Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Rangur misskilningur...

Flokksbróðir minn Hallur Magnússon bloggar um afsögn Guðna og hefur eitthvað misskilið fréttir þegar hann heldur að Guðni hafi staðið upp vegna ábyrgðar á bankahneykslinu. Það er ekki, enda hafa engir málsmetandi menn og jafnvel engir sem koma fram undir nafni haldið að hann beri þar veigamikla ábyrgð.

Þetta er gott dæmi um það sem vinir mínir í Hrútavinafélaginu kalla rangan misskilning!

Guðni stóð upp því að hann fékk ekki vinnufrið fyrir evrópukrötum sem ég hef alltaf talið að eigi heima í Samfylkingunni en ekki Framsóknarflokki. Hallur Magnússon var einn þeirra sem beinlínis krafðist afsagnar Guðna fyrir nokkru og það sama gerði formaður SUF á miðstjórnarfundinum.

Þau hljóta að vera ánægð núna? Er þetta ekki lyftistöng fyrir flokkinn? Við hljótum núna að sjá fylgistölurnar vaxa?


Til hamingju Valgerður!

Til hamingju Valgerður Sverrisdóttir með að vera orðinn formaður Framsóknarflokksins.

Ég get aftur á móti ekki óskað Framsóknarflokknum til hamingju með þessa breytingu. Vísir hafði eftir mér að ég hefði neitað að segja mig úr flokknum. Það er rétt, ég taldi ekki rétt að gera það í samtali við blaðamann Vísis og mun bíða átekta um sinn. En líkurnar á að það takist að endurreisa flokkinn þannig að Framsóknarflokkurinn verði fyrir framsóknarmenn, þær líkur eru minni en áður eftir atburði dagsins.

Líklega er það rétt hjá Guðna að eftirláta flokkinn því fólki sem hefur nú um langt skeið beitt öllum meðulum til að ná þar völdum. Leyfa þeim sem eyðilagt hafa flokksstarfið allt þetta kjörtímabil að spreyta sig. Kannski rís flokkurinn í höndum þessa fólks þegar við framsóknarmennirnir erum farnir.


Vilhjálmur er snillingur...

Líklega kemst enginn maður eins nærri því að vera snillingur í að hafa rangt fyrir sér eins og Vilhjálmur Egilsson.

Ef IMF lánið fæst ekki þá höfum við ekki peninga til að verja krónuna falli og fall hennar verður að einhverju leyti meira. Krónubréfin munu þá fara út á mjög lágu gengi. Hinir skynsamari munu bíða með að leysa þau til sín. En það mun ekkert sérstakt gerast þó IMF lánið komi ekki. Við aukinn útflutning mun gjaldeyrir svo safnast fyrir í landinu og þar með mun krónan hækka í verði samkvæmt venjulegum og ævafornum lögmálum framboðs og eftirspurnar. En það verður erfitt með erlent lánsfé fyrirtækja hvaða leið sem við förum - þar breytir IMF mjög litlu.

Það sem gæti gerst ef IMF lánið kemur er að það hverfi allt ofan í þá hít að mata krónubréf og gengisskráningu og við sætum fátækari eftir en ella.


mbl.is Ávísun á risagjaldþrot ef lán fæst ekki frá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á degi íslenskrar tungu...

...

Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
                                        (Ísland eftir Jónas Hallgrímsson)

Það er dagur íslenskrar tungu og fjölmiðlar segja frá því að við höldum upp á hann með því að stjórnmálaflokkar landsins verteri nú yfir í að verða ESB sinnaðir. Það er jafnvel talað um að samstaðan um málið sé svo mikil að það hafi ekki þurft að kjósa um málið á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Það hefur líklega sést á fundarmönnum hvað Evrópuvitundin var mikil og með sama áframhaldi getum við hætt kosningum. Mætir stjórnmálamenn sjá einfaldlega á fólki hvaða skoðanir það hefur. Hef sjálfur talað við menn sem sátu þennan fund og eru alveg rasandi yfir annarri eins túlkun á skoðunum sem aldrei komu til atkvæðagreiðslu á fundinum. Það var einfaldlega samþykkt að vísa málinu til flokksþings.

 


Hvenær er komið nóg, Edda Rós

Opið bréf til glaðbeittra bankamannaSæl Edda Rós KarlsdóttirÍ grein eftir þig sem birtist mánudaginn 10. nóvember gerir þú enn eina atlöguna að íslenskri krónu og leggur til að fyrsta skrefið endurreisn efnahagsins sé að skipta henni út fyrir evru.

Ég hef kunnað vel við margt í þínum málsflutningi en ekki þessa óbilgjörnu kröfu um gjaldmiðilsskipti. Ef farið væri að þeirri tillögu værum við að staðfesta til allrar framtíðar helmings eignatap íslenskrar alþýðu, jafnt þeirra sem skulda í evrum og krónum og ekki síður hinna sem skulda ekki neitt. Atvinnulífs og ríkis einnig.

Undanfarið hafa bankar landsins að Seðlabankanum meðtöldum farið þeim höndum um sparifé almennings að til fádæma hlýtur að teljast. Bláeygum bankamönnum var falið að ráðleggja ennþá bláeygari sparifjáreigendum að setja fjármuni sína í peningamarkaðssjóði og hlutabréf. Til þess að enginn efaðist um gildi þessa ráku bankarnir sérstakar greiningadeildir sem töluðu mjög fyrir traustri stöðu bankana.

Þú hafði þína stöðu í þessari mynd sem forstöðumaður Greiningadeildar Landsbankans.Valkostirnir í íslenskri hagstjórn eru aðallega tveir. Annar er að fara að þínum ráðum og gangast undir að evran kosti 195 krónur eins og kemur fram í grein þinni. Þá leggjum við allar íslenskar eigur fram á því verði. Fjölskyldan sem átti fyrir einu og hálfu ári 10 milljónir króna í sparifé gat þá skipt þeirri upphæð yfir í liðlega 100 þúsund evrur sem eru dágóður peningur. Nú fengi fjölskyldan aðeins helming þeirrar upphæðar í evrum talið eða um 50 þúsund evrur.

Þegar við bætist að bróðurparturinn af þessum 10 milljónum var að ykkar ráðleggingu geymdur í bréfum verður niðurstaðan sú að 100 þúsund evrurnar eru komnar niður í 30 þúsund evrur. Og gengistryggða íbúðarlánið sem hvílir á 20 milljón króna húsi fjölskyldunnar var lengst af á 18 milljónir en er nú 35 milljónir og verður fest í þeirri tölu með hinni tafarlausu upptöku evru sem þú talar fyrir nú. Jón á móti sem er með Íbúðalánasjóðslán fer snöktum betur út úr þessari breytingu en Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir landsmanna fara mjög sennilega á hliðina.

Hinn kosturinn í stöðunni er einfaldlega að þrauka og bíða þess að krónan hækki í verði því það mun hún gera. Það veistu sjálf. Eftir heiftarlegt verðbólguskot á komandi vikum, jafnvel misheppnaða tilraun til að verja gengið stóru falli við flotsetningu  kemur að því að krónan finnur sinn botn og mun eftir það rísa. Við þurfum vissulega einhver höft á gjaldeyrisviðskipti sem hvorki þér né öðrum markaðskrötum er sérstaklega að skapi. En það verður að hafa það. Krónan mun rísa á næstu árum, meðal annars vegna þeirra miklu auðlinda sem landið býr yfir og ráða til lengri tíma meiru en spákaupmennskufræði greiningadeilda.

Þegar við höfum náð gengisvísitölunni upp til að minnsta kosti hálfs þess sem hún hefur hrapað þá getur vel verið að íslensk stjórnvöld eigi að taka alvarlega umræðu um það að skipta út hinni íslensku flotkrónu, hvort sem það verður gert með bindingu við annan gjaldmiðil eða upptöku gjaldmiðils einhverrar vinaþjóðar. Miðað við nýjutu fréttir veit ég hvort hægt verður að telja evruþjóðirnar til vina okkar. En að tala fyrir gjaldmiðilsbreytingu sem fyrsta skrefi við núverandi gengisvísitölu er óvægin aðför að  sparifjáreigendum og gagnast engum nema þeim sem ólmir vilja taka annan hring á íslenskum sparifjáreigendum og efnahagskerfi.

Og ég sem hélt kannski að það væri komið nóg, Edda Rós. 

(Birt

í Morgunblaðinu 15. nóvember 2008)

Jú rétt,- nýtt viðmið í klaufaskap!

Hefi undanfarna daga lesið um mig sjálfan mig meira hrós en nokkrum manni er hollt. Þessvegna þótti mér svoldið hressandi að sjá blogg frá ísfirskum sjálfstæðismanni sem ég þekki svosem hvorki haus né sporð á. En það sem mig henti var fyrir utan að vera ótrúlega ófyrirleitið og rangt,- hreint og beint nýtt viðmið í klaufaskap...


Risaeðlan veltir sér...

Risaeðlur voru stórar skepnur og ég hef alltaf á tilfinningunni að þær hafi gert hlutina þunglamalega og hægt. Hefi samt aldrei séð slíka skepnu nema ef vera skyldi að Sjálfstæðisflokkurinn sé ein slík.

Nú er komið að þeim tímapunkti að skepna þessi velti sér og hún hefur  misst alla þá snerpu sem hún hafði á velmegtardögum sínum, feit og pattarleg hjá Davíð frænda mínum. Hún er orðin kviðsigin og hölt og ætlar að taka mánuði í að snúa sér í Evrópumálunum. Og gerir það afþví að finngálknið Ingibjargar hótar annars að klóra hana.

Kostulegast í þessum veltingi var að hlusta á viðtal við ESB sinnan Baldur Þórhallsson sem greinilega gleymdi að það var kallað á hann sem fræðimann en ekki áróðursmeistara. Orðrétt sagði Baldur að það "myndi valda miklum kurri" innan Sjálfstæðisflokksins ef ekki yrði tekin upp ESB-inngöngu stefna í flokki þessum. Fræðimaðurinn gleymdi alveg að margt af venjulegu Sjálfstæðisfólki sem ég þekki verður afar óánægt ef flokkurinn snýr af sinni sjálfstæðisstefnu. En það fólk kurrar vitaskuld ekki, það talar. Það er helst kötturinn minn sem kann að kurra og berast nú enn böndin að honum að hann sé evrópusinni, afmánin s´varna. 

Kurr kurr - segja ESB sinnarnir og þá fyrst er nú umræðan djúp.


Augljóslega rétt hjá Aliber

Þetta er augljóslega rétt hjá Aliber og í fullu samræmi við það sem aðrir óháðir hagfræðingar hafa haldið fram.

Það þarf kjark til að fylgja þessari stefnu enda mun fylgja henni skammvinn óðaverðbólga. En það mun líka fylgja þessari ákvörðun að þjóðin fær von, þó ekki sé fyrir annað en að finna að hér sé ríkisstjórn sem þorir. Á næsta ári færi svo gengið að stíga og jafnvægi að skapast. En kannski bjartsýni að núverandi stjórn sé sú að hún þori nokkru.

Allavega - þetta er þúsund sinnum betra ráð en að beygja sig fyrir Bretum og fela "vinaþjóðum" okkar fullveldi landsins í gegnum ESB aðild.

Það var ljós í Stjórnarráðinu þegar ég fór þar framhjá áðan. Ég hef áhyggjur af að það boði ekkert gott.


mbl.is Gætum hæglega sleppt IMF-láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga úr kreppunni og öflugur forseti!

Ég veit ekki hvort hún var einstæð móðirin fyrir framan mig á kassanum í Nóatún. Ca. 8 ára stelpa og 5-6 ára strákur voru með henni. Þetta var ekki mikið sem hún var að kaupa en þar á meðal var steiktur kjúklingur. Þegar kortinu hennar var rennt í gegn kom synjun. Ekki næg innistæða. Hún átti ekki 4.400.- krónur og ekki kominn miður mánuður. Hún horfði á krakkana og sagði að þau þyrftu að skila einhverju. „Mamma, við skulum bara skila kjúklingnum"! sagði strákurinn ákveðinn. Reikningurin 1.290.- lægri og debetkortið samþykkt. Ég horfði á eftir þeim á leið út úr búðinni, konan hokin og þreytuleg, krakkarnir þöglir og alvarlegir í framan.

Eftirfarandi frásögn er af bloggvef Ævars Kjartanssonar, mjög sláandi saga og segir meira en þúsund skýrslur. Ævar er einn þessara bloggara sem ég les oft en er samt ekki nema stöku sinnum sammála.

Þessi börn eiga þessa minningu um kreppuna þegar þau verða sjálf hokin af aldri eftir hálfa öld. Það er aftur á móti spurning hvort þau muni nokkru sinni fást til að segja frá þessum sárindum fátæktarinnar. Við skulum strax gera okkur grein fyrir að meðan sparsemi og nurl er bæði fallegt og skemmtilegt er fátæktin sár, grimm og slær með andstyggilegum hætti.

Ég vil svo hvetja alla til að hlusta á Kastljósviðtal við Ólaf Ragnar Grímsson. Að vísu alltof langt og mikill malandi eins og oft hjá okkar ágæta þjóðhöfðingja en viðtalið gefur samt von um að það séu til stjórnmálaleiðtogar í þessu landi sem þora að standa á íslenskum hagsmunum og tala fyrir þeim. Og við skulum hafa það hugfast að enginn stjórnmálamaður hefur jafn afdráttarlaust lýðræðislegt umboð frá þjóð sinni...

 


Skrípó fjölmiðlar

Ekki get ég nú kvartað yfir að fjölmiðlar vilji ekki tala við mig - hvorki nú né heldur fyrir hina dramatísku atburði vikunnar.

En fjölmiðlar eru skrípalega mikið á mála hjá Samfylkingunni. Nú var fyrsta frétt hjá Stöð tvö að Ingibjörg Sólrún vilji í ESB. Svaka frétt. Og ein aðalfréttin hjá RÚV að það standi til að skera niður í Utanríkisráðuneytinu. Staðreyndin er samt sú að meint niðurskurðartillaga Ingibjargar Sólrúnar gerir ráð fyrir meiru í málaflokkinn heldur en er ráðgert að fari í málaflokkinn á yfirstandandi ári.

Það er enginn vandi að leggja bara til nógu galna hugmynd í upphafi og skera hana svo niður. Og ef maður er með alla fjölmiðla í bandi verður þetta enn auðveldara.

Á blaðsíðu 268 í fjárlagafrumvarpinu frá í haust kemur fram að útgjöld Utanríkisráðuneytis voru um 7,5 milljarður 2007, verða 8,9 samkvæmt síðasta frumvarpi og það er reiknað með 11,4 milljörðum í frumvarpinu. Það er talan sem Ingibjörg ætlar að skera niður um 2,3 milljarða. Allt er þetta galskapur hinn versti og vel hægt að skera þessi útgjöld niður í alvörunni, a.m.k. niður í það sem var í Valgerðartíð 2007!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband