bloggfærslum í kvöld.