Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Heim í heiðardalinn

Sigmund í Moggan 10. janúar 2006
Í kvöld er það Aratunga. Hversu oft sem ég fer upp í Tungur fylgir því alltaf ákveðin tilfinning sem togast milli þess að vera ljúf, stolt og skömmustuleg. Ljúf og stolt yfir þessari fóstru sem Tungurnar eru. Sár auðvitað yfir því sem Sigga Jóns kallaði einu sinni svik mín við heimasveitina. Í grein fyrir nokkrum árum sagði þessi mæta vinkona mín mér að hætta að skipta mér af þar efra enda hefði ég sofið hjá Árborgu í mörg ár. Vitandi vel að Siggu er því miður farið að standa alveg á sama hjá hverjum ég sef þá var sneiðin meistaralega orðuð og stundum held ég að okkur þessum burtfluttu sveitamönnum fylgi einhver draugur eftirsjár allt til enda. Eða hvað sagði ekki Stephan G.... Þótt þú langförull legðir o.s.frv. Stephan kallinn saknaði Skagafjarðar og ég oft og einatt Tungnanna þó ég sjái óljóst grilla í Tungnafjöllin hér út um kompugluggann minn.
En þetta er nú að verða meiri vellan hér á tölvuskjánum og sést kannski að ég er illa sofinn. Vona að það sjáist ekki í kvöld. Í gærkvöld var semsagt fyrsti sameiginlegi fundurinn haldinn á Flúðum og í kvöld er sá næsti og sá er í Aratungu, - byrjar klukkan 20:30 og á að enda tveimur tímum síðar. Guð láti gott á vita þar - það reynir mikið á fundastjórann sem verður Brynjar á Heiði. Miklu skiptir að hafa umræður snarpar og í kvöld held ég að það verði skorið svoldið á tímann sem menn hafa til að svara fyrirspurnum en hann var ómældur í gær...
Hef fengið margar kveðjur í dag í framhaldi af því að Sigmund teiknaði mig í Mogganum. Er sagt að þetta sé upphafið að því að vera alvöru stjórnmálamaður að vera orðinn viðfangsefni teiknarans góða. Hann hefur reyndar rissað mig einu sinni áður í tengslum við Draugasetrið en þessi mynd tekur þeirri langt fram þó ég láti nú alveg vera að kommentera á þá endaleysu að ég feti í fótspor Ómars Ragnarssonar. Það verður auðvitað aldrei!
Set svo hér inn nýja grein á eftir um virkjanamál og aðra um byggðamál á morgun. /-b

Góðar kratakveðjur

Hrafn Jökulsson
Framboð og opnun heimasíðu hafa kallað fram viðbrögð hér og þar og af því sem ég hef heyrt fremur jákvæð. Stórvinur minn og snillingur Hrafn Jökulsson eðalkrati, skákforkólfur og skáld sendir mér hlýlegar kveður fyrir skemmstu á vef sínum...

Hrafn segir:

Bjarni vinur minn Harðarson hefur nú haslað sér völl í bloggheimum. Hann fer hressilega af stað, enda einhver skemmtilegasti -- og skeleggasti -- þjóðmálarýnir landsins. Þá er það mikið ánægjuefni að Bjarni skuli gefa kost á sér í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, sem fram fer 20. janúar. Víst er um að ræðuskörungum á Alþingi mun fjölga um einn, fái hann brautargengi.

Þetta verður býsna spennandi prófkjör. Flestum að óvörum lagði Hjálmar Árnason þingflokksformaður til atlögu við Guðna Ágústsson varaformann og oddvita Framsóknar í kjördæminu, og verður glíma þeirra um 1. sætið efalítið hörð og söguleg. Guðna sterka er hér með spáð sigri, enda er hann tvímælalaust sá forystumaður Framsóknar sem þjóðin hefur mest dálæti á.

Bjarni gefur kost á sér í 2. sætið og hlýtur að eiga góða möguleika á að hneppa það hnoss, enda vinsæll og vinmargur.

Bloggsíða Hrafns.


Fundaherferð að baki og hanaslagur framundan!

Í gærkvöldi var ég heima hjá mér á virkum degi,- eina svoleiðis kvöldið í langan tíma og við feðgar horfðum á þátt um byltingarleiðtogann mikla Maó Tsetung. Hann var snemma fantur og illmenni.

Lokið er frábærri fundaherferð þar sem komið hefur verið víða við. Síðast í þeirri röð var að halda ostafund hér á Sólbakkanum sem var sunnudagskvöldið og tókst afar vel. Minnistæðustu fundurnir úr þessari herferð eru útifundurinn á Urriðafossi og svo sá í Þorlákshöfn enda urðu þar snörp og skemmtileg átök.

En í kvöld byrjar svo hin sameiginlega fundaherferð, hanaslagur eða ræðukeppni undir skeiðklukku. Þetta er hin formlega kosningabarátta kjörstjórnarinnar og hún stendur í 10 daga. Fundaröðin er svona og byrjar í Hreppum á Efra Seli sem er skammt frá Flúðum.

 

Þriðjudagur 9. janúar kl. 20:30 Hrun. – Efra Sel, Golfskálinn

Miðvikudagur 10. janúar kl. 20:30 Reykholt – Aratunga

Fimmtudagur 11. janúar kl. 20:00 Reykjanesbær – Framsóknarhúsið

Föstudagur 12. janúar kl. 20:00 Grindavík – Framsóknarhúsið

Laugardagur 13. janúar kl. 14:00 Höfn – Nýheimum

Laugardagur 13. janúar kl. 20:30 Kirkjubæjarklaustur – Hótelið

Sunnudagur 14. janúar kl. 16:00 Vík – Ströndin

Sunnudagur 14. janúar kl. 20:30 Hvolsvöllur – Hvoll

Mánudagur 15. janúar kl. 20:00 Árborg – Hótel Selfoss

Þriðjudagur 16. janúar kl. 20:00 Vestmannaeyjar - Akóges salurinn


Frá stóra bróður

Atli bróðir
Öfugt við vin minn Guðna Ágústsson og marga aðra mæta Framsóknarmenn þá dreg ég trauðla með mér mikinn frændgarð í pólitíkina. Mér er nefnilega þannig í ætt skotið að eiginlega allt mitt nánasta fólk tilheyrir íhaldinu, skiptist aðallega í þá flokka að vera grjóthart íhald, gamaldags íhald, hálfvolgt íhald og svo bara almennt íhald... Og að mestu gildir þetta bæði um minn frændgarð og tengdafólk. Þessvegna þótti mér vænt um eftirfarandi kveðju sem ég fékk á heimasíðu bróður míns, Atla Harðarsonar sem er aðstoðarskólameistari í fjölbrautaskólanum á Akranesi. Það skyldi þó ekki vera að mér takist eftir allt saman að öngla inn nokkur atkvæði frá mínu fólki...

Blogga Atla bróður:
Ég vek athygli á því að Bjarni bróðir minn hefur opnað vef (http://www.bjarnihardar.is/) til að kynna framboð sitt í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ég hef aðeins atkvæðisrétt í Norðvesturkjördæmi og get því ekki stutt hann, en sem Sjálfstæðismanni finnst mér nú illskárra að kjósa Framsókn en Árna Johnsen og mundi því líklega kjósa lista með Guðna og Bjarna frekar en þann sem Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa stillt upp.

Og svo vek ég athygli á að á vef Atla er æði oft að finna mjög gagnlegar og afburða greindarleg skrif - þó hann sé íhald!


Stórkostlegur útifundur

Frummælendur við Urriðafoss

Á annað hundrað manns mættu á útifund sem framboðið okkar hélt nú í dag við Urriðafoss. Falleg snjókoma og norðan kæla gaf samkomunni hátíðlegan og íslenskan svip.Þrátt fyrir að ekki væri boðað til fundarins sem eindregins mótmælafundar virkjanaandstæðinga voru fundarmenn samdóma um að staldra mætti við í virkjunum. "Það liggur ekkert á, fossinn verður hér áfram," sagði Einar Haraldsson bóndi á Urriðafossi í lokaorðum sínum en auk hans fluttu ávörp undirritaður og Jón Vilmundarson bóndi í Skeiðháholti. Þá flutti skáldið og bóndinn Sigríður Jónsdóttir í Arnarholti frumort ljóð.


mbl.is Fjölmenni á útifundi við Urriðafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgalaus útifundur við Urriðafoss

Urriðafoss

Fékk bréf í dag frá íbúa í Rangárþingi sem hafði áhyggjur af útifundinum sem ég held að Urriðafossi á morgun. Taldi að margir væru bara spenntir fyrir virkjanaframkvæmdunum og hefðu lítinn áhuga á Framsóknarmanni sem ætli að haga sér eins og Vinstri grænn. Þetta skil ég mæta vel svo mjög sem margir eru brenndir af öfgum þeirra sem kenna sig við umhverfisvend... En til þess að skýra það hvað býr að baki fundarboðuninni af því að ég veit að viðkomandi bréfritari talar fyrir munn margra vil ég birta hér hrafl úr mínu svari til hans...

mitt svar (fyrirgefið að ég skrifa aldrei stóran staf í texta sem ekki er ætlaður til prentunar).

ég skil áhyggjur þínar mjög vel. það að halda fund um virkjanir og að ég ekki tali um útifund slær almenning mjög gjarnan sem mótmælendafundur í anda vinstri grænna og annarra öfgamanna. ég get samt fullvissað þig um að ekkert er fjær mér þrátt fyrir mikinn og einlægan áhuga á umhverfismálum. mín skoðun er að umhverfisverndarumræðan sem er ein sú mikilvægasta hafi undanfarin ár verið í mjög óheppilegri gíslatöku öfgamanna sem hrópað hafa ókvæðisorðum að örfáum framkvæmdum. ein af meginreglunum hefur verið sú að það megi allt gera í nágrenni reykjavíkur en helst ekkert þegar komið er í landsfjórðunga sem standa fjær. þjórsá hefur hér "notið" þessarar nálægðar við reykjavík og umræðan um það að vatn verði tekið af vatnsmesta fossi landsins því engin verið... það tel ég afar óheppilegt. raunar er afstaða mín til þessara virkjana blendin. ég sé vissulega eftir urriðafossi og svo gera fleiri en ég viðurkenni engu að síður alveg hagkvæmni og umhverfisvænleik þess að nýta aflið í þjórsá á þessum stað. engu að síður vil ég að menn staldri við meðan þensla og ójafnvægi er jafn mikið í samfélaginu og raun ber vitni. ég hef heldur ekki sannfæringu fyrir því að þessar virkjanir séu réttlætanlegar ef ætlunin er að nýta orkuna fyrir enn frekari álversuppbyggingu á suðvesturhorninu. ef til vill eru þessar byggðavirkjanir þjórsár síðustu vatnsaflsvirkjanirnar á suðurlandi sem getur orðið sæmileg sátt um. ég tel þessvegna rétt að við stöldrum aðeins við og notum þetta tækifæri þegar brýnni og vænlegri hagsmunir kalla...

nú er það svo að vel má hugsa sér hluta þessarra virkjana án þess að ráðist sé í þær allar og þá er vel. ég skil vel afstöðu bænda sem sjá í þessu tækifæri til uppbyggingar og það er fjarri mér að tala gegn þeim hagsmunum.


Eldskírn í Ölfusi

Frá fundinum

Það var svo sannarlega eldskírn sem undirritaður fékk á fundi í Þorlákshöfn í kvöld þar sem umræðan beindist að margfrægum Suðurstrandarvegi. Vegi þessum hefur verið lofað af stjórnmálamönnum látlaust frá því fyrir 1990 og svikinn oftar en nokkurt annað kosningaloforð. Þetta er að vonum ergilegt og þó svo að stundum sé gantast með það að stjórnmálamenn gefi kosningaloforð til að svíkja þau er slíkt hegðun í reynd óafsakanleg og óþolandi. Ég var í upphafi fundar spurður að því og með svolitlu þjósti hversu oft ég ætlaði mér að lofa vegi þessum. Ég svaraði því til að það myndi ég aldrei gera.

Síðan gerði ég það sem ég veit að er óvinsælt í Þorlákshöfn. Ég talaði gegn framkvæmdinni eins og hún liggur nú fyrir en mælti þess í stað með því að vegur þessi yrði lagður þegar í stað - en með mun minni tilkostnaði en áætlað er í dag. Ef ná mætti sátt við íbúa Þorlákshafnar og Grindavíkur um slíka tilhögun tryði ég því að um leið mætti semja um að ráðist yrði í verkið án tafar. Til þessa hefur Suðurstandarvegi verið frestað aftur og aftur í skiptum fyrir næstum því hvað sem er.

Það er fljótsagt að fundargestir voru næsta samdóma í að hafna þessari tillögu og töldu raunar öll rök mæla með því að strax yrði efnt það loforð sem gefið hefur verið um liðlega milljarðs framkvæmd við tvíbreiðan veg milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Ég get skilið að fólk vilji að stjórnmálamenn efni þau loforð sem að þeir gefa. Það á við um Héðinsfjarðargöng og það á við hér. Engu að síður óttast ég að þessari dýru útgáfu af Suðurstrandarvegi verði frestað enn og aftur um ókomin ár, meðal annars vegna þeirrar nauðsynjar sem nú er á stórframkvæmdum við Suðurlandsveg. Síðar vegna annarra brýnna verkefna!

Á þessum fundi fann ég betur en nokkru sinni hversu auðvelt það væri að vera loforðapólitíkus. Ég gat tekið strax undir með fyrsta ræðumanni og sagt að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að Suðurstandarvegur verði að veruleika. Slíkt loforð vigtar auðvitað ekki því að stjórnmálamaður sem ætlar sér að svara hverri einustu tillögu þannig á ekki mikið vægi eftir fyrir hverja og eina þegar til stykkisins kemur. Það er því lofað upp í ermi slíkra stjórnmálamanna og um leið lofað freklega ofan í vasa skattgreiðenda. Loforðapólitík af þessu tagi er afar hættuleg og Suðurstrandarvegurinn er gott dæmi um þetta.

Fundarmenn í Þorlákshöfn voru því algerlega óviðbúnir að fram komi frambjóðandi til Alþingis sem ekki er tilbúinn til að lofa. Fram til þessa hefur það varla staðið í nokkrum manni að lofa þessum vegi sem þó er ókominn enn. Eftir nokkrar umræður fannst mér þó að ég ynni á með þessum málflutningi en ég skal fúslega játa að andrúmsloftið var þykkt og þungt framan af fundi og það var tekist á. Svona eins og fundir eiga að vera!


Um prófkjörið

Prófkjörið fer fram 20. janúar. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður dagana 16., 17. og 18. janúar í Reykjanesbæ, Árborg, Höfn og í Reykjavík. Kjördeildir á kjördag verða 24 talsins. Nánari upplýsingar um þessi mál síðar.

Það sem skiptir mestu núna er það hverjir mega kjósa. Í bréfi frá kjörstjórn 21. des. sl. segir um það mál.:

„Rétt til þátttöku í prófkjörinu hafa allir flokksbundnir framsóknarmenn í framsóknarfélögum í Suðurkjördæmi, samkvæmt félagaskrá 12. janúar 2007, og nýir félagar, með lögheimili í kjördæminu, sem ganga í félögin fram að lokum auglýsts kjörfundar. Jafnframt er flokksbundnum framsóknarmönnum, með lögheimili í kjördæminu, í félögum utan kjördæmisins, heimilt af skipta um félag, fram að lokum auglýsts kjörfundar.  Aðalskrifstofa flokksins skal staðfesta að félagaskrár séu réttar." 

Semsagt; áhugasamir sem búa utan kjördæmisins geta fyrir 12. janúar skráð sig til aðildar í framsóknarfélagi í héraðinu og fengið þar með fullan rétt til að kjósa á kjördag eða utankjörfundar dagana á undan. Einstaklingar sem búa í kjördæminu þurfa engar áhyggjur að hafa af sinni flokksaðild heldur geta þeir fyllt út umsókn um flokksaðild á kjörstað á kjördegi. Óneitanlega er samt einfaldara að kjósa ef að viðkomandi er búinn að ganga frá þessum málum í tíma. Kosningaskrifstofa Bjarna Harðarsonar tekur að sér að ganga frá öllu sem að þessu snýr fyrir hvern sem er, netfangið er bjarnihardar@bjarnihardar.is og sími vegna skráninga 865 6284.


Brattir dreifbýlismenn

Heimsótti Vestur Skaftfellinga í gær. Ljúft fólk og þægilegt í umgengni. Það er langt síðan ég áttaði mig á að það er eitthvað til í sleggjudómum 18. aldar manna eins og Jóns eldklerks og Eggerts Ólafssonar um mismun Íslendinga eftir héruðum. Skaftfellingar eru enn eins og þeir lýsa þeim, hógværir og jafnlyndir. Þurfa þess líka með og tekst einmitt fyrir einhverskonar æðruleysi að vera brattir þrátt fyrir að byggðirnar þarna eystra séu komin í mjög hættulega stöðu. Þar fækkar ár frá ári, ríkið dregur í burtu eitt og tvö embætti ár hvert í nafni hagræðingar og sama gerir hinn nýríki einkageiri. Allir eiga síns föður að hefna í því að höggva í þar sem garðurinn er lægstur. Það vantar ekki nema herslumuninn að byggð í Skaftárhreppi hverfi öll og staðan er litlu skárri í Mýrdal.

Það verður fátæk þjóð sem hvorki á Landbrytlinga né Síðumenn á nýrri öld að ég ekki tali um ef tapast líka Meðallendingar og Mýrdælingar...

Í kvöld er svo fundur í Þorlákshöfn, í Ráðhúskaffinu og í Keflavík á morgun. Stóri viðburður næstu daga er samt útifundurinn við Urriðafoss kl. 15 á laugardag!


Fundur í Þorlákshöfn í kvöld

Ég verð með opinn stjórnmálafund í Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn í kvöld miðvikudaginn 3. janúar kl. 20:30. Fundarefni: Hugsjónir Framsóknarflokksins. Umræður og óvænt menningaratriði.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband