Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
Nýjan Herjólf, lægri gjaldskrá og eðlilegar jarðgangarannsóknir!
17.4.2007 | 23:15
Góðar samgöngur til Eyja eru hagsmunamál allrar þjóðarinnar og um leið mikilvægar fyrir ört vaxandi ferðaþjónustu. Gossagan, jarðfræðin og náttúrufegurð skapa þar þá veröld að í reynd ætti enginn erlendur ferðamaður að sleppa Eyjum úr ferð sinni um landið. Það gera þó margir þeirra í dag og kemur þar tvennt til. Annarsvegar lélegt flugveður og hinsvegar vont sjóveður. Þá er bílaþilfar Herjólfs upppantað marga mánuði fram í tímann. Með bættum samgöngum eiga Vestmannaeyjar gríðarlega framtíð fyrir sér en til þess að svo geti orðið þurfa ferðamálayfirvöld landsins að taka undir með heimamönnum í markaðssetningu og samgöngumálunum.
Þegar býsnast er yfir miklum kostnaði gleymist í umræðunni að Vestmannaeyjar sem ein stærsta verstöð landsins á gríðarlega stóran þátt í þeirri velmegun sem Íslendingar búa við í dag. Á þeim tíma þegar þjóðin braust frá sárri fátækt til bjargálna lögðu verstöðvar á borð við Heimaey grundvöllinn undir þjóðarbúið. Nú er komið að íslenskri þjóð að endurgreiða þá skuld og enn sem fyrr munu Eyjarnar góðu greiða þá fjárfestingu margfaldlega til baka. Byrjum á ferjunni.
Því fer fjarri að bílaþilfar núverandi Herjólfs anni samgöngum milli lands og Eyja og skip þetta svarar heldur ekki kröfum samtímans um siglingahraða. Ferðin tekur góða þrjá tíma en það er vel mögulegt að stytta ferðatímann í tvo.
Í umræðu um samgöngumál Eyjamanna hafa núverandi samgönguyfirvöld látið hrekja sig til án þess að ljúka nokkru máli farsællega. Rætt hefur verið um nýjan Herjólf en tillögum þar um síðan stungið undir stól og bæjaryfirvöldum svarað því máli með óskiljanlegum hætti.
Jarðgöng gætu verið ódýrasta leiðin
Þegar rætt hefur verið um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar er því líkast sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sé fyrirfram ákveðinn í að ekki megi einu sinni kanna málið til hlýtar. Það er umhugsunarefni hvort flokksbræðrum Árna Johnsen sé svona mikið í mun að gera ekki það sem Eyjamaðurinn söngelski leggur til. Þegar svo er komið er brýnt að aðrir taki við keflinu.
Rannsóknir á möguleikum á jarðgangagerð hafa strandað í miðju kafi og sumar verið unnar með hangandi hendi. Slett er inn fráleitum tölum um kostnað sem miða meðal annars við gangagerð eins og þá sem þarf fyrir milljónaborgir.
Eitt það mikilvægasta í jarðgangaumræðunni er þetta: Það er möguleiki að jarðgangagerð sé framkvæmanleg fyrir sama fé og kostar að halda úti siglingum til Eyja í aldarfjórðung eða innan við 30 milljarða króna. Ef það er tilfellið er ekki áhorfsmál að leggja göngin. Þau munu margborga sig fyrir þjóðarbúið og stórefla byggð bæði í Eyjum og Rangárþingi. Ef göngin kosta miklu meira en það þá verður að leggja gangagerð á hilluna um sinn og horfa til annarra leiða. Við þær aðstæður er Bakkafjöruhöfn vænlegasti kosturinn.
Bakkafjöruhöfn notuð til að tefja!
En í stað þess að ljúka þessum rannsóknum reynir núverandi samgönguráðherra að slá á jarðgangaumræðuna með frekar flausturslegri ákvörðun um Bakkafjöru. Það er góðra gjalda vert að vilja með þeim hætti koma til móts við samgönguþarfir Eyjamanna en mér býður í grun að þetta sé leikur í óformlegu stríði Sturlu Böðvarssonar við jarðgangahugmyndina og fyrrnefnt þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Það er eitthvað í undirstöðu þessa máls sem lyktar undarlega.
Ef að Bakkafjöruhöfn á að fylgja sá böggull að fram að opnun ferjulægis þar sem verður í fyrsta lagi 2011, skuli Eyjamenn notast við gamla Herjólf þá er það algerlega óviðunandi staða. Eyjamenn eiga kröfu á að fá strax í sumar nýjan og hraðskreiðari Herjólf. Málið má leysa hratt og örugglega með leiguskipi en til þess þarf pólitískan vilja.
Lækkun fargjalda
Að lokum skal hér nefnt viljaleysi samgönguráðherra í gjaldskrármálum Herjólfs. Sem þingmannsefni í kjördæminu hef ég farið oftar út í Eyjarnar fögru í vetur en áður samanlagt á ævinni og kynnst gjaldskrám Herjólfs. Hef að vísu í öllum ferðum sparað mér að taka bílinn með en borgað nóg samt. Það er lágmarkskrafa að ferðalag með Herjólfi kosti fjölskylduna ekki meira en sem nemur kostnaði við að aka frá Þorlákshöfn austur í Vík en nú er kostnaðurinn margfaldur. Um þetta gildir hið sama og nýjan Herjólf. Hér þarf pólitískan vilja og sá vilji er til innan Framsóknarflokksins.
Að mæla upp vitleysuna í hundruða þúsunda hundi!
16.4.2007 | 08:35
Íslendingar eru neysluóð þjóð. Heiminum gjörvöllum má raunar skipta upp í þróunarlönd og sóunarlönd og þar skipum við efsta sætið á sóunarkvarðanum. Og það eru nógir til að mæla vitleysuna upp í okkur. Var að lesa Morgunblaðið þar sem er einhver endemis umfjöllun um gæludýr og blaðamaður reiknar það út fyrir lesendur að það kosti nálægt þrjúhundruðum þúsundum að eignast hund og hátt í hundrað þúsund að eignast kött. Sem er auðvitað endileysa hinnar neysluóðu þjóðar.
Með greininni sem er að hætti Moggans afar löng er birt tafla yfir kostnað og þar kemur fram að hundur kostar 170 þúsund og köttur allt að 50 þúsund. Með dýrum þessum þarf svo margra þúsunda bæli og búr, ólar og dalla...
Eins og það viti ekki hver maður að hunda og ketti má vel fá fyrir ekki neitt og eru fullt eins eiguleg kvikindi og hin hreinræktuðu. Dýrum þessum líður yfirleitt best að kúra ofan í pappakössum sem fóðraðir eru með aflóga teppisræskni og allt getur þetta verið mjög snyrtilegt. Dýr þessi geta svo snætt af diskum sem tvífætlingar eru hættir að nota o.s.frv.
Þegar blað eins og Mogginn mælir upp vitleysuna í sambandi við gæludýrahald og yfirleitt hvað eina sem fólk gerir sér til skemmtunar þá erum við ekki bara að mæla upp neysluæðið og firringuna. Við erum líka að mæla upp í fólki fátækt og minnimáttarkennd sem ekki getur spreðað peningum í það sem engum veitir heldur ánægju nema kaupmanninum sem selur...
Opnun kosningaskrifstofu
14.4.2007 | 22:34
Ó Suðursveit, aldrei hefðir þú gert svona!
14.4.2007 | 11:13
Hefi átt mjög Þórbergska viku. Á kvöldin hef ég lesið Suðursveitarbók Þórbergs sem ætti reyndar að vera skyldulesning allra Íslendinga. Í vikunni hélt ég svo framboðsfund með Suðursveitungum á Hrolllaugsstöðum en svo heitir félagsheimili þessarar merku sveitar, nefnt eftir bæ landnámsmannsins sem stóð lítið eitt austar.
Hrolllaugsstaðafundurinn var vitaskuld ekki fjölmennur enda eru íbúar í Suðursveit ekki nema um 40 en hann var aftur á móti magnaður. Stóð framundir miðnætti og umræður líflegar. Þar mætti Sigurgeir Jónsson frá Skálafelli, mikill kappræðumaður! Lilja Hrund Harðardóttir sem var mín hægri hönd alla vikuna stýrði fundi og mátti stundum hafa sig alla að.
Fundinn á Hrolllslaugsstöðum héldum við undir yfirskriftinni Samviska Suðursveitar en eins og allir aðdáendur Þórbergs vita þá bar hann líf sitt oft og syndir saman við hreinleika þessarar sveitar. Á sama hátt held ég að það sé til lítils að bjóða sig fram til þingsetu fyrir byggðir Íslands án þess að hafa metnað og samvisku fyrir viðgangi þessara sömu byggða, jafnt hinna smæstu sem stærstu.
Morguninn eftir fór ég í heimsókn á heilsugæslu og dvalarheimili á Höfn og hitti þar fjölmarga skemmtilega Hornfirðinga að máli. Þeirra á meðal dóttur Þórbergs Þórðarsonar sem dvelur í elli sinni á Hornafirði. Ógleymanlegur fundur.
Ævintýrin þar eystra urðu fleiri og ekki rakin hér í smáatriðum. Í pólitíkinni held ég að mest hafi kannski munað um hvað ég þótti góður í að salta þorsk hjá Skinney Þinganesi! Austasta sveit kjördæmisins er svo Lónið og vitaskuld fórum við nafni minn Hákonarson þangað austureftir og drukkum kaffi með heiðurshjónunum Sigurði og Helgu í Stafafelli.
Auk fundarins í Suðursveit héldum við Lilja frábæran hádegisfund á Höfn við húsfylli og enduðum svo reisuna á fundi á Klaustri þar sem um 50 manns mættu til að ræða um landnýtingu, flutning opinberra starfa út á land og pólitík.
(Á efri myndinni er Sigurgeir Suðursveitungur og trillukarl í Sandgerði lengst til vinstri en á þeirri neðri erum við Elín í Sólheimahjáleigu, formaður Framsóknarfélagsins eystra en sú mynd er tekin af Sigurði Hjálmarssyni á fundinum á Klaustri en hin er eldri. )
Framsóknarflokkurinn er forsenda farsællrar landsstjórnar
13.4.2007 | 15:21
Samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur nú verið við völd í 12 ár. Margt hefur áunnist á þeim tíma en samfélagið ber þess líka mörg merki að við stjórnvölinn hefur verið hægri stjórn þar sem valdahlutföllin hafa að vonum legið nær íhaldshliðinni. Þó svo að samstarf flokkanna hafi verið gott hefur Sjálfstæðisflokkur vitaskuld notið stærðar sinnar.
Í vinstri kanti stjórnmálanna er að vonum mikill vilji til breytinga og margir vilja sjá nýtt stjórnarmynstur. Vinstri sinnaðir landsbyggðar- og framsóknarmenn telja margir vænlegustu leiðina í þessu að sniðganga Framsóknarflokkinn og refsa honum þannig fyrir áralangt dekur við íhaldið. Þetta eru afskaplega misráðar refsiaðgerðir.
Fari svo að Framsóknarflokkurinn komi mjög illa út úr kosningum má búast við að flokkurinn taki sér frí frá stjórnarþátttöku og Sjálfstæðisflokkurinn geti þá valið hvort heldur Samfylkingu eða Vinstri græna til samstarfs. Það fer ekkert milli mála að báðir þessir flokkar beiða ákaft til íhaldsins og beina þessvegna öllum sínum spjótalögum að Framsókn. Áfram yrði þá í landinu stjórnað með ákveðinni hægri slagsíðu en það er hætt við að hagsmunir sveitanna, landbúnaðarins og raunar öll landsbyggðarsjónarmið yrðu þá mjög fyrir borð borin. Viðeyjarskotta var síðasta tilraun Sjálfstæðisflokksins til stjórnarsamstarfs með krötum og það er mikið vafamál að vinstri flokkunum hafi farið fram síðan þá.
Það er allavega með ólíkindum hvað lítill vilji er hjá vinstri flokkunum tveimur fyrir að mynda raunverulega vinstri stjórn. Fyrr er talað um kaffibandalag þar sem taka á koldimma hægri öfga Frjálslynda flokksins með.
Framsóknarflokkurinn hefur nú haft það hlutverk um langt árabil að halda aftur af frjálshyggjuöfgum innan Sjálfstæðisflokksins og margt í þeim efnum tekist vel. Flokki okkar er ekki síður hent að halda um taumana í þeysireið vinstri manna og öllum má vera ljóst að vinstri stjórn mun ekki njóta trausts atvinnulífsins í landinu án þátttöku Framsóknarmanna. Samstarf VG og Samfylkingar myndi heldur aldrei lifa án sáttahyggju Framsóknarmanna.
Þó hér verði ekki birtir spádómar um hvað gerist eftir kosningar má fullljóst vera að öflugur Framsóknarflokkur er forsenda þess að hægri stjórnir í landinu taki tillit til hagsmuna byggðanna í landinu. Og gott gengi Framsóknarflokksins er líka forsenda þess að þjóðin eigi völ á alvöru starfhæfri vinstri stjórn sem nýtur trausts bæði þings og þjóðar.
Allir í sjónvarpið - stuðningsmenn mætið!
10.4.2007 | 13:29
Í kvöld verður Kastljósi Ríkissjónvarpsins kastað út frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og þar mun Guðni Ágústsson væntanlega sitja fyrir svörum um stjórnarstefnuna, landbúnaðarmálin og fleira.
STUÐNINGSMENN B - LISTANS Í SUÐURKJÖRDÆMI ERU HÉR MEÐ HVATTIR TIL AÐ MÆTA Á ÞENNAN FUND SEM ER OPINN ÖLLUM. KOSNINGASTJÓRNIN MUN MERKJA OKKAR FÓLK MEÐ X-B MERKJUM AUK ÞESS SEM VÖL VERÐUR Á ÝMSUM ÖÐRUM DULARFULLUM MERKJUM EINSTAKRA FRAMBJÓÐENDA. MEÐ FJÖLMENNI Í ÁHORFENDAPÖLLUM SÝNUM VIÐ STYRK OKKAR.
Mæting í F.Su. kl. 19:15
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Guð forði okkur frá fríkirkjufári...
8.4.2007 | 14:19
Mér er ekki kalt til fríkirkna og ekki heldur kirkna yfirleitt. Þó ég tilheyri engri kirkju og hafi ekki gert frá unglingsárum og viti varla hvort ég trúi nokkru þá tel ég íslenska þjóðkirkju standa fyrir margt það besta í þessu samfélagi. Biskup Íslands talaði skörulega nú í páskamorgunsræðu sinni og það voru orð í tíma töluð. Lífið er annað og meira en eftirsókn eftir hagvexti.
En heiftarflog einstöku fríkirkjupresta gegn íslenskri kirkju eru mér óskiljanleg. Og ef ætlunin er að brjóta niður íslenska ríkiskirkju með þessum fyrirgangi - vita menn þá hvað tekur við. Þúsund prestar sem keppa sín í milli um sem dramatískastar lýsingar á logum vítis eða yfirbjóða hvern annan í frelsi til kynhneigða. Það er ekki það sem okkur vantar hér á Íslandi. Íslendingar eru hættulega veikir fyrir öfgum eins og við sjáum í virkjanamálum og mörgu fleiru. Með einkareknum fjárþurfandi fríkirkjum gæti á fáum árum orðið hér ástand eins og í Bandaríska Biblíubeltinu. Hver vill það???
Það er einmitt þetta öfgalausa og hljóðláta trúboð íslensku þjóðkirkjunnar sem heillar mig og ég held að á ögurstundum geti kirkjan komið inn sem sálbætandi og friðelskandi afl inn í þjóðfélagsumræðuna. En ef að við margföldum þá vini mína Hjört Magna og Gunnar í Krossinum þá sjáum við presta landsins standa froðufellandi á hverju götuhorni og í rifrildi um samkynhneigð og tólf spora kerfi. Stöku trúardeilur samtímans verða sem hjóm eitt.
Ég á mér þá páskabæn að guð forði okkur frá slíkum ósköpum.
Loksins hvunndagur
7.4.2007 | 16:13
Loksins kom hvunndagur en þeir eru það dýrmætasta í lífinu. Kosningabarátta býður ekki upp á mikið þessháttar, eilíf fundahöld og spariföt. Svo hafa dagarnir undanfarnar vikur verið hálfvegis tómlegir í ofanálag því Elín mín fór á Spán og sat þar í hálfan mánuð yfir spænskunámi. Í haust ætlum við að halda upp á 20 ára hjónaband með ferðalagi um rómönsku ameríku og þá verður hún orðin altalandi í þessu skrýtna tungumáli.
Hún kom semsagt heim aftur nú um hátíðarnar og vakti mig klukkan 5 einn morguninn. Yfirleitt er ég svefnstyggur og geðstirður ef ég er vakinn en var það ekki í þetta skiptið! Þessi tágranna kona hefur reyndar áhyggjur af því að hafa bætt á sig syðra með súkkulaðiáti þar sem hún telur núna heila 15 fjórðunga - en það er bara betra, þó þeir yrðu seytján...
Dagurinn í dag hefur farið í stórmarkaðsferðir því hér var algerlega orðið þrotabú. Í gær lagaði ég ísskápinn sem hefur verið með vesen og ekki lokast sem skyldi. Einhverjir sögðu mér að kaupa bara nýjan, það væri ekkert vit í að laga svonalagað en þessi hugsunarháttur fer ósegjanlega í taugarnar á mér. Sóunin er versti löstur okkar Íslendinga. Þetta er ekki spurning um nísku heldur miklu frekar virðingu fyrir verðmætum.
Í kvöld þarf ég að undirbúa austurferð og vikuna framundan...
Harðsnúið lið og huglitlir vinstri menn!
7.4.2007 | 12:24
það er sannarlega fjör hér í bloggheimum, meira að segja í dymbilvikunni. Tómas stórvinur minn Þóroddsson sendi mér á bloggsíðu sinni eftirfarandi spurningu um daginn:
Sæll hr Bjarni Harðar, þú svaraðir ekki þegar ég hringdi í þig og þess vegna verð ég að spyrja þig hér á blogginu mínu, því það lestu eins og glöggir lesendur hafa bent á.
Spurning mín er einföld : Ef Guðni Ágústson er kóngurinn, afhverju eru þá allar stelpunar ykkar frú Harðar ?
Svarið við þessu er ekkert mjög einfalt og kannski ákveðinn misskilningur að Guðni Ágústsson sé kóngur. Hann er landbúnaðarráðherra. En af sjálfu leiðir að sá sem er í svo hárri stöðu og auk þess fremstur meðal jafningja í endurreisn Framsóknarflokksins þá þarf Guðni mjög harðsnúið lið sér til aðstoðar og því voru valdir í það Framsóknarmenn sem beinlínis eru yfirlýstir harðnaglar og harðsnúnir með afbrigðum og bera það með sér í nafni sínu...
Semsagt Lilja Hrund Harðar, Helga Sigrún Harðar og Eygló Harðar auk þess sem hér ritar.
Er þetta ekki nokkurnveginn svar Tómas! Um hitt ætla ég að spyrja þig - þú kommenterar nýlega hjá mér og segir þar:
"Það er líka þitt fólk sem hefur farið með ofsóknum á valin fyritæki sem ykkur ekki hugnast. "
Þó svo að við höfum um sinn tekið í ár með íhaldinu þá er það ekki okkar fólk og það þreytir mig svolítið að horfa uppá þann sið svokallaðra vinstri manna að skamma alltaf Framsókn fyrir það sem ykkur dauðlangar að skamma Sjálfstæðisflokkinn fyrir og við eigum ekkert í. Þið bara þorið sjaldnast að segja nokkuð það upphátt sem styggt gæti íhaldið - sem þið allir beiðið fyrir. Þetta er nú ekki stórmannlegt, Tommi.
Afhverju ekki að stefna á alvöru vinstri stjórn, ef ykkur er alvara með að vera vinstri menn... Hér eru nokkrar harðsnúnar og sætar. Heldurðu að það sé nú ekki skemmtilegra að vinna með þessum stelpum en íhaldsdurgunum, f.v. talið: Brynja Lind, Eygló og Lilja...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kommúnisminn, MacCarthyisminn og fordómarnir
3.4.2007 | 17:55
"Bjarni, við þennan morgunlestur fór ég að hafa samúð með Laxnes og öðrum sem að hafa orðið fyrir einelti stjórnvalda og eru í anda McCarthy. Svelgdist örlítið á morgunteinu! Er nokkur fasisma uppgangur þarna á Selfossi? Þú virðist ekki ætla að fara í tertuboð með Valgerði í tengslum við 50 ára ESB afmælið. Greinin finnst mér vel skrifuð en það er sterklega verið að höfða til fordóma með henni. Bjarni, hvað finnst þér um það að Styrmir Gunnarsson sagði í nýlegu sjónvarpsviðtali að hann hafi hneygst til þjóðernishyggju á yngri árum. Sama gerði Eyjólfur Konráð sem var ritstjóri. Ert þú ekki til í að sýna þeim álíka dómhörku fyrir að vera nasistar, eins og sletturnar sem Össur fær fyrir að hafa verið ritstjóri Þjóðviljans?"
Ofanskráð skrifaði Gunnlaugur B. Ólafsson frá Stafafelli nýlega inn á bloggið hjá mér sem athugasemd við grein sem hét minnir mig vofa kommúnismans og er hér aðeins neðar á þessari síðu. Þessi gagnrýni er fullkomnlega þess verð að gefa henni gaum. Fátt er jafn illt og fordómar, ofstæki og nornaveiðar eins og þær sem MacCarthy kallinn stóð fyrir.
Þó er til eitt sem er líkast til verra. Það er kommúnisminn.
Ég ætla rökstyðja þetta aðeins nánar og þar með að færa rök fyrir þeirri hörku sem ég tel rétt að sýna kommúnistum og dreggjum þeirra í samfélaginu. Þetta verður svona í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi...
Í fyrsta lagi er sá munur á kommúnistum og nasistum að þeir fyrrnefndu monta sig margir af því enn að hafa verið handgengnir þessari stefnu. Stefnu sem reynist hafa fleiri mannslíf á samviskunni en nokkur önnur hugmyndafræði síðari alda. Stefnu sem hefur mannfyrirlitningu og ofbeldi sem óhjákvæmilega fylgifiska. Gunnlaugur minnist hér á menn sem voru um tíma handgengnir nasismanum. Afi minn var það á sínum yngri árum og sat meira að segja inni fyrir þær skoðanir sínar. En líkt og allir aðrir sem glöptust til að hrífast af þýska undrinu á millistríðsárunum skammaðist hann sín fyrir þetta eftirá. Sama reikna ég með að Styrmir geri. Hvorugur þessara hampaði hakakross eða Hitlersskeggi.
Í áróðursdóti Vinstri grænna má aftur á móti finna myndir þar sem Steingrímur J. Sigfússon er dreginn í líki Che Cuvara. Menn veifa rauðum fánum og syngja internationalinn. Rómantíkin sem vinstri menn hengja á minningar um gengna ofbeldismenn kommúnismans er ekki bara ósmekkleg heldur beinlínis óhugnanleg og alltaf ósmekkleg. Eða hvað segðum við um mann sem gengi um með hakakross í barminum og segðist gera það af því hann væri fyrrverandi nasisti!
Í öðru lagi:
Gunnlaugur undrast að ég skuli leyfa mér að kalla kommúnismann til í gagnrýni á Evrópusamband, framtíðarland og jafnvel sjávarútveg. En ég held að það sé full ástæða til og ég minntist hér aðeins á þá hugsun kommúnista millistríðsáranna að með sósíalismanum væri komið á vísindalegri stjórnun samfélagsins í stað glundroða hins kapítalíska samfélags.
Sömu öfl telja í dag betra að setja samfélaginu fleiri reglur en færri. Litlu skipti þó gengið sé á rétt fjöldans ef það dugi til að fanga einn óréttlátan. Steypa verður öllu samfélaginu í mót reglugerða sem helst af öllu koma frá yfirþjóðlegum stofnunum. Stjórnvaldsákvarðanir skulu helst teknar af vísindamönnum og ef eitthvað er vísindalega skaðlegt, eins og majones eða tóbak, þá mega stjórnvöld skipta sér af því út í það óendanlega og ekkert skal til sparað.
Þessi hugsun er sífellt nærri og drifkraftur margs af því vitlausasta sem fram kemur í pólitík á hverjum tíma. Oft íklædd falskri skikkju jafnaðar, réttlætis og framfara. Að ég ekki tali um heilbrigðis. Það má kalla þessa vitleysu sósíalisma, kommúnisma eða einfaldlega alræðishyggju. Og þessi hugsun er það sem ógnar okkar nútíma samfélagi, menningu þess og hagsæld meira en nokkuð annað.
Í þriðja lagi:
MacCarty ofsótti fólk fyrir skoðanir þess. Í greinum mínum hef ég bent á það sem ég tel alvarlega vitlaust í okkar annars ágæta samfélagi. Á þessu tvennu er mikill munur og ég finn þess illa stað að ég hafi alið á fordómum eða fasisma. Og þó. Fasisminn er systir kommúnismans í ofstjórn á daglegu lífi fólks. Ef ég hef alið á fordómum í garð kommúnisma og fasisma þá ætla ég ekkert að kvarta undan því...
Í fjórða lagi:
Ég er mjög svag fyrir rjómatertum og kann vel við Valgerði Sverrisdóttur - en, nei, ég held ég hefði komið mér undan því í lengstu lög að fara í afmæli hjá ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2007 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)