Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Á ég nokkuð að kjósa mig...

Prófkjörsbaráttan er orðin löng og suma dagana finn ég þreytuna taka mig. Þá efast ég um að það sé nokkuð vit í þessu hjá mér. Að ég eigi eitthvað til að standa undir þeim væntingum sem kjósendur gera, raunhæfum og óraunhæfum. En þetta er foraðið sem ég lagði í og úr þessu get ég bara ekkert í þessu gert. Ekki nema þá bara að sleppa því að kjósa mig sjálfur, því vissulega vigtar hvert atkvæði og kannski verður þetta allt á eins atkvæðis mun. Hver veit?
En grínlaust þá dettur mér stundum í hug að þetta eigi eftir að verða strembið hvernig sem fer. 
Góð vinkona mín kom í heimsókn á kosningaskrifstofuna í dag og spurði mig í einlægni hvort ég væri tilbúinn til að tapa ef svo færi. Ég sagðist vera það, eða vona það. Man varla hverju ég svaraði en hef auðvitað oft hugsað þetta. Og hugsað hvernig ég bregðist í raun og veru við. Það er eiginlega svipað og hugsa hvort maður verði lífhræddur,- sem maður veit svosem ekkert um nema til þess komi. Það er ótrúlega margt sem mig langar til að gera við minn tíma og ég held þessvegna að ég komist yfir það að tapa þessari baráttu. Og þá er það bara hitt. Hvernig fer ef ég vinn? Ég held að það verði nefnilega líka strembið. Erfitt uppbyggingastarf í flokki sem hefur dalað. Erfiðar málamiðlanir gagnvart hlutum sem maður er ekkert endilega 100% sammála. Og svo það erfiðasta af öllu. Að standa undir væntingum.
Og þegar ég hugsa það held ég að það fyrsta í því sé að ég kjósi mig bara sjálfur og stefni ótrauður áfram. Allt annað væri að bregðast stuðningsmönnum. Veit líka að útsofinn og hvíldur er ég fullur af bjartsýni og vilja til að halda áfram.

Að vera þingmaður Suðursveitar!

Um lönd og lýði heitir ein af hinum óborganlegu bókum Þórbergs Þórðarsonar frá Hala í Suðursveit. Bók þess gæti af nafninu fjallað um fjarlægar þjóðir en er í raun um Suðursveitina og fólkið þar. Svo mikils mat Þórbergur alla tíð sína æskusveit og var henni ævilangt skuldbundinn.

Það er mikill ábyrgðarhlutur að bjóða sig fram til þingmennsku í slíkri sveit. Ekki síst nú þegar sveit þessi þarf meira en nokkru sinni á að halda öflugum talsmanni. Og ekki bara Suðursveitin heldur allar þær jaðarbyggðir landsins sem nú berjast í bökkum. Í sögu þessara byggða, menningu og nútíma búa perlur sem íslensk þjóð má ekki glutra frá sér með eyðibyggðastefnu hægri frjálshyggju eða þá vinstri fjallagrasapólitík. Verst þessum byggðum er þó hin kalda og heimska reiknistokkspólitík íslenskra hægri krata Samfylkingarinnar.

Í velgengni undanfarinna ára hefur það lítt verið í móð að tala um landsbyggðina og sértæk úrræði henni til handa. Jafnvel í Framsóknarflokki hafa menn kinokað sér við að tala máli hinna dreifðu byggða af einurð og festu. Þar er breytinga þörf.

En það er vissulega djörf vogun fyrir sveitapilt ofan úr Biskupstungum að bjóða sig fram sem talsmann fyrir byggðir Suðurkjördæmis, allt frá Hvalnesskriðum í austri að Hvalnesi á Romshvalanesi í vestri. Suðursveitin og auðmýkt skáldsins frá Hala gagnvart henni verður mér leiðsögn í því hverja virðingu allt þetta hérað á skilið. Með þeim orðum vil ég biðja Skaftfellinga að veita mér brautargengi í annað sæti í prófkjöri Framsóknar á laugardag.


Höfundur er bóksali á Selfossi og sækist eftir öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi


Ál í hvert mál á Rosmhvalanesi

Álver í Helguvík er einn þeirra möguleika sem nú er rætt um til atvinnuuppbyggingar á Suðvesturhorninu. Það er líka talað um álver í Ölfusi og stækkun í Straumsvík.

Sá sem hér ritar hefur lengi verið talsmaður þess að koma upp orkufrekum iðnaði á Íslandi. Til þess á landið mikið af hagkvæmum og umhverfisvænum orkugjöfum. Um langt skeið gekk þetta frekar treglega. Hver man ekki Keilisnes í því sambandi.

Síðustu ár hefur það dæmi mjög snúist við og eftirsókn eftir stóriðjuuppbyggingu á Íslandi er nú mikil og vafamál að skynsamlegt sé að hlaupa eftir henni allri. Álver á dýru landi á suðvesturhorni landsins orkar mjög tvímælis. Á öllu þessu svæði er ofhitnun í hagkerfinu og ekkert sem bendir sérstaklega til að það breytist á næstu misserum eða árum. Hið fyrirhugaða álver í Helguvík mun bitna á náttúru svæðsins og lífsgæðum þeirra sem næst svæðinu búa. Slík fórn er því aðeins réttlætanleg að alvarlegur skortur sé á atvinnu en svo er ekki.

Rannsóknir benda til að á næstu árum geti djúpborun á jarðhita opnað okkur leið til að virkja meira með minni tilkostnaði fyrir umhverfi. Þar með mætti hlífa náttúruperlum eins og Brennisteinsfjöllum, Urriðafossi og Ölkelduhálsi svo dæmi séu tekin. Þegar saman fer að tæknin virðist þannig rétt á næsta og aðstæður í efnahagslífinu kalla frekar eftir því að við hægjum sýnist mér allt styðja það að stóriðjuáformum á fyrrgreindum stöðum á suðvesturhorninu verði slegið á frest.

Suðurnesjamenn hafa reynslu af því að treysta í of miklum mæli á einn stóran atvinnurekanda. Í farsælli atvinnuuppbyggingu er fjölbreytni lykilatriði. Á Suðurnesjum eru möguleikarnir fleiri og magnaðri nú eftir að herseta bandaríkjamanna er úr sögunni. Einn þeirra kosta sem undirritaður hefur fyrr talað fyrir er að koma þar upp alþjóðlegri skiptistöð fyrir flug milli Asíu og Ameríku. Samhliða mætti gera gömlu herstöðina að fríverslunarborg. Umfang slíkrar starfssemi getur orðið gríðarlegt án þess að byggja á einum eða fáum viðskiptaaðilum.

Til þess að möguleiki sé á uppbyggingu sem þessari er mikilvægt að við stjórnvöld á Íslandi verði þeir menn sem sjá víðar um veröldina en í eitt herbergi í Evrópu. Og hafi jafnframt það víðsýni til að bera í atvinnumálum að geta horft á fleiri kosti en stóriðjur og orkusölu, svo ágætir sem þeir kostir þó geta verið þar sem þeir eiga við.


Barist sem aldrei fyrr

Baráttan um efstu sætin fer nú harðnandi. Fundir, hringingar og bæklingar. Allt á floti. Við á kosningaskrifstofu Bjarna viljum minna á að utankjörfundaratkvæðagreiðslu lýkur nú klukkan 20 í kvöld. Hægt er að kjósa í Framsóknarhúsunum á Selfossi og í Reykjanesbæ og í Kaupfélagsstjórahúsinu á Höfn. Engin utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður á morgun en kjörstaðir opna svo á laugardag, ýmist um 10 eða 12. Mætum öll.

Frábær fundur í Eyjum

Tíundi og síðasti sameiginlegi fundur okkar frambjóðenda í prófkjörinu var
í Eyjum nú á þriðjudagskvöldi. Skemmtilegir fundir en undir endurteknum
ræðum ágætra keppinauta gefst tími til að hugsa og skrifa. Eftirfarandi
skrifaði ég á þessum fundi í kvöld...

Sjálfumglaðir eins og Neró

Við fundum í Akóges salnum í Eyjum og meira að segja hér finna menn fyrir
fólksfækkuninni. Sal þennan á klúbbur sem er með föstum félagafjölda. Einn
kemur inn þá annar fer og aldrei verið vandamál að fylla í skörðin,- ekki
fyrr en núna í fækkuninni, segir viðmælandi minn í fundarbyrjun.
Ástandið hér í Eyjum er löngu orðið svo grafalvarlegt að hálfpartinn
finnst mér eins og við séum hér í hlutverki Nerós. Byggðin hér hangir á
bláþræði og við efnum til framboðsfundar til þess eins að mæra okkur
sjálf. Neró sat á þaki og lék á fiðlu meðan borg hans brann.
Nú kann ég ekki ráðin til að rífa upp byggð í Eyjum eða annarsstaðar í
jaðarbyggðum landsins. En fyrsta skrefið í þá átt er pólitískur vilji.
Framsóknarmenn hafa verið hálfvegis ragir við að halda fram hagsmunum
landsbyggðarinnar. Sumir þeirra vilja jafnvel trúa því að sveigja verði
frá gömlu framsóknargildunum til þess eins að laða til fylgi á
höfuðborgarsvæðinu. Sem ekki tekst með þeim aðferðum.

Skattakerfi til byggðajöfnunar

Fylgi á höfuðborgarsvæðinu nær Framsókn ef flokkurinn kannast við sínar
gömlu hugsjónir og þorir að berjast fyrir hagsmunum hinna dreifðu byggða.
Bæði í Breiðholti og Vesturbæ búa fjölmargir einarðir talsmenn
landsbyggðarinnar.
Slagkraftur íslenskra stjórnvalda í byggðamálum hefur lengi verið lítill.
Málið er ekki í tísku. Því er jafnvel haldið fram að í sértækum
byggðaaðgerðum felist mismunun þegnanna. Ekkert er fjær sanni. Enginn
efast um að skattakerfið eigi að vera til lífskjarajöfnunar þegnanna. En
það á líka að vera til lífskjarajöfnunar byggðanna. Hagvöxtur er
gríðarlegur í byggðum næst Reykjavík en samdráttur víða í jaðarbyggðum.
Jöfnunartækifærin eru fjölmörg með skattaafsláttum á landsbyggðinni,
niðurgreiðslum til dæmis á flutningi og beinum fjárframlögum þar sem það á
við.
Þvert á þetta hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að
verkefnatilflutningi frá landsbyggð til höfuðborgarinnar. Og frá minni
byggðarlögum til hinna stærri. Til baráttu gegn þessu þarf
Framsóknarflokkurinn að sýna kjark sinn, vilja og hugsjónir. Enginn annar
flokkur er til þess líklegur.
Náttúruhamfarir náðu ekki að eyða byggð í Heimaey. Við megum þó ekki trúa
því að andvaraleysi í pólitík geti ekki aleytt henni. Við börn 21.
aldarinnar fengum Ísland að léni frá áum okkar albyggt utan miðhálendis og
Jökulfjarða. Vissulega geta og mega áfram verða lítilsháttar tilfærslur í
byggðalínunni en ef við ætlum að skila Íslandi til komandi kynslóða sem
borgríki við Faxaflóa hefur okkur illa farist.

Bjarni Harðarson

Ævintýraferð á Mýrdalssandi

Frambjóðendur Framsóknar

Frambjóðendur í prófkjörinu stóðu í ströngu um helgina þegar haldnir voru fjórir fundir í hinum víðlenda austurkanti kjördæmisins. Farið var í rútukálfi frá Tyrfingum. Þar hristist hópurinn virkilega vel saman og var orðinn eins og menntaskólabekkur í skólaferðalagi þegar leið á helgina.

Aðfaranótt laugardagsins var sú skrautlegasta þegar lagt var upp frá Klaustri eftir einn besta fundinn. Þar í mesta strjálbýli héraðsins mættu yfir 50 manns á líflegan og skemmtilegan fund. Um miðnætti var svo lagt í bæjaflakk um Landbrotið í vitlausu veðri, illri færð og undir dunandi gítarspili Ólafs frambjóðanda frá Norðurhjáleigu. Ferðinni var heitið að Efri Vík þar sem heiðurshjónin Salóme og Hörður buðu okkur skoðun á hóteli sem tók flestu eða öllu því fram sem ég hef séð í ferðaþjónustu í sveit. Eftir stutt stopp þar var haldið yfir Mýrdalssandinn og varð ferðin öll hin sögulegasta. Hinn æðrulausi og ágæti Gissur frá Brunnhól ók rútunni. Færð þyngdist jafnt og þétt og var helst talið að vondir íhaldsdrengir hefðu gert gjörningahríð að hinum vaska framsóknarhópi. Rétt við Laufskálavörður sat rútan föst en var bjargað upp af vöskum framsóknarsveinum úr sveitinni...

Í kvöld, þriðjudag, er síðan sameiginlegur framboðsfundur í Akóges salnum í Vestmannaeyjum kl. 20:00.  Allir velkomnir.


Amerískur dollari og kínversk skiptistöð

Amerískur dollari og kínversk skiptistöð geta orðið Suðurnesjum og Íslandi öllu lyftistöng í efnahagslífinu á allra næstu árum. Til þess að svo verði þarf landið á alþjóðlegri víðsýni í stjórnmálum í stað evrópskrar þröngsýni. Fyrst nokkur orð um skiptistöðina en raunar eru mál þessi þó samfléttuð.

 

Keflavíkurflugvöllur hefur vaxið gríðarlega á allra síðustu árum sem skiptistöð fyrir flug milli Ameríku og Evrópu. Með sömu þróun í samgöngum er enginn vafi á að sú starfssemi á enn eftir að vaxa. Um nokkurt skeið hafa íslenskir athafnamenn unnið að hugmyndum um sambærilega uppbyggingu skiptistöðvar á Íslandi fyrir flug milli Asíu og Ameríku. Ef af verður getur það haft í för með sér margföldun á þeirri uppbyggingu sem þegar er hafin. Mikilvægt er að stjórnvöld taki þróun sem þessari opnum örmum.

Mikil umræða er nú um veika stöðu íslensku krónunnar en fullsnemmt er þó fyrir Íslendinga að gefa út dánarvottorð hennar starx. En það er margt sem bendir til að gjaldmiðlum í heiminum muni fækka verulega á næstu árum og áratugum. Það fylgja því vissulega miklir kostir að eiga eigin gjaldmiðil til hagstjórnar en í þessum efnum verðum við vissulega að fylgja alþjóðlegri þróun. Ef við hverfum frá útgáfu krónunnar skiptir miklu að vanda val okkar við upptöku á nýjum gjaldmiðli.

Svokallaðir Evrópusinnar leggjast nú hart á þá sveif að okkur beri að taka upp evru og vilja um leið nota það sem fyrsta skref þess að ganga inn í Evrópusambandið. Ég held að evruupptaka væri afar misráðin. Bæði er uppdráttarsýki ríkjandi á myntsvæði evrunnar og Evrópusambandið er eina aflið sem sælist markvisst eftir því að mylja undir sig íslenskt sjálfstæði, m.a. í sókn eftir íslenskum fiskimiðum. Íslendingum hefur vegnað vel sem sjálfstæðri þjóð, bæði í efnahagslegum og menningarlegum efnum. Það sama verður ekki sagt um þjóðir þær sem gengið hafa evrópusamrunanum á hönd. Allir sem fylgjast með vita að Evrópusambandssvæðið er eitt lakasta vaxtarsvæði heims um þessar mundir og engin teikn á lofti um breytingar í þeim efnum.

Lengi stóð íslensku sjálfstæði nokkur ógn af Bandarískum ítökum en þeir tímar eru nú að baki. Það eru því töluverðar líkur á að sjálfræði íslensku þjóðarinnar stæði vel af sér gagnkvæma samninga milli Íslands og Bandaríkjanna um dollarann. Best væri ef hægt yrði að taka þessi skref í nokkrum áföngum. Um leið væri Ísland orðið að evrópsku hliði amerískra fjárfesta inn í Evrópu og jafnvel EES svæðið ef það lifir þá.

Við hlið hins ört vaxandi alþjóðaflugvallar á Miðnesheiðinni eiga Íslendingar nú heilt þorp sem hefð er fyrir að sé Amerískt frísvæði í íslensku viðskiptalífi. Upptaka dollarans hér á landi í áföngum gæti orðið til að þetta frísvæði sem áður hýsti fremur óskemmtilegan varning amerískra dáta yrði að gróandi miðstöð viðskipta og tækifæra milli hinnar gömlu Evrópu og Ameríku. Alþjóðleg skiptistöð Asíuland á sama svæði gæti svo lyft þessu sama svæði svo um munar.

Höfundur býður sig fram til setu í annað sæti á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi


Alltaf hallærislegir!

Var svolítið skeptískur á það í upphafi hversu gaman það yrði að vera
frambjóðandi í bláókunnugu umhverfi hér á Suðurnesjum en það hefur breyst
núna á einum degi. Sit hér núna á Hótel Keflavík og hamra á tölvuna eftir
að hafa gert víðreist hér um vinnustaði í morgun.
Þurfti mest á kjarki að halda þegar ég réðist í að ávarpa 500 nemendur í
hádegishléi í Fjölbrautaskóla en þar var mér afar vel tekið. Talaði aðeins
um það að á menntaskólaaldri hefði mér sjálfum þótt framsóknarmenn allra
manna hallærislegastir. Og þætti það enn. Hefði aftur á móti komist að því
með aldri að þeir hallærislegustu eru líka oft þeir skynsömustu og með
sama hætti væri Framsóknarflokkurinn rödd skynseminnar. Þetta féll bara
giska vel í kramið.
Kveðjur úr Reykjanesbæ

Viðhalda verður byggð í Eyjum



Ég var að tala um hugsjónir. Eitthvað sem er löngu úrelt að tala um í samfélagi efnishyggju og hagvaxtar. Tilfellið er að hin blinda trú á hagvöxtin virðist stundum sjálfri sér nóg. Menningarlegt fóður er þá sótt í frjóar og fyndnar auglýsingar. Pólitískar lausnir eru þær sem hagfræðingar og reiknimeistarar á hverjum tíma telja réttar og ágóðabestar.

Þið verðið að fyrirgefa en mér væmir við þessari veröld. Og það kemur mér ánægjulega á óvart hversu vel mér tekst að fá fólk til að hlusta þegar ég tala fyrir hugsjónum Framsóknarflokksins sem andstæðu þessarar vitfirringar. Stundum verður manni á að halda að hinn truntulegi nútími hafi gleypt alla með húð og hári. Skyni borið fólk veit að bakvið blint trúarofstæki leynist feigð hvers samfélags og skiptir þá engu hvort guðinn er himneskur eða jarðnesk peningatrú.

En talandi um hugsjónir þá fékk ég mjög athyglisverða spurningu á fundi um daginn – reyndar fengið þær margar enda fátt gert nema vera á fundum – það var í umræðu um hugsjónir að spurt var hvað væri við þessar hugsjónir að gera í samfélagi allsnægta og velmegunar. Eru hér einhver þau verkefni sem skipta máli! Tökum dæmi:

Milli Markarfljóts í Rangárþingi og Hornafjarðarfljóts á Mýrum eru um 300 kílómetra leið og þar búa innan við 1500 manns. Öll sú byggð hangir í raun og veru á bláþræði. Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fækkað um fimmtung á örfáum árum og eru nú að skríða niður fyrir 4000 íbúa markið. Þessi fækkun Eyjamanna er viðvarandi vandamál líkt og á svæðinu milli Markarfljóts og Hornafjarðarfljóts.

Lík þessu er staðan víða um land. Engu má muna að almenn þjónusta eins og verslun, heilsugæsla, skólahald, sjúkraflutningar, eldvarnir o.fl. o.fl. hrynji endanlega og við taki stórfelldir búferlaflutningar líkir þeim sem urðu þegar Jökulfirðir lögðust af. Vöxtur í ferðaþjónustu á svæðinu dugar engan vegin til að hamla á móti þessari þróun.

Stjórnvöld í landinu hafa lagt sitt á vogarskálar þessarar þróunar með því flytja stofnanir og störf frá þessum stöðum í nafni hagræðingar. Nú síðast sjálfstæði lögregluembætta en þar áður heilsugæslustöðvar, fjarskiptastörf, prestsembætti, vegagerðarskrifstofur og fleira og fleira. Ríkisvald sem þenur sig út á Faxaflóasvæðinu með hraða Parkisonslögmálið hefur vitaskuld ekkert leyfi til að beita köldum hagræðingarrökum til að draga embætti og umsvif frá hnignandi byggðum.

Tapist þessi svæði þannig að Vestmannaeyjar verði aðeins sumarland nokkurra farfugla og eyða verða í byggðinni frá Höfn að Hvolsvelli er mikið farið og nágrannabyggðir veikjast um leið. Þegar svæði er einu sinni farið í eyði eru möguleikarnir á að það byggist aftur sáralitlir. Þar með daprast möguleikar okkar hinna til að njóta þessa landssvæðis sem sumarhúsaeigendur eða ferðamenn. Möguleikar samfélagsins að njóta þeirra efnahagslegu ávinninga sem þessi stóri hluti landsins býr yfir skerðast líka til muna. Þá er ótalin sú eignaupptaka sem Vestmannaeyingar og Skaftfellingar búa við vegna þess að eiginfjárstaða þeirra margra er þegar að engu gerð. Möguleikar alþýðufólks í hnignandi byggðalögum eru allt aðrir en möguleikar hinna sem búa á þenslusvæðum.

Það kostar vissulega að viðhalda byggðalínunni þar sem hún stendur sem hallast. En til lengri tíma litið er það kostnaður sem við munum fá margfaldlega til baka. Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni að við getum auðveldlega falið reiknimeisturum okkar að reikna út að þjóðin sé betur komin á einum stað, stórri borg við Sundin. En blindir reiknimeistarar skila ekki hagvexti heldur fátækt. Veraldlegt ríkidæmi okkar Íslendinga er vegna þess andlega ríkidæmis sem það gefur þessari þjóð að viðhalda byggð hringinn í kringum landið. Það er ríkidæmi þess sem getur verið stoltur af þessu stóra og fallega landi.

Það verður lítið úr því stolti ef við eigum þar fátt annað en eyðibyggðir og eignarlausar eftirlegukindur á landsbyggðinni. Hugsjónafólk Framsóknarflokksins á hér stór verkefni framundan.

Höfundur er bóksali á Selfossi og sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi 20. janúar næstkomandi


Að vera eða vera ekki virkjanasinni!

Hvort er ég virkjanasinni eða virkjanaandstæðingur? Það hefði undanfarna daga sparað mér mikinn tíma að geta svarað þessari spurningu með einu orði en þar vefst mér tunga um tönn. Þetta eina orð verður þá að vera: hvorugt!

Tilefni þessarar orðræðu er einkanlega fundur sem ég hélt um nýliðna helgi við Urriðafoss í Þjórsá. Sá fundur var haldinn til að vekja almenning til umhugsunar og áhugi fundarmanna á einhliða slagorðum var enda lítill.

Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og mjög fögur náttúrusmíð. Sá tvískinnungur hefur einkennt náttúruverndarumræðu undanfarinna ára að athyglinni hefur aðeins mátt beina að svæðum sem fáir hafa séð. Þar eru Kárahnjúkar í fyrsta sæti og Þjórsárver í því næsta. Þegar kemur að stórfelldum náttúruspjöllum á Hellisheiði eða spjöllum á Þjórsárdal og Urriðafossi er umræðan nær engin. Umhverfismat þessara virkjana hefur runnið í gegn í skjóli af endalausri umræðu um Dimmugljúfur og Reyðarfjörð.

Vatnsaflsvirkjanir til raforkuframleiðslu er ein umhverfisvænsta leið sem mannkynið hefur til orkuframleiðslu. Umhverfisstefna þess sem aðeins vill verja eigið heimatún burtséð frá því hvað það kostar jarðarbúa í heild er ekki aðeins eigingjörn heldur fullkomin andstæða þess að vilja leggja umhverfisvernd í heiminum lið. Í ljósi þess er erfitt að sjá hina öfgafyllstu í hópi Kárahnjúkaandstæðinga sem annað en ábyrgðarlausa.

En vitaskuld taka virkjanirnar toll af ósnortinni náttúru, bæði á Þjórsársvæðinu og á Kárahnjúkasvæðinu. Það er hlutverk okkar sem landið byggjum að lágmarka þann skaða. Eitt einkenni öfgafullrar umræðu er hvað farsæl niðurstaða er þá jafnan langt undan. Slík hefur verið staða okkar Íslendinga í virkjanamálum þar sem reynt er að stilla þjóðinni upp sem tveimur fylkingum, gráum fyrir járnum. Virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar.

Ég sagði á fundinum við Urriðafoss að ég teldi fráleitt að fórna Urriðafossi við núverandi aðstæður og veit að þar tala ég fyrir munn margra sem þar voru á fjölmennum útifundi. Þessar núverandi aðstæður eru í fyrsta lagi að nóg er til af virkjanakostum í landinu sem taka munu minni toll af umhverfinu. Nægir þar að benda á hálfkaraða Búðarhálsvirkjun sem mun vissulega geta skilað orku þrátt fyrir að Norðlingaölduveita komi ekki til. Í öðru lagi er ofhitnun í viðskiptalífi á suðvesturhorninu slík að engin þörf er á frekari áluppbyggingu.

Þær aðstæður geta aftur á móti orðið í íslensku atvinnulífi að það beri að endurskoða þessa ákvörðun. En komi til þess að byggðavirkjanirnar í Þjórsá verði að veruleika er alger lágmarkskrafa að það verði til uppbyggingar í heimahéraði. Nóg hefur verið flutt úr héraðinu af orku með tilheyrandi mastraskógi upp um heiðar og dali.

Höfundur býður sig fram til setu í annað sæti á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband