Framboð án flokks - jöfnuður og fullveldi
10.3.2013 | 16:52
Eru stjórnmálaflokkar nauðsynlegir?
Við höfum nokkur rætt þann möguleika á undanförnum vikum að bjóða fram án þess að stofna stjórnmálaflokk. Regnhlífarsamtökunum Regnboganum er ætlað að vera brú milli frambjóðenda sem eiga sér ákveðinn samnefnara, samhljóm sem dugir til að atkvæði fari frá einu kjördæmi til annars.
Samnefnarinn er jöfnuður, félagshyggja og áhersla á fullveldi Íslands. Við viljum stöðva aðlögun Íslands að ESB, við viljum jafna kjör fólks og bæta úr kynbundnum launamun. Við viljum jafna kjör byggðanna og rétta hlut landsbyggðar. Við byggjum stefnu okkar á sjálfbærri þróun eins og hún birtist okkur í Ríó yfirlýsingunni. Við teljum brýnt að berjast gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Við teljum að enn sé mikið óunnið í skuldamálum heimila og rétti lántakenda. Þetta er það helsta en við kynnum stefnuna betur á allra næstu dögum.
Með því að koma fram án flokks teljum við okkur betur fær til að takast á við vankanta íslenskra klíkustjórnmála. Verstu afglöp í stjórnun þessa lands hafa verið ráðin á flokksskrifstofum, EES, einkavæðing banka, ESB umsóknin, þjóðarsáttir sem gerðar voru á kostnað launþega og svo mætti áfram telja. Alþingi hefur svo verið stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnir og flokksskrifstofur. Þessu fyrirkomulagi verður ekki breytt nema með því að höggva á alræði flokkakerfisins.
Hefðirnar í Miðasíu og afskipti Evrópumanna
8.3.2013 | 14:05
Það eru hefðir fyrir margskonar kúgun og ofbeldi í þessum harðbýlu löndum Miðasíu. Sagan sem sögð er í þessari frétt er því miður ekkert einsdæmi. En það eru líka hefðir hjá þessu fólki fyrir drenglyndi og fegurð í mannlegum samskiptum. Ég hef ekki komið yfir til Afganistan en verið gestur Phastunanna í fjöllunum Pakistanmegin landamæranna og dáist að þessu fólki þrátt fyrir grimmd þess og feðraveldi.
Ein hefð er sterkari en nokkur önnur í öllum þessum löndum og fyrir henni margra aldra reynsla. Það er sú hefð að gera þvert á það sem evrópskir postular segja. Peter Hopkirk sem skrifar skemmtilegan langhund um sögu Miðasíu (The great game, 1990) lýsir þessu kostulega. Hvernig breskir heimsvaldasinnar komu einn af öðrum og þóttust geta kennt þessum fornu menningarþjóðum betri siði og leitt þær til nútímans. Og fóru sneyptir til baka, þeir sem ekki enduðu hauslausir í ómerktri gröf. Okkur Vesturlandabúum er fyrirmunað að sjá að við höfum eitthvað af þessum þjóðum að læra og meðan svo er getum við heldur ekki kennt þeim neitt.
Staða öfgasinnaðra Múslima er sterkari nú í þessum heimshluta heldur en hún var jafnvel í valdatíð Talibana. Þeir heimamenn sem aðhyllast hófsöm viðhorf og nær okkar verða fyrir aðkasti fyrir að styðja innrásaröflin. Það kann að hljóma grimmdarlega en á þvælingi um þessi svæði velti ég því stundum fyrir mér hvort þetta væri ekki allt heldur afslappaðra og um leið á réttara róli í mannréttindum, kvenfrelsi og menntun ef ekki þvældust hér endalaust fyrir afskipti vestrænna nútímafræðinga!
Ingibjörg Sólrún: Hefð fyrir refsileysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnarskrárfarsinn fær fimm stjörnur
4.3.2013 | 21:48
Síðasti þátturinn í Stjórnarskrárfarsanum er óneitanlega vel heppnaður, bæði fyndinn og örlítið spennandi.
Nýkjörinn formaður Samfylkingar asnaðist til að segja sem satt er að málið allt sé rekið á sker og auðvitað fær hann bágt fyrir. Það er stórhættulegt að hafa slíkan formann í þessum flokki. Næst gæti hann farið að segja satt frá ríkisstjórninni, Jóhönnu og guð hjálpi okkur jafnvel ESB.
Nei, nei - alveg róleg. Auðvitað gerist ekkert slíkt og Árni Páll gáir að sér. Til þess að stilla til friðar hefur hann stungið upp á því að núverandi stjórnarmeirihluti fái að binda hendur þingsins á næsta kjörtæimabili. Mjög gagnlegt fyrir þessa tvo flokka því eftir kosningar verða þeir frekar litlir og margir þeir sem nú sitja fyrir þá á þingi horfnir til annarra starfa. Það er auðvitað eðlilegt, finnst Samfylkingunni og litlu samfylkingunni að völd þessa þingmeirihluta nái svolítið inn í eilífðina.
Þór Saari bætir þó um betur og vill einfaldlega lengja þingið þar til málið er komið í höfn. Það verður reyndar varla gert nema fresta kosningunum eða þá sleppa þeim bara og hafa bara sama þing áfram. Það er alveg nauðsynlegt fyrir lýðveldið og lýðræðið að Þór fái að sitja ögn lengur og skiptir meira máli heldur en það að þingmenn gái að smámunum eins og þeim að það umboð sem kjósendur gefa er takmarkað í tíma.
Það hefði enginn hérlendur rithöfundur getað skrifað betri enda á farsa um stjórnarskrá og lýðræðisást!
Skoða áfangaskiptingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svindilbraskarar
3.3.2013 | 19:22
Gamlar konur sem ég talaði við hér í Flóanum fyrir margt löngu notuðu orðið svindilbraskarar þegar talið barst að gaurum þeim sem héldu til í Gaulverjabæ fyrir 100 árum. Ég segi aðeins frá þessum köppum í pistli á Vinstri vaktinni og lærdóma þá sem við nútímabörn getum af þeim dregið. Sjá hér:
http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1285886
Það eru víða villikettirnir
2.3.2013 | 10:40
Ásta Ragnheiður er óþekk. Hún hlýðir hvorki forsætisráðherra né sérstökum líflækni hennar, Þór Saari.
Vitaskuld er hugmyndin um að keyra stjórnarskrármál í gegn með offorsi galin og það veit forseti þingsins. En hvaða uppnefni ætli ríkisstjórnarforystan kjósi þessum nýja villiketti sínum.
Eða er stjórnin orðið meðvituð um, að það er hún er sjálf sem er á villigötum og öll efni til köpuryrða um andstæðinga stjórnarinnar eru brosleg.
Þingforseti breytir ekki dagskránni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eiga bara að borga meira...
28.2.2013 | 12:00
Hrossakjöt, en ekkert svínakjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bóksali verður forvörður
26.2.2013 | 12:16
Í sumar sem leið bjó hjá okkur Sólbakkahyski bresk ferða- og listakona, Amy Hiley. Eitt af því sem þessi stúlka tók sér fyrir hendur var að mála "henna" munstur í kaffiborðið hér utan við kaffihúsið. Flestir sem sitja við borð þetta halda að hér sé á um að ræða munstur eða málningu eftir skapalóni en það er ekki. Þetta er málað algerlega fríhendis og er hið mesta hagleiksverk.
Ofan á var svo margmálað glært lakk til varnar og framan af hausti hafði ég miklar áhyggjur af grip þessum í umhleypingum. En allt virtist í lagi og ég var eiginlega farinn að trúa að verkið stæðist íslenska veðráttu. En nú í janúar komu smá skellur og nú er bóksali kominn í hlutverk forvarðar. Rafmagnskeflið góða er komið inn á gólf í bókhlöðunni okkar og þegar allur raki er þar úr hefjumst við handa við að verja það með öllum tiltækum ráðum.
Tvær þjóðir Fréttablaðsins
20.2.2013 | 14:01
Fréttablaðið, málgagn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er skrýtin skrúfa. Um þessar mundir hamast blaðið á gjaldeyrishöftunum en gengur vitaskuld erfiðlega að benda á böl þeirra fyrir almenning. Eða hvað?
Viðskiptaritstjórinn þar skrifar nýlega leiðara þar sem hann bendir á að gjaldeyrishöftin skapi misrétti. Það séu til Íslendingar, (jafnvel gamlir útrásarvíkingar) að vísu aðallega búsettir erlendis, sem fái krónur á afsláttarkjörum hjá Seðlabankanum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Þeir geti því keypt eignir hérlendis á öðrum kjörum en við sem höfum okkar tekjur í íslenskum krónum.
Staðreyndin er aftur á móti sú að með afsláttarleið Seðlabankans er viðurkennt að krónan sé enn í nokkuð háu opinberu gengi. Við vitum að þegar Seðlabankanum sleppir er gjaldmiðill okkar jafnvel enn lægri. Hversvegna,- jú þökk sé útrásinni sem setti hér allt í kalda kol. Ef Fréttablaðið veit til þess að gamlir útrásarvíkingar búsettir hérlendis séu að nota sér fjárfestingaleið Seðlabankans þá er eðlilegt að blaðið segi okkur frá því, það eru hæg heimatökin. Það er reyndar vafamál að slíkt ráðslag standist lög því hér er skilaskylda á gjaldeyri - en hvenær hafa lög sem gilda um almenning gilt um útrásarvíkinga.
En meðfram verðum við að horfa á hróp frjálshyggjupostula, gamalla útrásarvíkinga og ESB talsmanna gegn gjaldeyrishöftunum út frá því hver hrópar. Er þetta eins og Fréttablaðið segir ást á því jafnræði að allir siti við sama borð. Eða hvaða stól á íslenskur almenningur við það hákarlaborð?
Getur verið verið að gjaldeyrisbraskarar, skortsalar og ákaflyndir landsölumenn ESB trúboðsins eigi hér samleið í þeirri vegferð að skapa íslenskum forréttindaaðli lífvænleg skilyrði.
Nýr þjóðarsáttartími runninn upp
19.2.2013 | 18:36
Nú á endurreisnarskeiði eftir bankakreppuna er þörf á þjóðarsátt í kjaramálum. Siðast þegar slík sátt var gerð fyrir aldarfjórðungi baðst atvinnulífið undan verðtryggingu launa. Á það var fallist en verðtrygging lána hélst. Af því hefur síðan hlotist mikið óréttlæti.
Þeir sem réttlæta verðtryggingu lána með jafnvirðisrökum geta ekki talað gegn verðtryggingu launa. Reynslan kenndi okkur samt að við verðtryggingu launa stenst samfélagið ekki.
Vandamálið er að verkalýðsforystan á Íslandi er hluti af varðmönnum fjármagnsins í gegnum lífeyrissjóðina. Því er þessi forysta í reynd óhæf til að höggva á þann hnút sem ógnar afkomu eignastöðu alls almennings.
Ný þjóðarsátt getur aðeins orðið ef kjörnir fulltrúar þjóðarinnar afnema verðtrygginguna og lækka hér til muna vexti af húsnæðislánum.
Tíu hafa óskað eftir viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
ESB sinni tekur við af laumu ESB sinna
18.2.2013 | 10:55
Steingrímur J. hefur ákveðið að hætta ekki í stjórnmálum en nú skal punta svoldið. Fyrir okkur sem berjumst gegn markaðsguðinum og ESB væðingu hefur lítið gerst. Lengi vel trúðum við því og þjóðin öll að gamli formaðurinn í VG væri ESB andstæðingur og hann var einn af stofnendum samtaka okkar, Heimssýnar. Seinna sýndi hann sitt rétta andlit og fullveldishugsjónin reyndist föl fyrir ráðherrastóla. Nú er sem betur fer að verða viðurkennt hvoru liðinu hann tilheyrir og það er fólginn í því léttir fyrir jafnt Steingrím sjálfan og vini hans.
Um Kötu gegnir öðru máli. Þeir sem starfað hafa í VG hafa alltaf vitað að hún er einhverskonar ESB sinni. En fer fínt með þá skoðun sína og hefur vitaskuld fengið að hafa hana óáreitt enda sem betur fer skoðanafrelsi í þessum efnum.
En það að formsembætti formanns færist frá laumu ESB sinna til alvöru ESB sinna sem á sér þann draum æðstan að fá að ganga í Samfylkinguna gerir flokk þennan ekki að valkosti fyrir okkur sem höfum haft skoðun í takt við skrifaða stefnu þessa flokks.
En ásýnd flokksins breytist við þetta og það er þá alltaf eitthvað - svona rétt þegar kemur að kosningum. Kannski tekur Steingrímur svo bara við aftur eftir kosningar enda alls ekki hættur í pólitík!