Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um Moggann og ósköp vondar vinstri stjórnir

Kjartan Kjartansson blaðamaður skrifar í Moggann í dag skemmtilegan pistil um sitjandi ríkisstjórn og hefur af því nokkra skemmtan hvað allar stjórnir sem kenna sig við vinstri eru að mati Morgunblaðsins vondar. Það eru einkum tvær fullyrðingar blaðamannsins sem þurfa nánari skoðun:

Þó að fólk kunni að greina á um ýmis verk, verkleysur og vitleysur núverandi ríkisstjórnar eru líklega flestir á einu máli um það - og ekki síst stjórnin sjálf - að hún er vinstristjórn.

Hér skriplar á skötu eins og jafnan þegar menn telja sig geta sagt fyrir um skoðanir „flestra." Greinarhöfundur fjallar í framhaldinu svolítið um vinstri og hægri hugtökin og bendir þá meðal annars á að vinstri menn séu flestir horfnir frá þjóðnýtingu og byltingu en fer svo ekki lengra út í þá sálma.

Staðreyndin er að hugtökin hægri og vinstri eru langt því frá merkingarlaus og það sem einkanlega skilur milli hægri og vinstri manna er trú hægri manna á ágæti markaðssamfélagsins og hinar réttlátu ósýnilegu hendur þess. Bankahrunið sem nú hefur staðið samfellt yfir í Vesturheimi frá 2008 hefur leitt alla sjáandi menn í sannleika um að frjálshyggjukenningar þessar eru bábylja, markaðurinn er tilviljanakenndur, hendurnar sem stjórna honum skítugar og hvergi meiri gripdeildir.

Það sem gleymist í greiningu á íslenskum ríkisstjórnum er að í enga flokka hafa safnast heitari markaðstrúarmenn en í gamla Alþýðuflokkinn og síðar arftaka hans, Samfylkinguna. Slíkt er ekki einsdæmi hér á landi því meðal granna okkar höfum við ESB trú, Blair-isma og sænskan kratisma sem byggja á sama missklingi um mannlegt eðli. Allir þessir hægri kratar eru í sínum kapítalisma kaþólskari en páfadómurinn Ameríski.

Ríkisstjórn sem leggur ofurkapp á að koma Íslandi undir stórkapítalisma ESB með öllu sínu markaðsregluverki er vitaskuld eins langt frá vinstri stefnu og frekast getur.

Seinni fullyrðing Kjartans sem hér verður að aðeins tekin til skoðunar er þessi:

Stjórnmálaskoðanir flestra vinstrimanna byggjast á ofur einfaldri samfélagssýn sem þess vegna er óraunsæ. Vinstrimenn hafa lengst af litið á samfélagið eins og Matador-spil: tiltölulega einfalt og lokað kerfi endanlegra verðmæta þar sem sú regla gildir alltaf að eins dauði sé annars brauð.

Þessa yrðingu er reyndar ekkert auðvelt að rökræða því hún skilur eftir fleiri spurningar en svör. Sjálfur er ég mikill aðdáandi matadors og heyrði ungur að hann væri kaupmannaleikur en heyri nú að með honum séu grundvallaðar ranghugmyndir vinstri manna. Mikil er þá speki þess teningaleiks.

En hafi einhverntíma ráðið hér fyrir landi menn með einfeldningslega samfélagssýn þá var það í hægri stjórninni sem hér réði um langt árabil fyrir og eftir síðustu aldamót. Þá réðu þeir menn sem trúðu því að það væri til hagsbóta fyrir almenning að gefa flokksgæðingum íslensku bankana. Þetta væru jú vinir ríkisstjórnar og þar með vinir þjóðarinnar og því gæti ekki verið annað en gott fyrir þjóðina að vinir hennar eignuðust fyrir ekki neitt verðmætustu fyrirtæki landsins.

Og svo var spilaður matador...


Sænskur talnaspekingur í Ríkisútvarpinu

Carl Bild utanríkisráðherra Svía er staddur hér á landi og Evrópusinnum líður eins og hingað sé komin poppstjarna. Aðspurður um andstöðu Íslendinga við ESB aðild telur hinn sænski talnaspekingur að svoleiðis sé ekkert til að hafa áhyggjur af enda skoðanakannanir bara ómark. Það hafi einhverjir Svíar líka verið á móti en nú séu allir með og aðildin tóm hamingja.

Sama dag birtir sænsku fréttavefurinn  europaportalen.se könnun sem sýnir að nú í byrjun mars vildi meirihluti Svía út úr Evrópusambandinu. En hin ríkisrekna áróðursmiðstöð í Efstaleitinu kann nú svar við því. Hún boðar bara fleiri viðtöl við Carl Bild þar sem hann segir sömu fallegu söguna sína aftur og aftur og aftur... 


Ljós í myrkri spillingar og óréttlætis

Ormaveitan sem opnaðist við hrun bankanna hefur eðlilega dregið úr tiltrú margra okkar á landinu og getu okkar sjálfra til að stjórna eigin málum. Seinagangur í kerfinu, vanhæf löggjöf til að mæta hvítflibbum og síðan óþolandi endurkoma sömu manna inn í atvinnulífið misbýður algerlega réttlætiskennd okkar. Hrossakaup stjórnmálaflokka til að komast undan uppgjöri hafa kórónað ósköpin.

Það er þessvegna ljós í myrkrinu að sjá að "sérstaki" kemst þó hægt fari.  


mbl.is Mikið mæðir á Kaupþingstoppum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvirðing við lýðræði og stjórnskipan

Öll framganga ríkisstjórnarinnar við Stjórnarskrármálið er óvirðing við lýðræðið, lýðveldið og stjórnskipan okkar. En afhverju? Jú, hér átti að hespa af einhverju ódýru ferli til þess að lauma inn ákvæðum sem tryggðu að selja mætti ESB fullveldi landsins á mettíma. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem haldin var um stjórnarskrárdrögin var skripaleikur þar sem spurt var leiðandi spurninga um aukaatriði málsins. Nú er þessi flausturslega tilraun Evrópukrata að renna út í sandinn og þá er leitað að sökudólgum. 
mbl.is Óvirðing við stjórnarskrá landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýpur undir járnhæl

Innistæðueigendur á Kýpur mega nú þola gripdeildir ESB og AGS á bankainnistæðum. Og þó Rússar séu umdeildir í sínum verkum hafa þeir verið velgjörðarmenn Kýpverja.

Nú hefur ríkisstjórn Kýpur ekkert um það að segja að Rússum er haldið utan við allt og mega bara tapa því sem þeir hafa lagt í púkkið. Evrópusambandið er jafnvel ruddalegra í sínum utanríkissamskiptum en gamla Sovétið var gagnvart sínum leppríkjum.


mbl.is Bönkum lokað fram á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfrelsisbaráttan er vinstri barátta

Drifkraftur gamla aðalsins í Evrópu og síðar nýlenduherranna var græðgi í það sem öðrum tilheyrir. Þessi þörf gömlu nýlenduveldanna er óröskuð og tekur sífellt á sig nýjar myndir.

Til þess að endurvekja hinn alþjóðlega yfirstéttaraðal hefur elíta Evrópu búið til sitt fríríki í Brussel þar sem menn sitja skattfrjálsir við þægilega innivinnu og gera sitt til að endurvekja það andrúm aðalsins að þjóðahugtakið sé misskilningur, lýðurinn sé framleiðsluvél og valdið sé fagleg vísindagrein embættismanna.

Sjá nánar í grein minni um hina vinstri sinnuðu þjóðfrelsisbaráttu, http://smugan.is/2013/03/thjodfrelsisbarattan-er-vinstri-baratta/


Flokkakerfið er meinsemd

Sá mæti blaðamaður Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði nýlega í pistli hér í Morgunblaðinu um mátt stjórnmálamanna í baráttunni við kerfið og peningaöflin. Hann tók þar dæmi af Clinton Bandaríkjaforseta og segir m.a.:

... Bill Clinton hefði eftir forsetatíð sína á margan hátt þurft að játa sig sigraðan. Ýmis mál hefðu ekki náð í gegn, sakir fyrirstöðu fjármálaafla. Máttur peninga og manna á Wall Street hafi verið meiri en Bandaríkjaforseta, þó embætti hans sé stundum sagt hið valdamesta í heimi. Hugsjónirnar náðu ekki að sigra hagsmunina. Í því ljósi er því eðlilegt að spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir íslensku hafi einfaldlega þann styrk að geta lagt til atlögu við banka, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina sem varið hafa verðtrygginguna af öllum mætti. Þessar stofnanir eru máttugar en hinar pólitísku hreyfingar á margan hátt veikar.

Eins og oft áður hittir Sigurður hér naglann á höfuðið þegar kemur að vanda íslenskra stjórnmála. En það er þó ekki rétt að stofnanir stjórnmálanna séu í þessu efni of veikar. Það sem er of veikt er sjálfstæði stjórnmálamannanna sem starfa innan stjórnmálaflokkanna.

Vald til lagasetningar og framkvæmdavalds er innan stjórnmálaflokkanna en því fer fjarri að stofnanir þessar séu heilbrigðar lýðræðislegar stofnanir. Innan stjórnmálaflokkanna ráða hagsmunaöfl og peningaöfl ferðinni. Fáir komast til metorða í flokkum þessum nema vera þóknanlegir valdamiklum klíkum sem starfa innan flokkanna. Flokksþing eru oftar en ekki sambland af málfundi og skrautsýningu. Þeir sem ætla að hafa áhrif á gang mála hvort sem er við lagasetningu eða stjórnvaldsaðgerðir vita sem er að skilvirkasta leiðin liggur ekki um þingmennina sjálfa, hina rétt kjörnu handhafa valdsins heldur um „vinnuveitendur" þingmannanna, stjórnmálaflokkana.

Birtingamyndir þessa fyrirkomulags eru fjölmargar og þannig finnst mörgum eðlilegt að flokksbundnir menn og einkanlega hátt settir flokksmenn hafi greiðari og almennari aðgang að kjörnum fulltrúum heldur en almennir óflokksbundnir kjósendur. Þegar að er gáð er ekkert í okkar stjórnskipan sem réttlætir þannig hólfa- eða stéttaskiptingu kjósenda.

Margt af því misheppnaðasta í stjórn landsins á undanförnum árum má rekja beint til þess að þingmenn hafi með þvingunum og fortölum flokksræðisins verið sviptir sjálfstæði sínu og rétti til að fylgja eigin sannfæringu. Skýrast í þeim efnum er viðsnúningur VG liða í ESB máli en einkavæðing bankanna og samþykkt EES eru sama marki brennd.

Í ESB máli yfirstandandi kjörtímabils höfum við síðan fengið að kynnast því hvernig sterkir stjórnmálaleiðtogar geta í reynd nýtt flokksstofnanir sínar til þess að losna undan óþægilegum kosningaloforðum sem gefin voru öllum kjósendum en er eftir á breytt af litlum hópi þeirra.

Núverandi kosningakerfi er mjög hliðhollt flokkakerfinu og gerir t.d. einstaklingsframboð ómögulegt. Ein leiðin til framfara í þessum efnum liggur því um stjórnarskrárbreytingar á kosningakerfi en mikilvægast er þó lifandi vakning almennings fyrir því að hér er pottur brotinn og réttur allra kjósenda er sá sami. Við núverandi fyrirkomulag er eina leiðin út úr kerfinu að frambjóðendur bjóði fram í óháðum kosningabandalögum sem ekki mynda stjórnmálaflokk.

(Birt í Mbl 16. mars 2013) 


Rétt hjá Björvini G!

Björgvin G. Sigurðsson er nágranni minn hér í Latínuhverfinu á Selfossi og ágætur vinur. En við erum yfirleitt ósammála þegar talið berst að innlimun Íslands í ESB. Þessvegna er rétt að geta þess þegar þessu er á annan veg varið.

Það er rétt hjá þingmanninum að ESB málið er eitt það stærsta í komandi kosningum. Það er alls ekki svo að árás ESB á íslenskt fullveldi hafi verið hrundið. Nú um stundir flæða ESB peningar yfir opinbera geirann hjá ríki og sveitarfélögum. Engar skoðanir standast peningagjafir, hversu ágætar sem þjóðir annars eru.

Mesta hættan nú er fólgin í flækjustiginu og skrökinu. Þegar menn gangast inn á að sjálfsagt sé að spyrja ESB einu sinni enn hvað sé í pakkanum eða vilja kosningar um hvort málinu sé haldið áfram örlítið lengur - eru þeir flæktir í köngulóarvef vitleysunnar. 

Við eigum einfaldlega að slíta þessum viðræðum og það er fráleitt að efna til kosninga um málið meðan erlent stórríki rekur hér áróðursskrifstofu. Þegar Evrópustofa hefur pakkað saman og IPA styrkjum verið skilað er sjálfsagt að skoða það að efna til kosninga um framtíðarfyrirkomulag í samstarfi okkar við ESB og byrja á spurningunni um EES! 


mbl.is ESB eitt brýnasta kosningamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðsettir vinstrimenn!

Helgi Guðmundsson fyrrverandi Þjóðviljaritstjóri skrifar pistil á bloggsíðu sína, Þjóðviljann þar sem hann gagnrýnir okkur frambjóðendur Regnbogans fyrir að fara í framboð sem einvörðungu er stefnt til höfuðs öðrum vinstri mönnum! Heimild Þjóðviljans fyrir þessari túlkun er þó ekkert sem neinn okkar Regnbogamanna hefur sagt eða skrifað heldur fyrirsögn í því ágæta blaði DV.

Untitled-1

Nú kann einhverjum að þykja það ógna stöðu VG að þeir sem fylgja vilja fyrrverandi stefnumálum VG skuli boða til framboðs. Það verður þá svo að vera en í þessari sýn kemur óneitanlega fram mikil flokkshollusta en að sama skapi skeytingaleysi um skoðanir. Boðskapur gamla Þjóðviljaritstjórans er að sama hversu illa flokkur svíki sína stefnu þá beri mönnum að standa með honum og megi aldrei gera meira en að draga sig í hlé frá vettvangi ef þeim ekki hugnast að vera með lengur.

Framboði Regnbogans er engan veginn stefnt gegn neinu öðru framboði heldur einfaldlega með ákveðnum hugsjónum um þjóðfrelsi og fullveldi. Það má vissulega gagnrýna VG fyrir að hafa á yfirstandandi kjörtímabili ekki fylgt stefnu sinni í máli sem flokkurinn var nánast stofnaður um. Ef ekki hefði verið fyrir ESB hefðu allir vinstri menn farið í einn flokk um síðastliðinn aldamót. 

Nú er aftur á móti svo komið að VG kemur hreint fram sem ESB flokkur sem vill láta á það reyna til þrautar hvort koma megi Íslandi þar inn. Þar er reyndar enn farið með möntrur um að hagsmunum Íslands sé ef til vill best borgið með einhverjum hætti en stefnan er samt skýr, aðlögun, samningum og aðildarbrölti skal haldið áfram, "til dæmis" svo lengi sem þurfa þykir.

Framboð þeirra sem eru á móti ESB keppir því ekki beint við ESB flokkinn VG heldur fremur við aðra þá flokka sem hafa andstöðu við ESB aðlögun á dagskrá. Þeir flokkar eru flestir á hægri kvarða flokkakerfisins, Hægri grænir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur. Það hentar ekki öllum kjósendum að fara svo langt til hægri og við sem stöndum að Regnboganum fyllum því í ákveðið tómarúm stjórnmálanna. En við höfuðsitjum engan og unnum hverjum þeirra atkvæða sem kjósendur vilja færa þeim. 


Eiga þingmenn að taka þátt í hverju sem er!

Aulahrollur er vel skiljanlegur og raunar er ofuráhersla Ríkissjónvarpsins á þessa ekki frétt Þórs Saari álíka aulaleg. Allt málið er skrípaleikur og ég velti fyrir hvor ræðan hafi verið verri, ræða Birgittu eða Bjarna Ben sem sagði já en var ósammála texta tillögunnar.

Spurningin eftir daginn er vitaskuld hvort þingmenn verði að taka þátt í hvaða skrípaleik sem er... 


mbl.is Birgitta með aulahroll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband