Helgi Ívarsson im memoriam

 

helgiholum_l.jpg

 

Helgi Ívarsson vinur minn og starfsmaður Sunnlenska fréttablaðsins um árabil er genginn til feðra sinna. Ekkert í þeirri atburðarás þarf að koma á óvart og síst held ég að Helga hafi verið mjög brugðið þegar sýnt var að hverju stefndi síðustu dagana í hans jarðvist. Hafi raunar vitað þetta allt Helgi var einn þeirra manna sem vissi lengra nefi sínu og mér er ekki grunlaust að hann hafi einmitt verið búinn reikna út að nú á þessu ári væri komið að hans endadægri. Veit þó vel að hann hefði sjálfur kosið að fá að eiga einn kjördag enn í lífinu og þá til að kjósa í sinni óbilandi trú sinn mæta gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Kannski réttlætismál að gamli flokkurinn hans fái eitt aukaatkvæði svo litlu sem munar að Helgi lifi kjördaginn.

 

En þó svo að við Helgi værum ekki sammála um það hvernig verja ætti kjörseðlum þá grunar mig að það hafi raunar verið okkar eini pólitíski ágreiningur. Oftlega ræddum við stjórnmál af nokkru kappi og þá reyndust skilin milli okkar skoðana lítil og sýn okkar á hvað væru brýnust úrlausnarefni sú sama. Menn sem eru þannig sammála um aðgerðir í stjórnmálum alla daga nema þann eina þegar gengið er að kjörborði mega þannig telja sig skoðanabræður og það hygg ég að hafi verið gagnkvæmt með okkur Helga þó hvorugur hefði þar orð á. En víst var það svo að honum þótti ég nokkuð hvatvís og skjótráður með köflum og mér að sama skapi þessi forvitri öldungur hægfara í sínum gerðum.

Fyrir nokkrum mánuðum sátum við Helgi á tali. Ég með kaffibolla en hann kókglas, en sá drykkur var honum miklu mun kærari en kaffið. Barst þá talið að áfalli sem þessi gamli maður varð fyrir nokkrum árum þegar hann vegna heilablóðfalls lenti á sjúkrahúsi en náði undraverðum bata. Helgi rifjaði upp fyrir mér gengna vini sína sem lent höfðu í sama og fengið fyrir töframátt læknavísinda heilsu að nýju. Það hefði dugað þeim til að lengja ævina um nokkur ár og allt að áratug. Ég tali hans lá þakklæti og hamingja yfir að hafa sjálfum hlotnast það sama og sáttin við að þetta væri vitaskuld aðeins stutt viðbót. Við veikindi Helga nú rifjaðist þetta samtal upp og mér fannst eins og hann hefði þá verið segja mér að þetta færi að styttast. Tvö önnur atvik frá allra síðustu vikum benda til hinnar sömu forvísi.

Eins og stundum áður barst okkur fjölskyldunni jólakort frá þessum aldna heiðursmanni um síðustu jól. Nú var þó meira við haft en áður því Helgi hafði látið sérprenta kort með þremur myndum sem sýndu Hólabóndanná þremur æviskeiðum. Bak hátíða hafði kona mín orð á þessu við Helga og að henni hefði þótt vænt um kortið. Helgi rétti úr sér á hækjunum eins og hann oftlega gerði nú síðustu ár og spurði kankvíslega hvort frúin hefði þekkt manninn. Bætti svo við að hann hefði orðið þess áskynja að það væri nú siður að senda myndir af öllum fjölskyldumeðlimum í jólakortum en þar sem fátt væri í heimili hefðu myndirnar af honum orðið að vera þrjár.helgiholum_heimahjaser.jpg

Þriðja atvikið sem fellur að þeirri mynd að Helgi hafi nú um mánaðaskeið með sínum kyrrláta hætti undirbúið kveðjur sínar er greinarstúfur í Sunnlenska fréttablaðinu nú í janúarmánuði. Grein þessi var unnin úr fyrirlestri sem hann hafði sjálfur flutt fyrir eldri borgurum hér á Selfossi nokkrum dögum fyrr. Þar fer hann yfir farinn veg eins og sá einn gerir sem veit sig á leiðarenda. 

Ég segi hér að ofan að Helgi hafi verið starfsmaður Sunnlenska fréttablaðsins og þykir máske stórt til orða tekið. En eftir að Hólabóndi seldi jörð og flutti á Selfoss hóf hann að skrifa sagnfræðipistla í blaðið. Til þess verks lágu áskoranir margra en að lokum var þó frumkvæði Helga sem tók starf þetta að sér af mikilli alúð og vann það af þeirri kostgæfni að einstakt má telja. Við sem með honum unnum að því að koma greinum þessum á prent smituðumst oftar en ekki af starfsgleði hans og áhugasviði. Blaðið missir nú mikils við og sama gerir fræðasamfélag okkar Árnesinga.

(Meðfylgjandi myndir tók ég í heimsókn til Helga í Hólum fyrir um áratug síðan.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Já, það var oft gaman að lesa pistlana hans.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 21.2.2009 kl. 18:33

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

takk nafni.

Hvað er stutt viðbót og hvenær er dagur langur?

Íbúar Gimli vita, að afar stutt er öld en þar er ætíð nokkuð að þenkja og sýsla.

Með virðingu fyrir gengnum öðlingum.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 21.2.2009 kl. 23:06

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta eru falleg eftirmæli sem segja heilmikið um ykkur báða.

Takk. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.2.2009 kl. 00:55

4 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Viska, háttvísi, fróðleiksfýsn og yfirvegun voru inngrónir eiginleika Helga. 

Þú minnist á áfallið sem Helgi varð fyrir þá enn búandi í Hólum.  Mikið happ fyrir Helga sjálfan og ekki síður héraðið allt að hann skyldi ná þó þeirri heilsu sem hann naut síðustu árin.    Afköst hans á ritvellinum og fróðleikurinn sem hann viðaði að sér er með ólíkindum og hefði menntaður sagnfræðingur ekki gert betur, með fullri virðingu fyrir þeim.

Þú veðjaðir á réttan viskubrunn þar sem ritstjóri Sunnlenska.  Við nágrannar hans vissum reyndar alveg hvers hann var megnugur í þessum geira.  Greinaflokkur hans í blaðinu er þegar orðinn stór merk heimild, en aldeilis ekki það eina gegnum tíðina. 

P.Valdimar Guðjónsson, 22.2.2009 kl. 12:03

5 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég þekkti ekki til þessa heiðursmanns, en er talsvert miklu nær eftir þessa fínu lesningu; hafðu kærar þakkir fyrir pistilinn.

Bestu kveðjur,

Jón Agnar.

Jón Agnar Ólason, 22.2.2009 kl. 14:27

6 identicon

Það var magnað að hlusta á Helga flytja ræður.   Heyrði fyrst til hans, ungur maður á einhverjum íhaldsfundi.  Vissi ekki við hverju var að búast þegar þessi gamli og bogni maður stóð upp og hugðist taka til máls.  Ég varð fljótt undrandi þegar hanni flutti ræðu sína blaðalaust, en hvert einasta orð á réttum stað og aldrei tafs, leiðréttingar eða endurtekningar.  Ég man ekki eftir að hafa heyrt betri skrifaða ræðu, hvað þá óskrifaða.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband