Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Húspostilla vorra tíma
17.12.2008 | 21:16
Evrópuvitund heitir ein af jólabókunum í ár, gefin út af stofnunum Háskóla Íslands. Hér er komin húspostilla vorra tíma því bók þessi hefur að geyma mikilsverðar trúarjátningar þeirra sem vilja gera það sem höfundar í kveri þessu kalla Evrópu-rétt, ekki þó í því samhengi hvað tilheyri lagabálkum eða réttarfari heldur í samhenginu hvað sé rétt og hvað sé rangt út frá Evrópu. Grein um þetta ber semsagt heitið: "Evrópurétt" og "Evrópu-rangt": Hvernig hægt er að klúðra innleiðingu evrópskra tilskipana í íslenskan rétt. Útfrá sömu sjónarmiðum væri þá kannski hægt að tala um Íslands-rétt og Íslands-rangt og þykir örugglega frekar hallærislegt.
Fyrir heiðingja á akrinum eins og undirritaðan er einnig fróðlegt að lesa rit þetta til þess að kynnast þeim framandi þankagangi sem þarf til að gera stjórnsýslufræði að trúarbrögðum. Í heilli grein er fjallað um evrópuvitund utanríkisráðherra Íslands - kemur ekki á óvart að Davíð karlinn er þar talinn heldur vitundarlítill!
Ritið er skrifað í kansellístíl sem hæfir vel efninu og víða í því er að finna sögulegar réttlætingar t.d. þar sem leitað er uppruna Evrópuhugsjóna í frumkristni, Rómverska heimsveldinu og grískri fornmenningu. Bók þessi er nauðsynleg öllum Evrópu-réttþenkjandi heimilisfeðrum til upplestra á kvöldvökum.
En nú hefur mér semsagt tekist að blogga um bækur og pólitík í senn og líklega mál að linni. Vil samt í lokin minna á upplestrarkvöldið í Sunnlenska bókakaffinu annaðkvöld, klukkan átta, en þá mæta til okkar Þórhallur Heimisson, Heimir Már Pétursson, Úlfar Þormóðsson og Hallur Hallsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Furðuleg kveðja frá Helgu Sigrúnu
17.12.2008 | 12:25
Helga Sigrún Harðardóttir sendir mér heldur kaldar kveðjur á bloggsíðu sinni í gær undir fyrirsögninni Étt´ann sjálfur Bjarni Harðarson. Þó ég kunni vel við hreinskilni og tæpitungulausa orðræðu held ég einhvernveginn að pistlar eins og þessir dæmi sig sjálfir. Fyrir utan að vera uppfull af reiði í minn garð leyfir Helga sér að fara með margskonar ósannindi, furður og endaleysur um mig og meintar hugsanir mínar. Slíkt verður hún að eiga við sig.
Það er auðvitað rangt að ég hafi lært á tölvu hjá Helgu Sigrúnu, að ég hafi skipt um skoðun í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum vorið 2007, að ég hafi reynt að bola Jóni Sigurðssyni frá formannsstóli, að ég hafi ekki rætt málin við Helgu Sigrúnu, að naflinn á mér sé eitthvað óvanalegur, að ég aðhyllist baktjaldamakk og trúi á samsæriskenningar, gruni menn um græsku og hafi haft uppi dólgshátt á fundum. Það voru aðrir sem það gerðu, Helga! Og um græsku varstu ekki grunuð heldur staðin að verki.
Og það er rangt, Helga, að kjósendur Framsóknarflokksins hafi ákveðið að losa sig við okkur Guðna Ágústsson og fá aðra í staðin. Flokkseigendafélag sem gerir mönnum óvinnandi túlkar ekki vilja kjósenda. Og ég hef hvergi gefið svo mikið sem í skyn að ekki eftir neitt heiðarlegt fólk í Framsóknarflokknum. Allt er þetta tilhæfulaust með öllu. En ég hef haldið því fram að þeir sem voru á póstlista Jóns Sigurðssonar fyrrverandi formanns hafi stundað óheiðarlega undirróðursstarfssemi í flokknum í formannstíð Guðna Ágústssonar. Það er ekki samsæriskenning, það styðst við gögn sem lögð hafa verið fram og er staðfest í viðtali við Jón sjálfan.
Kostulegast er þó þegar þingmaðurinn Helga Sigrún beinir spjótum sínum að Guðna Ágústssyni og raunar flokki þeim sem hún hefur starfað fyrir. Segir í fyrri hluta pistilsins að aldrei hafi neinn reynt að hafa áhrif á hana innan flokksins og sjálf sé hún alsaklaus af því að hafa staðið í illindum við fyrrum formann flokksins. Segir síðan:
Þá má spyrja sig um það hversu vel formaðurinn var í stakk búinn að standa undir hlutverki sínu og hvort hann lagði ekki sjálfur, með dyggri aðstoð Bjarna sjálfs drög að eigin falli? Ég varð vitni að því þegar menn voru kallaðir á teppi formannsins ef þeir höfðu frumkvæði að því að birta eigin hugmyndir án þess að formaðurinn hefði lagt blessun sína yfir þær. Sumum sagt að hætta að skrifa í blöðin. Öðrum sagt að formaðurinn réði. Punktur. Og fylgið féll.
Semsagt, flokkurinn var gallalaus, enginn reyndi að hafa áhrif á Helgu Sigrúnu í öðru orðinu en svo kemur visnúningur í greinina sem ég hélt að enginn nema Ragnar Reykás réði við. Skyndilega er það fjöldi manna sem verður fyrir grímulausri kúgun Guðna Ágústssonar sem bar þar með ábyrgð á fylgishruni flokksins. Þetta eru þvílíkar staðleysur að engu tali tekur.
Fer nú að hætta þessu enda til efs að ég eigi að svara í þessu tilfelli. Sé ekki betur en að meira að segja flokksskrifstofa Framsóknarflokksins skammist sín hálfvegis fyrir pistil þennan því þar hefur tilvísun á hann verið tekin út í dag og annar eldri settur í staðin. En í miðri greini Helgu Sigrúnar er eftirfarandi sem ég eftirlæt lesendum að dæma og halda það sem þeir réttast telja:
Halda menn í alvöru að Halldór Ásgrímsson hafi ekkert betra við sinn tíma að gera en að fjarstýra Framsóknarflokknum frá Kaupmannahöfn? Halda menn í alvöru að Jón Sigurðsson hafi verið strengjabrúða þegar hann gekk út úr Seðlabankanum og bauð sig fram til formanns og til Alþingiskosninga?
Vaxandi Sjón og nakinn Heimir Már
17.12.2008 | 00:51
Það er ljúfara að blogga um bækur en pólitík og þessvegna blogga ég núna um tvær nýjar skræður sem liggja hér í púltinu hjá mér.
Rökkurbýsn eftir Sjón er bók mikillar kápu og mikillar eftirvæntinga. En kannski vegna þess að verðlaunabókin Skugga Baldur stóðst ekki fyllilega væntingar mínar þá tók ég þessa fram með nokkurri tortryggni. En nú hef ég tekið þennan sveitunga minn á Bakkanum í sátt. Tök hans á sautjánda aldar fræðimanninum Jóni lærða eru meistaraleg og um leið óvanaleg. Hér er fjallað um Maríudýrkun á öld siðbótar, víg útlendra skipbrotsmanna, baráttu við drauga og endalaust stríð mannsins við magt myrkranna. Athyglisverð pæling. Fær allavega 7.
Svo er það Heimir Már Pétursson sem birtist nakinn, nei grínlaust, það er bókin hans sem heitir Nakinn og er ljóðabók, líklega sú fimmta frá höfundinum sem er þekktari þjóðinni sem fréttamaður. Ég kann varla að gefa ljóðum einkunnir en giska á 7 og bendi lesendum á að dæma sjálfir, með lestri þessa sýnishorns hér á eftir eða með því að mæta í Sunnlenska bókakaffið á fimmtudagskvöldið þar sem skáldið verður ásamt þeim Úlfari Þormóðssyni, Halli Hallssyni og Þórhalli Heimissyni á síðasta upplestrarkvöldi vikunnar.
Líklega dregur bókin nafn af eftirfarandi:
Nakinn strákur
Nakinn strákur á stríðum hesti
hleypir yfir gula akra
út dalinn
móti sól
aftur og aftur
alltaf að fara
þegar ég vakna og man
að langt er um liðið...
Fallegur hestur
Þetta er fallegur hestur
þessi blái þarna
sem frýsar innan um þá hina
verst hvað hann haltrar
og tefur sláturhússtarfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Syninum fórnað fyrir mannorð ritstjórans
16.12.2008 | 11:27
Breyttur leiðari DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur í gíslingu S - hópsins
16.12.2008 | 09:45
Sá sem hér ritar hefur fyrr vikið að þeim óheiðarleika blaðamanna Baugsmiðla í landinu að leggja hvern þann stjórnmálamann í einelti sem talað hefur af einurð gegn ESB aðild Íslands. Þar gengur blað Jóhanns sínu lengst eins og gleggst kemur fram í frámunalegum skrifum um Seðlabankastjóra. Fráfarandi formaður Framsóknarflokksins hefur ekki farið varhluta af rógskrifum þessum og á sama hátt hafa blöð Baugsmanna ítrekað hælt og hampað bæði Samfylkingarkrötum og þeim hluta Framsóknarflokksins sem er fylgispakur útrásarvíkingum í sínum ESB áróðri.
Það kastar þó tólfunum þegar í sömu grein er kallað eftir afsögn manna vegna mistaka í starfi en þeir sem þá leið fara eru í hinu orðinu sakaðir um að smokra sér undan refsingu! En til þess að almenningi gefist nú kostur á þeirri refsingu sem blaðamaðurinn telur maklega er rétt að undirritaður ræði umrædda tölvupóstsendingu því ekkert er betur fallið til krossfestingar en að hinn seki verji málstað sinn.
Óþarfa afsögn og afbrotin verri
Enda er það svo að margan hefi ég hitt sem taldi afsögn mína algerlega óþarfa og að þarflausu miðað við umfang brots. Síðan hún átti sér stað hafa enda komið upp á yfirborðið þær aðrar bréfasendingar millum manna í Framsóknarflokki sem lýsa miklu einlægari brotavilja gagnvart flokkssystkinum. Ber þar hæst tölvubréf sem Jón Sigurðsson fráfarandi formaður hefur ritað völdum hópi samherja innan flokksins þar sem beinlínis er lagt á ráðin um aftöku þáverandi formanns, Guðna Ágústssonar.
Slag í slag voru þannig send skilaboð um hvar menn verði að sýna samstöðu í að mótmæla orðum formanns og jafnvel skipulagt út í æsar hverjir fari fram á tilteknum fundum vegna tiltekinna mála. Nægir hér að vísa í umfjöllun í blaði Jóhanns Haukssonar, DV. Að þessum vinnubrögðum komu á þeim tíma bæði varaformaður flokksins, ritari, framkvæmdastjóri, skrifstofustjóri og fleiri lykilmenn í trúnaðarstöðum. Og vitaskuld var allt þetta okkur hinum kunnugt þó við hvergi hefðum aðstæður til að opinbera þær heimildir.
Af því eina bréfi Jóns Sigurðssonar sem birt hefur verið orðrétt er ljóst að í þessu stríði var engu skeytt um skömm né heiður, sannleik eða lygi.
Flokkur í gíslingu
Það mun raunar ekki ofmælt að allt lýðræðislegt starf Framsóknarflokksins hafi verið í gíslingu lítillar harðsnúinnar klíku í liðugan áratug eða allt frá valdatöku Halldórs Ásgrímssonar í formannsstóli. Sá sem hér ritar taldi að með skyndilegu burthvarfi Halldórs hefðu skapast aðstæður til að endurvekja þann gamla og félagslega sinnaða flokk sem Framsókn var í tíð Steingríms Hermannssonar og hans forvera.
Hálfs annars árs þingmennska fyrir Framsóknarflokkinn sannfærðu mig smám saman um hið gagnstæða. Hvevetna í starfi flokksins var komið að múrveggjum flokkseigendafélagsins hvort sem ætlunin var að rífa upp grasrótarstarf í flokknum eða ræða stefnumál. Allsstaðar voru á fleti fyrir þeir fótgönguliðar fyrrum formanna sem höfðu með lagni og liðsinni hluta þingflokks möguleika á að bregða hér fæti fyrir. Verst kom þetta sitjandi formanni sem allan sinn formannsferil mátti búa við undirróður og róg af þeirri stærðargráðu og gerð að engum manni er ætlandi í slíku að lenda.
Farsæl mistök í tölvupóstssendingu
Og vitaskuld er það rétt að þessi vonda tölvupóstsending kallaði ekki ein og sér á afsögn mína frá þingmennsku. Fyrst og fremst var afsögnin viðurkenning á þeim afglöpum undirritaðs að telja að hægt væri að koma Framsóknarflokki á réttar brautir. Hin klaufalega tölvupóstssending gaf mér tækifæri á að hverfa þar frá enda þá algerlega útséð með að verk mitt í mínum gamla flokki mætti lukkast.
Ég hlýt hér að fjalla um þetta enda get ég engum óskað að lenda í sömu sporum pólitískrar eyðimerkurgöngu og undirritaður rataði í. Þaðan af síður er það verjandi að nokkur heiðarlegur stjórnmálamaður lendi í sporum Guðna Ágústssonar. Þeir sem telja að ég sé hér að ósekju að sparka helsærðan Framsóknarflokk verða að eiga þá blindu sjálfir og einir. Staðreyndin er að það er flokkseigendafélag Framsóknarflokksins sem hefur grafið undan þeim flokki og skemmt á allan hátt. Það er til lítils að kenna þeim um sem segir frá. Hinir bera meiri ábyrgð sem horfðu á óhæfuna í flokknum öll þessi ár og þögðu.
Það sem á eftir minni afsögn kom með aðför að Guðna Ágústssyni var staðfesting á þeim veruleika sem hér er fjallað um. Nú er svo komið að gamli S-hópurinn getur í friði fyrir okkur hinum sveitalegu Framsóknarmönnum tekið sinn gamla flokk og leitt fulltrúa sinn til formennsku. Sami hópur hefur lengi talið að hin sveitalegu viðhorf þvælist fyrir því að flokkurinn nái fylgi og nú er þeirra að sanna mál sitt.
Stuðningsmönnum mínum í pólitík, fyrr og nú, innan og utan Framsóknarflokks, sendi ég mínar einlægustu jólakveðjur. Með nýju ári hefst ný barátta.
Íslandi allt.
(Birt í Mbl. 16. des.2008)
Fjölmiðlamenn á mála hjá útrásarvíkingum
15.12.2008 | 21:37
Það er vissulega svo að formleg völd samfélagsins liggja hjá stjórnmálamönnum og víst brugðust stjórnmálamenn ekki síður en fjölmiðlarnir. En stjórnmálamaður sem ekki nýtur sanngirni fjölmiðla er í okkar nútíma samfélagi algerlega máttlaus til verka. Sjálfur hef ég verið í hópi þeirra sem átt hefur frekar greiða leið að fjölmiðlum en þó brá mér nokkuð í brún fyrir ári síðan þegar ég árangurslaust reyndi að koma að varnaðarorðum í efnahagsmálum og stóð þá á þeim palli að vera einn þriggja fjárlaganefndarmanna stjórnarandstöðunnar. Fjölmiðlar höfðu einfaldlega ekki áhuga á svartsýni á þeim tíma enda þjónaði það ekki hagsmunum þeirra. Ekki nema viðkomandi væri til í að benda patentlausnir eins og þær að Ísland ætti að ganga í ESB.
Ég vil trúa því að í úttekt á spillingu og ofurgræðgi undanfarinna ára verði grafist fyrir um alla anga þess máls. Einnig hvernig útrásarvíkingar keyptu fjölmiðlamenn til fylgilags og gerðu sjálfir út menn inn í stjórnmálin til að ota sínum tota. Bersýnilegast þar er framganga nokkurra borgarfulltrúa í erindum FL group í máli sem kennt er við REI. En slík úttekt bíður síns tíma.
Sjá nánar í pistli undirritaðs á fréttasíðunni AMX, hér http://amx.is/pistlar/1157/
Sjálfstæðisuppgjöf tilkynnt í útlöndum
15.12.2008 | 13:23
Jeg tror ikke Island har noe valg etter den knekken vår valuta har fått, sier kultur- og utdanningsminister Katrín Gunnarsdóttir fra Selvstendighetspartiet til Klassekampen. (I lauslegri þýðingu segir varaformaður Sjálfstæðisflokksins að land hennar eigi enga aðra möguleika eftir kreppuna en að ganga í ESB.)
Þetta segir komment Þorgerðar Katrínar í norsku kommablaði sem heitir upp á gamalnorsku Stéttabaráttan. Það lýsir svo innilegri fyrirlitningu og forheimskan þegar íslenskir ráðamenn telja sig geta sagt eitt í útlöndum og annað hér heima. Nema þetta sé með ráðum gert að gefa út pólitískar stefnuyfirlýsingar út í útlöndum og láta það svo heyrast í íslenskum fjölmiðlum að það sé talað við þá á útlensku. Og einkar smekklegt að endanleg uppgjöf þess flokks sem kennir sig við sjálfstæði landsins sé gefin út á norsku.
Það hefur lengi legið fyrir að Þorgerður er harðákveðin ESB-sinni en hún gat sýnt þann manndóm að tilkynna um svo afdráttarlausa lotningu fyrst á Íslandi. Mestu vonbrigði helgarinnar er aftur á móti hvernig Illugi, Árni Math og Geir hafa allir snúist á sveif með aðildarviðræðum og eiginlega ekki annar eftir en Björn til að leiða Sjálfstæðisflokk sem aðhyllist sjálfstæði...
Kátlegur guðmaður, ágætur Hallgrímur og frábær Finnbogi
14.12.2008 | 22:21
Langar að halda áfram að segja hér frá bókum enda framundan mikil bókajól. Ein sú bók sem litla athygli hefur hlotið í jólabókaflóðinu er sjálfsævisaga Jens V. Hjaltalín, Kátlegur guðsmaður sem Flateyjarútgáfan gefur út. Frábær lesning enda óvanalega hreinskiptinn 19. aldar maður sem hér á hlut, prestur á Snæfellsnesi á harðindatímum. Fær fyrstu einkunn eða sirka 8,2.
Nýjasta bók Hallgríms Helgasonar, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, er góð dægradvöl, kannski ekki í fyrsta sæti og langt því að vera eins góð og Hallgrímur þegar honum tekst best til eins og í Höfundi Íslands. Engu að síður athyglisverð bók, skemmtileg stúdía um mismunandi menningarheima og lipurlega skrifuð. 7,5
Í húsi afa míns eftir Finnboga Hermannsson er hreint frábær bók, enda þótt afinn hafi ekki verið raunverulegur afi Finnboga heldur afabróðir Eyva í Sólningu og Steina í Biskverk. Hér er brugðið upp heillandi mynd af veröld sem var í Reykjavík eftirstríðsáranna. Finnbogi er mikill sagnamaður og nýtur sín vel í þessum skemmtilegu bernskuminningum. 8,0
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Auglýsing um tölvupóst og Ingibjörg sem vill út úr stjórn
13.12.2008 | 19:19
Fyrst af öllu, smá tilkynning. Í tengslum við breyttan starfsvettvang hef ég verið að skipta um netfang og nota nú netfangið bjarni@selfoss.is. Eitthvað sem ég ekki skil fór úrskeiðis í tækninni í liðinni viku, frá mánudegi fram til föstudags, þannig að hluti af þeim pósti sem sendur var á þetta nýja netfang hvarf í glatkistuna og þeir sem sakna þannig viðbragða við sendingum ættu að senda mér póstinn aftur.
En aðeins um pólitíkina. Vanlíðan Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu er nú orðin slík að formaðurinn Ingibjörg gerir tilraun til að reita Sjálfstæðismenn til reiði með það í huga að þeir slíti. Öðruvísi verður yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar ekki skilin, nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er að snúa sér í ESB málinu, að minnsta kosti í þá veru að vilja berjast fyrir aðildarkosningum.
Hitt er áhyggjuefni að stjórnarmaður í Heimssýn, sem Illugi Gunnarsson er, skuli svo snögglega snúa sér í máli þessu. Raunar orkar mjög tvímælis að stjórnvöld geti leyft sér að fara í aðildarviðræður nema bera það undir þjóðina áður. Öll skref í átt að aðild ganga gegn stjórnarskrá lýðveldisins sem þingmenn eru eiðsvarnir gagnvart í störfum sínum.
Blogga ekki meira í dag en ráðlegg öllum að fara á síðu Gunnars Waage og lesa þar góða grein um mögulega upptöku á dollar, http://gunnarwaage.blog.is/blog/gunnarwaage/
Táknrænt fyrir bull ríkisstjórnarinnar
12.12.2008 | 20:31
Nýjasta útspil Ingibjargar Sólrúnar að hátekjuskattur væri fyrst og fremst táknrænn þar sem hann einn og sér dygði ekki til. Þessvegna megi sleppa við hátekjuskatt, það hefur auðvitað ekkert upp á sig að vera með táknræn framlög í kreppu sem þessari. Þessi ræða jafnaðarmannaforingjans er táknræn fyrir það bull sem einkennir sitjandi ríkisstjórn.
Vitaskuld er engin ein leið sem dugar til að koma málum í lag, engin ein upphæð eða ein ráðstöfun sem ríður baggamuninn þannig að ef aðeins allsherjarlausnir skipta máli þá eru allar skattlagningar og sparnaðaraðgerðir aðeins táknrænar. Skerðing á greiðslum bóta hlýtur þá líka að vera táknræn því litlu breytir hún líka um heildardæmið, telur einhverja fjóra milljarða. Gott betur en það mætti hafa af hátekjuskatti.
En í táknfræðinni er þetta þá ásamt spillingu liðinna vikna tákn til þjóðarinnar um að Samfylkingin standi dyggilega vörð um hið grimma lögmál Biblíunnar þar sem segir:
"Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur..." (Mark.4,25)
Langar svo í lokin að vitna hér í frábæran kveðskap míns gamla tutors, Kristjáns Eiríkssonar sem birtist á vef höfundarins. Þar lýsir hann í anda Jónasar útrásinni og fallinu eins og skagfirðingi þessum er einum lagið. Og segir m.a.:
14. Sá fyrstur leysti festar dýrðarmanna
og færði Bónus stoltur voru landi
í rústir lagði búðir góðra granna.
15. Og annar sem hér fór með brugðnum brandi,
bjórdrukkinn eftir gerska ævintýrið,
hafskipi fornu sigldi að okkar sandi.
16. Ístryggði margan Englending - við stýrið
öruggur jafnan - vann sín hryðjuverk;
í Gordon Brown hann vakti villidýrið.
17. Kaupþingi réði kröftug hönd og sterk
þótt kjör sín engir þar við neglur skæru
ábyrgðarstörf sem unnu gríðarmerk.
18. Samvinnumenn þótt áður ýmsir væru
af sér nú struku þennan smánarblett.
Sá mun ei lengur sverta þeirra æru.