Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Eiga bara að borga meira...

Sá sem kaupir svín og fær hross ætti að borga aðeins meira og þakka fyrir sig. Það er svo ólíkt hvað hrossakjöt er miklu betra en svínakjöt. 
mbl.is Hrossakjöt, en ekkert svínakjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóksali verður forvörður

amy_malar

Í sumar sem leið bjó hjá okkur Sólbakkahyski bresk ferða- og listakona, Amy Hiley. Eitt af því sem þessi stúlka tók sér fyrir hendur var að mála "henna" munstur í kaffiborðið hér utan við kaffihúsið. Flestir sem sitja við borð þetta halda að hér sé á um að ræða munstur eða málningu eftir skapalóni en það er ekki. Þetta er málað algerlega fríhendis og er hið mesta hagleiksverk. 

Ofan á var svo margmálað glært lakk til varnar og framan af hausti hafði ég miklar áhyggjur af grip þessum í umhleypingum. En allt virtist í lagi og ég var eiginlega farinn að trúa að verkið stæðist íslenska veðráttu. En nú í janúar komu smá skellur og nú er bóksali kominn í hlutverk forvarðar. Rafmagnskeflið góða er komið inn á gólf í bókhlöðunni okkar og þegar allur raki er þar úr hefjumst við handa við að verja það með öllum tiltækum ráðum. 


Tvær þjóðir Fréttablaðsins

Fréttablaðið, málgagn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er skrýtin skrúfa. Um þessar mundir hamast blaðið á gjaldeyrishöftunum en gengur vitaskuld erfiðlega að benda á böl þeirra fyrir almenning. Eða hvað?

frettabl1803

Viðskiptaritstjórinn þar skrifar nýlega leiðara þar sem hann bendir á að gjaldeyrishöftin skapi misrétti. Það séu til Íslendingar, (jafnvel gamlir útrásarvíkingar) að vísu aðallega búsettir erlendis, sem fái krónur á afsláttarkjörum hjá Seðlabankanum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.  Þeir geti því keypt eignir hérlendis á öðrum kjörum en við sem höfum okkar tekjur í íslenskum krónum.

Staðreyndin er aftur á móti sú að með afsláttarleið Seðlabankans er viðurkennt að krónan sé enn í nokkuð háu opinberu gengi. Við vitum að þegar Seðlabankanum sleppir er gjaldmiðill okkar jafnvel enn lægri. Hversvegna,- jú þökk sé útrásinni sem setti hér allt í kalda kol. Ef Fréttablaðið veit til þess að gamlir útrásarvíkingar búsettir hérlendis séu að nota sér fjárfestingaleið Seðlabankans þá er eðlilegt að blaðið segi okkur frá því, það eru hæg heimatökin. Það er reyndar vafamál að slíkt ráðslag standist lög því hér er skilaskylda á gjaldeyri - en hvenær hafa lög sem gilda um almenning gilt um útrásarvíkinga.

En meðfram verðum við að horfa á hróp frjálshyggjupostula, gamalla útrásarvíkinga og ESB talsmanna gegn gjaldeyrishöftunum út frá því hver hrópar. Er þetta eins og Fréttablaðið segir ást á því jafnræði að allir siti við sama borð. Eða hvaða stól á íslenskur almenningur við það hákarlaborð?

Getur verið verið að gjaldeyrisbraskarar, skortsalar og ákaflyndir landsölumenn ESB trúboðsins eigi hér samleið í þeirri vegferð að skapa íslenskum forréttindaaðli lífvænleg skilyrði.


Nýr þjóðarsáttartími runninn upp

Nú á endurreisnarskeiði eftir bankakreppuna er þörf á þjóðarsátt í kjaramálum. Siðast þegar slík sátt var gerð fyrir aldarfjórðungi baðst atvinnulífið undan verðtryggingu launa. Á það var fallist en verðtrygging lána hélst. Af því hefur síðan hlotist mikið óréttlæti.

Þeir sem réttlæta verðtryggingu lána með jafnvirðisrökum geta ekki talað gegn verðtryggingu launa. Reynslan kenndi okkur samt að við verðtryggingu launa stenst samfélagið ekki.

Vandamálið er að verkalýðsforystan á Íslandi er hluti af varðmönnum fjármagnsins í gegnum lífeyrissjóðina. Því er þessi forysta í reynd óhæf til að höggva á þann hnút sem ógnar afkomu eignastöðu alls almennings. 

Ný þjóðarsátt getur aðeins orðið ef kjörnir fulltrúar þjóðarinnar afnema verðtrygginguna og lækka hér til muna vexti af húsnæðislánum.  


mbl.is Tíu hafa óskað eftir viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB sinni tekur við af laumu ESB sinna

Steingrímur J. hefur ákveðið að hætta ekki í stjórnmálum en nú skal punta svoldið. Fyrir okkur sem berjumst gegn markaðsguðinum og ESB væðingu hefur lítið gerst. Lengi vel trúðum við því og þjóðin öll að gamli formaðurinn í VG væri ESB andstæðingur og hann var einn af stofnendum samtaka okkar, Heimssýnar. Seinna sýndi hann sitt rétta andlit og fullveldishugsjónin reyndist föl fyrir ráðherrastóla. Nú er sem betur fer að verða viðurkennt hvoru liðinu hann tilheyrir og það er fólginn í því léttir fyrir jafnt Steingrím sjálfan og vini hans. 

ofur_samfylkingin

Um Kötu gegnir öðru máli. Þeir sem starfað hafa í VG hafa alltaf vitað að hún er einhverskonar ESB sinni. En fer fínt með þá skoðun sína og hefur vitaskuld fengið að hafa hana óáreitt enda sem betur fer skoðanafrelsi í þessum efnum.

En það að formsembætti formanns færist frá laumu ESB sinna til alvöru ESB sinna sem á sér þann draum æðstan að fá að ganga í Samfylkinguna gerir flokk þennan ekki að valkosti fyrir okkur sem höfum haft skoðun í takt við skrifaða stefnu þessa flokks. 

En ásýnd flokksins breytist við þetta og það er þá alltaf eitthvað - svona rétt þegar kemur að kosningum. Kannski tekur Steingrímur svo bara við aftur eftir kosningar enda alls ekki hættur í pólitík! 


Afhverju sníkir hann smjerið, drengurinn?

Ég er einn þeirra manna sem hvunndagslega sníki smérið. Ekki þannig í eiginlegri merkingu að ég fari í Kaupfélagsskrattana hér í plássi og relli í afgreiðslufólkinu að gefa mér smjör. 

En þetta er semsagt gamalt orðtæki sem var allavega þekkt í Grímsnesinu á fyrri hluta síðustu aldar. Það vísar til þess að vera með skyrtuboðungana flaksandi upp úr buxunum, stundum bara annan en á sunnudögum jafnvel báða.

Hjá fæstum er um að ræða ásetningsglæp og ég hef ekki heyrt um að þetta særi blygðunarkennd nokkurs en maður veit samt aldrei. Í raun og veru er þetta komið til af vaxtarlagi, þegar manni tekst með aldri að þróa með sér framstæða kúrvu eins og ófrísk kona þá er alltaf hætt við því að minnsta búkhreyfing verði til þess að skyrtan tosist aðeins upp úr enda veldur velmegun því að hún kemst mjög stutt niður fyrir buxnastreng. Þetta má vissulega leysa með mjög uppháum buxum en "það er sagt mér" að þær séu ekki í móð. Hin aðferðin er að hafa enn framstæðari maga þannig að skyrtan sé öll ofan strengs og strekkt þar þannig að ekkert flaksast.

Þetta með að sníkja smjerið er eiginlega vandamál meðalmennskunnar. Vandi okkar sem hvorki erum almennilega feitir né anorexíuleg sporteðjót. Hjá mér er þetta alls ekki tengt aldurdómi heldur hef ég alla ævi verið svona utan stutt hungur- og veikindaskeið í suðrænum löndum.   

En allt þetta mas, bara til að koma einu orðatiltæki á framfæri. Böðvar Pálsson á Búrfelli sem er heimildamaður minn að þessari skemmtilegu rúsínu í málinu kunni engar sögur af því hvernig hún væri til orðin né heldur afhverju þetta héti svo.

En skýringin liggur samt nokkuð í augum uppi að þetta tengist því að sá sem missir skyrtuboðungana svona upp úr streng er talinn hafa fengið ofan í sig, hann hefur náð að sníkja sér smjör á lífsleiðinni. Um hann yrði líka sagt eins Sæmunddur heitinn á Friðarstöðum sagði um mig ungan,- hann bítur ekki klakann þessi.  

PS: Án þess að það eigi að tala um pólitík í sunnudagsmessu, samt til hamingju Steingrímur með að hafa hætt við að hætta við að hætta - en hætt samt einhverju pínu smá... 


Fráleitt að efna til ESB kosninga

ESB sinninn Karl Th Birgisson bendir á það í nýlegum pistli að það sé fráleitt að efna til ESB kosninga nú. Ég er sammála honum og skrifa örlítið um þá þanka á síðu Vinstri vaktarinnar í dag.

Alþingi ber skylda til að slíta ESB viðræðunum en að því loknu er aftur á móti sjálfsagt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu þjóðarinnar í samfélagi þjóðanna.

Þar eigum að spyrja um ESB, EES, krónuna og verðtrygginguna en allt þetta brennur á þessari þjóð. Sjá nánar: http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1281940/


Sameiningar á Íslandi hafa alltaf leitt til meiri kostnaðar

Rekstur 14 lánastofnana árið 2011 kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug síðan og jafnast á við tvo Landsspítala í dag. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar.

Svo segir í lauslegri endursögn Morgunblaðsins af nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um bankakerfið. Það þarf enga spekinga til að sjá að bankakerfi okkar er of dýrt og viðamikið. 

Það sem einkum vekur hér athygli er að fækkun stofnana hefur ekki leitt til sparnaðar heldur þvert á móti aukið kostnað. Þetta höfum við séð á fleiri sviðum. Rekstur risaspítalans í Reykjavík kostar meira miðað við afköst en rekstur tveggja eða þriggja áður. Hér á Suðurlandi voru allar heilsugæslur sameinaðar í eina og rekstrarkostnaður jókst við það verulega. Við höfum sameinað sveitarfélög þrátt fyrir yfirlit yfir ársreikninga sveitarsjóða sýni áratug eftir áratug (koma fram í svokallaðri Árbók sveitarfélaga) að því stærri sem sveitarfélögin eru í höfðatölu því meiri er stjórnunar- og rekstrarkostnaður á hvern íbúa. Skuldir á haus eru líka hærri í stóru sveitarfélögunum en þeim litlu. Ráðuneytin eru kapítuli ut af fyrir sig en þar hefur starfsmönnum fjölgað en ekki fækkað við sameiningar. Svo mætti áfram telja.

Það oflæti Íslendinga þykjast jafnan vera milljónaþjóð eru henni dýrkeypt. Í samfélagi sem telur liðlega fjórðung milljónar er ekki líklegt að við náum fram raunverulegum sparnaði með því horfa til hagkvæmni stærðar. Það er miklu líklegra að við náum árangri með því stefna markvisst að hagkvæmni smæðar. Litlar sjálfstæðar einingar hafa ótal kosti og minni tilhneigingu til skrifræðis og veldisvaxtar Parkinsonslögmáls. 

Við hrunið stóðum við uppi með þá mynd að stórfyrirtækin öll skulduðu tugi og hundruðir milljarða sem ekkert fékkst af. En það sem stóð af sér þessar hamfarir var helftin af litlu fyrirtækjunum í landinu og af þeirri mynd eigum við að draga lærdóma. 


Hvað segir peningafrjálshyggjan nú?

Talsmenn hins frjálsa flæðis kapítalismans trúa því að markaðsskráning gengis og frjálst flæði sé forsenda framfara. Um þessar kennisetningar hafa talsmenn tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins löngum sammælst og fengið ótrúlega marga á sitt band.

Þá breytir engu að nú síðustu áratugi meðan frelsið hefur verið sem mest í okkar heimshluta hafa framfarirnar og hagvöxtur orðið mest í löndum sem öðru vísi haga sínum málum, s.s. Afríku, Kína og Indlandi. Og fyrir þessum trúmönnum breytir heldur engu að hröðustu framfarir frá fátækt til velmegunar bæði hér á landi og víða í hinum vestræna heimi urðu ekki undir nútíma peningaoki alþjóðakapítalisma og frjálshyggju. 

Og nú stígur Frakklandsforseti fram og kveinkar sér undan evrunni. Hann er reyndar ekkert einn um það, öll Suður Evrópu stynur og blæðir undan frelsi gjaldmiðilsins sem enginn má stýra nema sá sterki og ríki. Það vill nefnilega til að frelsi peningaaflanna hefur í för með sér ófrelsi þjóða.


mbl.is Hátt gengi evrunnar ógnar ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höftin, evran og leikvöllurinn

Frá því um hrun hafa gjaldeyrishöft verið við lýði á Íslandi. Með reglulegu millibili koma ESB sinnar og vinir þeirra laumu-esb-sinnarnir og reka upp mikið skaðræðisvein. Höftin séu áþján á þjóðinni, þau séu að drepa atvinnulífið. Vegna haftanna sé enginn hagvöxtur, engar erlendar fjárfestingar og allur leikvöllur kapítalismans ónýtur.

Almenningur hlustar á þetta og vorkennir vitaskuld vesalings mönnunum að geta ekki leikið sér með fjármagnstilfærslum og gjaldeyrisbraski. En óhagræði hins almenna borgara af gjaldeyrishöftunum eru ekki augljós. Við getum eftir sem áður ferðast út og með greiðslukorti eytt meiru en við höfum gott eða gaman af.

Þegar við svo berum saman tölur hér og í nágrannalöndum okkar þá dúkkar upp sú undarlega mynd að hagvöxtur og uppgangur á hafta-Íslandi er skömminni til skárri en í evrulöndunum í nágrenni okkar þar sem engin höft eru. Sum evrulandanna eru farin lóðbeint á hausinn og þurftu engin höft til. Þegar málið er skoðað ofan i kjölin kemur einmitt í ljós að höft hefðu getað bjargað þessum löndum.

Fyrir heimilin í landinu og almenna lántakendur hafa höftin bjargað miklu og tryggt hér meiri stöðugleika heldur en við gátum vonast til fyrst eftir hrun. Upphrópanir um höftin og hina hræðilegu krónu eru ekkert annað en tilraun til að fela það að evru-málstaðurinn um að Ísland verði að taka upp annan gjaldmiðil er löngu sigldur í strand.

Vitaskuld er endurreisnarstarfi eftir bankahrunið ekki lokið. Við þurfum næst að semja okkur frá snjóhengju aflandskrónanna sem er eðlilegast að gera með því að greiða krónur bara í krónum. Eftir það getum við smám saman losað um höftin en ættum um leið að taka upp alvarlega umræðu um það hvort við viljum galopna hagkerfið fyrir fjármálagangsterum eins og var hér frá gildistöku EES og allt fram að hruni.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband