Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hinn mikli sigur aðildarsinna ...

Síðan ég var gerður að ráðuneytismublu hef ég mikils til lagt af að blogga um pólitík enda fer það ekki vel við núverandi starf. Stundum get ég samt ekki stillt mig eins og þegar ég heyri siguróp ESB aðildarsinna. Þau byggja nú á því að örlítið fleiri eru jákvæðir fyrir því að ganga inn og að sama skapa færri jákvæðir fyrir fullveldi Íslands. 

Litlu verður vöggur feginn. Myndin sem birt er fremst í nýjustu Gallup könnuninni segir meira en mörg orð um þennan sigur. En það er gott að vakin er athygli á þessu því vitaskuld verða allir að halda vöku sinni í þessum slag. Smellið á myndina til að fá hana skýrari.

3evropukonnun-feb2011_copy.jpg


Í þriðja sæti á metsölulista

 

tn_dsc03986.jpg

 

Útivistarhandbókin Góða ferð er nú í þriðja sæti á metsölulista Eymundsson verslana í flokki handbóka, fræðirita og ævisagna. Ofan við hana eru aðeins Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson og Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson. Semsagt Selfyssingar í tveimur toppsætum en Elín Esther Magnúsdóttir björgunarsveitarkona er vitaskuld Selfyssingur.

 

Í lista yfir heildarsölu er bókin í áttunda sæti og þetta er í fyrstu söluviku. Góð byrjun hjá góðri bók. Á myndinni er útgefandinn með höfundunum Helen og Elínu. 


Bókaveisla í Iðu á morgun

goda_ferdÞær stöllur Elín og Helen kynna á morgun laugardag kl. 14-16 nýja bók sína Góða ferð, handbók um útivist. Sjá nánar um gripinn hér. Á staðnum verða höfundarnir, trúbadúr sem syngur rútusöngva, flatkökur til næringar, kakó, kaffi og kleinur. Semsagt sannkölluð útilegustemning.

Góða ferð er handbók sem er ómissandi öllum sem ætla að leggja fyrir þvæling um íslenska náttúru, upplögð í pakkann handa fermingarbarninu og ekki síður fín fyrir afa sem er hættur að vinna og ætlar loksins að fara að hreyfa sig...

Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út.


Þá voru gerðar strangar kröfur til útvarpsins ...

Þá voru gerðar strangar kröfur til útvarpsins um stjórnmálalegt hlutleysi ... gunnarbenediktsson_sagathinersagavor.jpg

 Það er séra Gunnar Benediktsson kommúnisti og kennari í Hveragerði sem hér segir frá árinu 1942. Hann er á náttborðinu hjá mér kallinn og frekar skemmtilegur!

En þessi lýsing á útvarpinu 1942 vakti mig til umhugsunar. Eftir árið 1942 átti blaðamennska á Íslandi þó enn margt ólært og fór mikið fram. Flokksblöðin flest gömlu dóu að lokum drottni sínum og fram kom blaðamannastétt sem hélt sig við hlutleysi eftir því sem hún hægt var.

Ég kynntist þessum veruleika vel þegar ég byrjaði áratuga blaðamannsferil upp úr 1980.

Undir aldamót fór margt að fara til baka, bæði í viðhorfum og  hegðan í samfélaginu. Þá varð þess aftur vart að blaðamenn teldu aðalhlutverk sitt að koma eigin skoðunum og meiningum á framfæri líkt og var meðan flokksblöðin voru í essinu sínu. 

Ríkisútvarpið hefur nú fyrir löngu kastað öllu hlutleysi fyrir óðul og í þáttum þess keppast viðmælendur við að jánka skoðunum þáttastjórnenda.

Á því herrans ári 2011 erum við komin langt aftur fyrir árið 1942.


Stærsta netbókabúð landsins

996lrenningur_netbud_copy.jpg

Ef litið er til vöruúrvals þá er enginn vafi að  netbókabúðin okkar bokakaffid.is er sú stærsta í landinu. Titlarnir eru nú orðnir rúmlega tólf þúsund talsins og sífellt að bætast við. Það þarf líka ef þessi fjöldi á að haldast því mikið fer út og stundum er kapp að ná eftirsóttum titlum. 

Af þessum tólf þúsund titlum eru um tíu þúsund notaðar bækur sem aðeins eru til hjá okkur í einu eða tveimur eintökum og verðið er hagstætt. Þrátt fyrir allmarga gullmola þá er meðalverðið aðeins um 1100 krónur og hér er að finna fjölmargar bækur á 200, 300 og 400 krónur. Alls eru um 5000 titlar sem velja má um fyrir 700 krónur eða minna. 

Sextánhundruð níutíutvær bækur í flokki íslenskra fagurbókmennta og nítjanhundruð tuttuguogfjórar af erlendum segja líka sína sögu. Við erum ekki síður hreykin af ævisagnahillunum okkar sem telja nú 1589 titla.


Athyglisverður evrufundur í hádeginu


jonas_billede.jpgSænski þingmaðurin Jonas Sjöstedt heldur erindi á fundi Heimssýnar miðvikudaginn 23. febrúar í hádeginu í sal 131 í Öskju við Háskóla Íslands. Fundurinn hefst kl. 12:30.

Jonas situr núna á rikisdeginum en var áður þingmaður á Evrópuþinginu. Hann beitti sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu árið 1994 og aftur þegar Svíar höfnuðu evru tæpum áratug síðar. Jonas er í utanríkisnefnd ríkisdagsins og Evrópunefndar þingsins.


Sigurður fótur er útvarpssaga

 

0802teppi_129.jpg

 

Í kvöld klukkan 22 hefur göngu sína í Útvarpi Sögu ný útvarpssaga, Sigurðar saga fóts. Höfundur les. Sögukvikindi þetta varð til suður í Eþjópíu og segir frá ólánssömum Íslendingum sem fyrir einkennilega tilviljun og mest af misskilinni kurteisi setja Ísland á hausinn, þjóð sinni og sjálfum sér til nokkurrar blessunar. Við sögu koma lykilpersónur í íslensku samfélagi liðinna ára;

- miðlarar sem selja Alþingismenn,
- mafíóósar sem sulta kaupfélagsstjóradrengi ofan í dósir,
- bísnesmenn sem ekki kunna að reikna,
- málstola heimasæta sem óvart verður framsett eins og bedfordbíll,
- skemmtanaglaður prestshundur
- guðsmenn, dópistar og hrekklausir bankastjórar

(Á myndinni má sjá höfundinn þar sem hann bjó um skeið á afrísku hóruhúsi í fjöllum uppi og vann að ritstörfum. Ljósm.: Egill Bjarnason.)


Hvar er skæruliðinn?

Kæry Bjarny.

Hvað er orðyð um gamla zkærulyðann?  Þjóðfræðy og yfirzkylvytlegir ztaðyr eru ágætyr eynz langt og það nær en nú eru zýðuztu og verztu týmar.  Ýzlandy allt!

Zkærulyðakveðja.

Gunnaz

Gunnaz Helgowzky (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 15:15

Þættinum hefur borist bréf og það meira að segja óvanalega skemmtilegt. Skrifað með stafsetningu eins og hefði helst getað orðið til yfir stolnum humar á gamla kaupfélagsloftinu á Djúpavogi þar sem við deildum kjörum saman fyrir þrjátíu árum, Skalli úr einn Mýrinni, einn gormæltur skæruliði og ljúfmennið fagra Helgowsky sem ég hef ekki séð haus né sporð af síðan þá og var þessvegna afar glaður að það skyldi vera hann sem skammar mig nú á ögurstundum.

Ég á raunar ekkert svar annað en það að biðjast forláts og lofa að fara að dusta rykið af Hamas-klútnum heima í skáp. Ég lofa samt engu um að þess sjái stað hér í blogginu og kannski eru til hér beittari staðir og skarpari bardagi.

En heilshugar og þó með ævarandi bólusetningu gegn þjóðernisgorgeir og Íslandsmonti tek ég undir með þér minn kæri vinnufélagi úr frystihúsinu eystra, Íslandi allt og gleymum svo ekki hinu; Aldrei að víkja!


Bloggað um álfa á pólsku

W dawnych czasach folklor to bylo coš co laczylo cale spoleczweňstwo.bjarni_kvikmynd.jpg

Eins og pólskumælandi lesendur sjá er hér verið að tala um hlutverk þjóðtrúarinnar í gamla bændasamfélaginu.

Þetta er nánar tiltekið tilvitnun í sjálfan mig í þessari stuttu kvikmynd hér http://vimeo.com/19523330 sem tekin var af pólverjanum Adam Panchuk. Mynd þessi er hluti af sýningu sem er nú uppi í Hofi á Akureyri og verður í næsta mánuði Gerðubergi og Listasafni Árnesinga. Milligöngumaður þessa pólska listamanns var sá mæti drengur Sindri Freysson rithöfundur og þeir komu í stutta heimsókn til mín austur á Selfoss nú í haust er leið.

Síðan ég fyrir 10 árum lagðist í þjóðfræðipælingar um álfatrú og yfirskilvitlega staði gamla bændasamfélagsins  hefur ekki liðið svo ár að hingað hafi ekki komið erlendir þáttagerðarmenn, blaðamenn og kvikmyndagerðamenn sem vilja taka við mig viðtöl um þennan sérstæða þátt í íslenskri menningu. Sumir gera kröfu um að hitta fyrir huldufólk en það lengsta sem ég kemst með þá er að vísa þeim á bændur hér austanfjalls sem hafa slíkar verur sem daglega gesti í kaffi hjá sér.

Staðreyndin er að íslensk þjóðtrú, saga hennar og veruleiki, að ekki sé talað um alþjóðleg tengsl við menningarrætur nágrannaþjóða okkar er vannýtt auðlind á Íslandi, hvort sem er í ferðaþjónustu, fræðasamfélagi eða hreinlega útflutningi.


Ég er afríkumaður

Sonur minn er forframaður og úti í hinum stóra heimi, nánar tiltekið í borginni Zuginzhore í Senegal rétt við landamæri Gíneu. Þessvegna lenti hann í því að lesa þessa bloggsíðu með enskri þýðingu frá mr. Gúgla. Þar er sjálfslýsingin að ég sé mótorhjólafrík þýdd svo að ég sé motorcycle African. Gott ef satt væri. 

Staðreyndin er að ég er bara íslensk ráðuneytisblók og á meira að segja ekki mótorhjól sem stendur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband