Vitleysa ...

Þessi niðurstaða Landsdóms er vitaskuld bara vitleysa. Auðvitað mátti alveg sakfella Geir og ég held að það hafi einmitt átt að sakfella hann fyrir margra ára meðvirkni með glæpsamlegu fjármálakerfi og ennfremur fyrir þátt í að koma því upp. Þar skiptir engu máli hvort einhverjir aðrir hafi átt þar stærri þátt í að koma svikamyllunni upp. Í réttarríkinu gildir að hver maður er ákærður fyrir það sem hann gerir og þó að aðrir sleppi þá eru þeir sem nást jafnsekir.

En þetta Landsdómsmál var allt orðið útþynnt og vitleysislegt. Að sakfella Geir fyrir að ræða ekki á fundi það sem allir voru að ræða allan daginn og alla daga, það er bara barnalegt. 

Hvað þá með Björgvin og Ingibjörgu miðað við þessa niðurstöðu?


Sigur Breiviks

Fréttastofur og netmiðlar flytja okkur nokkra tugi frétta af Breivik á degi hverjum, við vitum orðið meira um hugsunarhátt hans en flestra annarra. Þó að ég sé farinn að slökkva þá situr eitt og annað eftir. Ég man ekki eftir sambærilegum ofur-fréttum af réttarhöldum yfir öðrum hryðjuverkamönnum á Vesturlöndum. Reyndar man ég ekki nafn á neinum einasta sem tók þátt í árásunum á Spáni, NY 9/11 eða öðrum sambærilegum illvirkjum. En nafn Breiviks verður uppi löngu eftir að Hamsun og Bruntland verða gleymd.

Það er eitthvað að í okkar Skandinavísku veröld að þessu auðvirðilega og geðsjúka illmenni skuli tryggður svo sætur sigur.


mbl.is „Ég er ekki geðveikur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsögn í ESB skruminu

Það getur ekki orðið til samningur um ESB aðild nema til sé orðið plagg sem báðir viðsemjendur eru sáttir við og mæli með að verði að veruleika. Annað er ekki samningur, hvorki í lagalegum skilningi né heldur út frá almennum málskilningi.

Það þýðir að ríkisstjórn Íslands hlýtur þá að ætla að mæla með aðild samkvæmt samningi sem fyrir liggur. 

Nú hefur hluti ríkisstjórnarinnar lýst því yfir að hún sé á móti ESB aðild. Sé þeim ráðherrum alvara þá geta þeir aldrei mælt með samningi sem gengur út á að Ísland gangi í ESB. 

Þar með gerist hið augljósa, ef ríkisstjórnin er ekki sammála um að ganga í ESB þá getur hún ekki gert samning um það og málið strandar.

Nema það sé eitthvert skrök hér á ferðinni, hinir meintu andstæðingar innan ríkisstjórnarinnar séu það ekki endilega eða sú það bara í plati. Getur það verið?


mbl.is Alþingi taki ákvörðun um samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt hjá formanninum

Ástkær leiðtogi okkar vinstri manna olli mörgum okkar vonbrigðum í gær. Tilefnið var umræða ESB aðildarferlið og minnt var á að Steingrímur hefði sjálfur haft orð á því sumarið 2009 að til þess gæti komið að ferlið sýndi það að ekki yrði staðið við fyrirvara Íslands og þá ætti að standa upp og slíta viðræðunum. En nei, sami Steingrímur sagði í gær:

"...Ég sé ekki að í neinu tilviki hafi nokkrum tekist að færa fram sönnur um að í einu eða neinu hafi verið hvikað frá því að standa vörð um þá grundvallarhagsmuni sem skilgreindir voru hér vorið 2009. Og á meðan svo er ekki að þá hafa menn lítið efni í sín upphlaup hér um þessi mál."

Nú er vitaskuld ekki hægt að ætlast til að formaður VG lesi Morgunblaðið en allmargir hafa orðið til að vitna í skrif Guðrúnar Hálfdánardóttur blaðamanns þar um ræðu Kolbeins Árnasonar um ESB viðræðurnar. Kolbeinn er ekki bara maður úti í bæ heldur formaður samningahóps Íslands í viðræðum okkar um sjávarútvegsmál í aðildarviðræðunum. Hann benti á það á fundi hjá Viðskiptaráði í nóvember síðastliðnum að Ísland gætu ekki haldið forræði sínu yfir deilistofnum og erlendum útgerðum verður við aðild heimilt að kaupa upp íslensk útgerðarfyrirtæki.

Það er því einfaldlega rangt hjá formanni VG að engum hafi tekist að færa sönnur á neitt í þessu efni. Þegar formaður íslenska samningahópsins um sjávarútveg gefur yfirlýsingar sem þessar er ljóst að samninganefndin ætlar ekki að halda fram þeim kröfum sem eru þó skýrar í þeim skilgreiningum og umboði sem Alþingi gaf samninganefndinni með ályktun sinni 16. júlí 2009.

Samninganefnd Íslands er komin út fyrir það umboð sem Alþingi gaf og þeir VG þingmenn sem styðja umsóknina hafa vitaskuld ekkert umboð til þess frá sínum kjósendum.

(Skreytnin hér í upphafi greinar að kalla formann VG ástkæran er alveg merkingarlaust og bara bókmenntaleg áhrif frá síðasta bloggi sem fjallaði um ástarrómana sem eru miklu skemmtilegri en ESB karp.)


Ástarrómanar og fleiri rómanar

Með harðfylgi tókst mér að losna úr þeim viðjum að lesa eingöngu 19. aldar ástarrómana á borð við Kapítólu og Einþykku stúlkuna og snöri mér að bókmenntunum!

Las þessvegna Oddnýju Ævarsdóttur og Jón Kalman en hvort sem það sat svona mikið eftir mér af fyrri lestri eða annað þá urðu þetta líka að ástarrómönum, vellulegum en velskrifuðum vísindum um heilastarfsemi á hormónaskeiði. Hjarta mannsins er nautnalega vel skrifuð en endar einmitt í dulítið óraunsæislegum og reifarakenndu keleríi þar sem fólk kýs frekar að vera nakið en í blautum fötum í lífshættulegum kulda.

Þeir sem reynt hafa vita að það er mikið betra að vera í blautum fötum en engum.


Kátleg mynd af meintum andstæðingum

...
Öðrum þræði er það kátleg mynd að þeir sem segjast vera hvað mest á móti ESB aðild vilji að ESB lestin fari sem hraðast. Í hinu margbrotna og flókna aðlögunarferli ESB er nefnilega ekkert sem heitir bara að kíkja og sjá, það verður að gera og græja um leið, svo notað sé götumál. Aðeins með aðlögun eins og þeirri sem farið er fram á í landbúnaði núna, fá Íslendingar að „vita" hvað er í ESB pakkanum. Reyndar er þetta með að sjá ofan í pakkana svoldið eins og að horfa ofan í pappakassa í myrkri því enginn veit hvaða áhrif hafi þau ókjör af reglufári sem við blasa.

Sjá nánar á Vinstri vaktinni, http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1233723/


Menning í samfélagi við vöfflujárn

ketill_og_bjarniTeljarinn á vöfflujárninu er kominn í 7384 vöfflur og það kólnaði aldrei í dag og ekki heldur á laugardaginn.

Stemningin í Sunnlenska bókakaffinu var óborganleg þessa opnunardaga núna um páskana. 

Menning, vöfflur, svolítið meiri rjómi, ögn af Jóni Kalmann, mikið af Kanil eftir Siggu, sögur af fjólubláum hrossætum, ljósmyndir Gunnars Marel, djöflaterta, gamlir reifarar á ensku, ævisaga Páls Ólafssonar, árituð Petrísk orðabók, kakó með rjóma, innbundinn Náttúrufræðingur upp í hillu, soja latté, Melodramer eftir Drachmann, Oscar Clausen, nokkur Burdablöð og svo margt og svo margt... 

Að síðustu kom Ketill Larsen í heimsókn og einn gestanna smellti þessari skemmtilegu mynd af okkur af því að við erum svo kynþokkafullir. 

(Ljósm.Jóh.Kr.Kristjánss.)


Krossfesting á Arnarhóli

Við hjónakornin fórum í Hallgrímskirkju þar sem í dag voru lesnir Passíusálmar og í sálm-forleik á undan tíunda sálmi var frumflutt verk eftir Elínu, afar fallegt.

krossfesting_arnarholi

Í heimleiðinni ókum við svo hjá Arnarhóli þar sem var verið að krossfesta mann.

Þar vantaði að vísu alla farísea og Pílatus var einnig fjarri góðu gamni en hinn krossfesti sem sagðist heita Elli frekar einmana. Aðspurður kvaðst hann hafa verið á krossi þessum frá hádegi og gera þetta í trúarlegum tilgangi. Jú, hann ðspurður sagðist sá krossfesti eiginlega vera kaþólskur. 

Korteri seinna var okkur litið á hólinn aftur en þá var kappinn farinn og sjónvarpsmenn sem mættu á staðinn virtust grípa í tómt! 

(Ljósm.: Elín Gunnlaugsdóttir.) 


Góð þjóðháttamynd

Konan mín fann upp á því eftir 25 ára hjúskap að nú væri komið að því að fara í kvikmyndahús. Það er ágætt svona í páskinum. Sáum Svartur á leik sem fyrirtaks vel leikin og grípandi þó að það vanti eiginlega alveg að í henni sé einhver saga. Við vorum bara að þvælast um frekar skuggalegt skemmtanalíf. Á leiðinni út hitti ég stráka sem eru algengir hér í húsinu í félagsskap sona minna og spurði þá hvort þetta væri svona hjá þeim. Já, sögðu þeir og voru greinilega að skrökva - enda allir ódauðir enn. 

Ef myndin væri látin gerast í Ameríku er ég ekki viss um að ég hefði nennt að horfa á hana í sjónvarpinu. Og þó, persónurnar voru skrambi sterkar og skemmtilegar.

Það besta við myndina er að þetta er þjóðháttamynd í fyrsta klassa, kannski engin betri verið gerð síðan doktor Haraldur talaði inn á hina stórkostlegu heimildamynd Í dagsins önn. Hér kynnist þjóðin öllu undirheimahyskinu og til þess að ljá þessu trúverðugan blæ er skellt inn í frægum afbrotamálum þannig að það litla sem gerist er þá líklega allt satt í ofanálag. 

Semsagt, fyrirtaks kvöldskemmtun, sérstaklega fyrir þjóðfræðinga! 


Þegar bitið er í skjaldarrendur

Fylgishrun ríkisstjórnarflokkanna kemur ekki að öllu leyti á óvart en gríðarlegt fylgi Sjálfstæðisflokksins er áhyggjuefni í landi sem varla er risið úr þeirri öskustó sem sá mæti flokkur bjó þjóð sinni. Hinir svokölluðu vinstri flokkar hafa unnið að endurreisn landsins með verklagi auðhyggjunnar og það er varla að það örli á umræðu um hið augljósa í hinum vestræna heimi að kapítalisminn er dauður.

Nú ætlar Árni Þór að bíta í skjaldarrendur en gleymir að þeir sem það gerðu í hinum gömlu sögum voru nær undantekningalaust drepnir. Þetta gerðu illa innrættir berserkir meðan uppskafningslegar hetjur á við Kjartan og Gunnar brostu eins og þeir væru súkkulaðigæjar úr Vesturbænum. 

Verður þetta ekki bara eins núna... 


mbl.is Verða að bíta í skjaldarrendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband