Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Sveitamenn og glíman við jarðaverðið

Rýkur á Seli, rýkur á Hól
rýkur á Hárlaugsstöðum.
Rýkur á Hömrum og Hamrahól
og held ég á Berustöðum.HPIM1874

Þessi gamli húsgangur úr Ásahreppnum rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var í frönskum afdölum fyrir nokkrum dögum. Í aðeins tveggja stunda akstursfjarlægð frá stórborginni Marseille rísa berangursleg og falleg kalkfjöll, sundurskorin af snarbröttum dölum og skorningum. Harla ólíkt Ásahreppnum vissulega. En samt sveitamenning sem býr við sömu ógnanirnar og okkar fallegu sveitir. Fyrst samdrætti í landbúnaði og breyttum samfélagskröfum þegnanna sem ekki finna lengur í þessari paradís á jörð fullnægju sinna drauma. Síðan uppsprengdri eftirspurn auðmanna eftir að kaupa heilu þorpin undir sumarhús sem geymd eru bakvið hengilás.
Síðasti bóndinn býr
með mótorhjól
Gestgjafi minn býr á bænum Hameuc de Buisson sem mætti þýða sem Rósalundur því Buisson vísar með einhverjum hætti til þyrna. Hameuc til þess að þetta er sveitabær, ekki alveg sveitaþorp. Orðið er samstofna orðinu hamlet á enskri tungu. Húsin heima á þessum litla bæ eru óteljandi og öll samtengd. Margra alda gömul í gerðinni, hlaðin úr kalksteini með röftum og leirskífum í þaki. Patrekur segir okkur að þegar mest var bjuggu þarna 10 fjölskyldur og lifðu af sauðfjárrækt og geita. Landið er hart og grænmeti ekki ræktað til annars en heimabrúks. Túnbleðlar fæstir meira en ein dagslátta og fé er hér haldið til beitar í kyrkingslegum fjallagróðri enda smakkaðist hið franska fjallalamb betur en við mörlandarnir þorum almennilega að viðurkenna.
Patrekur var síðasti sauðfjárbóndinn í dalnum þar sem áður voru milli 20 og 30 bæir í byggð og fjölmargar fjölskyldur á hverjum. Hann er alinn upp á næsta bæ og keypti Buisson fyrir 30 árum fyrir slikk. Bæjarhús voru þá að hruni komin en hafa nú öll verið endurbyggð. Framan af stundaði Patrekur sauðfjárbúskap á sínu 100 hektara landi en hefur fyrir allnokkru skipt yfir í ferðamennsku og er nú með 400 kúbika torfæruhjól í stað sauðkinda. Hér er umburðarlyndi og sálarró á öðru stigi en við eigum að venjast heima og okkur er guðvelkomið að þræða krákustíga og vegslóða á tækjakosti sem er reyndar talsvert fyrir ofan það sem hálffimmtugur kyrrsetumaður af Selfossi ræður við.
Sveitirnar hér eru fornar og heilbrigðar en það er samt af sem var þegar Patrekur byrjaði búskap að hægt sé að kaupa eyðijarðir í þessum hrjóstruga og fallega dal fyrir lítið. Nú seljast jarðirnar, sem eru sjaldnast stærri en 100 - 200 hektarar, fyrir morð fjár. Hann stendur á hlaðinu þessi snaggarlegi frakki og bendir mér á bæina allt í kring sem eru nú í eigu auðmanna frá Hollandi, Þýskalandi og guð má vita hvaðan. Þar eru gluggahlerar fyrir og allt slökkt.
Braskarar með seðlabúntin
Hér er líkt og í Ásahreppi forðum hægt að merkja það í morgunsárið hvar búið er á reyknum. Allir sem heima eru leggja trjáboli í arininn og talning á fallegum sunnudagsmorgni bendir til að af 40 bæjum sé líf í fjórum. Það er vetur þó veðrið sé eins og á íslenskum sumardegi. Vafalaust er hér meira umleikis um sumartímann þegar fólk flykkist upp í fjöllin undan hitanum niðri í byggðinni.
En samt! Það er eitthvað óásættanlegt við þessa mynd af fallegri franskri afdalasveit. Ég skynja það í málrómi bóndans sem reyndar kann bara örfá orð í ensku og ég engin í frönsku. Og ég skynja það þegar ég skæklast um þessa sveit á mótorfák frá Patreki eftir misjafnlega torfærum stígum. Er það þetta sem bíður íslenskra sveita þar sem íslenskir braskarar fara nú um með seðlabúntin og kaupa allt sem bændur eru mögulega til í að selja?
Ég hef sjálfur varið þá miklu eftirspurn auðmanna eftir jörðum sem einkennt hefur jarðamarkaðinn síðastliðin ár. Og þar með þá þróun að jarðaverð er orðið miklu hærra en svo að venjulegur landbúnaður standi undir því. Rökræður við skelegga bændur austur í Skaftárhreppi í vetur og síðan þessi mín fyrsta heimsókn til Frans hafa samt fengið mig til að efast um að við séum á réttri leið.
Mammon á ekki að vera
einvaldur
Hækkandi jarðaverð skilar sér vissulega til bænda sem vilja bregða búi en gera þeim líka ómögulegt að koma rekstrinum í hendur á næstu kynslóð. Einn úr systkinahópi ræður illa við að kaupa systkini sín út ef að markaðsverð jarða er ofar allri skynsemi. Og þá næsta víst að utanaðkomandi kaupandi mun gera jörðina að auðnarlegu sumarlandi með hengilás fyrir hliði og ljósin slökkt. Eru það sveitirnar sem við viljum sjá? Það þarf ekki barnaskóla í slíkri sveit!
Við getum svo auðvitað velt því fyrir okkur hvort eitthvað sé til ráða í þessu vandamáli. Engin stjórnvöld geta ráðið við það að draga úr eftirspurn eftir jarðnæði og vafamál að það sé sveitunum fyrir bestu. Það er vissulega svo að aukinni eftirspurn eftir jarðnæði fylgja miklir möguleikar fyrir sveitirnar. Uppbygging auðmanna á jörðum skapar atvinnu og þeir hinir sömu auðmenn hafa raunverulega hagsmuni af því að viðkomandi sveit haldist í byggð.
En við þurfum að engu að síður að gæta að okkur og engin ástæða til að láta mammon leika lausum hala í íslenskum sveitum. Það er ekki trú okkar framsóknarmanna að slíkt sé affarasælast. Núverandi aðstæður kalla á viðbrögð sem eiga að miða að því að tryggja mögulega nýliðun í landbúnaði þrátt fyrir hækkandi jarðaverð. Við þurfum jafnframt að gera þær kröfur að eyði-jarðirnar séu opnar til umgengni fyrir ferðalanga. Í dag er víða í sveitum gengið alltof langt í því að girða af mikilvæga ferðamannastaði og fögur lönd. Og við þurfum að nálgast þessa umræðu með þá hagsmuni byggðanna að leiðarljósi.


Höfundur skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og trúir því sjálfur að hann geti hjólað á torfæruhjólum. (Áður birt í Sunnlenska)


Út um nefið...

 

...veistu að eyrað og nefið eru tengd í hausnum á þér og að það sem þú heyrir fer inn um eyrað en út um nefið..”

 nose

Ofanskráð spakmæli fann ég eins og svo margt annað fyndið hér í bloggheimum. Nánar tiltekið á bloggsíðu Axels Birgissonar bloggvinar míns. Þetta skýrir raunar giska margt fyrir mér því í mínu móðurkyni hefur lengi tíðkast að þegar fólk heyrir eitthvað mjög vitlaust,- ég er sjálfur farinn að gera þetta að kæk,- já semsagt einhverja dómadagsvitleysu sem ekki er svaraverð þá loka menn munninum, herpa sig svolítið saman í fésinu og blása út um nefið.

Ég hef aldrei fyrr en núna vitað almennilega afhverju...

Talibanar á öllum tímum...

Vagg og velta heitir frábær sýning sem opnuð var í Poppminjasafninu í Reykjanesbæ í gær. Fjallar um samnefnda plötu og bernskuár rokksins á Íslandi. Fórum þangað frambjóðendurnir, ég og Helga Sigrún. Rúnar Júl. hélt uppi óborganlegri stemmningu með aðstoð margra mætra manna þó eiginlega hafi Dagbjartur fiskverkandi úr Grindavík stolið senunni með eftirminnilegum og skemmtilegum hætti. Semsagt, til hamingju Suðurnesjamenn.

Þær Sigrún Ásta forstöðumaður safna hjá bænum og Björk forseti bæjarstjórnar opnuðu sýninguna en sú fyrrnefnda rakti í fróðlegu erindi um viðbrögð samfélagsins við rokkinu fyrir hálfri öld síðan. Þá tíðkaðist að háttsettir menningarvitar útvarpsins brutu hneikslanlegar hljómplötur í beinni útsetningu og útvarpsstjóri setti þær á bannlista. Í sumum tilvikum verkaði þetta einmitt á þann hátt að sömu skífur runnu út í verslunum. Sigrún Ásta minnti á að þetta hefði verið gert hjá þjóð sem var að mæta nýjum og torkennilegum tímum eftir margra alda kyrrstöðu bændasamfélags.

Ég er samt ekki viss um að við getum skýrt þessi viðbrögð menningarforkólfa stríðsáranna með slíkum sögulegum tilvísunum. Mér er nær að halda að ofstæki, fordómar og þröngsýni einkenni öll samfélög að einhverju marki og rísi alltaf upp öðru hvoru.

Ofstæki samtímans kemur ekki frá íhaldssamri hægri átt eins og það gerði á stríðsárunum heldur innan úr einhverri holtaþoku yfirkeyrðra sjónvarpsbarna sem stöðugt þurfa að kasta steinum í átt að hinum bersyndugu. Best að þeir séu nógu langt í tíma og rúmi. Áliðnaðurinn, tóbaksmanínan, Breiðuvíkursápan, strípistelpurnar á Sögu, tekjuskerðingaumræða bótaþega, heilsufars- og offitufóbíurnar og svo framvegis og svo framvegis. Allt angi af samsskonar forheimskan, blindni og ofstæki að það fer jafnvel að virðast heilbrigt að brjóta hljómplötur í beinni útsetningu...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband