Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Saga eftirlifenda ef efnilegt stórvirki

Bókin Saga eftirlifenda, Höður og Baldur, kom út nú á haustdögum hjá Nykri. Höfundur er Emil Hjörvar Pedersen. Hér er á ferðinni stórvirki sem hélt mér föngnum frá fyrstu blaðsíðu. Eiginlega ævintýrasaga úr óræðri framtíð og grárri forneskju og á sér helst systur í skáldaheiminum í sögum Tolkiens.

Bókin er eins og sögur Tolkiens ævintýrabók fyrir börn og ekkert síður fullorðna. Hér er stokkið fram og til baka um aldir enda sögupersónurnar hinir ódauðlegu æsir og vættir þeirra sem hafa ranglað hér um jarðarkringluna um árþúsundir.

Gallalaust er verkið ekki. Þess verður mjög vart við lesturinn að höfundur hefði mátt slípa það betur, jafnvel bara góður prófarkalestur hefði gert mikið.  Bókin öll minnir á efnilegt barn sem vantar þá ögun og vandvirkni sem þarf til að stórvirki þetta eigi möguleika á að vera kallað meistaraverk.

Höfundur hefur boðað að þetta sé fyrsta bókin af þremur í þríleik um æsina ódrepandi, Höð og Baldur. Það er vonandi að hinn ungi höfundur nái að slípa seinni hlutana betur því andagiftina á hann nóga til verksins.  Ég býð spenntur eftir framhaldinu. /-b.


Gróf íhlutun og mútutilraun

Eðlilega er ágreiningur um hugsanlega ESB aðild Íslands. Bæði ESB-sinnar og við sem erum andsnúin aðild getum verið sammála um það. Um leið hljótum við að viðurkenna að í þessum ágreiningi hljóti meirihlutinn að ráða og að tekist skuli á um þetta ágreiningsmál í jafnræði, heiðarleika og bróðerni. Eða hvað?

Nú bregður svo við að auk þessara tveggja fylkinga landsmanna er þriðji aðilinn farinn að blanda sér í slaginn, sem er Evrópusambandið sjálft. Það hefur nú boðað að hundruðum milljóna króna verði varið til að breyta íslenskri stjórnsýslu á samningstímanum, stórum upphæðum verði einnig varið í byggðastyrki og fjölda Íslendinga boðinn ferðakostnaður á fundi og kynningar hér heima og erlendis.

Það er vitaskuld enginn erlendur utanaðkomandi aðili sem kemur að ágreiningi þessum frá hinni hliðinni og regnhlíðarsamtökin Heimssýn sem berjast gegn aðild eiga nú 23. ágúst á reikningum sínum 475.658 krónur. Samtökin halda úti einni skrifstofu með hálfu stöðugildi en Evrópusambandið boðar nú að það muni opna tvær upplýsingaskrifstofur í landinu, eina norðan heiða og hina í Reykjavík. Það er gróft að kalla þetta mútur þegar við vitum ekki hvernig þiggjendur bregðast við en án efa er þetta mútutilraun gefanda.

Það má líkja þessu við það ef að landsliðið kæmi inn á völlinn á pollamóti í fótbolta og gengi í lið með Selfossi á móti Keflavík. Þann veit ég þó mun á ungum fótboltamönnum á Selfossi og íslenskum ESB-sinnum að pollarnir hér myndu alltaf mótmæla því að fá svo ósanngjarna hjálp í baráttunni. Íslenskir ESB-sinnar eru aftur á móti hvorki drengilegir né vandir að meðulum og fagna því flestir grófri íhlutun stórveldis í innanlandsmál.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband