Til Afríku með Dohop
17.1.2010 | 16:15
Nú styttist í langþráð frí.
Dag nokkurn í jólavertíðinni ákvað kvenskörungurinn konan mín að senda mig afbæjar á nýju ári og fékk stálpaðan son okkar til að taka gamla manninn að sér í nokkrar vikur, orðin leið á spurningum gesta og gangandi í búðinni um það hvort þessi "elderly man" væri faðir hennar eða afi og því heppilegra að ég yrði um skeið með blámönnum og villidýrum.
Eftir liðlega viku legg ég því upp í flugvél til Svíþjóðar, Rómar og loks Addis Abeba í Eþjópíu og þaðan kem ég aftur liðið er fram yfir miðjan febrúar ef við fegðar lendum þá ekki í mannætupottum áður.
Til þess að fara svo langan veg án atbeina ferðaskrifstofa er best að nota einhverjar af þeim mörgu leitarvélum flugferða sem reknar eru í netheimum. Það er skemmst frá því að segja að í þeirri leit reyndist hin íslenska Dohop leitarvél öllum öðrum fremri, raunar svo að með öðrum leitarvélum tókst mér að ná heildarverðinu niður í 260 þúsund en með Dohop fékk ég miða fram og til baka á 140 þúsund.
Ef ég frétti eitthvað suður í Afríku læt ég ykkur vita en vísa annars á blogg Austurlandaegils (sjá mynd) sem hefur lofað að ala önn fyrir föður sínum í nokkrar vikur.
Hvar liggja hin háskalegu tengsl Icesave og ESB?
15.1.2010 | 23:30
...útspil forsetans verður ESB að Þórðargleði því þar með er jafnvel hætta á að Ísland lendi í enn alvarlegri fjármálakrísu en orðin er. Við erum þegar lentir í ruslflokki hjá matsfyrirtækjum og erlendir lánadrottnar ríkisins velta upp þeim möguleika að kippa að sér hendi. Þar með veikist til muna viðnámsþróttur þjóðarinnar til að standast útþenslustefnu Brusselvaldsins og hættan á evrópskri innlimun eykst verulega. Þegar við bætist svo hættan á að núverandi ríkisstjórn hrökklist frá völdum versnar enn staða okkar sem viljum standa vörð um sjálfstæði og fullveldi landsins.
Sjá nánar í pistli mínum á AMX, hér.
Í skákkennslu hjá Fischer
15.1.2010 | 14:34
Fischer er nú í Flóanum og því er við hæfi að skákáhugamenn geti sótt kennslu eftir meistarann hingað austur.
Því þó meistarinn sé fallinn lifa verk hans í bókum og nú hefur Sunnlenska bókakaffið fengið mikið úrval af skákritum til sölu. Þar má nefna þessa klassísku bók stórmeistarans sem kom fyrst út 1966 en einnig Hagnýt endatöfl eftir Keres, Við skákborðið eftir Friðrik, bækur Envoldsen og Wade um Fischer, Skákkverið fyrir byrjendur, Skáldskap á skákborðinu eftir Guðmund Arnlaugsson og margt margt fleira.
Þjófnaður frá þjóðskáldi
13.1.2010 | 15:56
Um daginn birti ég stutta tilvitnun í sérviskulega bók eftir Eyrbekkinginn Guðmund Haraldsson. Þar fer höfundur frjálslega um garða þegar hann eignar sér vísuna alkunnu:
Karlmanna þrá er vitum vér,
vefja svanna í fangi;
kvenmanns þráin einkum er,
að hana til þess langi.
Þó svo að vísan hafi virkað kunnuglega á mig þá kveikti ég ekki á að þarna er á ferðinni allbíræfinn þjófnaður. Það var enginn annar en þjóðskáldið Hannes Hafstein sem orti og árvökul augu lesenda kveiktu á þessu sem hér með er þakkað fyrir. Það er eiginlega ekki hægt annað en að dást að Guðmundi heitnum fyrir að reyna...
Ef við værum ekki gullmoli
9.1.2010 | 22:20
![]() |
ESB og Icesave aðskilin mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dapurleg vitleysa og óheillaverk útrásarflokka og útrásarforseta!
8.1.2010 | 10:39
Ég hef hingað til litið svo að kosningaþátttaka sé borgaraleg skylda en ef það á að kjósa um Icesave er ég ekki viss með að mæta. Best væri að stjórnin drægi lögin til baka og semdi ný í kompaníi við stjórnarandstöðuna.
Icesave-samningarnir verða aldrei neitt annað en nauðasamningar sem stórveldi þvinga okkur til að gera og geta aldrei orðið ásættanlegir. En ef efnahagsþvinganir, ruslflokkur í lánafyrirgreiðslu og fleira slíkt meirihluta þjóðarinnar til að segja já í kosningum þá er óheillaverk Ólafs Ragnars Grímssonar og bankaflokkanna fullkomið. Segi þjóðin nei veit svosem enginn hversu lengi vont getur versnað.
Við innheimtu og endurupptöku málsins á friðvænlegri tímum getur það orðið Bretum og Hollendingum ótrúlega dýrmætt vopn að geta sagt; hvað eruðið að væla, þjóðin sjálf samþykkti þessa samninga...
![]() |
Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stóri bróðir á afmæli
6.1.2010 | 10:20
Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Aaaatli, hann á afmæli í dag.
Við bræður ólumst upp við Moggalestur frá blautu barnsbeini og höfum aldrei alveg beðið þess alveg bætur. En einmitt þessvegna þótti mér vænt um að okkar gamli Moggi skyldi birta stutta klausu í afmælisdálki sínum og svo vitnað sé í málgagnið þá gerir afmælisbarnið sér ekki dagamun enda alltof heimspekilega sinnaður til að sjá mun á afmælisárum sem enda á núllum og öðrum afmælisárum.
En semsagt, til hamingju.
(Mynd: Atli er hér lengst til vinstri og bloggarinn þessi skrýtni lengst til hægri en milli okkar amma okkar og afi í Hveragerði, Kristín systir í fangi ömmu, Bjarni Sæm. í fangi nafna síns og Bjössi blái milli foreldra sinna, en myndin er tekin á ættaróðalinu Bláfelli í Hveragerði. )
Hverju hafnaði ÓRG...
5.1.2010 | 17:38
Það væri gaman að lifa ef Ólafur Ragnar hefði með ákvörðun sinni ákveðið að Íslendingar borgi alls ekki Icesave. Og enn skemmtilegra ef það væri einfaldlega ákvörðun hvers og eins og hvort hann tæki þátt í að borga bankarán Björgólfsfeðga í Hollandi og Bretlandi. Því miður er þetta ekki reyndin.
Með ákvörðun sinni hefur Ólafur einfaldlega ákveðið að Íslendingar eigi að borga Icesave en borga upphæðina einhvernveginn öðruvísi. Hvað sem múgsefjun líður var fráleitt af forsetanum að undirskrifa fyrstu Icesave-lögin en hafna svo þessum lögum nú. Vitaskuld er Icesave óréttmæt krafa öflugra nýlenduvelda en það er barnaskapur að ætla að bjóða heiminum öllum birginn. Samskonar barnaskapur og var stundaður af útrásarvíkingunum sem hugðust leggja heiminn að fótum sér. ÓRG hefur kannski verið of lengi í félagsskap slíkra manna.
Hér leika menn sér blygðunarlaust að alþjóðlegum og fjárhagslegum hagsmunum Íslands til þess að slá pólitískar keilur og í þeim leik er enginn munur á Ólafi og talsmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er ekki víst að það verði léttbærara fyrir okkur mæta afarkostum Breta og Hollendinga í næstu umferð.
Líkurnar á að þetta verði til þess að við fáum miklu léttbærari Icesave-samninga eru einfaldlega hverfandi. Verði svo tökum við því öll fagnandi en ég efa stórlega að þetta sé klókt útspil.
Skrifar undir og...
4.1.2010 | 18:50
Frétt Morgunblaðsins um blaðamannafund forsetans lýkur með þessum orðum:
Samkvæmd dagskrá forsetans í þessari viku átti hann að halda utan til Indlands á miðvikudag.
Nú er í fljótu bragði ekki að sjá að blaðamannafundur á þriðjudegi raski ferð til útlanda á miðvikudegi en því hefði eðlilegra verið að segja að forsetinn haldi utan á miðvikudag eða muni fara út á miðvikudag.
Getur verið að blaðamenn sem oft vita meira en þeir mega skrifa viti eitthvað sem við vitum ekki? Til dæmis að orðrómur um að forsetinn skrifi undir og segi svo af sér eigi við einhver rök að styðjast. Nei, varla.
En allavega, ef forsetinn skrifar ekki undir þá veðja ég á að stjórnin afturkalli lögin og hefji nýjar samningaviðræður við Breta og Hollendinga.
![]() |
Blaðamannafundur í fyrramálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ver ekki óður
3.1.2010 | 00:27
Frídagana hef ég notað til að raga í gegnum þúsundir af bókum sem fornbókabúðinni hafa áskotnast í vetur og fátt er skemmtilegra. Bækur eru fróðlegar en ekki síður skemmtilegar fyrir öll skrýtilegheitin sem þar er að finna. Í bókinni Amerísk ráð sem Margrét Jónsdóttir í Sundstræti 27 á Ísafirði gaf út árið 1922 er t.d. að finna aðferðir til að gera sitt eigið tannkrem, leiðbeiningar við undarlegustu uppákomum og ýmis læknisráð.
48. Krabbamein: Það eina, sem læknar þennan sjúkdóm er rafmagn; samt hefir það áunnið bata, sérstaklega við byrjun sjúkdómsins að taka: Hydrastís, Arsenicum, einn skammt kvölds og morgna og Ferrum Fosphoricum 1/2 tíma á undan máltíðum.
Skyldi Landsvirkjun vita af þessu. Eða slökkviliðið hvað gera skuli við eldsvoða, bls. 56:
Hvernig flýja skal brennandi hús: Haf hugann fastan við, hvar dyrnar og stigarnir eru. Ver ekki uppstökkur eða óður. Haf eldspýtur ávalt við hendina, til að geta kveikt - ef þarf. ...
Og er þá aðeins fátt eitt nefnt úr þessari góðu bók sem ráðleggur fólki einnig að taka inn Kalíum Phosphoricum við ímyndarveiki, þrautsýni og kvíða. En hvernig sem ég leitaði fann ég ekkert ráð við Icesave eða leiðinlegu bloggi en þetta með að vera ekki óður getur dugað við mörgu!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)