Kosning um ESB aðild er kosning um endalok lýðræðis

...

Ríki geta verið fullvalda án þess að vera lýðræðisríki og Norður Kórea er sorglegt dæmi um það. En þetta getur ekki snúið öfugt. Ríki geta vitaskuld ekki verið lýðræðisríki ef þau eru ekki fullvalda. Hversu mjög sem Tíbetum langar að búa í lýðræðisríki eiga þeir engan kost á því fyrr en þeir losna undan heimsveldi kommúnistanna í Bejing. Sama á við Kýpur og Grikkland sem eru nú troðin undir járnhæl fjármálafurstanna í Brusselvaldsins. Í hjálendu heimsveldis getur almenningur ekki tekið völdin til sín nema ná þeim fyrst frá heimsveldinu.

Öfugt við orðagjálfur reglugerðarmeistara hins faglega valds þá fjallar lýðræðið um raunverulega hluti, raunverulegt vald, raunveruleg yfirráð. Ef að yfirráð yfir landi, lagasetningu þess, auðlindanýtingu, dómum og innra skipulagi eru flutt í hendurnar á stærra og voldugra kerfi þá geta sömu völd ekki á sama tíma verið í höndum stjórnarinnar heima. Heimsveldi allra tíma hafa reynt að skrökva þessu að almúganum. Þau koma fyrir einhverskonar leppstjórnum í hjálendum sínum og fela þeim málamyndahlutverk en völdin eru raunverulega horfin. Land sem lent hefur undir hrammi stórveldis er ekki fullvalda ríki og þar verður ekki lýðræði fyrr en heimsveldið hefur verið brotið á bak aftur.

Sjá nánar í grein okkar Valdísar, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/1293811 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

eða upphafið að nýja og betra lýðræði fyrir venjulegt fólk

Rafn Guðmundsson, 18.4.2013 kl. 15:41

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Öll sjáum vð heiminn með okkar augum og metum hann hver á sinn hátt. Þannig hef ég mína sýn á söguna og sjálfstæðisbaráttuna og ég ætla að deila henni með þér hérna.

1262 gekk Ísland Noregskonungi á hönd með undirrituna Gamla sáttmála.

1350 varð Noregur og þar með Ísland hluti af Kalmarssambandinu og í framhaldi urðu Noregur og Ísland hluti af Danmörku.

1918 fær Ísland ákveðna heimastjórn en Ísland er áfram hluti Danmerkur og danski kóngurinn er þjóðhöfðingi Íslendinga. Frá 1350 voru alla tíð danskir hermenn á Íslandi og hér var danskur ríkisstjóri sem stjórnaði Íslandi frá Bessastöðum í umboði danska kóngsins.

1942 er Ísland hertekið af Bretum og í framhaldi Bandaríkjamönnum.

1944 segir Ísland sig úr lögum við Dani og gera það þegar allir vissu að að Þjóðverjar voru að yfirgefa Danmörku. Mín tilgáta er sú að þetta hafi verið gert að frumkvæði Breta og Bandaríkjamanna. Þeim leist ekkert á það í þeirri breyttu heimsmynd sem blasti eftir stríð að Danir yrðu stærsta veldið við norðanvert Atlandshafið með Færeyjar, Ísland og Grænland sem hluta af Danmörku. Mín tilgáta er sú að þeir hafi hvatt Íslendinga til að segja sig úr lögum við Dani og hafa væntanlega haft frumkvæðið í þessu máli sem ekki mátti bíða með og varð að gerast meðan Danmörk var enn hersetin.

2006 yfirgefur bandaríski herinn Ísland. Þá í fyrsta sinn frá 1262 er enginn erlendur hermaður undir vopnum á Íslandi og stjórnar því sem hann vill stjórna.

2007 þá má segja að Ísland sé frjáls fullvalda þjóð sem ráði sínum málum sjálf.

2008 missir Ísland efnahagslegt sjálfstæði sitt og lendir í höndum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Um ókomin ár mun sjóðurinn stjórna því sem hann vill stjórna eða þar til við höfum greitt til baka þau lán sem hann hefur lánað hingað.

Eins og ég sé Íslandssöguna þá höfum við Íslendingar verið hluti af erlendum ríkjum eða hersetin frá 1262 að einu ári undanskildu, 2007. Ég hef því aldrei skilið þessa umræðu um fullveldi Íslands og sjálfstæði og ég skil ekki hvaða fullveli og hvaða sjálfstæði við erum að fórna þó svo við göngum inn í ríkasta og flottasta klúbb í heim, ESB, og gerumst þar þjóð meðal þjóða.  Í mínum huga þá væri sjálfstæðisbaráttunni endanlega lokið gerðum við það og sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar endanlega tryggt.

Svona lítur minn heimur út, Bjarni.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.4.2013 kl. 20:13

3 Smámynd: Elle_

Heimastjórn 1904.

Elle_, 19.4.2013 kl. 00:41

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Friðrik Hansen vill semsagt meina að þar sem við höfum verið undirokuð hjálenda nylenduþjóða mest af sögu okkar þá sé það eðlilegt að við verðum það áfram.

Rökstuðningurinn er svo heimskulegur að manni verkjar við lesturinn. Ekki að undra fallandi gengi Lýðræðishreyfingarinnar með svona froðusnakka á borð við hann og brandarann Þorvald Gylfason.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.4.2013 kl. 01:28

5 Smámynd: Sigurður Gunnarsson

Ég held að við ættum að setja markið hærra. Sókn er besta vörnin. Sagt er að við getum ekki haft áhrif á ESB, þaðan sem við fáum stærsta part löggjöf okkar.

Þar sem við hrundum fyrst, gætum við einnig verið fyrstir til að bregðast við hruninu, sem var að stórum hluta vegna reglna frá ESB. Auðvitað er það einnig vegna óheiðarleika, en mannskepnan er ekki fullkomin og ef það er of auðvelt að stela, þá er erfitt fyrir marga að láta það ógert. Núverandi reglur um endurskoðun fyrirtækja er hálfgerður brandari, ef fyrirtækjum líkar ekki endurskoðunin, þá er endurskoðandi bara rekinn!

Þannig þarf að stórbæta löggjöf um viðskipti þannig að hægt sé að stunda þau. Núverandi kerfi leiðir til nýs hruns og vegna skorts á trausti dregur úr einkaframtaki og framleiðni. Það er einkar slæmt nú vegna þess að áður sátu vestræn ríki ein að gæðum jarðarinnar, en nú vilja ríki þriðja heimsins sinn skerf. Það er nóg eftir fyrir okkur, en samt þurfum við að lifa í samdrætti, sem er ekki þægilegt líf og ekki lengur hægt að bæta upp verðbólgu með hagvexti. ESB gæti síðar innleitt svipaða löggjöf, og þar með óbeinum hætti gengið inn í stórveldið Ísland ;o). Reyndar má geta þess að Svisslendingar hafa þegar byrjað að skerpa sína löggjöf, t.d. takmark ofurlaun sem forstjórar og stjórnarmenn skammta sér í eins konar sjálftöku. Það er etv ekki tilviljun að Sviss byrjar á þessu, mikið bankaveldi og þar er beint lýðræði, í anda Pírata.

Sigurður Gunnarsson, 19.4.2013 kl. 07:28

6 Smámynd: Elle_

Sorglegt að lesa að fullvalda ríki hafi bara aldrei verið fullvalda og ekki enn komið inni í 'flottasta og ríkasta klúbb í heimi'.  Það eru nú meiri flottheitin sem við misstum af þegar við stoppuðum að ICESAVE væri kúgað yfir okkur eins og ætlunin var.  Það er standardinn þarna gegn minni ríkjum, nóg að nefna Grikkland, Írland, Kýpur.

Við vorum ekki hersetin af bandaríska hernum þegar hann fór.  Við gerðum landvarnasamning við Bandaríkin og hann er enn í fullu gildi.

Elle_, 19.4.2013 kl. 07:44

7 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ísland varð sjálfstætt konungsríki 1918, með fullveldisréttinn í höndum konungs. Við stofnun lýðveldis á Íslandi 1944, færðist fullveldisrétturinn frá konungi til almennings á Íslandi. Þess vegna er 17. júní fullveldisdagur þjóðarinnar en ekki 1. desember 1918.   

Vilja Íslendingar fremur höfðingjaveldi og þingræði, en lýðveldi og lýðræði?

 

 

Sú sorglega staðreynd blasir við, að allt frá stofnun lýðveldis hafa Íslendingar búið við höfðingjaræði, þótt stjórnarskráin geri ráð fyrir lýðræði.

Loftur Altice Þorsteinsson.

 

Samstaða þjóðar, 19.4.2013 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband