Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sigur ESB andstæðinga
11.4.2009 | 21:29
Enn fækkar ESB sinnum samkvæmt könnun sem Fréttablaðið birtir í dag. Rúm 54% eru nú andsnúin aðildarviðræðum og tæp 46% hlynnt og þó svo að það sé ekki marktækur munur frá síðustu könnun þegar töliurnar voru 53 og 47% þá er það ánægjulegt að sjá að þessi mynd er að styrkjast. Sja nánar hér.
Hræðsluáróðri ESB sinna hefur verið hrundið og þá má að meinalausu baka Sjálfstæðisflokkinn yfir eldi nokkra hríð. Grunar reyndar að 11 milljónir Samfylkingarinnar frá Baugi eigi eftir að svíða einnegin.
Krossfesting í boði XD
11.4.2009 | 14:33
Ef fylgt er guðspjöllunum þá mun Sjálfstæðisflokkurinn rísa í fyrramálið eftir vægast sagt pínlega krossfestingu sem þjóðin skemmti sér yfir í gær. Nei, nei, þetta er útilokað, íhaldið fær enga uppreisn, segja lesendur þessa bloggs. Stjórnmálafræðingar eru meira að segja búnir að kveða upp þann dóm að Flokkurinn sem drottnað hefur yfir Íslandi í áratugi muni einangrast og minnka og verða dæmdur til útlegðar úr stjórnarráðinu um langa framtíð...
Ég er samt ekki algerlega sannfærður! Það eiga fleiri eiturpillur eftir að leka út, hvaðan sem þær svosem leka. Það er einhver að senda pósta og fer ekkert takkavillt!
Upprisa Sjálfstæðisflokksins gæti legið í því að næst komi fram þær upplýsingar sem rústa öðrum flokkum ekki minna en íhaldinu. Og hvað gera kjósendur þá,- jú því er fljótsvarað: Þeir gera ekkert!
Sannast sagna kemur ekkert á óvart í því meinta mútumáli sem nú er rætt um í samskiptum Sjálfstæðisflokks og FL-group. Það eina sem vekur furðu mína er hvað minn fyrrum flokksbróðir Björn Ingi Hrafnsson gerði við sinn hluta af góssinu því það er algerlega fáheyrt þegar tveir menn vinna saman stórt verk að aðeins annar fái greitt...
Og svona í lokin - hefur einhver hugmynd um hver stendur að þessu guðdómlega upplýsingaflæði einmitt núna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
L-listinn étinn!
10.4.2009 | 11:35
Í dag er mjög langur dagur og helgin öll afar löng. Í dag er búðin lokuð og allt slektið ætlar að hittast hjá Kakó-Kristínu í Sundunum.
En helgi þessi hófst hér á Sólbakkanum með 50 manna teiti þar sem fullveldissinnar komu saman og einhverjum varð að orði þegar inn kom, hvern er verið að ferma. Veitingar voru nefnilega fermingarveislulegar, einkanlega vegna þess að ég notaði tækifærið til að fá útrás fyrir það blæti mitt að búa til brauðtertur sem er mér einstök skemmtan.
Að þessu sinni voru terturnar sem L í laginu og önnur þeirra fullkomnlega í fánalitunum. Það var reyndar þrautinni þyngri að gera fánabláa smurningu ofan á kökuna en tókst.
Og vitaskuld var þetta ferming því við fullveldissinnar gengum hér í gegnum mikla manndómsvígslu að glíma hinni fyrstu snerru við fjórflokkinn og gengum uppréttir af vellinum. Ekki kannski sem sigurvegarar en engu að síður hafandi hreyft við pólitíkinni einmitt í þá átt sem við óskuðum. Og þegar við bættist að brauðterturnar átust upp þá gátu allir verið harla glaðir.
Nú munu auðvitað margar mannvitsbrekkurnar setja hér komment um að hreyfing okkar sé dauð en það er misskilningur. Meðan til verða bæði úrtölumenn og þeir sem telja þjóðríkið úrelt þá lifir hreyfing fullveldissinna og tekur á sig þær myndir og form sem þarf til að halda merkinu á lofti!
Getur meira að segja birst í formi brauðtertu!
Mútuhneykslin og bankaflokkarnir
10.4.2009 | 01:37
Spillingarumræðan á Íslandi slær ný met með hverri viku og nú er komið að ákveðnum upphafsreit þegar REI málin koma aftur upp á yfirborðið. Þar reyndu Jón Ásgeir og félagar að bjarga vonlausu viðskiptaveldi með gripdeildum í orkufyrirtækjum Reykvíkinga.
Það þarf enginn að láta sér detta í hug að þetta sé eina dæmið um greiðslur sem verða skoðaðar eins og hvert annað mútuhneyksli. Við eigum eftir að sjá hverja svona sprengjuna á fætur annarri á næstu vikum.
Það var ljóst að við áttum mikið í vændum þegar Davíð Oddsson hélt því fram fyrir nokkrum vikum að fjöldi stjórnmálamanna í landinu væri flæktur í óeðlileg hagsmunanet bankanna.
Verum þess minnug að upphaf alls þessa má rekja til þess að ríkið "seldi" þrjár ríkisbankastofnanir til þriggja viðskiptahópa sem höfðu hver sinn stjórnmálaflokkinn að bakhjarli. Íslandssaga framtíðarinnar mun skilgreina þessa flokka sem bankaflokka, flokka sem fengu einn banka á kjaft í einu misheppnaðasta einkavæðingarferli Íslandssögunnar.
Og Íslandssagan mun líka segja okkur frá því að fyrstu viðbrögð þjóðarinnar við þessum ósköpum var af sömu ætt og krafa afganskra kvenna um að fá áfram að vera undir stjórn talibana. Í ótta sínum leitar meirihluti almennings til sömu flokka og lék samfélagið hvað verst og skildu hér eftir brunarústir...
Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Einstaklingsframboð inni í kerfi flokka
8.4.2009 | 12:50
Mér fannst afskaplega leitt að sjá ykkur bakka út og tel það mikinn missir fyrir lýðræðið þegar svona skeður, ég leyfi mér að halda því fram að mistök frambjóðenda liggi í þessari þráhyggju að stofna flokka og fara að samræma málflutning í stað þess að koma fram sem persónur með ólíkar skoðanir, og treysta kjósendum fyrir valinu á frambjóðanda án þess að reyna að setja skorður á val kjósandans með uppstillingu og samræmdum málflutning.
Það er ekki þverfótað fyrir áskorunum um að hætta við að hætta eða vinsamlegum kommentum um að þetta hafi verið slæmt að við fullveldissinnar skyldum hætta við. Ofanritað skrifar Þorsteinn Valur Baldvinsson sem býr í Múlassýslum. Og ég er alveg sammála Þorsteini. Vegna þessa var L-listinn ekki flokkur og við gerðum enga tilraun til að samræma málflutning okkar í smáatriðum. Slík samræming innan flokka stríðir enda gegn því fulltrúalýðræði sem við búum við.
Og kosningakerfið gerir það líka. Það er hannað fyrir flokka og sá sem vill bjóða fram krafta sína án þess að hafa flokk verður að hafa í liði sínu 126 aðra frambjóðendur. Það er vitaskuld möguleiki að bjóða bara fram í einu kjördæmi en þá eru líkurnar á dauðum og ómerkum atkvæðum mikið meiri.
L-listinn var í raun og veru bandalag sex einstaklingsframboða í jafn mörgum kjördæmum. Þar gengum við út frá lágmarkssamstöðu um málefnagrunn sem var fullveldishugsjónin, baráttan gegn flokksræði og almennt umburðarlyndi og hófsemi. Afhverju þurfti yfir höfuð þessa samstöðu um málefni spurðu margir. Jú, sá sem kaus L-lista á Norðurlandi með Guðrúnu á Guðlaugsstöðum í fyrsta sæti gat vegna kosningalaganna staðið frammi fyrir að atkvæði hans flyttist milli kjördæma og kæmi til góða frambjóðanda í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Ef að Guðrún og frambjóðandinn fyrir sunnan væru í öllum atriðum fulltrúar andstæðra póla í pólitík þá var þessi tiltekni kjósandi svoldið grátt leikinn.
Vonandi eigum við í framtíðinni eftir að sjá hér á landi landslistakjör sem væri sniðið að því að skapa raunverulegan farveg fyrir einstaklingsframboð utan flokka. Nú reynir á að gömlu flokkarnir eða stjórnlagaþing geti einir búið til þannig reglur - sem vinna í raun gegn flokksræðinu.
Óborganlegt kennslutæki
8.4.2009 | 00:43
Þeir glópar eru til sem telja að heimurinn sé ævinlega í framför en staðreyndin er að jafnhliða því að góður gáfur geta af sér aðrar þá fæðir heimskan af sér ekki færri börn og því vill nútíminn gjarnan vera trunta.
Gleymskan veldur því líka að snjallar uppfinningar mannanna týnast og svo er um þessa uppáfinningu sem notuð var við Ísafjarðardjúp fyrir meira en hálfri öld síðan. Tæki sem þessi voru mönnum óþekkt og týnd tveimur áratugum síðan þegar mér var ætlað að læra sund og enda vafamál hvort það tókst nokkurntíma. Ég man það bara ekki enda reynir svo lítið á sundgáfuna í heita pottinum. En það man ég að af því var bæði mannhætta, vatnsfylli í nef og skelfing svo lá við dauðastjarfa að læra sund uppáfinningalaust. Þetta undirgekkst ég hjá einhentum skólastjóra upp í mínum afdölum í Reykholti og seinna hjá Hirti í Laugaskarði.
En að öllu gamni slepptu þá er mynd þessi úr bók sem var að detta inn hjá okkur í bókabúðinni og heitir Frá dögum við Djúp og fleira. Höfundur er Sverrir Gíslason í Hábæ í Þykkvabæ sem ól sinn aldur lengi við Ísafjarðardjúp og byrjaði þar snemma að taka ljósmyndir. Auk myndanna er hér að finna endurminningar höfundar og margskonar frásagnir af mannlífi og þjóðháttum.
hvort sem það var í Reykholti eða hjá gáfum vex heimska veraldarinnar og þar sem heimskan er meiri en gáfurnar
Voru það mistök...?
7.4.2009 | 10:12
Voru það ekki mistök að bjóða fram í Reykjavík, Bjarni og voru það ekki mistök að vera ekki bara áfram í Framsóknarflokknum.
Þessar spurningar fæ ég víða, í tali og bloggi, nú eftir að L-listi fullveldissinna hefur dregið framboð sitt til baka.
En svarið er einfaldlega nei. Með framboði L-lista höfðum við sem að honum stóðu áhrif á umræðuna og ég er ekki viss um að þau áhrif hefðu verið þau sömu ef fullveldissinnar hefðu litið út eins og sérframboð í Suðurkjördæmi einu saman. Sjálfur vogaði ég meiru með því að fara fram í Reykjavík og sé ekki eftir því. Ég er svo samsettur að ég hefi gaman af djörfum leik.
Ég ætla ekki að halda því fram að við L-listafólk höfum ráðið niðurstöðu landsfunda Sjálfstæðisflokks og VG. En það er algerlega óumdeilt að tilvist okkar skapaði hluta af þeim þrýstingi sem var á þessa flokka að halda fast við fyrri stefnu í ESB málum. Á móti voru svo aðrir þrýstihópar eins og t.d. 80 manna grasrótin hans Villa Egils, ASÍ, leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar og svo mætti áfram telja. Við erum í pólitík til að hafa áhrif og þar hafði L-listinn erindi sem erfiði.
Nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi frekar að kjósa Frjálslynda eða Vinstri græna og þykir hvorugt gott enda skipti ég um skoðun á degi hverjum...
PS.: Svo ég svari því líka,- það voru alls ekki mistök að losna úr Framsóknarflokknum sem nú hefur ESB aðild á stefnuskránni og er öðru sinni á lýðveldistímanum stýrt af fólki sem hefur ekki einu sinni hirt um að standa við fyrirheit um að gera hreint fyrir dyrum í sínum eigin fjármálum og er þar líkt á komið með þeim flokki og Sjálfstæðisflokki. Og hefur slegið harðasta skjaldborg um útrásarvíkingana. Svei því allan daginn, eins og sagt var á Landeyjunum hér um árið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Lorange og Hugason ræða L-listann
7.4.2009 | 00:22
Sunnudagsmyndin...
6.4.2009 | 04:10
Þurfti Hudson til að segja hlutina
5.4.2009 | 13:50
Það þurfti loks menn með nöfn eins og Hudson og Perkins til að segja það sem allir þjóðlegir stjórnmálamenn hafa sagt mánuðum saman án þess að á væri hlustað.
Auðvitað áttum við aldrei að taka við IMF, aldrei að viðurkenna samningaleið varðandi skuldir bankanna og aldrei að velta fyrir okkur að við almenningur og ríkissjóður berum ábyrgð á gangsterahætti fárra íslenskra Björgúlfa í vondum félagsskap.
Og magnað að hlusta á Egil tala við þessa menn af aðdáun verandi áður í því liði með allri íslenskri fjölmiðla og krataelítunni sem hefur útilokað sömu sjonvarmið hvort sem þau hafa komið frá Pétri Blöndal, Guðna Ágústssyni, þeim sem hér skrifar eða frænda mínum í Svörtu loftum. Já að ógleymdum stjórnarandstöðu VG þingmönnum -VG-ráðherrar eru því miður allt önnur og ómarktækari dýrategund.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)