Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Undirskriftir gegn ESB aðild

Það hlaut að koma að því að efnt yrði til mótvægis við undirskriftasöfnun Benedikts Jóhannssonar þar sem tæplega 11 þúsund hafa nú skráð sig á vefnum sammala.is sem talsmenn þess að Ísland gangi í ESB. Nú er semsagt komin ný undirskriftasöfnun þar sem andstæðingar ESB-aðildar eru hvattir til að skrifa sig og án þess að nokkru sé þar varið til auglýsinga er talan strax á nokkrum klukkutímum komin í 1000. Nú þurfum við bara að öngla saman sem flestum því ekki viljum við láta svo líta út að það sé mjög stór hluti þjóðarinnar sem vilji aftur afhenda hinu evrópska stórríki öll yfirráð á Íslandi. 

Textinn sem skrifar er undir hér hljóðar svo. Allir að skrá sig.

 Við undirrituð erum ósammála þeim málflutningi að innganga í Evrópusambandið sé leiðin til þess að koma efnahagsmálum Íslands aftur í réttan farveg. Við teljum að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið sem sjálfstæðri þjóð utan sambandsins.

Við viljum að umræðan um Evrópumál fari fram á upplýstan og málefnalegan hátt en ekki með upphrópunum og hræðsluáróðri. Okkur þætti ákjósanlegast að sátt næðist meðal þjóðarinnar áður en farið væri í aðildarviðræður en ef tekin yrði ákvörðun um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið er lágmarkskrafa að það gerðist með yfirveguðum hætti en ekki í flýti.

Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.


Fjórelleft varð frúin mín

Ég bloggaði ekkert í gær enda lifði ég í þeim munaði að halda upp á afmælið hennar Elínar minnar sem varð fjórelleft og hefur eytt hálfum þeim tíma með einum og sama kallhólkinum þó að hann sé nú ekki sá fallegasti og líka úrillur á köflum en hún er aftur á móti að sjá ekki degi eldri en 27 ára og ég veit ekki nema einn ljóð á ráði þessarar spúsu en það er þegar henni dettur í hug að fara í megurðir því vitaskuld flokkast það undir alvarlegt eignatjón hjá mér ef það er minna af henni og veit svosem ekki hvort nokkur viðlagasjóður eða viðhaldssjóður bætir slíkt tjón enda ókunnugur þessháttar brasi og hefi svosem ekki þurft að kvarta því alltaf stranda þessar tilraunir hennar á því  hún hefur svosem ekki af neinu að taka og stundum grunar mig að hún sé raunverulega að tala utan af því að það sé ég sem megi renna tólg en til þess er ég bæði of sjálfselskur, heimskur og latur en enginn skyldi þó halda að það sé þessari leti að kenna að konunni blessaðri er ekki betur í skinn komið því yfirleitt reyni ég að elda ofan í hana saðsama og feitisríkan kveldskatt og síðast í gær fékk hún konfekt í rúmið sem er auðvitað ekki á hverjum degi en afþví að hún átti ammili þá var við hæfi að kakóklessurnar væru handgerðar og dáldill fótur í þeim en mestu munaði nú um að það var Matthías kallinn Moggaritstjóri sem barg fyrir mér afmælinu og hafi hann þar heila þökk fyrir en svo mikið dálæti hefur kona þessi á skáldi því að ef hann ekki væri mér eldri gæti ég aldrei sofnað væran dúr og nú gerði hann þessari konu þann heiður að skrifa til hennar kveðju í gamla bók og fól mér svo að kyssa hana sem ég svikalaust geri og ætla að gera þar til hún verður áttelleft hvoru megin sem ég verð nú daginn þann...

Ég kýs VG og hvet alla fullveldissinna til hins sama

Eftir heilabrot lendi ég alltaf á sömu niðurstöðu. Eini flokkurinn sem ég get kosið er VG vegna þess að mál málanna á komandi kjörtímabili verður afstaðan til ESB. Geri nánar grein fyrir þessu í pistli sem birtist á Smugunni nú í kvöld og styrktist heldur í ásetningi mínum eftir að horfa á frambjóðendur flokkanna hér á Suðurlandi í sjónvarpi í kvöld.

Ég hvet fullveldissinna, hvar í flokki sem þeir eru, til að gera eins. 

En aðeins um þáttinn í kvöld. Þar gerðist það sem ég hefi óttast að fulltrúi Frjálslynda flokksins hér á Suðurlandier ekki staðfastur í sinni afstöðu til ESB og kom ekki allskonar á óvart. Fyrir tveimur árum gekk Grétar Mar til kosninga sem ESB-sinni. 

Að þessu slepptu stóðu sig flestir nokkuð vel og Hreppamennirnir tveir, Björgvin G. Sigurðsson og Sigurður Ingi Jóhannsson kannski sýnu best þegar horft er á hlutina án þess að meta skoðanir manna.

Þeir voru knáir í rökræðunni og Björgvin sem oft fékk á sig mjög föst skot kom standandi niður.


Þakka ber íhaldinu

Þjóðin stendur í þakkarskuld við Sjálfstæðisflokkinn að hann hafi hamlað því að breyta megi stjórnarskránni með einu handarvinki. Í lýðræðisríki er mikilvægt að naumur meirihluti geti ekki keyrt stjórnarskrárbreytingar í gegn á stuttum tíma. Það er sjálfsagt að gera eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði á síðustu dögum þingsins kröfu um að stjórnarskrárbreytingar séu samþykktar af auknum meirihluta, bæði í þingi og þjóðaratkvæðagreiðslu.

En þetta fer að verða það síðasta sem hægt er að þakka Sjálfstæðisflokknum. Þeir félagar Bjarni Ben. og Illugi Gunnarsson reyna nú að tala upp í eyrun á ESB-sinnum með þeim hætti að það fer kjánahrollur um flesta sem á hlýða. Þeir munu með þessu engan sannfæra nema um það að flokkur þessi veit ekkert í hvorn fótinn hann á að stíga og verður af þeim ástæðum einum ófær til landsstjórnar.

Ég spái því að flótti ESB-sinna yfir í Samfylkingu verði jafn þrátt fyrir þetta útspil en aftur á móti munu hinir, alvöru sjálfstæðissinnar finna atkvæði sínu farveg hjá VG eða Frjálslyndum. Þegar við bætast svo svik flokksins í umræðunni um þjóðareign auðlinda, REI-hneykslið og barnaleg lýðskrum Tryggva Þórs Herbertssonar þá fer sem fer og nafni minn ekki öfundsverður af vegtyllum sínum...


Miðbæjaríhaldið kýs ekki íhaldið

Fyrr hélt ég að svanir syntu forbrekkis eða sól sigi í austri en að ég sæi einn af mínum uppáhalds bloggvinum, Bjarna Kjartansson miðbæjaríhald snúa baki við Sjálfstæðisflokknum. Nafni gerir þetta samt ekkert af engu og raunar er LÍÚ-varðstaða Sjálfstæðisþingmanna komin út yfir allan þjófabálk. (Æi, kannski pínlegt að nota þetta orðtæki á þessum stað!)

Feigðarmerki Sjálfstæðisflokksins eru fleiri en tölu verði á komið og afskaplega linleg framganga hins nýja formanns í REI-mútumálinu mun kosta flokkinn mörg þingsæti...


Er viagra kannski jafnréttislyf

Nýleg frétt á færeysku stórfréttasíðunni Planet.is kom þessari hugmynd inn hjá mér en þar segir af rússneskri valkyrju sem beitti innbrotsþjóð í vakurleikastofu sinni raðnauðgunum. Nú hefur mér alltaf verið óskiljanlegt hvernig konur yfirleitt geti nauðgað karlpeningi en þessi ráðagóða gála notaði sér nýjustu tækni og vísindi.

  Það var vinkona mín sem sendi mér frétt þessa og vill meina að þessi frásögn eigi sér hliðstæðu í þeim tröllkvennasögum íslenskum sem segja frá hamslausum fjallagálum og myndarlega vöxnum drengjum í hálendisferðum. Enda ekkert nýtt undir sólinni...


Gullkistan er alvöru atvinnusköpun

Alltof lengi höfum við verið talhlýðin þeim öflum sem telja menningarstarf og listafólk vera bagga á þjóðinni en ekki ábata. Þeir tímar eru að baki nú þegar við horfum á að þyngstu bagganna berum við af bankamönnum og byggingagleði.

Tvær lista-valkyrjur hafa lengi barist fyrir að koma upp listamannasetri að Laugarvatni en fyrir daufum eyrum. Draumurinn hefur verið að fá Héraðsskólahúsið sem væri líka við hæfi. Setur sem þessi eru alþekkt um allan heim og vinsæl af þeim fjölda sem fæst við skapandi starfssemi. Sjálfur var ég svo lánsamur að dvelja í einu slíku í París síðastliðið sumar þegar tónskáldið kona mín fékk úthlutað þar íbúð til afnota. Erlendu listaspírurnar í París skapa þúsundir starfa og eru vitaskuld mikil mjólkurkú fyrir franskt atvinnulíf. Eins getur orðið að Laugarvatni en ég var sjálfur hálfhræddur um að draumurinn væri úti þegar Þorgerður Katrín setti fyrir ári síðan þvert nei fyrir að Héraðsskólinn færi til þessara nota. Þar hafa staðaryfirvöld, menntamálaráðuneyti og sveitarstjórnir á svæðinu sameinast um þá frábæru hugmynd að þetta glæsilegasta hús héraðsins verði að stjórnsýslumiðstöð fyrir uppsveitir Árnessýslu!

Það ánægjulega við drauminn um listasetur að Laugarvatni að valkyrjurnar tvær, Alda Sigurðardóttir í Alvöru búðinni og Kristveig Halldórsdóttir listakona halda ódeigar áfram þrátt fyrir mótlæti. Nú hafa þær fengið húsnæði í stúdentagörðunum og nánar má lesa um þetta framtak á vefsíðunni, http://www.gullkistan.is

Íhaldið á hnén og allt vitlaust að gera hjá fyrrverandi pólitíkus

Páll Vilhjálmsson skrifar beittan pistil í morgun um fall Sjálfstæðisflokksins og hvernig stríðsgæfan hefur  leikið stóru flokkana tvo með ólíkum hætti. Og af því að ég nenni ekki og má ekki vera að því að blogga núna læt ég duga tilvísun á Pál.

Það er svo skrýtið í lífinu að það er aldrei meira að gera en einmitt millum vita þegar ekkert er við hendi fast. Verð að rjúka...


Það er líf eftir pólitík, Guðlaugur!

Sjálfstæðisflokkurinn leggur eins og aðrir fram framboðslista nú á hádegi í dag. Oddviti flokksins í syðra Reykjavíkurkjördæminu er Guðlaugur Þór Þórðarson. Það er ekki gaman að vera Guðlaugur Þór þessa dagana og hefur ekki verið um páskana. Ég efast reyndar um að það verði nokkurntíma aftur gaman hjá Gulla í pólitík.

Sú þrákelkni að segja ekki af sér við þessar kringumstæður skaðar Sjálfstæðisflokkinn gríðarlega. En þrákelknin er líka menguð af þeirri hjátrú sem lifir í steinmúrnum við Austurvöll að það sé einfaldlega ekki líf utan þings. Sá sem segi af sér sé búinn að vera og lífið myrkt og tómt á eftir. En það er ekki rétt. Þessu er öfugt farið. Þó vissulega sé oft gaman á Alþingi þá er líf utan þinghússins, raunar lífið sjálft utan múrsins og margt gott við að sleppa út.

Ég tala af reynslu, Guðlaugur!


Guðlaugur aflaði styrkjanna, Steinarnir veittu þá

Gleðilega páska og ég biðst forláts á að skrifa pólitík á svo fallegum morgni.

En umræðan um Guðlaug Þór og Sjálfstæðisflokkinn yfirskyggði allt í hádegisfréttum og fær mig til að halda áfram.

Sjálfur hefi ég í áratugi rekið fyrirtæki sem safnað hefur peningum fyrir stjórnmálaflokka og margskonar málefni. Sá sem safnar styrkjunum talar við einhvern í viðkomandi fyrirtæki, oft millistjórnanda. Sá millistjórnandi ber erindið svo eftir atvikum upp við forstjóra, stjórn eða aðra sem fara með endanlegt ákvörðunarvald og er þá bara að vinna sína vinnu, ekki að afla styrkjanna.

Guðlaugur Þór bar því upphaflega við að hann hefði ekki safnað peningum heldur hefðu aðrir gert það. Þegar gengið var á flokkinn um það hverjir þessir aðrir séu þá var að lokum bent á tvo menn sem báðir heita Steini, annar er háttsettur hjá Landsbanka og hinn varaformaður stjórnar FL-group. Auðvitað öfluðu þessir menn ekki styrkjanna, þeir veittu þá. Sá sem talaði við þessa menn aflaði styrkjanna. Það hefur komið fram í fréttum að sá maður var Guðlaugur Þór Þórðarson.

Þegar REI málið kom fyrst upp var augljóst hverjum sem nennti að setja sig inn í það að þar var á ferðinni eitt ömurlegasta spillingar og mútumál íslenskra stjórnmála fyrr og síðar. Færa átti gjaldþrota auðjöfrum viðskiptaveldi í eigu almennings. Sjálfur lýsti ég þá yfir að allir þeir stjórnmálamenn sem að málinu komu ættu að segja af sér - og tók hattinn ofan fyrir þeim Sjálfstæðismönnum sem bundu enda á þessa spillingu inni í borgarstjórn Reykjavíkur. En nú fer sú virðing þverrandi ef flokkurinn í heild ætlar að feta í fótspor Ólafar Nordal þingkonu sem sagði hlæjandi í fréttatíma áðan að auðvitað væri allt í lagi með framboðslista flokksins í Reykjavík suður!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband