Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Athyglisverður evrufyrirlestur í hádeginu

Í afar athyglisverðu viðtali RÚV við Anthony Coughlan í Speglinum í gærkvöldi útskýrði þessi írski prófessor hvernig evran hefur leikið Íra. Nú gefst þeim sem áhuga hafa tækifæri til að fræðast meira um málið og hitta fræðimanninn í eigin persónu á opnum fundi sem Heimssýn og Háskóli Íslands halda með honum nú í hádeginu. 

Fundurinn verður kl. 12 og er í stofu 101 í Odda á Háskólalóðinni. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Vinstri vefur gegn ESB

Hér á moggablogginu hefur verið opnuð vefsíða sem er sérstaklega helguð baráttu okkar vinstri manna gegn ESB aðild Íslands - en um leið almennum pælingum. 

Þar eru þegar komnar nokkrar greinar og fleiri á leiðinni. Sjálfur á ég þar smá pistil um markaðshyggjuna sem er einn mestur guð evrópuhugsjónanna.

Þetta eru pælingar þar sem ég er ekki endilega kominn að annarri niðurstöðu en þeirri að markaðshyggjan er mest misskilningur og bylting hennar hefur fyrir löngu étið síð börn.

Í [þar]síðasta Silfri Egils sátu fjórir talsmenn jafn margra stjórnmálaflokka og ræddu þjóðmálin og voru svo sammála um að auðvitað hlyti markaðshyggjan að ráða för í atvinnulífinu, þar gæti ekkert annað átt við. Svo hlógu allir að þeirri fjarstæðu að nokkrum gæti þótt annað.

Getur verið að það sé kominn tími til að endurnýja gömlu sósíalísku leshringina, leita nýrra lausna og hafna þeim spillta stórfyrirtækjaheimi sem byggir á löngu viðurkenndum sannindum sem eru þegar kíkt eru undir teppið blygðunarlaus lygi.


Eldfjallaeyja og lokaður gluggi

Elín skipaði mér að sofa við lokaðan glugga í nótt. Ég geri það aldrei og hugsaði með mér að setja rifu á hann þegar hún væri sofnuð. Sem betur fer sofnaði ég á undan. Í morgun var allt þakið ösku á lóðinni og sömuleiðis í þvottahúsinu þar sem alltaf er opið fyrir köttinn Ásu Signýju.

Um daginn fundu menn forn en þykk öskulög í Reykjavík sem sýnir að enginn er hér óhultur. Tíðindin núna segja okkur að það er mikilvægt að búa svo í landinu að við getum verið því viðbúin að þurfa að rýma ákveðna landshluta og veita neyðaraðstoð með litlum fyrirvara. 

En það er samt fyrir mestu að loka glugganum þegar konan segir manni að loka glugganum. 


Um hagkvæmni stærðar og aðrar vitleysur

Guðmundur Brynjólfsson leiklistargagnrýnandi skrifar í athugasemdakerfi Eggjarinnar:

Þetta með trúarbrögðin „hagkvæmni stærðarinnar“ á líka við um það æði sem hér hefur farið yfir – og ekkert lát er á – um sameiningu sveitarfélaga.

Ástæðan fyrir því að við skulum nú vera niðurkominn – okkur að engu gagni – í EES er af svipuðum rótum runnin; ráðamenn hér og erlendis töluðu um lýðveldið Ísland eins og einhvern hrepp sem í engu gæti staðið vegna smæðar sinnar. Sú röksemdarfærsla var auðvitað, og er, firra. Við höfum verið lögþvinguð til að taka upp allskonar óskapnað í lagaformi og samninga vegna EES. En hinu ekki haldið til haga að það af því sem nýtilegt er hefðum við getað tekið upp eða skapað okkur eftir eigin höfði í samræmi við okkar eigin þarfir; við í okkar litla hrepp.

Sú krafa að við yfirgefum EES þarf að verða meira áberandi og hún þarf að komast fyrir alvöru til umræðu. Þetta ádrepa Bjarna er ágætt innlegg í þá umræðu – megi hún sjást sem víðast.

Sjá nánar.


Ef khat er fíkniefni ...

Það orkar mjög tvímælis að flokka khat sem fíkniefni. Í Bretlandi er efni þetta leyft og þó að neysla þess sé kannski álíka ávanabindandi og kaffi þá eru áhrifin óveruleg. Þetta er mjög náttúrulegt efni og á sér langa hefð en kannski er samt engin ástæða til að leyfa það hér á norðurhjaranum. 
mbl.is 60 kíló af fíkniefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...afhverju glottu indjánarnir!

peruindj.jpgÞað er ekki nóg að segja að það hafi eitthvað verið að á hinum heimskulega útrásartíma. Það er eitthvað mikið að í dag og ekkert lát á. Þrátt fyrir eina og eina villu eru sömu Íslandsbersarnir á götunum hérna – og í nágrannalöndum eins og Írlandi er ástandið ef eitthvað er verra. 

Bankaræningjarnir sem hlupu í felur undan okkur í hitteðfyrra eru komnir á kreik aftur, ekki endilega undir nýjum nöfnum heldur þeim sömu. Ganga semsagt bísperrtir og berrassaðir sem keisarar niður bæjargilið og heimta margfalt í tímakaup fyrir ekkert.

Árið 2008 var ég í Perú og las fullur vandlætingar um forsetaframbjóðanda sem stal ríkissjóðnum eitt árið og sat úti í Evrópu í vellystingum um hríð en kom svo aftur heim og lét aftur kjósa sig eins og ekkert hefði í skorist. Ég man ekki alveg hvort hann náði kjöri en það er aukaatriði, ég var jafn hneykslaður fyrir hönd vina minna, hjartahreinna framsóknarindíána í fjöllunum þar.

Núna veit ég afhverju sömu Indíánar glottu svona drýgindalega þegar við ræddum þetta á sólardegi yfir kóka-tei. ...

Sjá nánar  á vefritinu Egginni, hér. (Myndin er af uppsveitaindjánum í Ikítós við Amazon og þeim var allt annað en hlátur í hug enda að prútta um dýrmætan geithafur sem lá fleginn og makindalegur á borði teppakaupmannsins.)


Djúpt snortinn af átakanlegri kreppusögu

Á hverjum degi birtast okkur sögur af fólki sem ekki á í matinn, ekki getur greitt af húsunum sínum, ekki á pening svo börnin komist í tómstundastarf eða skólaferðalag og sumar af þessum sögum koma við mig. Blankheit og fátækt eru raunveruleiki á Íslandi í dag, sár veruleiku og úr því þarf að bæta.

Stundum eru sögur þessar líka reglulega birkilanskar þar sem fólk getur ekki veitt sér hluti sem eru ekki nema í meðallagi nauðsynlegir. En jafnvel þær sögur geta samt verið átakanlegar enda skortur alltaf sár hverjar svo sem forsendurnar eru.

Þessi flokkur í eftirkreppusagna náði í kvöld nýjum hæðum með viðtali Ríkisútvarpsins við Tryggva Þór Herbertsson sem ekki kemst í gegnum þingmannsmánuðinn nema borga með sér. Þá líklega af sjóðum fornum. Ég trúi Tryggva fullkomnlega. 

Tryggvi sem er hinn mætasti drengur hefur verið frekar óforsjáll í peningamálum og gekk illa að reka banka, jafnvel meðan allir voru enn að græða á svoleiðis jukki.  En frásögn þingmannsins var hjartnæm og átakanleg og vissulega liggur á að bæta kjör forstöðumanna og þingmanna því ef slíkt fólk fær ekki há laun hver er þá eftir til að vorkenna smælingjum þessa lands. 


Svindilbrask með opinberu aflátsbréfi

Þegar við horfum á marggjaldþrota stórfyrirtæki í eigu sömu manna, óréttlát undirboð og hreina kúgun sömu fyrirtækja gagnvart framleiðendum, krosseignatengsl fyrirtækja sem eiga að keppa sín í milli og endanlegan dauða hins smáa og heiðarlega þá sér hver sem það vill sjá að þetta sem kallað er markaðssamfélag er í fæstum tilvikum annað en svindilbrask með opinberu aflátsbréfi.

Sjá nánar, 1. maí ræða hjá Stefnu á Akureyri


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband