Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Afhverju sníkir hann smjerið, drengurinn?
17.2.2013 | 14:58
Ég er einn þeirra manna sem hvunndagslega sníki smérið. Ekki þannig í eiginlegri merkingu að ég fari í Kaupfélagsskrattana hér í plássi og relli í afgreiðslufólkinu að gefa mér smjör.
En þetta er semsagt gamalt orðtæki sem var allavega þekkt í Grímsnesinu á fyrri hluta síðustu aldar. Það vísar til þess að vera með skyrtuboðungana flaksandi upp úr buxunum, stundum bara annan en á sunnudögum jafnvel báða.
Hjá fæstum er um að ræða ásetningsglæp og ég hef ekki heyrt um að þetta særi blygðunarkennd nokkurs en maður veit samt aldrei. Í raun og veru er þetta komið til af vaxtarlagi, þegar manni tekst með aldri að þróa með sér framstæða kúrvu eins og ófrísk kona þá er alltaf hætt við því að minnsta búkhreyfing verði til þess að skyrtan tosist aðeins upp úr enda veldur velmegun því að hún kemst mjög stutt niður fyrir buxnastreng. Þetta má vissulega leysa með mjög uppháum buxum en "það er sagt mér" að þær séu ekki í móð. Hin aðferðin er að hafa enn framstæðari maga þannig að skyrtan sé öll ofan strengs og strekkt þar þannig að ekkert flaksast.
Þetta með að sníkja smjerið er eiginlega vandamál meðalmennskunnar. Vandi okkar sem hvorki erum almennilega feitir né anorexíuleg sporteðjót. Hjá mér er þetta alls ekki tengt aldurdómi heldur hef ég alla ævi verið svona utan stutt hungur- og veikindaskeið í suðrænum löndum.
En allt þetta mas, bara til að koma einu orðatiltæki á framfæri. Böðvar Pálsson á Búrfelli sem er heimildamaður minn að þessari skemmtilegu rúsínu í málinu kunni engar sögur af því hvernig hún væri til orðin né heldur afhverju þetta héti svo.
En skýringin liggur samt nokkuð í augum uppi að þetta tengist því að sá sem missir skyrtuboðungana svona upp úr streng er talinn hafa fengið ofan í sig, hann hefur náð að sníkja sér smjör á lífsleiðinni. Um hann yrði líka sagt eins Sæmunddur heitinn á Friðarstöðum sagði um mig ungan,- hann bítur ekki klakann þessi.
PS: Án þess að það eigi að tala um pólitík í sunnudagsmessu, samt til hamingju Steingrímur með að hafa hætt við að hætta við að hætta - en hætt samt einhverju pínu smá...
Fráleitt að efna til ESB kosninga
10.2.2013 | 10:43
ESB sinninn Karl Th Birgisson bendir á það í nýlegum pistli að það sé fráleitt að efna til ESB kosninga nú. Ég er sammála honum og skrifa örlítið um þá þanka á síðu Vinstri vaktarinnar í dag.
Alþingi ber skylda til að slíta ESB viðræðunum en að því loknu er aftur á móti sjálfsagt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu þjóðarinnar í samfélagi þjóðanna.
Þar eigum að spyrja um ESB, EES, krónuna og verðtrygginguna en allt þetta brennur á þessari þjóð. Sjá nánar: http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1281940/
Sameiningar á Íslandi hafa alltaf leitt til meiri kostnaðar
7.2.2013 | 16:24
Rekstur 14 lánastofnana árið 2011 kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug síðan og jafnast á við tvo Landsspítala í dag. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar.
Svo segir í lauslegri endursögn Morgunblaðsins af nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um bankakerfið. Það þarf enga spekinga til að sjá að bankakerfi okkar er of dýrt og viðamikið.
Það sem einkum vekur hér athygli er að fækkun stofnana hefur ekki leitt til sparnaðar heldur þvert á móti aukið kostnað. Þetta höfum við séð á fleiri sviðum. Rekstur risaspítalans í Reykjavík kostar meira miðað við afköst en rekstur tveggja eða þriggja áður. Hér á Suðurlandi voru allar heilsugæslur sameinaðar í eina og rekstrarkostnaður jókst við það verulega. Við höfum sameinað sveitarfélög þrátt fyrir yfirlit yfir ársreikninga sveitarsjóða sýni áratug eftir áratug (koma fram í svokallaðri Árbók sveitarfélaga) að því stærri sem sveitarfélögin eru í höfðatölu því meiri er stjórnunar- og rekstrarkostnaður á hvern íbúa. Skuldir á haus eru líka hærri í stóru sveitarfélögunum en þeim litlu. Ráðuneytin eru kapítuli ut af fyrir sig en þar hefur starfsmönnum fjölgað en ekki fækkað við sameiningar. Svo mætti áfram telja.
Það oflæti Íslendinga þykjast jafnan vera milljónaþjóð eru henni dýrkeypt. Í samfélagi sem telur liðlega fjórðung milljónar er ekki líklegt að við náum fram raunverulegum sparnaði með því horfa til hagkvæmni stærðar. Það er miklu líklegra að við náum árangri með því stefna markvisst að hagkvæmni smæðar. Litlar sjálfstæðar einingar hafa ótal kosti og minni tilhneigingu til skrifræðis og veldisvaxtar Parkinsonslögmáls.
Við hrunið stóðum við uppi með þá mynd að stórfyrirtækin öll skulduðu tugi og hundruðir milljarða sem ekkert fékkst af. En það sem stóð af sér þessar hamfarir var helftin af litlu fyrirtækjunum í landinu og af þeirri mynd eigum við að draga lærdóma.
Hvað segir peningafrjálshyggjan nú?
5.2.2013 | 20:42
Talsmenn hins frjálsa flæðis kapítalismans trúa því að markaðsskráning gengis og frjálst flæði sé forsenda framfara. Um þessar kennisetningar hafa talsmenn tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins löngum sammælst og fengið ótrúlega marga á sitt band.
Þá breytir engu að nú síðustu áratugi meðan frelsið hefur verið sem mest í okkar heimshluta hafa framfarirnar og hagvöxtur orðið mest í löndum sem öðru vísi haga sínum málum, s.s. Afríku, Kína og Indlandi. Og fyrir þessum trúmönnum breytir heldur engu að hröðustu framfarir frá fátækt til velmegunar bæði hér á landi og víða í hinum vestræna heimi urðu ekki undir nútíma peningaoki alþjóðakapítalisma og frjálshyggju.
Og nú stígur Frakklandsforseti fram og kveinkar sér undan evrunni. Hann er reyndar ekkert einn um það, öll Suður Evrópu stynur og blæðir undan frelsi gjaldmiðilsins sem enginn má stýra nema sá sterki og ríki. Það vill nefnilega til að frelsi peningaaflanna hefur í för með sér ófrelsi þjóða.
Hátt gengi evrunnar ógnar ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Höftin, evran og leikvöllurinn
2.2.2013 | 11:24
Frá því um hrun hafa gjaldeyrishöft verið við lýði á Íslandi. Með reglulegu millibili koma ESB sinnar og vinir þeirra laumu-esb-sinnarnir og reka upp mikið skaðræðisvein. Höftin séu áþján á þjóðinni, þau séu að drepa atvinnulífið. Vegna haftanna sé enginn hagvöxtur, engar erlendar fjárfestingar og allur leikvöllur kapítalismans ónýtur.
Almenningur hlustar á þetta og vorkennir vitaskuld vesalings mönnunum að geta ekki leikið sér með fjármagnstilfærslum og gjaldeyrisbraski. En óhagræði hins almenna borgara af gjaldeyrishöftunum eru ekki augljós. Við getum eftir sem áður ferðast út og með greiðslukorti eytt meiru en við höfum gott eða gaman af.
Þegar við svo berum saman tölur hér og í nágrannalöndum okkar þá dúkkar upp sú undarlega mynd að hagvöxtur og uppgangur á hafta-Íslandi er skömminni til skárri en í evrulöndunum í nágrenni okkar þar sem engin höft eru. Sum evrulandanna eru farin lóðbeint á hausinn og þurftu engin höft til. Þegar málið er skoðað ofan i kjölin kemur einmitt í ljós að höft hefðu getað bjargað þessum löndum.
Fyrir heimilin í landinu og almenna lántakendur hafa höftin bjargað miklu og tryggt hér meiri stöðugleika heldur en við gátum vonast til fyrst eftir hrun. Upphrópanir um höftin og hina hræðilegu krónu eru ekkert annað en tilraun til að fela það að evru-málstaðurinn um að Ísland verði að taka upp annan gjaldmiðil er löngu sigldur í strand.
Vitaskuld er endurreisnarstarfi eftir bankahrunið ekki lokið. Við þurfum næst að semja okkur frá snjóhengju aflandskrónanna sem er eðlilegast að gera með því að greiða krónur bara í krónum. Eftir það getum við smám saman losað um höftin en ættum um leið að taka upp alvarlega umræðu um það hvort við viljum galopna hagkerfið fyrir fjármálagangsterum eins og var hér frá gildistöku EES og allt fram að hruni.
Mikilvægt að fjalla um kennitöluflakkara
31.1.2013 | 11:38
Fréttavefur Moggans á hrós skilið fyrir að fjalla hér um dæmigerðan íslenskan kennitöluflakkara. Fyrir okkur sem erum að berjast í fyrirtækjarekstri er samkeppni frá kennitöluflökkurum og afskriftakóngum það versta sem um getur. Það er hægt að lifa við verðbólgu, sölutregðu, smávægilegt búðahnupl og eldfjallaösku frá Eyjafjallajökli þó hún kosti daglegar skúringar! En það er ekki hægt að keppa við þá sem hafa rangt við með undirboðum - og kasta skuldunum öðru hvoru í fangið á almenningi.
Góður félagi minn hér á Selfossi hætti nýlega að baka pizzur eftir margra ára farsælan og myndarlegan rekstur. Ástæðan: Dominoskarlarnir komu fljúgandi inn í bæinn á þyrlu og klipptu á borða að nýjum veitingastað. Flott skyldi það vera!
Nú er ekkert að samkeppni en hvernig á venjulegur heiðarlegur atvinnurekandi að keppa við Domionos sem undirbýður og er með allt svo flott og fínt - eftir að hafa fengið að minnsta kosti 1500 milljónir afskrifaðar. Talan er þó ef til vill hærri. Sá sem keypti Dominos 2012 af Landsbankanum og Magnúsi Kristinssyni fyrrum útgerðarmanni í Vestmannaeyjum er sá sami og seldi Magga staðinn í bólunni miðri nokkrum árum fyrir hrun. Magnús var einn þeirra sem keypti þá nokkur stór fyrirtæki, Toyota þar á meðal. Á þessum árum voru öll fyrirtæki ofmetin og vitaskuld fór ævintýri Eyjamannsins í þrot með tilheyrandi afskriftum. Hluti af þeim afskriftum tilheyra vitaskuld Dominos - hversu stór veit ég ekki.
Algerlega galið bankakerfi útrásarvíkinganna sá til þess að þeir sem seldu fyrirtækin á þessum tíma fengu þau oftar en ekki greidd út í beinhörðum peningum, þó svo að kaupandi skuldaði allt í viðskiptunum. Þessar peningaupphæðir eru grundvöllur margra þeirra sem mest berast á í dag og það er fráleitt að láta bara eins og þetta sé heiðarlega fengið fé.
Þetta er hluti af siðlausum afskriftaheimi eftir-kreppu-kapítalismans.
Ítrekuð gjaldþrot Metroborgara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyndinn og skemmtilegur Icesave dagur
28.1.2013 | 21:46
Dagurinn hefur verið mjög skemmtilegur en líka mjög fyndinn þannig að eiginlega átti maður svoldið erfitt með hlýða Steingrími J. fór fram á að menn sýndu þann þroska að vera ekki að gleðjast mjög mikið yfir þessum Icesave tíðindum.
Hlátur er til dæmis mjög óviðeigandi, sagði miðaldra kona sem kom til mín í búðina og hafði heyrt Steingrímsviðtalið. Svo hlógum við bæði.
Rétt seinna kom Össur sem ekki hefur vit á bankamálum í fréttaviðtal og var flaumósa. Hann er of mikill durni til að ná upp í falsettu en það munaði litlu. Bætti það upp með óborganlegum kommentum og sérstakri undrun yfir að þurfa ekki að borga málskostnað. (Það vita samt flestir að það er almenn regla ef þú vinnur dómsmál, þá greiðir taparinn lögfræðireikninginn þinn!)
Já, og Landsbankinn, hann bara borgar þetta að fullu, - hélt ráðherrann áfram sem er nú þekktur að því að þekkja hvorki til lögfræði né bankamála og bætti um betur þegar hann talaði um að Landsbankinn hefði greitt allar sínar skuldir og barasta 115%. (Kannski fær frúin í Hamborg þessi 15% sem eru umfram en vitaskuld greiðir Landsbankinn í reynd bara brot af þeim skuldum sem hann stofnaði til þó að almennar innistæður séu greiddar.)
Undir kvöld kom svo Sigmundur Davíð í Kastljós með Steingrími og klappaði honum varlega, minnti reyndar á að fjármálaráðherrann fyrrverandi hefði verið leiðinlegur við þá og jafnvel strítt Framsóknarmönnum þegar þeir vildu lesa Icesave samninginn yfir!! (Allt mjög settlegt og ekkert verið að ýfa það við formann VG að í þessu máli lá hann hundflatur fyrir ESB. Evrópusambandið var í þættinum en í hlutverki bleika fílsins sem enginn talar um því allir ætla að vera svo kurteisir og góðir við hvorn annan enda stutt í stjórnarmyndanir.)
Steingrímur J. toppaði svo kvöldið því hann kann svolítið fyrir sér í fornum húmor af Langanesi kenndi Svíum og Norðmönnum um það að hafa samþykkt allt sem Bretar vildu ...
Svo eru landsfeður að fara fram á að maður gleðjist ekki um of eða hlæi á svona degi!
Kíkjum í kjarnorkupakkann!
27.1.2013 | 12:50
Nú þegar Hjörleifur er genginn úr VG væri skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að kanna hvaða áhrif það hefði á byggð í Eyjum og efnahag þjóðar að reisa kjarnorkuver í miðbæ Heimaeyjarkaupstaðar.
Samhliða geta flokkarnir samþykkt ályktanir um að þeir séu alfarið á móti kjarnorkuverum. Það er nauðsynlegt að kíkja í alla pakka, til þess eru menn í ríkisstjórn!
Kjarnorkuver í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það sem fyndið á að vera ...
25.1.2013 | 22:50
Steingrímur J. boðar nú að á næsta kjörtímabili - þegar flokkurinn hefur örugglega engin völd lengur - verði VG aftur á móti ESB og setji þau skilyrði að aðlögunarferlið verði stöðvað. Tillaga um það verður að boði formanns samþykkt á landsfundi seinna í vetur.
Í dag hefur sami Steingrímur J. umtalsverð völd, meðal annars til þess að stöðva ESB umsóknina en það ætlar hann ekki að gera.
Er nema von að Hjörleifur fari. Þeir fara að verða einmana, hinir fáu ESB andstæðingar sem eftir eru í flokknum.
Segir sig úr Vinstri grænum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af holhönd utanríkisráðherra og það sem þar er að sjá!
21.1.2013 | 13:26
Það lenti á mér í dag eins og oft áður að skrifa pistil dagsins á Vinstri vaktinni. Að þessu sinni skrifaði ég um það fólk sem hefur ófreskigáfu og getur séð inn í framtíðina.
Sá sem vildi sjá það sem hinn skyggni sá þurfti ekki annað en að horfa undir holhönd hins skyggna. Hélt þá sá skyggni hendi sinni út en sá sem vildi sjá beygði sig undir armlegginn og sá allt í gegnum það sjónarhorn sem varð undir axlarkverkinni.
Þegar leið nær okkar tíma varð þetta að hrekkjarbragði að láta fákæna kjána trúa því að það sem sást svona undir holhönd væri allt andlegra og merkilegra en venjuleg útsýn yfir veröldina. Í raunsæi 20. aldarinnar er nærtækt að skýra margar þessar sagnir og sýnir hinna ófresku með vísan í hugtök geðlæknisfræðinnar. Enginn trúir því nú að hægt sé að sjá ofsjónir annars manns með því að horfa undir axlarkverkinni og gildir þá einu hvort horfa skal á álfa eða skyggnast inn í framtíðina.
En samt er eins og veröldin endurtaki sig og sé jafnan söm við sig. Töluvert stór hópur manna telur sig geta kíkt inn í framtíðina með því að sjá undir loðinni holhönd utanríkisráðherra einhvern þann pakka sem á að geyma sem gerist og gerist ekki ef Ísland gengur í ESB. Og líka hvað gerist og hvað gerist ekki ef Íslendingar fara svo illa að ráði sínu að ganga ekki í ESB.