Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Landráð af gáleysi og varasamir atvinnupólitíkusar

pallskula_1779986519Mér er auðvitað oft orðs vant. Oftast yfir einhverju sem er svo yfirgengilega vitlaust að ég verð klumsa. En einstöku sinnum vegna vits. Og þannig er mér farið þegar ég hlusta hér á tölvuskömminni á viðtal Evu Maríu við Pál Skúlason háskólarektor fyrrverandi. Hér er á ferðinni betri og merkari úttekt á vandamálum okkar samfélags.

Eitt af mörgu merkilegu er það sem Páll segir um atvinnupólitíkusa, annað um einokunina, enn annað um flokkakerfið en ég orða þetta aldrei eins vel og Páll. Svakalegast þó þegar Páll talar um landráð af gáleysi! 

Semsagt - allir ættu að hlusta, linkurinn er hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4454024/2008/12/28/


Engeyjarætt sem starir í stjörnunar!

Glæstra tíma minnast má
mjög er horfið sparifé.
Staurblönk þjóðin starir á
stjörnurnar í ESB.

Vísan svarna sem er giska góð barst mér ofan úr Hrepp og verður þá einhverjum sveitungum mínum að orði eins og faríseum forðum, hvenær kom eitthvað gott ofan úr Galíleu. Held að höfundur sé Helgi Jóhannesson garðyrkjufræðingur frá Hvammi.

En úr ólíklegustu átt kemur nú það ráðleysi að telja stjörnur þessar allra meina bót og þula sú höfð yfir eins og mantra. Ein slík grein barst úr penna Benedikts í Talnakönnun sem skipað hefur sess í harðasta vígi Sjálfstæðismanna. Var lengi meðal nánustu samstarfsmanna Davíðs og er af Engeyjarætt.

Greinin sem skrifuð er í háði um krónuna dæmir sig sjálf. Allir sem vilja sjá að skuldavandi verður ekki leystur með því að breyta um heiti á gjaldmiðli og lengsta og torfærasta leiðin að gjaldmiðlaskiptum er í gegnum ESB.

Kostulegast er þó að sjá Benedikt afgreiða íslenska hagstjórn síðustu 90 ára sem ein samfelld mistök! Hér er nú öllu mjög turnað. Staðreyndin er að þegar krónan var tekin hér í notkun fyrir um öld síðan vorum við Íslendingar fátækastir allra Evrópuþjóða en erum nú með þeim ríkustu. Afdrifarík hagstjórnarmistök síðustu 20 ára skrifast í smæstu á krónuna en að stórum hluta á EES samninginn og verður ekki bætt fyrir með því að ganga þeirri endaleysu enn frekar á hönd. Hitt er svo fylgifiskur þess að reka mjög smátt hagkerfi að þar verða sveiflur mjög miklar og sveiflujöfnun hagkerfisins mjög lítil. Slíku hagkerfi er ekki endilega greiði gerður með því að afneita sveiflunum með fastgengisstefnu eða erlendum gjaldmiðli.


Apakóngur lokar bókakaffi

5699-400 Sunnlenska bókakaffið er lokað í dag, laugardaginn þriðja í jólum enda liggja bóksalarnir uppi í rúmi handan götu og lesa Apakónginn og aðrar gersemar jólabókaflóðsins.

Apakóngur á silkiveginum er eitt af stórvirkjum þessara jóla og í kaupbæti fallegasti prentgripurinn. Á jóladagsmorgun vaknaði einn bóksalanna í Sunnlenska bókakaffinu upp við afmælissöng og var síðan skenkt þessu fjallþunga sýnishorni kínverskrar frásagnarlistar.

Þetta eru alþýðubókmenntir og upphaflega til orðnar á tehúsum Han-þjóðarinnar. Hér segir af köppum og klækjarefum, pólitískum loddurum og allskonar illþýði. Það er kínafarinn Hjörleifur Sveinbjörnsson sem þýðir úr kínversku, velur efni og ritar merkan formála.

Þríríkjasaga er sú fyrsta og segir frá valdabaráttu við Langá þeirra Kínverja, blauðum ráðgjöfum og ráðsnjöllum herforingjum. Pólitískar senur í samræðum og ráðabruggi eru ekki síðri en við þekkjum í Sturlungu og brenndar því sama marki að hér grautast saman mikill skari höfðingja svo stundum er erfitt að greina hver er hvurs í þeim efnum. Enda heita kapparnir nöfnum sem renna svilítið saman eins og Lu Su, Lius Bei, Ci Meng, Cheng Pu, Zhou Dai, Lin Tong, Cheng Zi og ekki má gleyma erkiskálkinum Cao Cao.

Engu að síður renna þessar sögur frábærlega í lestri og víða má finna þráð milli þessara sagna og miðaldasagnaarfs okkar Íslendinga þó svo að allt sé hér heldur stærra í sniðum en við Flóabardaga og jafnvel Svoldarorusta verður hálfvegis afdalaleg í samanburðinum.

Sunnlenska bókakaffið opnar svo að afloknu jólafríi klukkan 12 á mánudag og verður eftirleiðis opið 12-18 virka daga en 12 - 16 á laugardögum. 


Gleðileg jól!

Kæru lesendur, vinir, ættingjar, pólitískir samherjar innan sem utan flokka, S5001116bloggarar,  guðs börn og hirðar þeirra, hugsuðir, mótmælendur, vættir, bókaormar, þjóðfrelsismenn, framsóknarmenn, alþingismenn, sunnlendingar, kjósendur, dakar-menn, viðskiptavinir í Bókakaffinu, rithöfundar, skáld, kaffigerðarmenn suður með sjó, jólabörn, samherjar í baráttunni og systkin í þjáningunni, og öll þið hin; gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Þakka stuðning og liðnar ánægjustundir.

Hefjum nýtt ár með nýrri baráttu.

Bestu kveðjur af Sólbakkanum

Bjarni Harðarson bóksali


Ísland er flokksveldi segir Njörður P - en Sleggjan blívur!

Má til með vekja athygli á afar góðri grein Njarðar P. Njarðvík prófessors í Fréttablaðinu í gær (http://vefblod.visir.is/index.php?s=2675&p=67592) um flokksveldi og lýðveldi. Njörður fer hér með skuggalega rétt mál og nefnir einmitt hvernig Alþingi stjórnmálaflokkanna er afgreiðslustofnun og raunar er það svo að oft eru það tveir menn sem ákveða í tveggja manna tali hvernig afgreiðsla Alþingis á veigamiklum málum er.

Var ekki samið um EES aðildina í tveggja manna tali úti í Viðey, milli Davíðs og Jóns Baldvins.

Stríðsþátttöku þjóðarinnar í Írak í tali Davíðs og Halldórs. Og auðvitað margt fleira.

Að ekki sé talað um hvernig þingið er nú teymt í sambúð Geirs og Ingibjargar, í ótalmörgum málum.

Í öllu þessu get ég ekki stillt mig um að lýsa yfir aðdáun minni á Kristni H. Gunnarssyni sem myndar nú eins manns þingflokk og talar fyrir sannfæringu sinni óbjagaðri í hverju málinu á fætur öðru. Bæði við vantrauststillöguna og nú í eftirlaunamálinu. Ég er ekki að segja að ég sé alltaf sammála Kristni en mér er alvara með að við þurfum að hafa Alþingi með 63 sjálfstæðum þingmönnum. Þar með væri úti um hreðjartak framkvæmdavaldsins yfir löggjafarvaldinu.

Og smá bókablogg, annars má ég ekkert vera að blogga núna, ég var búinn að lofa Elínu að skúra! En lesið Annus Horribilis eftir Hugleik Dagsson, það er ekki verri úttekt á kreppunni en margt annað og bráðskemmtileg sem er meira en sagt verður um aðrar kreppu-fréttaskýringar.


Amtmaðurinn sem kallast á við nútímann

amtmadurinnBurtséð frá ágæti bóka þá eiga þær mismikið erindi við okkur og einhvernveginn ekkert sjálfgefið að raunasaga af norðlenskum amtmanni á fyrri hluta 19. aldar eigi mikið erindi við okkur börn 21. aldarinnar. En samt er það einmitt þannig.

Bók þessi, Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarbort er snilldarlega vel gerð bók og læsileg. Kannski ekki skemmtileg í þeim skilningi að vekja oft hlátur, enda saga Gríms mikil raunasaga en sagan er afar grípandi. Meðferð heimilda einkennist af vandvirkni án þess þó að hin fræðilega hlið beri efnið ofurliði.

En það dýrmætasta við bókina er samt að hún á mikið erindi við okkur í dag. Hér er sagt frá raunum þeirra manna sem veltu fyrir sér sjálfræði Íslands, möguleikum þess og erfiðleikum á tímum þegar fáir trúðu að Ísland gæti staðið á eigin fótum. Sagan gerist að mestu áður en áhrifa Jóns Sigurðssonar fór að gæta og hér kynnumst við ótrúlegu flækjustigi umræðunnar um sjálfstæði landsins. Einmitt þetta flækjustig á erindi við okkur í dag þegar reynt er að gera hugtakið fullveldi að einhverju óskiljanlegu og hanga á orðhengilshætti þegar talað er um sjálfstæði landsins.

Örlög Gríms, þrátt fyrir þjóðhollustu, verða líka þau að verða að skotspæni þeirra manna sem vildu mótmæla og mótmæltu þá næsta handahófskennt. Gerðu hróp að dómkirkjupresti, rektor og loks amtmanni enda landið undir erlendri stjórn og því erfitt um vik að gera hróp að hinum raunverulegu valdhöfum. Í dag er mikill áhugi á mótmælum og við mótmælendur þessa lands að því leyti til betur settir að geta mótmælt raunverulegum valdhöfum þó sumir vilji þar fara húsavillt líkt og landar okkar fyrir hálfri annarri öld.


Göldróttur sunnudagur

baldur-6Galdramenn heiðra Sunnlenska bókakaffið sunnudaginn 21. desember og kynna um leið göldrum prýdda bók, Töfrum líkast sem er ævisaga Baldurs Brjánssonar. Bókarhöfundurinn Gunnar Sigurjónsson hefur í tilefni af komu sinni á Selfoss bruggað galdur sem er sérstaklega saminn með sunnlenska Framsóknarþingmenn í huga og verður hann frumsýndur í Bókakaffinu af þessu tilefni. Uppákoman hefst klukkan 15 en Sunnlenska bókakaffið er opið þennan dag frá klukkan 12 - 22.


Stórvirki Jóns í Vorsabæ og snilld Guðbergs

Þó fjöldi sunnlenskra bóka í ár svari ekki að öllu leyti til íbúafjölda á Suðurlandi er eitt mesta stórvirki þessara jóla komið hér af Suðurlandi og það úr hjarta landbúnaðarsveitanna, frá Jóni Eiríkssyni bónda í Vorsabæ á Skeiðum, Jarðabók Skeiðahrepps. jardabok

Bókin er nú loksins komin í sölu í Sunnlenska bókakaffinu og kostar litlar 14.990 en er þó miðað við þyngd ein ódýrasta bók hússins. Bók þessi er prentuð á Indlandi og vegna aðstæðna á þessu hausti dróst að hún kæmist í skip. Um tíma var óttast að Sómalskir skæruliðar kynnu að ná kjörgrip þessum á sitt vald og örugglega gert sér mat úr. En úr öllum hættum var verki þessu borgið og komst á Reykvískan hafnarbakka fyrir þremur dögum og samdægurs hingað austur. Og við erum hér að tala um  bók sem unnið hefur verið að í sex áratugi...

Jón hefur frá því snemma á fimmta áratug tuttugustu aldar fengist við söfnun og skráningu örnefna í sinni heimasveit. Mun óhætt að fullyrða að fáar sveitir á Íslandi hafa í þessum efnum notið eins mikillar natni. Nú kemur þetta æviverk Jóns út á bók sem er stór bók og  í  stóru broti og er öll hinn mesti kjörgripur. Hér að finna litprentaðar loftmyndir  af gudberguröllum jörðum sveitarinnar ásamt örnefnaskýrslum þar sem fjallað er um hvert örnefni. Ennfremur gerir höfundur grein fyrir helstu þjóðleiðum um Skeið og nálægar sveitir á liðnum öldum, rakin saga Skeiðahrepps á 20. öld og í bókarbyrjun er almenn sveitarlýsing. Með hverri jörð er getið ábúenda allra jarða allt frá árinu 1703 og sagt frá breytingum á búskaparháttum síðustu 100 ára í máli og myndum.

En þegar hugurinn þreytist á að þræða sig eftir fornum þjóðleiðum og örnefnasögum Skeiða og Flóa er góð tilbreyting að lesa Guðberg Bergsson sem eins og fyrri daginn kemur lesendum sínum á óvart. Nú með barnabók sem er samt ekki við hæfi barna, en um leið uppeldisbók sem ég er ekki viss um að sé við hæfi kennara eða foreldra - en er samt bók sem á samt erindi við okkur öll. Börnin í tossabekk leggja hér í mikið ferðalag hugmynda, fordóma, sleggjudóma og hitta fyrir sinn eigin ótta, hugaróra og fíflsku í bráðskemmtilegri ferðasögu um þessa og annars heims kjallaraherbergi skólans.


Við höfum skyldur við börn okkar og barnabörn

Góðir tilheyrendur

 

Ég vil byrja á því þakka forsjóninni fyrir jólalegt veður á þessum degi, yfirvöldum fyrir að leyfa okkur að koma hér saman og Landsbankanum fyrir að vera hér á þessum stað. En þá er nú búið með þakkirnar.

 

En við erum samt ekki komin hér saman vegna einhvers þakklætis eða af þeirri auðmýkt að vilja kyssa á vöndinn. Slíkt höfum við gert nógu lengi í góðri trú um að allt væri nú á þokkalega réttu róli. Og við höfum verið höfð að fíflum.

 

Kannski er okkur þess vegna ekki of gott að þola nokkrar kárínur eigin fíflsku, þola nokkra skuldabyrði eftir að hafa mörg hver dansað með gagnrýnislítið um gullkálfinn. Og megum nú einnig þola að útlendingar brosi í kampinn og telji Íslendinga einhverskonar aulabárða sem við með nokkrum hætti vorum.

 

En jafnvel þó værum nú tilbúin til að kyssa vöndinn í skömm þess sem veit sig hafa brugðist þá berum við hér aðrar og meiri skyldur. Við höfum skyldur til að skila af okkur öðru til barna okkar og barnabarna en drápsklyfjum skulda og óuppgerðar sakir.

 

Okkur sem nú erum um og undir miðjum aldri var skilað íslensku þjóðarbúi í því fari að og við þá vaxtamöguleika að allt horfði nokkuð vel. Raunar bar okkur ekki erfiðara hlutskipti en að halda þeirri ávöxtun, fordjarfa ekki því sem okkur var falið og tókst lengst af bærilega. Hvenær okkur bar af leið frá þeirri leið ætla ég ekki að fullyrða en aðdragandi þess var nokkurra ára. Hann var ekki bara við síðustu stjórnarskipti og mig grunar raunar að fara þurfi lengra aftur en til stjórnarskiptanna þar á undan, eða að minnsta kosti 20 ár aftur í tímann. Um þær markalínur verða menn aldrei alveg sáttir enda ekki aðalatriði. Þó svo að uppgjörið skipti ekki aðalmáli þá þarf það að fara fram. Þjóðarsálin verður aldrei hrein nema loftað verði út og farið yfir af einlægni og heiðarleik. En ég segi ykkur, þetta er samt ekki aðalatriði.

 

Aðalatriðið er að óráðvendnin og sukkið nemi staðar. Að við fáum réttlæti í núinu. Að þeirri ósvinnu verði hnekkt að þeir menn sem fremst gengu í græðgisvæðingu undanfarinna ára haldi áfram að braska með líf okkar og eigur. Því hver á þau atvinnutæki, þær verslanir, þær flugvélar, þá kontórana og faktoríur sem velt hafa þúsund milljörðum yfir á herðar almennings. Nema almenningur sjálfur sem nú tekur á sig ábyrgð af öllu saman. Og hvenær fær að fara saman í landi okkar ábyrgð og völd. Í stað þess að hreinsa hér til hafa yfirvöld í landinu rétt sömu öflum sama matadorinn og bera því við að það þurfi hér menn með innsýn í hlutina. Þar ræður meiru sjónarmið reddinga en réttlætisins og það er aldrei farsælt.

 

Eftir því sem lengra líður án þess að hér sé gripið inn í aukast líkurnar á að sömu menn geti öðru sinni hagnast og auðgast á auðmýkt okkar, þægð og lítilþægni. Og ætlum á sama tíma að kyssa á vönd okkar fornu eljara á Bretlandseyjum,- nokkuð sem óhugsandi hefði verið í tíð þeirra stjórnskörunga sem hér leiddu landhelgisstríð þjóðarinnar til sigurs. Við áttum hér jafnvel þá skörunga sem stóðu upp í hárinu á þriðja ríkinu en nú gúlpna íslenskir ráðamenn gagnvart breskum krötum.

 

Við lifum í litlu landi þar sem hagsmunavefir liggja víða. Við völd eru nú tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsmanna og ef til vill fylgir sá böggull því skammrifi að því stærri sem flokkarnir eru því fleiri þræðir liggja um þeirra hús. Víst er að sá hlífiskjöldur sem stjórnvöld halda yfir útbrunnum útrásarvíkingum þessa lands er miður heppilegur og rýrir stjórnvöld og það traust sem þau þurfa að búa við á erfiðum tímum.

 

Það er fleira sem rýrir traust stjórnvalda og þá einkanlega það algera andvaraleysi sem hefur einkennt ráðamenn um langa hríð. Fyrir liðlega ári síðan, eða nánar tiltekið um 15 mánuðum, komu upp raddir um að ef til vill væri byggingaiðnaðurinn að stefna þjóðinni í ógöngur. Verið gæti að húsin væru að verða alltof mörg miðað við þarfir markaðarins. Sjálfur komst ég svo nærri valdastofnunum landsins á þessum tíma sem þingmaður í stjórnarandstöðu að ég gat lagt þá spurningu fyrir starfsmenn úr efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og spurði þá hverju það sætti að deilur væru um þessar tölur. Hvort flókið væri að telja fjölda íbúðanna og fjölda landsmanna og komast að hinu sanna. Svar embættismanna ráðuneytisins var að þetta væri sáraeinfalt, hefði verið gert og ekkert benti til að neitt væri að, framboð og eftirspurn í eðlilegum farvegi. Hver er ábyrgð þessara útreikninga á því hvernig nú er komið fyrir byggingariðnaði okkar landsmanna. Þar með afkomu og atvinnu fjölmargra verktaka, bæði smáfyrirtækja og stærri. Þar er um að ræða vandamál sem mjög brennur á okkur Selfyssingum.

 

Aðstæður nú kalla á endurmat og þær kalla á naflaskoðun. Og þær kalla fram miklar hættur. Fjölmargir vilja nota sér bágar aðstæður okkar til að koma okkur enn verr en þegar er orðið. Verum þess minnug að með samtakamætti þjóðarinnar, samvinnu einstaklinga, stétta og fyrirtækja sem og öfgalausri sýn á hlutina tókst okkur Íslendingum að vinna okkur frá því að vera langfátækasta þjóð Evrópu yfir í það að vera þar í fremstu röð. Sá sigur náðist þrátt fyrir smæð landsins, hrakspár margra og þó svo að þeir sigrar sum unnust hafi verið algerlega órökréttir. Hér sannaðist sem fyrr að trúin flytur fjöll. Og þrátt fyrir áföll nú erum við enn í framvarðasveit þeirra þjóða sem hvað best lífskjör hafa.

 

Við getum tapað þeirri stöðu og við getum haldið henni. Allt eftir því hvernig haldið verður á málum í gegnum brimskafl komandi árs. Þar skiptir mestu að í landinu verði nú sem fyrr stjórnvöld sem trúa á íslenska þjóð og trúa á gildi þess að réttlætið ríki framar ómerkilegum reddingum.

 

(Ræða flutt á útifundi við Landsbanka Selfoss 18. desember 2008)


Borgaraleg mótmæli á Selfossi í hádeginu

Veit ekki hvað það er langt síðan haldinn hefur verið mótmælendafundur hér austanfjalls. Kannski ekki frá því í Áshildarmýrinni hér um árið en allavega efna nokkrar valkyrjur hér í bæ til útifundar við Landsbankann klukkan 12:30 í dag. Sjálfur verð ég þar meðal ræðumanna en auk þess Sigríður Jónsdóttir skáldkona og Elín Björg Jónsdóttir verkalýðsleiðtogi.

Mætum öll.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband