Húsafriðun eða annarlegur pirringur

Hávær umræða hefur verið um endurreisn Þorláksbúðar í Skálholti. Áhugi á Skálholtsstað er okkur heimamönnum ánægjuefni en margt í umræðunni nú einkennist af ómálefnalegum pirringi í garð formanns Þorláksbúðarfélagsins og ákveðnu skilningsleysi á sögu Skálholts og umgjörð staðarins.

Eftir niðurlægingaskeið var ráðist í endurreisn Skálholtsstaðar af miklum stórhug á sjötta áratug 20. aldar. Kirkjan sem þá reis í stað hinnar lágreistu timburkirkju er reisuleg bygging og hæfir stærð staðarins í sögu og menningarlífi þjóðarinnar. En það var ekki bara að nýja kirkjan væri stór, verklag allt við endurreisnina var stórkarlalegt og framkvæmdirnar svo sannarlega barn síns tíma.

Gamalt skran og nýr staður

Öllu var þá umbylt á staðnum og fyrir þeim sem var þar kunnugur fyrir 1956 var staðurinn óþekkjanlegur á eftir. Nýtt landslag var mótað með vegum, hæðum og byggingareitum. Um aldir og líklegast allt frá árinu 1056 hafði það fyrirkomulag ríkt í Skálholti að kirkjan stóð þar hæst í landinu en önnur staðarhús mynduðu þorp neðan og sunnan kirkjunnar. Gamla bænum og öllu sem minnti á fyrirkomulag aldanna var rutt úr vegi með stórvirkum vinnuvélum. Nýr staður var byggður upp norðan og að hluta til ofan við kirkjuna. Úr aldagömlum sögulegum kirkjugarð var gerð slétt flöt og fjöldi minja, minningarmarka og mannvirkja sem þar voru kasaðar sem hvert annað skran. Sumt af því þótti ekki nógu gamalt, annað var talið að passaði ekki staðnum og virðingu hans.

Vörubílsfarmar af jarðvegi voru teknir austur undir Þorlákssæti og sturtað niður við kirkjuna. Vegur var lagður yfir gömlu klappirnar þar sem Tungnamenn höfðu í sagnagleði sinni bent ferðalöngum á blóðlit á steini sem tilheyrði aftöku Jóns Arasonar. Hjátrúin, þjóðsögurnar, forn ásýnd staðarins, allt var þetta afmáð. Gamlar heimtraðir sem vegna fornminjagildis fengu að vera óáreittar urðu samt svo útundan í öllu skipulagi að njólinn einn vildi með þær hafa á mínum barnsárum í Skálholtshlöðum.

Sá sem hér ritar hefur í skrásetningu þjóðsagna gengið um Skálholtshlöð með gömlum Tungnamönnum sem mundu þessa tíma og kunnu að lýsa Skálholti eins og staðurinn var fyrir umbreytinguna miklu.

Færum ekki Þorláksbúð

Einu tóftirnar sem einhver sómi var sýndur var tóft hinnar gömlu Þorláksbúðar. Þær fengu að standa og hafa einar af því sem ofanjarðar sést borið þess merki að hér er staður sem á sér langa sögu. Slíkar minjar færa menn ekki!

Undanfarin ár hafa staðarins menn og áhugamenn um Skálholt unnið að endurgerð Þorláksbúðar og þá kemur upp sú umræða að þetta lágreista torfhús muni skyggja á Skálholtskirkju. Dómkirkjan sjálf ber ekki með sér að vera hrokafull eða kaldlynd og það hæfir ekki að þeir sem þannig tala geri sig að talsmönnum hennar.

Kirkja þessi er hluti af sögu og hluti af stað sem verðskuldar að við leggjum rækt við. Formæður Skálholtskirkju undu vel við hlið Þorláksbúðar og voru þó margar miklu mun stærri sjálfar, háreistar timburbyggingar og gerólíkar Þorláksbúð. Það er jafn fráleitt að færa búðina eins og ef einhver léti sér til hugar koma að færa kirkjuna. Sögu Skálholts er sómi sýndur með endurbyggingu Þorláksbúðar og þeir sem ekki sjá kirkjuna fyrir búðinni eru spaugilegir menn.

Framlag húsafriðunarnefndar til Skálholts nú er sérkennilegt þar sem engri byggingu er hætta búin af því sem þar fer fram. Víðsvegar um land væri frekar þörf á skyndifriðun. Framkvæmdir við Þorláksbúð er afturkræf framkvæmd og vilji svo verkast geta komandi kynslóðir sett jarðýtu á Þorláksbúð líkt og gert hefur verið við fjölmargar sögulegar minjar í landinu. En varla verður það gert í nafni húsafriðunar.

Ómálefnalegur pirringur

Miklu ræður um þessa umræðu að inn í hana blandast pirringur gagnvart starfandi stjórnmálamanni sem hefur valist til ákveðinnar forystu fyrir þessu verkefni. Árni Johnsen má fullvel njóta sannmælis fyrir gott framtak í Skálholti og uppbyggingar staðarins á ekki að líða fyrir pólitískan pirring.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Njörður Helgason

Endurreisn húsa fellur undir ákveðin lög. Er um að ræða endurbyggingu eða endurnýjun? All þarf þetta að fara eftir ákveðnum reglum og lögun. Hér má sjá grein eftir Pétur H. Ármannsson: ´http://www.torfusamtokin.is/Greinar/Lesagrein/verndunoguppbyggingerunntadnasatt´

Njörður Helgason, 14.11.2011 kl. 11:19

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill, Bjarni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2011 kl. 15:27

3 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það virðist nú bara ýmislegt til í þessu hjá þér, Bjarni, og kannski ættum við að velja betur það sem við látum pirra okkur.... vonandi lesa þeir þetta sem þess þurfa....

Ómar Bjarki Smárason, 14.11.2011 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband