Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að erfa landið og skila af sér arfi

Auðlindir landsins og hafsins umhverfis eru grundvöllur lífskjara á Íslandi og samkvæmt lögum sameigin íslensku þjóðarinnar. Það er umdeilanlegt hvernig þessari sameign er ráðstafað með gjafakvótakerfi og einokun orkufyrirtækja en allt að einu rennur arður af þessum eignum til samfélagsins og við sem kjósum getum hvenær sem er breytt úthlutun á því sem við eigum með atkvæðum okkar.

Sá sem hér skrifar komst á manndómsaldur þegar Ísland hafði fært fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur og þjóðin taldi þá innan við 300 þúsund íbúa þannig að hvert okkar átti þá meira en 2 ferkílómetra sjávar til arfs fyrir komandi kynslóðir.  Sú tala gæti lækkað ef þjóðin fjölgaði umtalsvert en yrði samt næsta stór því tveir ferkílómetrar eru 200 hektarar eða álíka landsvæði og allur Hveragerðiskaupstaður svo dæmi sé tekið.

Nú er það ætlan þeirra sem fara með völd að deila þessum arfi með nokkrum evrópubúum þannig að í arf fyrir hvert barna okkar komi ekki tveir ferkílómetrar af sjó heldur sú tala sinnum 0,0006 eða einn tíundi af hektara. Þar við bætast reyndar víðlendur af evrópskum fiskimiðum sem við fáum í sama mæli en eftir sem áður er arfurinn snautlega lítill miðað við þann sem fyrri kynslóðir færðu mér og mínum með sjálfstæðisbaráttu og síðar landhelgisstríði. Í þeim arfi er orka landsins, fiskur sjávarins og olíulindir fyrir vestan og austan sem allt verður lítilfjörlegt þegar þeim hefur verið deilt með einum auðlindasnauðasta og þéttbýlasta parti veraldarinnar.

Harkan sem nú einkennir öll samskipti gamalla nýlenduvelda við smáþjóð í norðurhöfum sannfærir mig betur en áður að börnum okkar og barnabörnum mun ekkert af veita að fá í arf það sama og forverar okkar skiluðu af sér. Og Íslendingar komandi kynslóða eiga allan rétt á að við leikum okkur ekki að þeim arfahlut eins og gert er með ESB leik Össurar Skarphéðinssonar.

 (Birt í Mbl. 11. ágúst 2009)


Egill prakkari kominn heim!

Við hjónakornin ætluðum að vera í Keflavík í morgun að taka á móti englinum okkar víðförla, Agli Bjarnasyni sem nú hefur dvalið sumarlangt í læri hjá einum frægasta portrettljósmyndara heims vestur í New York. Já, eða þannig var planið hjá okkur Elínu þangað til í gær. egillsefur.jpg

Verandi ferðalangur af guðs náð fannst honum mikið óþarfa vesen í foreldrum sínum að keyra sérstaka ferð til Keflavíkur þar sem þangað ganga áætlunarbílar og ruglaðist því óvart aðeins í dagsetningum flugferðarinnar.

Öllum að óvörum birtist hann því hér glottandi í fásinninu í gærdag og hafði þá komið degi fyrr til landsins en hann boðaði. Sá þannig við foreldravandamálinu sem ætlaði sér að birtast með útbreiddan faðminn í Keflavík. 

En Egill er semsagt kominn heim hvað sem það nú endist og verður vitaskuld harkað út í búðastörfum fyrir utan að hann leysir Guðmund Karl af á blaðinu nú milli ferðalaga...

(Myndin er úr Austurlandareisu Egils þar sem hann sefur eða svaf á stéttum úti í einu krummaskuðinu. Fleiri myndir frá honum eru hér.)


Bjartsýni þrátt fyrir Össur

Þjóðin kemst úr kreppunni og það sér víða til sólar. Ég skrifaði í vikunni sem leið pistil á AMX um bjartsýnina og nauðsyn hennar á þessum síðustu og verstu - því þjóðin á mikla möguleika þrátt fyrir Össur Skarphéðinsson.

Sjá nánar hér á AMX.


Söng- og sagnaskemmtun í bókakaffinu á morgun laugardag kl. 5

new_image.jpgSunnlenska bókakaffið er í útrás og á morgun klukkan 17 opnum við Litla Menningarsalinn hér á Austurvegi 22 með formlegri borðaklippingu og skemmtiatriðum.

Framkvæmdastjóri og aðalbóksali Elín Gunnlaugsdóttir sem er útskrifaður einsöngvari og tónskáld mun taka lagið fyrir viðstadda og í pásum söngkonunnar mun undirritaður fara með nokkrar sunnlenskar sögur af huldufólki og öðru fólki.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir og í tilefni dagsins verður sérstakt tilboð á öllum bókum í fornbókahlutanum þennan eina dag. 

Myndin hér til hliðar er frá því þegar sönghópurinn Vox Fox söng í þessum sama sal sem var þjófstart á opnunina og tókst afar vel. Mælingar sýndu að um 20 manns geta í senn setið sal þennan og eru þá ótaldir þeir vættir sem oft slæðast með oss dauðlegum...

 

 


Þráinn undirbýr flótta yfir í Samfylkinguna!

Þráinn Berthelsson undirbýr þessa dagana að flytja sig yfir í Samfylkinguna og hefur ákveðið að vinna sinni gömlu hreyfingu eins mikið tjón og hann getur áður en hann fer. Það er frekar grár leikur en samt  innan þess sem tíðkast hefur í pólitík. Aftur á móti eru þær einkunnir sem Þráinn velur samstarfsfélögum sínum frekar til þess fallnar að styrkja þau sem þær fá og veikja hann sjálfan.

AMX gerði ágæta "úttekt" á málinu í fuglahvísli sínu og það er eiginlega ekki meira um málið að segja.


Er Icesave save?

Nýjustu yfirlýsingar Birgittu Jónsdóttur og Péturs Blöndal benda mjög í þá átt að Icesave renni nú í gegnum þingið með smávægilegum lagfæringum. Það er dapurlegt en í nokkru samræmi við það sem búast mátti við. Núverandi stjórnvöld með Steingrím J. í fararbroddi gera allt til að styggja ekki hin gömlu nýlenduveldi í aðdraganda samninga um ESB. Dýrir eru ráðherrastólar langsoltinna manna. 

Það má ekkert gleyma sök gömlu stjórnarinnar í þessu máli sem tók afar linlega á þegar Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum og gerðu í raun og veru árás á íslenskt efnahagslíf. Og það hlýtur að vera til umhugsunar hvort þeir menn sem stóðu að því að leyfa Icesave reikningana á sínum tíma, hvort þeim sé endalaust sætt í valdastólum. 

Næsti kúrs þessarar baráttu snýr svo að því að fá Icesave samningana tekna upp og málið tekið fyrir hjá dómstólum. Ef fréttir af fyrirvörum Alþingis ganga eftir er ekki útilokað að enn megi láta á málið reyna þó Alþingi illu heilli samþykki samninginn á næstu dögum.


Rasismi eða asnaskapur

Ég veit ekki hvort heldur á að skýra þessa morgunfrétt mbl.is með vísan í rasisma eða bara almennan kjánagang. Það er fátítt að tilgreint sé með þessum hætti hvers lenskar fyllibyttur bæjarins eru - stundum tekið fram í fréttum að um erlenda ferðamenn eða menn af erlendu bergi brotna en þetta er með því klaufalegra og það liggur milli línanna að það sé sérstök frétt að þetta hafi verið grænlendingur:

 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af grænlenskum karlmanni...


mbl.is Gekk berserksgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í klaustri á Jótlandi

"Nordisk Folkecenter for Vedvarende Energier" er eiginlega nútíma klaustur þar sem rekin er fræðslumiðstöð um orkunotkun, vindmyllur, sólarrafhlöður, vetni og lífdísel. Það eru kálfar á beit utan við gluggann hjá mér og litlir froskar hoppandi innan um risasnigla við veginn sem ég geng til mála.Ekki til betri staður til að slaka á og ekki einu sinni sjoppa í grenndinni. Í einhverra kílómetra fjarlægð er reyndar þorpið Hyrup sem minnir helst á Hvammstanga. Aðeins norðar er svo smábærinn Thisted sem söguáhugamenn þekkja af bæklingi Árna Magnússonar um galdramál þar en allt tilheyrir þetta 56 þúsund manna sveitarfélaginu Thy sem nær yfir vesturkryppuna á norðanverðu Jótlandi og langleiðina að Álaborg.

Og hér var semsagt haldinn hinn norræni Fólksríkisdagur sem er nokkurra daga ráðstefna um sjálfstæði og stjórnmál Norðurlandanna. Ráðstefnu þessari lauk í dag og ég var hér fulltrúi Heimssýnar á Íslandi. Fer heim á morgun. Einkar skemmtileg og fróðleg samkoma og þar utan frábært tækifæri til að slípa kunnáttuna í hinum skandinavísku mállýskum.

Reyndar stálumst við Antti Pesonen til þess að tala ensku í kaffitímunum en hann er álíka vondur í sænsku eins og ég í dönsku. Antti þessi er félagi í Finnska Sjálfstæðisflokknum sem berst gegn ESB aðild Finna og jafnframt bóndi. Fyrir utan að vera sjálfstæðissinni þá eigum við það sameiginlegt að vera báðir laglausir. Já og fleira sameiginlegt því Kirsí kona Antti sem var líka á ráðstefnunni er kennari og tónlistarmaður eins og mín kona. Þegar við vorum öll komin á trúnaðarstigið í gærkvöldi játaði hún að allskonar kynni hennar af tónlistarmönnum væru slík að hún hefði talið það traustara að eiga laglausan mann!!!

Ég veit ekki hvort það var eitthvað svipað sem réði hjá Elínu minni.

En að öðru. Ég lofaði að skrifa eitthvað um verðlagsmál í Danaveldi og birti pistil þar um á AMX sem er reyndar að stofni til útvarpserindi sem ég flutti símleiðis á FM-Selfoss. 


Vanhæf ríkisstjórn

Vanhæf ríkisstjórn kallaði fólk utan við Alþingishúsið fyrir ári síðan og á kannski enn betur við nú þegar eina bjargráð stjórnvalda er að kyssa vönd kvalara sinna. Duglaus var Geir en sæmilega meinandi.

Það er ekki einu sinni að þjóðin geti treyst því að núverandi stjórnvöld vilji vel nú þegar bæði Steingrímur og Jóhanna eru orðin að einhverskonar ESB umskiptingum og Össur líklega valdamesti maður landsins! Það er vitaskuld fráleitt að Ísland þurfi að hlýða gömlum nýlenduveldum sem hafa skilið eftir sig skítug skóför um allar álfur og aldrei greitt til baka fyrir glæfraverk sinna eigin Íslandsbersa. Kröfur Breta og Hollendingaer eins og Eva Joly bendir á fráleitar.

Stjórnin er ekki bara vanhæf fyrir það að ætla að samþykkja Icesave og þvinga okkur inn í ESB í blóra við bæði þingmeirihluta og þjóðarvilja. Stjórnin er líka vanhæf fyrir það að hafa í engu tekið á þeim vanda sem síðasta ríkisstjórn var gagnrýnd fyrir. 

Við skulum ekki reikna með að það verði svipuð mótmæli á Austurvelli aftur en ólgan í samfélaginu er að verða svipuð og var. Greining Evu Joly nú og uppljóstranir úr lánabók Kaupþings kalla á tafarlausar aðgerðir.


Í kóngsins...

Ég er í smá orlogi eins og það heitir í guðdómlegum bókmenntun Jochums Eggertssonar - þetta þegar menn lenda í ferðalögum í stað þess að ganga að sinni vinnu. Hefi semsagt frí frá því að vera kaffidama í sjö daga og er í Kóngsins Kaupmannahöfn í embættiserindum fyrir Heimssýn, samtök ESB andstæðinga á Íslandi.

Úti á Jótlandi halda Skandinavískir sjálfstæðissinnar nokkurra daga ráðstefnu og ég er orðinn svo hátt metinn hér með frændum vorum að mér hefur verið falið að flytja opnunarræðu! Það á einhverskonar Skandinavísku. Ég vona að það gangi skandalalaust enda nóg sem Íslendingar hafa á samviskunni hér meðal dana þessa dagana og er nú viðsnúið nokkuð frá millistríðsárunum þegar stoltir Íslendingar gátu skammast í Baunum fyrir þeirra aldalanga yfirgang á sögueyjunni.

En Danmark er dejlig og á morgun fer ég í grillveislu hjá frændum vorum og tek svo lestina eftir það vestur á bóginn. Það er reyndar tvennt sem má finna að Danmörku. Það er alltof heitt hérna í dag og það er allt allt of dýrt hérna. Það er dýrt fyrir Íslendinga en það er líka frekar dýrt fyrir danskinn sjálfan og veltir upp spurningum um hvaða lönd eru dýr og hver ódýr...

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband