Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mont og verðlaun fyrir peningastefnu!

Ég er oft tornæmur og þarf þá tíma til að melta hlutina. Þannig er með embættistöku nýs Seðlabankastjóra að ég beit í tunguna á mér í gærkvöld og hugsaði, það er rétt ég hugsi þetta betur. En þegar ég nú les og hlusta á fréttir af hinum nýja embættismanni öðru sinni er ég sannfærður um að nýr Seðlabankastjóri er of montinn.

Nú er engin pólitík lengur í bankanum segir bankastjórinn og er samt gamall Allaballi og trotskíisti. Bætir svo við í næstu setningu, ég er hvenær sem er til í að rífast um pólitík! Og meðan ég var í Seðlabankanum í gamla daga var allt í lagi og lítil verðbólga. 

Ég ætla ekki að draga í efa að Má Guðmundssyni er margt vel gefið en hans versti galli er drýldnin sem gerir að verkum að honum er ómögulegt að viðurkenna mistök og hann fer í vörn fyrir handónýta peningastefnu, bara af því að hann átti stærstan þátt í að móta hana. 

Staðreyndin er að engin mistök voru þjóðinni eins dýrkeypt á þensluskeiðinu og hávaxtastefna Seðlabankans sem leiddi af sér gengdarlausan austur á erlendu fé, lánsfé, inn í landið í gegnum jöklabréf og erlendar lántökur. Sama stefna var um leið hágengisstefna sem ýtti undir innflutning og neyslufyllerí en drap niður innlenda framleiðslu.

Þó vitaskuld beri hinir svokölluðu útrásarvíkingar mikla ábyrgð þá er það mín trú að þegar um hægist og kreppan á Íslandi verður gerð upp verði það einmitt verðbólgustefna Seðlabankans sem telst eiga í vinningin sem höfuðorsök ófara okkar. Og nú eru þeir menn sem mörkuðu þessa stefnu orðnir að yfirmönnum Seðlabanka Íslands. 

Guð láti samt gott ávita en líklegast er að skipan Más í embætti nú verði ein af skrýtlum endurreisnarinnar og við sem erum fyrir sögur vitum jú að skrýtlur eru mikilvægar. 


Auðvitað var varað við harðri lendingu

blank_page

Í athugasemdum við síðustu færslu er ég beðinn að færa sönnur á að ég hafi varað við harðri lendingu hagkerfisins. Ég er hættur í pólitík og þarf þessvegna ekki eyða tíma mínum í að fletta stöflum af eigin skrifum sem ég enda engin á hér í tölvunni eldri en 2008, - annað er á flökkurum ofan í kassa.

Án þess að hafa mikið fyrir svarinu ætla ég samt að benda á þrjú skjöl sem öll eru aðgengileg hér á netinu. Í fyrsta lagi þingskjal frá 2007 sem ég lagði fram í umræðu um fjárlög þar sem ég vara við harðri lendingu í hagkerfinu, sjá hér http://www.althingi.is/altext/135/s/0458.html

Hér var ég m.a. að taka undir viðvaranir Seðlabanka, OECD og hagfræðinga (ekki samt þeir sömu og yfirleitt eru í fréttatímunum.)

Síðan skrifaði ég greinar í maí og júlí 2008 sem margir töldu mikla svartsýni þá:

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/545670/

og hér

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/601142/

Í leiðaraskrifum Sunnlenska má svo finna greinar frá því á árinu 2006 og þaðan af fyrr þar sem ég vara við einkavæðingunni og fordæmi hvernig að henni var staðið og hversu lík hún var einkavæðingu eftir fall kommúnismans í Rússlandi. 


Ég trúi Hreiðari Má!

Takið eftir að ég sagði ekki að ég tryði á Hreiðar Má heldur að ég tryði ákveðnum fullyrðingum hans í viðtali sem Kaupþingsbankastjórinn lét falla í viðtali við Sigmar í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar var milljónerinn sem segist vera fátækur í dag að ræða um eignabóluna 2007. Hann talaði eins og að á því herrans ári hafi hann og hans umhverfi verið grunlaust um að bólan það ár hafi verið fölsk. Það er auðvitað með miklum ólíkindum því strax við upphaf ársins 2007 var öllu hugsandi fólki ljóst að það var að fjara undan vitleysunni. Að kreppan var á næsta leyti og þurfti ekki annað en að opna erlend viðskiptablöð. Þau íslensku voru reyndar enn í lofgerðargírnum fram eftir ári.

Og það er mjög margt í atburðum þess árs sem bendir til að þeir sem sátu í einangrun á fjallatindum valda og peninga hafi bara lesið íslensk blöð ef nokkur og verið hér glámskyggnari en aðrir. Það var undir lok þessa árs sem Geir H. Haarde fullyrti að enginn hefði vitað að fasteignaverð myndi falla. Þetta vor grét sitjandi utanríkisráðherra þau örlög að verða að yfirgefa ráðherrastól því nú var einmitt komið að því að ríkið gæti farið að ráðstafa góðærisgróðanum.

Mér er minnisstætt að í byrjun þessa árs 2007 ræddi ég um fasteignakaup við son minn sem er liðlega tvítugur og skilgreindur andlega fatlaður. Án þess að ég minntist á það vissi hann vel að hús kostuðu alltof mikið og að það hlyti að koma að því að verð þeirra lækkaði enda er hann vel tengdur í samfélaginu vinnandi inni á gólfi í Bónus. Kannski hefði Hreiðar Már verið jafn vel að sér ef hann hefði unnið á gólfi í kjörbúð en ekki lent í vondum félagsskap manna sem ekki kunnu svo á reiknivélar...


Kreppuland án kreppukrónu

Það eru ótrúlega útbreidd trúarbrögð á Íslandi að krónan sé allt að drepa. Í kvöld var ágætur pistill á RÚV frá Kristni R. Ólafssyni á Spáni. Þar í landi er kreppan líka mjög erfið enda flugu þeir hátt í góðærinu eins og við Íslendingar. Þar eins og hér var mikil fasteignabóla og líklega verri en nokkursstaðar ef frá eru talin Eystrasaltslöndin.

Nú er kreppa og ofan á allt annað hrynur ferðaþjónustan á Spáni. Á Íslandi blómstrar hún vegna þess að við erum hér með gjaldmiðil sem hæfir ástandinu, kreppu-krónuna. Vegna hennar blómstrar nú öll gjaldeyrisöflun. Á Spáni er evra sem heldur sínu háa gengi þannig að ofan á alla aðra óáran hrynja útflutningsatvinnuvegirnir.

En hvernig var með loforð kratanna um að krónan ætti að styrkjast í gengi um leið og Ísland skilaði inn umsókn um ESB-aðild?


Skælum meira í dag en í gær

Það er umhugsunarefni hvaða tilgangi linnulítill harmagrátur Ríkisútvarpsins þjónar. Ef bornir eru saman fjölmiðlar er enginn þeirra jafn duglegur við að geta sér til hvar hörmungar kreppunnar beri næst við og þar á bæ eru menn naskir á að finna þá viðmælendur sem sárast geta grátið undan óorðnum og mögulegum hörmungum. Ef við bara hlustuðum á RÚV gætum við farið að trúa að hér væri allt að komast á vonarvöl sem er fjarri öllum sanni.

Það að finna vælukjóa er reyndar ekki erfið leit. RÚV talar einfaldlega við fulltrúa þeirra sem mestu hafa tapað og þannig fæst mest möguleg svartsýni og ekki skemmir fyrir að menn hafi að auki brjóstumkennanlegan og þunglyndislegan talanda eins og t.d. þeir hafa báðir Benedikt  Jóhannsson í Talnakönnun og Vilhjálmur Egilsson hjá Samtökum atvinnulífsins. 

En gleymum því ekki að þetta eru sömu menn og sínum tíma reiknuðu okkur upp til skýjanna og ætla sig nú vita fyrirfram hversu djúp kreppan verður. Og fréttamennirnir sem verst láta eru þeir gömlu sem mesta skömm eiga skilið fyrir að hafa staðið með stjörnur í augum framan við dýrðir þessara sömu útrásarvíkinga.

Staðreyndin er að það veit enginn hversu alvarlegt ástandið verður, hversu mikill fólksflóttinn verður og hversu mikið atvinnuleysi. Við höfum frá því kreppan skall á fyrir næstum ári búist við holskeflu atvinnuleysis en hún er ekki orðin og það er varla að við náum ennþá meðaltalsatvinnuleysi í himnaríki ESB.

Mest er framhaldið undir okkur sjálfum, hinum almenna Íslendingi komið. Íslendingar eru í engu frábrugðnir öðru fólki og ég held síst greindari en við búum við þá óvanalega möguleika vegna fámennisins og vegna gríðarlegra möguleika sem landið gefur. Það að fullyrða að ástandið verði eins og í finnsku kreppunni eða að fólksflótti verði eins og frá Færeyjum um árið er þessvegna eins og að kalla bölbænirnar yfir sig og kannski er mikilvægast til að forðast kreppuna að slökkva á útvarpinu.


Ríkisbankinn bjargar Jóni Ásgeiri!

Það gott að eiga skilningsríkan ríkisbanka sem hefur nú ákveðið að frysta öll lán 365 miðla út árið. Það er greinilega gott að vera skuldsettur útrásarvíkingur á Íslandi. Í stað þess að ríkið gangi að þeim manni sem á hvað mestan þátt í að setja íslensku þjóðarskútuna á hliðina þá leggur Landsbankinn fátækum milljarðarmæringi lið á erfiðum tímum.

Á sínum tíma var nokkur umræða um það hver hefði lánað Jóni Ásgeir fé rétt eftir bankahrunið til tryggja honum áframhaldandi yfirráð yfir fjölmiðlum á Íslandi og aldrei orðið fullljóst hvernig hlutafé Rauðkussu var tilkomið. Þá voru stórar fúlgur Fréttablaðsins og Stöðvar 2 afskrifaðar og það þá líklega í þriðja sinn sem það gert. En nú er ljóst að það eru skattgreiðendur sem af fórnfýsi sinni hafa ákveðið að framlengja enn um sinn yfirráð besta vinar Samfylkingarinnar yfir fjölmiðlarisa landsins.

Það er svo sannarlega gott að besti vinur aðal á Íslandi 2009!


Samherjar en samt ólíkt mat

Berjumst saman Bjarni heitir grein sem Arndís Soffía Sigurðardóttir skrifar á Smugunni fyrir skemmstu, hér og tilefnið er grein sem ég skrifaði um grein sem hún skrifaði. Ágreiningur okkar Arndísar var einkanlega um það hvort afgreiðsla Alþingis á ESB-tillögunni hefði verið vitnisburður um flokksræði eða sjálfræði þingmanna. Um það verðum við ekki sammála og kannski ekki um það hversu langt flokkar eigi að ganga í að drottna yfir þingmönnum.

En hitt er alveg áreiðanlegt að við Arndís erum samherjar í pólitíkinni og verðum samherjar í baráttunni gegn ESB-aðild Íslands og það skiptir meira máli en túlkun á liðinni atkvæðagreiðslu. Semsagt, þakkir frænka fyrir greinagóð svör og fyrirgefðu seinlæti við að svara.


Þakkir til Þráins Berthelssonar!

Þráinn Berthelson er ótrúlegur maður og hefur nú ratað í ótrúlegar raunir sem hann telur auðvitað öllum öðrum að kenna. Fyrir viku lýsti hann því yfir að fyrr frysi í helvíti en að hann gengi úr sínum flokki en nú er hann genginn úr honum. Mér vitanlega er engin veðurathugunarstöð í helvíti og kannski er kalt þar núna, hver veit.

En það drama sem þingmaðurinn og rithöfundurinn Þráinn hefur byggt upp í kringum frekar klaufalegan og mér liggur við að segja kjánalegan tölvupóst Margrétar Tryggvadóttur er honum síst til framdráttar.

Þetta mál kæmi mér auðvitað ekki við nema vegna þess að Þráinn kýs það sjálfur að draga mitt nafn inn í þessa umræðu og það er honum ekki til neins sóma. Orðrétt segir Þráinn í vægast sagt histerísku bréfi sínu til Borgarahreyfingarinnar:

Með yfirhilmingu eruð þið samsek rógberanum, Margréti Tryggvadóttur sem hugðist senda róginn varaþingmanni mínum Katrínu Snæhólm Baldursdóttur en slysaðist "a la Bjarni Harðarson" til að senda einnig á alla stjórn Borgarahreyfingarinnar. Bjarni Harðarson bjargaði þó leifunum af mannorði sínu með því að segja af sér þingmennsku um leið og það rann upp fyrir honum að hann hafði afhjúpað sjálfan sig.

Þráinn er hér á einnættum ís þegar hann annars vegar sakar félaga sína um mannorðsmorð og hinu orðinu leyfir sér að halda því fram að ég hafi ekki átt eftir annað en leifar af mínu mannorði. 

Það rétta í því máli er að ég kalsaði við aðstoðarmann minn að réttast væri að senda til fjölmiðla bréf sem nokkrir Skagfirðingar höfðu þá þann sama dag gert opinbert. Það var ekki sent mér í neinum trúnaði en bréf þetta var vissulega ekki neinn lofsöngur um Valgerði Sverrisdóttur. Enda brást Valgerður við með hrópum og samblæstri um að ég ætti að segja af mér. Mér var einfaldlega ljúft að verða við því eins og ástandið var á þeim tíma orðið innan Framsóknarflokksins og hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun.

Allt tal um að ég hafi gert eitthvað sem rústaði mínu mannorði er fáránlegt en ég opinberaði djúpstæðan og hreinlega óþolandi ástand innan Framsóknarflokksins sem var þá og er enn í gíslingu ESB-sinna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að viku síðar sagði formaður flokksins af sér vegna nákvæmlega sama ástands. 

Við Guðni Ágústsson vorum það vandir að virðingu okkar að við töldum ekki valkost að skrifa okkur út úr Framsóknarflokki en sitja áfram á þingi þar sem við vorum kosnir inn á þing fyrir þann flokk. Því eftirlétum við þingmannsstóla okkar fólki sem treysti sér til að vinna innan flokksins. 

Sé Þráni Berthelsyni svo annt um mannorð sitt sem hann vill vera láta þá er lágmarkskrafa nú að hann segi af sér þingmennsku jafnhliða því að hann gengur úr flokknum - og kemur sér þá vel að hann er bæði á þingmanns- og listamannslaunum og getur haldið öðrum sér til framfærslu.

PS.: Ef Þráinn vill líkja Margréti Tryggvadóttur við mína persónu þá hlýtur hann sjálfur að vera Valgerður Sverrisdóttir og svo er þetta á endanum allt spurning um smekk!


Hráskinnaleikur í Icesavemáli

Icesave umræðan er komin í skelfilega heimskuleg hjólför. Í stað þess að tekist sé á um það hvort við eigum að borga eða ekki borga snýst umræðan í vaxandi mæli um það hvort nauðungasamningarnir við  Breta og Hollendinga séu nógu góðir. Eins og nauðungasamningar séu einhverntíma góðir.

Það er alveg kýrskýrt að íslenska ríkið ber ekki lagaleg skylda til að greiða einkaskuldir Björgólfanna og ekki heldur siðferðilega. Ef við borgum er það alltaf af því að við erum beittir óréttlátri nauðung. Þegar Bretar reyna að klína slíku á okkur er rétt að við rifjum upp hvernig kónar þess heimsveldis hafa vaðið yfir þjóðlönd á skítugum skónum án þess að breska krúnan hafi látið sér detta í hug að bæta nokkurn tíma nokkrum nokkuð sem þannig hefur verið afrekað.

Sjálfstæðisflokkurinn leikur þann hráskinnaleik að tala upp í eyrun á fólki í þessu Icesave-máli en vill samt halda þeim dyrum opnum að flokkurinn sé til í að semja um að borga. Þetta er hálfómerkilegur popúlismi og ég get ekki betur heyrt en INDEFENCE taki nú undir þennan söng með því að tala um að það eigi að borga og eigi að semja í stað þess að halda sig við grjótharða andstöðu við greiðsluskyldi Íslands.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins er merki um að flokkurinn vill framar öllu halda opnum dyrum í hjónasæng Samfylkingarinnar ef og þegar VG hrökkva endanlega úr þeim standinum að hlýða krötunum.

Og kratarnir hennar Jóhönnu, kannski allir nema hún sjálf, yrðu því fegnastir ef stjórnin springi og þeir gætu alltaf efnt til hjónabands við íhaldið því þar með væri komin staða til þess að keyra alla leið með ESB málið. Eins og stendur fer ESB aldrei í gegnum þjóðaratkvæði með meginið af íhaldinu og framsókn á móti og ekki nema brot af VG með. Ef íhaldið fær að fara í stjórnarsængina má aftur á móti búast við að meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins og stærstur hluti kjósendanna þar á bæ líka verði fjarska ESB sinnaðir.

Við skulum ekkert láta okkur detta í hug sú endileysa að það finnist einhver 63:0 niðurstaða í Icesave,- þ.e. að allir flokkar verði sammála. Til þess er refsháttur stjórnmálanna of mikill en ég vara þjóðholla vinstri menn við því að stuðla óvart að því að núverandi ríkisstjórn springi. Það mun einfaldlega þýða enn verri stöðu bæði í Icesave og ESB málum.

Þrátt fyrir allt treysti ég Steingrími J. betur en Bjarna Ben. til að standa vörð um hagsmuni Íslands!


Mætum á Austurvöll

Icesave-samningarnir eru alvarlegir nauðasamningar sem Alþingi á að hafna í óbreyttri mynd. Til þess að leggja áherslu á þá kröfu þá mætum við öll á fund sem Indefence heldur með Börnum Íslands, Fullveldissinnum, Kreppuvaktinni og fjölmörgum öðrum grasrótarhópum á Austurvelli klukkan 17 á morgun.

Ég er sjálfur latur við að mæta á mótmælafundi og ber stundum fyrir mig fjarlægð til borgarinnar en í þetta skiptið læt ég mig ekki vanta. Fundinum er ætlað að standa milli 17 og 18 og það er ekki nauðsynlegt að menn hafi með sér búsáhöld...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband