Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Annarskonar virkjun Þjórsár

Afgreiðsla rammaáætlunar er fagnaðarefni fyrir okkur sem höfum haft efasemdir um ágæti virkjunar neðri hluta Þjórsár. Með því að þær eru allar settar í bið skapast staða sem kallar á umræðu og athafnir.

Í þeirri kreppu sem verktakageirinn er í hafa margir horft til þess að æskilegt væri að ráðast í umræddar virkjanir. Í draumsýn hefur þá einnig verið brú milli Gnúpverjahrepps og Holta og víst myndi slík samgöngubót skila miklu. En til lengri tíma litið er framkvæmdahugur af þessu tagi litaður skammsýni. Við sem höfum verið á Suðurlandi báða dagana munum vel hvaða áhrif tarnaframkvæmdir hafa á byggðalögin. Kauptúnin í Rangárþingi bjuggu við margra ára kreppu eftir fyrstu tarnir í Þjórsárvirkjunum. Þann leik þurfum við ekki að endurtaka.

Líklegt er að á næstu árum fari fram endurmat umhverfisáhrifa virkjana í neðri hluta árinnar og það er vafamál að hugmyndir Landsvirkjunar standist slíka skoðun. Þessvegna er brýnt að Sunnlendingar fari að horfa á þessa miklu móðu, Þjórsána, sem annarskonar auðlind. Efra framleiðir hún helftina af raforku landsmanna en hér á heimaslóð getur hún orðið mikil lyftistöng í atvinnulífi þar sem ekki væri tjaldað til einnar nætur.

Laxastofn Þjórsár er einn sá stærsti í okkar heimshluta og með útfellingu á seti og gruggi yfir hásumarið má auka viðkomu laxastofnins enn meira og þar með gera bakkana beggja vegna að frábærum veiðistöðum stangveiðimanna yfir verðmætasta veiðitímann. Stangveiðar innlendra og erlendra veiðimanna skila mjög miklu til þjóðarbúsins og skapa margs konar atvinnu við bakka veiðiánna. Talið er að 50 veiddir laxar á stöng skapi eitt ársverk og því ljóst að Þjórsá getur skilað Sunnlendingum tugum varanlegra starfa ef rétt er á málum haldið.

Nú þegar Urriðafossvirkjun er að þokast út af borðinu getum við því lagt á ráðin um að nýta neðri hluta Þjórsár til raunverulegrar atvinnusköpunar í héraði. Sú uppbygging og atvinna sem yrði í kringum þessa nýtingu árinnar kallar auðvitað á samgöngur og það er fráleitt að raforkuvirkjun sé skilyrði þess að lögð sé ný brú yfir Þjórsá. 

(Birt í Morgunblaðinu 19. jan.2013) 


Afhverju talar maðurinn ekki við Steingrím?

Afhverju talar þessi niðurlendingur ekki við Steingrím J. hér heima. Hann gæti sagt honum það sama og Össur að ESB er frjáls klúbbur sem allir geta gengið í og úr að vild. Það er eins og Evrópubúar hafi aldrei heyrt um það fallega Evrópusamband sem ríkisstjórn Íslands segir okkur frá hér á löngum og friðsælum vetrarkvöldum...
mbl.is Ríki fái að yfirgefa evrusvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB flokkur í kreppu

(Eftrifarandi birtist í Morgunblaðinu í gær.)

Niðurstað í prófkjörum VG um helgina er öllum andstæðingum vinstri stefnu á Íslandi mikil Þórðargleði. ESB sinnar unnu ekki þann sigur að flokkur Steingríms J. Sigfússonar geti hér eftir gengið í takti með Ólaf Þór Gunnarsson og Björn Val Gíslason í broddi fylkinga í höfuðstaðnum. Raunar er útreið þeirra félaga harður dómur formanni sem hefur margbjargað Íslandi með píslarvætti sínu og sértækum skilningi á heiðarleika.

En þó svo að Ögmundur Jónasson hafi unnið nauman sigur í Kraganum þá fer því fjarri að flokkurinn verði við það trúverðugur valkostur. Vinstri vaktin sem er vefsíða vinstri sinnaðra ESB andstæðinga lagði í vikunni spurningar fyrir frambjóðendur VG í forvali sem fóru fram nú um helgina. Er fljótsagt að nær allir frambjóðendur flokksins hafa gengist undir jarðarmen ESB og vilja í orði kveðnu halda aðlögunarferlinu til streitu. Ögmundur einn var þar í öðru liði og er þó sá maður sem mesta sök á upphafi ESB mála með launmálum við Össur Skarphéðinsson.

Átök eða pissukeppni

Fyrr á þessu ári stigu þrír þingmenn VG óvænt fram og töluðu fyrir þeirri skoðun að ESB vegferðin yrði að taka enda á kjörtímabilinu. Þetta voru þau Árni Þór Sigurðsson, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Um stund var eins og þjófstartað væri til nokkurrar keppni um það hver myndi nú best hina yfirlýstu og samþykktu stefnu flokksins. Þessir atburðir gerðust einmitt meðan formaður flokksins dvaldi erlendis og allt var skjótlega leiðrétt þegar hann kom heim.

En glæðurnar lifa. Ekki vegna þess að fyrrnefndir þingmenn séu svo ákafir hugsjónamenn fyrir fullveldi landsins heldur miklu frekar hafa þeir hugsjónir sem tengjast þingsætum. Nú korteri fyrir kosningar er líklegt að umrædd keppni hefjist að nýju og er það vel, sér í lagi ef það mætti verða til þess að ESB málið færi í pappírskörfuna.

En þessi keppni mun engu breyta um það að Steingrími J. Sigfússyni hefur á undraskömmum tíma tekist að eyðileggja flokk sinn til nokkurrar framtíðar. Það er raun og veru snöfurmannlega gert á ekki lengri tíma en fyrir aðeins fjórum árum horfðu landsmenn með velþóknun og trausti á VG og formanninn. Á sama tíma hefur áætlunin um að búa til einn stóran ESB flokk með samruna við Samfylkinguna runnið út í sandinn. Þórðargleði íhaldsins er því mikil og að óbreyttu stefnir í stórsigur Sjálfstæðismanna sem nýlega keyrðu þó íslenskt efnahagslíf fram af bjargbrún. Það verður einstæður sigur sem Sjálfstæðismennirnir sjálfur eiga engan þátt í að skapa.

Skömm vinstri stjórnar

Svokölluð vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur sáralítið á afrekaskrá sinni. Kraftur hennar hefur farið í slagsmál um ESB aðlögun og almenna þjónkun við erlend stórríki. Mestur efnahagsbati okkar Íslendinga verður annarsvegar rakinn til neyðarlaganna svokölluðu annarsvegar og krónunnar sem vinnur sitt verk þegjandi og þrátt fyrir snuprur húsbænda.

Í bankamálum og atvinnumálum hefur ríkisstjórnin fylgt úreltum Blair-isma hægri krata sem hefur fátt fram yfir klíku-kapítalisma hægri stjórna. Í stað þess að nýta hrunið til að brjóta upp einokun og fákeppni hefur stjórnin eftirlátið útrásarvíkingum að hramsa í sínu gamla góssi. Vinstri stefnu sér hvergi stað en ómaklegu óorði hefur verið komið á félagshyggju.

Þaulsætnir villikettir

Það sem lengst situr eftir í arfleifð stjórnarinnar verða nafngiftir. Þannig kallaði forsætisráðherra stefnufasta VG menn villiketti og Steingrímur J. gaf eigin armi flokksins skúrkanafnið, óviljandi þó! Það er ekki slæmt að vera talinn til villikatta enda fáar skepnur jafn aðdáunarverðar og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið hefur fækkað í villikattadeildinni og nú erum við aðeins örfáir eftir og ekki seinna vænna en að skrifa sig út svo enginn láti sér detta í hug að við kettirnir gefum út heilbrigðisvottorð á þá pissukeppni sem framundan er. 


Rörsýn sérfræðigeirans og það þegar ég var feiminn...

Við sem eigum fötluð börn þekkjum mörg þá baráttu sem hér er lýst. Barn sem þarf á því að halda að vera með sínum líkum í sérskóla er skyldað í bekk með "venjulegum" börnum af því að blöndunin er regla ofar hagsmunum barnsins.

Við Elín stóðum í þessari baráttu með Magnúsi okkar fyrir næstum 15 árum síðan og síðan þá hefur ástandið heldur versnað. Það er samt að verða svolítil glufa í umræðunni. Þá var maður eiginlega feiminn (já, já ég get líka verið feiminn!!) við að viðurkenna að maður berðist fyrir því að barnið væri í sérdeild,- samkvæmt pólitískum rétttrúnaði átti maður að berjast fyrir því að barnið væri alltaf og eingöngu haft með "heilbrigðum" börnum. Það þó að hagsmunir barnsins og vellíðan lægi algerlega með því að fá að vera með sínum jafningjum.

Auðvitað snerist þetta í okkar tilviki og mörgum öðrum jafnhliða um peninga. Við höfum oft séð þess dæmi að ríki og sveitarfélög spara peninga með því blönduninni og því að neita að byggja upp sértæka þjónustu. Og við sem köllum eftir sambýlum fyrir þá sem þau þurfa erum úthrópuð sem afturhald!


mbl.is „Okkar vilji skiptir engu máli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíma-Tóti tók við mig viðtal og kötturinn hvæsti

Í eina tíð unnum við saman, ég og Tíma-Tóti, Þórarinn Þórarinsson ritstjóri Tímans (1914-1996). Ljúfur maður og eftirminnilegur fyrir djúpa framsóknarlega lífspeki.

Í síðustu viku tók svo annar Tíma-Tóti við mig viðtal, sonarsonur þess fyrrnefnda og starfar á Frétta-Tímanum. Giska gott og vel skrifað eins og við er að búast af svo vel gerðum blaðamanni.

Á einum stað skripaðist okkur þó og kannski verið mér að kenna en allt í einu var ég orðinn kattlaus maður sem ekki er - þó svo að vitaskuld eigi kötturinn Ása Signý sig mest sjálf þá er hún hér til heimilis.

En allavega viðtalið er hér og kötturinn er að jafna sig... 


Stórlega ýktar fréttir af sjálfum mér ...

Morgunblaðið gerir mér hátt undir höfði í morgun af litlu tilefni. Blaðamaður hringdi í mig spurði mig út í klofningsframboð það sem Eiríkur Jónsson hefur upplýst þjóðina um á gagnmerkri fréttasíðu sinni. Því varfljótsvarað að ég kannaðist ekki við það sem þar er sagt. En kannski hefði nú hitt verið fréttnæmara ef sjálfur Eiríkur færi rétt með!

klofningur-vg

Á hinn bóginn hafa ESB andstæðingar úr kjósendahópi VG ræðst við allt þetta kjörtímabil og harmað svik sinnar forystu. Þá stendur upp úr öðrum hvorum manni að réttast væri að bjóða fram á móti þessu liði - en þegar til kemur langar engan í þann leðjuslag.

Sjálfur hef ég viljað bíða í lengstu lög eftir því að Eyjólfur hressist og Steingrímur snúi við blaðinu. Langlundargeð okkar Flóamanna getur verið talsvert.

En að því slepptu er víst best að útiloka ekkert.

(Meðfylgjandi er klippimynd Eiríks af meintum skæruliðum en sjálfur er ég miklu hrifnari af myndinni sem Mogginn birti hér á netinu af okkur Ásmundi sem sýnir svo ekki verður um villst hvað ég er miklu myndarlegri en dalakollurinn sá.) 


Fyrsti diskur RetRoBot

retrobot_diskur

Um helgina kom á markaðinn fyrsti diskur RetRoBot, Blackout.

Hljómsveitina skipa fjórir snillingar af Selfossi sem hafa sumir hverjir kvalist upp í kjallaranum hér á Sólbakka.

Ef miðað er við ætterni og uppeldi þá eru drengir þessir óvanalega vel heppnaðir. 

Diskinn má fá í helstu plötuverslunum og vitaskuld í Sunnlenska bókakaffinu. Semsagt til hamingju drengir.

(Mynd: bakhlið á plötuumslagi).  


Kattasamsærið komið á bók


Kattasamsaerid.jpgÍ landi þar sem heilu stjórnmálahreyfingarnar eru kenndar við villiketti er við hæfi að út komi bókin Kattasamsærið. Kattasamsærið eftir leikhúsmanninn, djáknann og Eyrbekkinginn Guðmund S. Brynjólfsson er háalvarleg pólitísk bók um undirróður, svik, ofmetnað og hetjulega baráttu.

En engu að síður fyrst og síðast bráðskemmtileg barnabók um vandamál katta í samfélagi mannanna. Aðalpersóna er Petra Pott sem á í stöðugri baráttu fyrir tilvist sinni og þar koma vinir hennar til aðstoðar. Ofurkötturinn Hamlet hefur ráð undir rifi hverju og honum til aðstoðar eru m.a. hundurinn Lúsíus og þau Elinóra og Hrólfur sem eru allavega ekki kindur.

Bókina prýða skemmtilegar myndir Högna Sigurþórssonar myndlistamanns en það er Sæmundur sem gefur út. Frumsýning á bókinni verður á hátíðardagskrá í Fríkirkjunni í Hafnarfirði klukkan 8 í kvöld en síðan efnum við til bókamessu í Iðu við Lækjargötu klukkan 15 á laugardag.

Kattavinir, bókavinir og allir vinir þeirra eru velkomnir.


Beðið eftir Godot

Lokaorð Bergs Rögnvaldssonar í viðtali við Morgunblaðið vekja athygli.

„Ég hef hugsað um þetta lengi og beðið þess að mínir framámenn gerðu eitthvað í málunum. Ég hef hins vegar gefist upp á þeirri bið," segir Bergur.  

Auðvitað eru allir alvöru vinstri menn að bíða og sú bið okkar er löngu orðin jafn absúrd og biðin eftir Godot. 


mbl.is „Hafa brugðist öllum loforðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatursskrif á Smugunni

Það er vitaskuld ekki bætandi á haustkulið að benda lesendum á að fara inn á Smuguna. Þar skrifa nú þeir Huginn Freyr Þorsteinsson og Elías Jón Guðjónsson grein saman sem vitnar um einkennilegt sálarástand. Mætti svosem litlu skipta ef ekki væri svo að annar er aðstoðarráðherra Steingríms J. og hinn gegnir sömu stöðu hjá  Katrínu Jakobsdóttur og taumhald þeirra orðið slakara en var fyrr á kjörtímabilinu. (http://smugan.is/2012/09/tebodshreyfing-a-islandi)

Aðstoðarráðherrarnir sletta mjög aðfinnslum út og suður sem fæstar eru rökstuddar. Teboðshreyfingin Ameríska kemur hér mjög við sögu án þess að hægt sé að henda reiður á samhenginu. Og vitaskuld fá andstæðingar ESB aðildar Íslands, samtökin Heimssýn, að finna til tevatnsins. Slíkt fólk er að mati Hugans og Elíasar haldið rörsýn í alþjóðasamstarfi þar sem skiptingin "við og þeir" keyrir áróðurinn áfram.

Höfundar gera enga grein fyrir því hvenær þeim tókst að lækna ráðherra sína og hina þægu þingmenn VG af rörsýninni. Til skamms tíma hélt Steingrímur J. því á lofti að hann væri "guðfaðir Heimssýnar" en nú sendir hann hlaupastráka fram til að skíta sömu samtök út. Umskiptin eru vissulega mikil.

Fyrrum áttu bæði Steingrímur J. og Katrín pólitískan frama sinn og stuðning að þakka baráttu gegn ESB aðild sem og þátttöku í starfi Heimssýnar. Katrín var þar síðast heiðurs ræðumaður 1. desember 2008 en kosið var vorið eftir. Ennþá eru margir VG liðar virkir í starfi þeirra samtaka en slíkir fá ekki háa einkun hjá aðstoðarráðherrunum sem enda pistil sinn á því að meintir "teboðsmenn" innan VG séu tæki í höndum auðvaldsins og taki nú þátt í því að koma fyrstu vinstri stjórn lýðveldisins frá völdum. 

Það er auðvitað gremjulegt fyrir sanntrúaða ESB sinna að horfa nú til þess að ESB umsóknin hefur eitrað og eyðilagt stjórnarsamstarf vinstri flokkanna. Það sem kemur stjórninni frá völdum er fylgishrun sem ESB þráhyggjan veldur mestu um.

Að skella þá skuldinni á Heimssýn með illa grunduðum hatursáróðri um þau samtök er vitaskuld langt utan velsæmis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband