Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Fullveldisyfirfærsla og forherðingin
30.4.2008 | 09:32
En tvímælalaust verða Íslendingar að breyta stjórnarskránni áður en hægt er að ganga í Evrópusambandið sökum þeirrar fullveldisyfirfærslu sem inngöngunni er samfara."
Eftirfarandi er tilvitnun í grein þeirra mætu Evrópusambandssinna Björns Friðfinnssonar og Andrésar Péturssonar í 24 stundum fyrir skemmstu. Nú vil ég ekki kasta rýrð að pólitískum sannfæringum manna og það er skoðun sem verður að virða sem hverja aðra að yfirfæra skuli fullveldi íslensku þjóðarinnar til Brussel. Ég vil þakka þeim félögum hreinskilnina því á stundum ber á þeim misskilningi í málflutningi Brusselsinna að látast ekki skilja að aðild að ESB fylgir að við afsölum okkur eigin fullveldi.
Hrokafull umræða
Þá hefi ég hrósað þeim félögum fyrir greinina en mig langar líka að finna hér að. Í upphafi segja þeir félagar að innan skamms hljóti andstæðingar aðildar Íslands við inngöngu að hætta að berja hausnum við steininn. Minnir mig á að nýlega rakst ég þá fullyrðingu á einni bloggsíðu Brusselsinna að við sem erum talsmenn fullveldisins eru taldir forhertir og hugsunarlausir.
Málflutningur af þessu tagi er engum til sóma. Okkur ber að ræða saman með rökum en ekki sleggjudómum um að menn berji hausum við steina. Mér er ekki grunlaust um að þessi málflutningur Brusselsinnanna tengist því að þeir eru vissir í sinni sök, sannfærðir og hafa séð ljósið. Þeir vita" með öðrum orðum að við munum ganga í Evrópusambandið, rétt eins og Jón í Reykjadal sem vissi að jörðin hlyti að hrapa til helvítis. Annað dæmi eru gömlu kommarnir sem vissu að byltingin kæmi, þetta var bara spurning um tíma. Því blandast saman í málflutningi margra talsmanna ESB hér á landi sá hroki sem gjarnan fylgir þeim mönnum sem telja sig vita lengra nefi sínu. Í raunheimi reynist slík þekking oftar en ekki tálsýn.
Þjóðin sterkari í kosningum en könnunum
Það eru 50 ár síðan öll samtök atvinnurekenda í Noregi ákváðu að landið væri að ganga í Evrópusambandið og áratugir síðan meirihluti þingmanna gekkst sömu skoðun á hönd. Samt eru Norðmenn enn þar fyrir utan og fjær því en nokkru sinni að gerast aðilar. Hin þjóðrækni almenningur hefur þar ítrekað tekið fram fyrir hendurnar á þotuliði stjórnmála og athafnalífs. Þar er búið að kjósa um málið slag í slag og alltaf hafa hin þjóðlegu öfl yfirhöndina jafnvel þó skoðanakannanir hafi oft sýnt lýkur á að ESB - sinnar sigri.
Hér á landi hafa skoðanakannanir mjög sjaldan sýnt að það sé meirihluti með aðild að ESB og fylgið við það er minna nú en var fyrir nokkrum árum þrátt fyrir nokkra erfiðleika í efnahagslífinu. Það getur vitaskuld breyst í þeirri niðursveiflu sem nú gengur þannig að í stuttan tíma verði meirihlutafylgi með aðild líkt og oft hefur verið í Noregi.
En ef til kosninga kemur er miklu líklegra að fullveldishugsjónin verði hverskonar fullveldisyfirfærslum sterkari. Engu að síður er allt tal um ESB - kosningar leikur að eldi. Um aðildarkosningar að ESB gildir það sama og kosningar til sameininga sveitarstjórna. Þegar byrjað er verður kosið aftur og aftur þar til jáyrði fæst og svo aldrei aftur enda möguleikarnir þjóða á að ganga úr ESB og endurheimta fullveldi nær engir. Það er almennt viðurkennt af bæði ESB - sinnum og öðrum að úrsögn úr þessum félagsskap hefur ekki verið möguleiki.
Með Lissabonsamningum er reynt að klóra þar yfir og sett inn málamyndaákvæði um úrsögn en þau eru samt fremur til skrauts en brúks. Þannig er dagljóst að ESB - land sem ætlaði sér út úr bandalaginu stæði þá skyndilega eins og hvítvoðungur í samfélagi þjóðanna þar sem ESB - aðild fylgir að valdaafsal í utanríkismálum og samningum við erlend ríki.
(Birt í 24 stundum 29. apríl 2008)
Magnaðir Eyjamenn
29.4.2008 | 15:21
Áttum magnaðan fund í Krónni í
Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Þar var troðfullt og fengu færri sæti en vildu. Umfjöllunarefnið samgöngumál Eyjanna og aðalframsögumaður Gísli Viggósson á Siglingamálastofnun sem gerst þekkir til Bakkafjöru. Fundarboðendur vorum við Guðni og fengum fyrir fundarstjóra sjálfan sýslumanninn Karl Gauta Hjaltason.
Umræðan var mjög hreinskiptin og góð. Hér töluðu bæði andstæðingar og talsmenn Bakkafjöruhafnar og Gísli svaraði fjölmörgum fyrirspurnum á sinn hæverska og einlæga hátt.
Ég ætla ekki að fullyrða að fundurinn hafi eytt öllum efasemdum manna um Bakkafjöru en hann var hreinskiptin og hreinsaði um margt andrúmsloft í eldfimri umræðu.
Heimsóknin í Eyjarnar var líka öll hin skemmtilegasta. Komum meðal annars til hins aldna höfðingja Bjarna Sighvatssonar í sumarsloti hans í Þórlaugargerði og þáðum þar kaffi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Til varnar Árna Johnsen
27.4.2008 | 13:36
Margt má um vin minn Árna Johnsen segja en mér þykir langt seilst að ætla að kæra fyrir umrædda Moggagrein. Grein þessi er ekki til muna óvægin heldur er höfundur fyrst og fremst að rekja skoðanir sínar í umdeildu máli. Skoðanir sem hann er ekki einn um heldur á sér fjölmarga skoðanabræður að meðal þeirra sem kynnt hafa sér málið.
Sjálfur hefi ég alltaf talið að það beri að ljúka rannsóknum vegna jarðgangagerðar og það hefur ekki farið framhjá nokkru mannsbarni að Vegagerðin hefur verið jarðgangahugmyndinni og öllum rannsóknum vegna hennar andsnúin. Það er ekki eina dæmi þess að Vegagerðin hafi á málum mjög afdráttarlausa og ósveigjanlega afstöðu. Það má nefna fjórbreiðan veg yfir Hellisheiði og Suðurstrandarveg sem dæmi. Ég ætla ekkert að fullyrða að þessi skoðanamyndun Vegagerðarinnar sé alltaf röng eða ómálefnaleg en það hefur fyrr gerst að stjórnmálamenn og aðrir hafi gagnrýnt þessa stofnun - sumir óvægilega. Og oft með stærri orðum en ég finn í grein Árna.
Það er einfaldlega ekki þannig að valdamiklir embættismenn eigi að vera hafnir yfir gagnrýni.
Ég hefi efasemdir um að nokkur hefði hótað mér málssókn ef ég hefði skrifað umrædda grein eða einhver annar af okkur 63 sem á þingi sitjum. Þar með er ég ekki að mæla því bót að Árni skuli drótta að því í greininni að Gunnar Gunnarsson hafi verið skipaður í embætti á annarlegum forsendum. Slíkar aðdróttanir án rökstuðnings eru aldrei smekklegar en þetta er ekki með því svæsnara eða verra sem sést hefur í blaðagreinum. Mikið mætti oft vera búið að stefna Sverri karlinum Hermannssyni ef þetta væri viðmiðið.
Þessi viðbrögð aðstoðarvegamálastjóra eru því vindhögg reitt í átt að Árna af því að menn halda að hann eigi enga vini. En það er misskilningur. Það skal upplýst hér með að við Árni erum vinir og ég veit að margir aðrir á vinnustað okkar við Austurvöll eru í sama vinahópi.
Ætlar að kæra Árna Johnsen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hugsað og lesið um Pál í Sandvík
27.4.2008 | 10:21
Enn eru að birtast minningagreinar um vin minn Pál Lýðsson. Fann sjálfur til þess þegar ég keyrði Eyrarbakkaveginn í fyrragær hvað ég á enn langt í land með að sætta mig við það að nú sé enginn Páll í Sandvík. Skáldið Hallgrímur Helgason skrifar einkar góða grein um sveitarhöfðingjann i Fréttablaðið í gær og sama gera Jón Hermannsson og fleiri í Mogganum í dag, sunnudag. Sjálfur hripaði ég niður og birti í síðasta Sunnlenska eftirfarandi:
Páll Lýðsson minning
Á þriðjudagskvöldi í apríl sat ég hér við tölvuskjá þeirra erinda að rita í Sunnlenska stutta frétt um sviplegt andlát Páls Lýðssonar bónda og fræðimanns í Litlu - Sandvík. Sat lengi kvölds yfir fáeinum línum um fæðingardag, trúnaðarstörf og fjölskyldu sem samt sögðu svo átakanlega lítið um þann missi sem orðinn var. Missi fyrir fjölskyldu og vini en einnig missi fyrir hérað sem átti í Páli sinn langfremsta fræðimann á sviði sögu og samtíma okkar Árnesinga.
Páll Lýðsson var engum manni líkur. Látlaus og hæverskur bóndi af gamla skólanum. Afkomandi héraðshöfðingja og hélt því merki uppi með reisn sem þó var laus við allt sem heitið gæti tildur eða mont. Flóamaður af þeim gamla skóla sem jafnan fetaði varlega jafnt í orðræðu sem athöfnum og virtist hægfara. Afköstin voru þó eins og um heila stofnun væri að ræða á nútímamælikvarða. Skrifaði látlaust bækur, greinar, heimildaviðtöl og margskonar fræðiverk. Safnaði af ástríðu handritum, tímaritum og bókum. Afritaði, skráði og útdeildi meðal annarra fræðimanna af brunni þekkingar og gagna sem hann gekk að vísum uppi á háalofti eða í möppum inni í fræðakompu sinni. Minnið með ólíkindum og líkast afli þeirra fornkappa sem sagt var um að enginn vissi afl þeirra.
Samhliða öllu þessu búskaparstörf og umsvifamikið félagsmálavafstur. Rak umferðarmiðstöð Sandvíkurhrepps með sínu hreppstjóra- og oddvitaembættum til skamms tíma. Bóndi af guðs náð sem ekki taldi eftir sér að bisa á rófnaakri haustdaga, drekka kaffi með okkur slæpingjunum á kvöldin og settist svo við skriftir þegar aðrir gengu til náða. Hafði alltaf tíma hvort sem var í löng símtöl eða gestamóttöku heima.
Fyrir ungan blaðamann var opinberun að kynnast Páli Lýðssyni sem var það allt það sem mig alltaf dreymdi um að verða, blaðamaður, bóndi og sagnfræðingur. Sem bóndi var Páll af gamla skólanum og allt yfirbragð hins hlýja og góða heimilis ættarinnar var eins og annarrar aldar. Þrjár til fjórar kynslóðir deildu hér kjörum undir sama þaki og gengu sameiginlega að þeirri vinnu sem var miklu frekar partur af persónum og leikendum heldur en einhverskonar kvöð launaþrælsins. Andrúmsloft sem bar í senn með sér æðruleysi aldanna, þrautseigju og góðvild.
Við Elín sendum Elínborgu og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Bjarni Harðarson
Sinnuleysi stjórnar elur á mótmælum og skrílslátum...
23.4.2008 | 14:59
Aðgerðir vörubílstjóra gegn háu olíuverði eru meira en skiljanlegar. Þær eru barátta manna sem hafa margir hverjir engu að tapa. Það er aftur á móti raunalegt að sjá mótmælin snúast upp skrílslæti með eggjakasti ungmenna og almennri vitleysu. Lögreglan lendir hér í raunalegu og leiðinlegu hlutverki sem laganna verðir reyna að gera gott úr. Allt vegna óskiljanlegrar þrákelkni ríkisstjórnarinnar.
Þrákelkni vegna þess að með því að koma til móts við bílstjórana og lækka álögur á bensíni og olíu geta stjórnvöld um leið unnið mikilvægan varnarleik á móti verðbólgunni. En málið er nú komið í þann hnút að ríkisstjórnarmeirihlutinn sterki setur kapp sitt á að láta ekki undan þrýstihópi, jafnvel þó tillaga hans sé bæði réttmæt og skynsamleg. Það er mjög miður að svo barnaleg sjónarmið ráði hjá æðstu valdamönnum þjóðarinnar.
Ábyrgð ráðherra
Hér skal ekki lagt mat á það hversu smekklegir einstakir leikir í þessari baráttu bílstjóranna eru og víst að það er ekki hættulaust að loka þannig mikilvægum umferðaræðum. En eins og jafnan þá veldur ekki einn þá tveir deila. Ábyrgð ráðherra á að aðgerðirnar eru vikum saman í farvegi sem þessum er mikil. Það eitt að kalla bílstjóra að raunverulegu samningaborði væri leið til að binda enda á aðgerðirnar.
Hluti af vanda vörubílstjóra er einmitt algert aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Við Framsóknarmenn höfum þar lagt áherslu á að ríkið komi að þjóðarsáttarborði til þess að ná niður verðbólgu í landinu. Þar gæti skipt miklu að lækka tímabundið álögur á olíu og bensín. Við teljum einnig að ríkið geti spornað verulega við verðbólgu á matvöru með niðurfellingu matarskatts ef samhliða er unnið með kaupmönnum og aðilum vinnumarkaðar.
Viljaleysi stjórnvalda til að skoða reglur um hvíldartíma ökumanna er af sama meiði hins barnalega hroka þess sem telur sig öllu ráða. Íslensk löggjöf og ríkissjóður eiga ekki að vera einkaeign þeirra sem fara með völd hverju sinni.
Þjóðarsátt er lausnin
Það er algerlega fráleitt að heyra þann málflutning stjórnarliða að ríkið geti ekkert gert í verðlagsmálum. Í landi þar sem neysluskattar eru með því hæsta sem gerist, önnur hver króna fer í skatta. Og staða ríkissjóðs er sterk. Ein leiðin til þess er samstillt átak allra, jafnt verslunarinnar sem ríkisins í þá veru að allir gefi nokkuð eftir af sínum hlut.
Eins og staðan er nú kemur efnahagskreppan niður með mjög tilviljanakenndum hætti og verst við þá sem síst skyldi. Láglaunafólk og skuldsetta einyrkja í atvinnurekstri.
Það er von að fólk sé reitt og loki vegum. Það er ráðamanna að hlusta á raddir þessa fólks.
Réttmætar áhyggjur af hráu kjöti
22.4.2008 | 10:42
Þingeyskar húsfreyjur sendu frá sér ályktun í gær sem ég tel rétt að birta hér á blogginu enda algerlega sammála þeim og hef í bili engu við þetta að bæta. Skrifaði reyndar pistil um málið fyrir nokkrum dögum sem má sjá hér neðar:
"Aðalfundur Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga haldinn í Ýdölum dagana 18. og 19. apríl 2008, lýsir yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum innflutnngi á hráu kjöti, samkvæmt frumvarpi um breytingar á matvælalöggjöfinni, mál 524, sem liggur fyrir Alþingi en með því er verið að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins.
Aðalfundurinn telur að slíkur innflutningur muni ekki aðeins skaða innlenda landbúnaðarframleiðsu og veikja varnir gegn smitsjúkdómum í búfé heldur svipta komandi kynslóðir þeim lífsgæðum sem felast í því að eiga greiðan aðgang að þeirri gæða vöru, hreinleika og heilbrigði sem íslenskar landbúðarvörur sannarlega eru.
Þá kemur þessi breyting til með að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á matvælaiðnaðinn í landinu þar sem hætt er við að fjöldi starfa í greininni gæti lagst niður.
Einnig hefur fundurinn áhyggjur af, að fyrirhugaður innflutningur leiði til skammtíma verðlækkana, en langtíma áhrif geti orðið verðhækkanir og minni vörugæði. Afleiðingar þess geti orðið að þeir sem minna hafa milli handanna verði að sætta sig við minni gæði á matvöru sem aftur geti leitt til lakara heilsufars.
Því skorar aðalfundurinn á alþingismenn að koma í veg fyrir fyrrgreindan innflutning."
Jú annars - mig langar að bæta hér við: Líkurnar á að fá salmonellusmit hér heima eru í dag algerlega hverfandi svo vel sem tekist hefur að uppræta sjúkdóminn í íslenskum verksmiðjubúum en verður frekar sennilegt og tilfellin væntanlega alltaf nokkur á hverju ári hér á landi ef farið verður að flytja inn hrátt kjöt. Salmonella getur í vissum tilvikum valdið varanlegu heilsutjóni og örorku. Ef þetta er ekki nóg þá veit ég ekki hvað!
Leiðréttingarkreppa íhaldsins
21.4.2008 | 12:26
Hin alþjóðlega fjármálakreppa sem nú ríður yfir er skipbrot óðagots og græðgisvæðingar, jafnt hér á Íslandi sem annarsstaðar á Vesturlöndum. Á Íslandi bætist hins vegar við sá sérstaki og mikli vandi sem mistök í hagstjórn, einkum í stjórn peningmála, hafa skapað. Nú ríður á að skynsemin verði á ný látin ráða og upp tekin raunsæ miðjustefna að stjórnun efnahagsmála, en kreddum og oftrú á ófullkomna markaði kastað fyrir róða.
Atvinnuleysisstefnan
Sjálfstæðisflokkurinn, sá flokkur sem státað hefur sig af því að hafa leitt hefur efnahagsstjórn landsins undanfarinn einn og hálfan áratug, stendur nú uppi ráðvana í sundurlyndi milli ríkisstjórnararms og Seðlabankaarms. Samfylking staulast hér með í gleði þess sem komist hefur að kjötkötlum og stöðuveitingum og sinnir fáu öðru enda flest það ofvaxið hans skilningi. Úrræðaleysið er svo algjört, að vera kann að vinstri stjórn hefði verið betur í stakk búin til að takast á við efnahagsvandann - svo mótsagnakennt sem það kann þó að hljóma.
Ráðleysið við efnahagsstjórnina er nefnilega ekki bara af ósamkomulagi stjórnarliða innbyrðis og stjórnar við Seðlabanka. Það er eins og forsætisráðherra hefur sjálfur sagt, aðgerð að gera ekki neitt. Eftirláta hinum frjálsa markaði að bítast í timburmönnunum. Koma engum til aðstoðar og miklast af því. Með því móti munu hinir veikustu þola verst og hinir sterkari rísa tvíefldir upp að slag loknum. Gjaldþrot, atvinnuleysi og óðaverðbólga verða þá einkenni næstu ára.
Veik mynt og veikari Seðlabanki
Meðal Sjálfstæðismanna er mjög talað á þeim nótum nú að ekki megi ríkið aðstoða bankana sem hafi verið einkavæddir og eigi sjálfir að bjargast af eigin rammleik. Bakvið þá kenningu er þó meiri Þórðargleði en réttlætistilfinning. Það er vissulega rétt að fráleitt er að ríkið gefi bönkunum fé en það er engu að síður skylda ríkisins að sjá til þess að rekstrarumhverfi bankanna sé viðunandi. Veikur Seðlabanki og veik mynt eru ekki hluti af eðlilegum aðstæðum. Einn möguleikinn er leið Ragnars Önundarsonar um uppskiptingu bankanna í innlenda og erlenda starfssemi. Vænlegra væri þó að bjóða bönkunum til samstarfs um eflingu gjaldeyrisvaraforðans sem þeir greiða þá fyrir um leið og í álnir komast.
Það er reyndar raunalegt að heyra menn nú tala um útrásina sem óráðsíu eina svo mjög sem allir utan sósíalista luku á hana lofsorði fyrir nokkrum misserum. Enda hefur hún skilað í ríkissjóð hærri skatttekjum en nemur öllum afgangi ríkissjóðs. Afgangi sem ráðherrum Sjálfstæðisflokks hættir til að tala um eins og þeir hafi sjálfir aflað fjárins með eigin verkum.
Sjálfstæðisflokkinn frá
Í ráðleysi Seðlabanka og um leið Sjálfstæðisflokksins nú blandast heift sterkra afla í flokksforystunni gagnvart nýríkum athafnamönnum sem rutt hafa hinum eldri peningum úr vegi. Það er ekki fráleitt að í brjóstum þessara manna bærist sá draumur um að kreppan nú megi skila athafnalífinu aftur í hendur hinna réttbornu.
Þjóðin á aftur á móti meira undir að tekið verði á þessari efnahagskreppu af skynsemi og án fordóma. Valdabrölt og valdappgjör þeirra sem lifa í fortíðinni er ekki leiðin til þess. Þeir aðilar sem ekki ráða við vandann eiga auðvitrað að segja sig frá verkunum.
Kratar allra flokka og hrátt kjöt
19.4.2008 | 11:35
(Eftirfarandi birti ég í hinu góða íhaldskratablaði 24 stundum í dag. Í sömu opnu skrifar leiðarahöfundurinn leiðara um sama mál og reynir þar að draga upp að fráfarandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins beri alla ábyrgð á hráa ketinu þar sem embættismenn unnu að undirbúningi málsins í hans tíð. Hafi ritstjórinn rétt fyrir sér þá eru stjórnmálamenn greinilega óþarfir,- allt sem embættismenn vinna að eru lög um leið og þeir hafa lagt sína stjörfu höndu þar á. Málið var sett í gang af Davíð Oddssyni á sínum tíma en ég hefi jafnvel efasemdir um að hann hefði hleypt því fram með þeim upplýsingum sem nú eru fram komnar. Og hin pólitíska ábyrgð og umræða er Alþingis. En svona er Ísland í dag - þar sem stjórnarliðar ráða öllum fjölmiðlum og beita þeim jafnvel til að svara í sömu opnu ef á kratastefnuna er orðinu hallað.)
Það eru Framsóknarmenn í öllum flokkum skrifaði leiðarahöfundur 24 stunda fyrir nokkrum dögum og vísaði þá til þess að ekki væru all jafn ginnkeyptir fyrir því að galopna landið fyrir innflutningi á kjöti. Ég er ritstjóranum sammála í þessu þó okkur greini á um hver stjórnmálastefnan sé gæfulegust.
Og það eru ekki bara Framsóknarmenn í öllum flokkum. Það eru líka kratar í öllum flokkum og orðnir hættulega margir í flokki ritstjórans, Sjálfstæðisflokki. Aðall þeirra er að leysa vanda með fórnum og óvinaleit. Í dag er óvinurinn íslensk kjötframleiðsla og leysa má vanda neytenda og hagkerfis með því að koma svína- og kjúklingabændum á kaldan klaka. Ef því fylgir svo að við rústum um leið 30% af hefðbundnum landbúnaði og allri kjötvinnslu í landinu eru það bara eðlileg jaðaráhrif krossferðarinnar.
Atvinnumissir í borginni
Það er reyndar ekki nýtt að kratar allra flokka beini spjótum sínum að íslenskri framleiðslu og íslenskum bændum sér í lagi. Það sem er nýtt í þessari umræðu að krafan um skefjalausan innflutning á hvítu kjöti er um leið krafa um að hundruð Reykvíkinga missi vinnuna. Hagtölur telja að álíka margir vinni á höfuðborgarsvæðinu við úrvinnslu og framleiðslu á hvítu kjöti eins og eru við störf í álverinu í Straumsvík.
Fyrir ári síðan hefði það kannski ekki hljómað svo alvarlega að störfum í borginni fækkaði því þá spruttu upp ný eins og gorkúlur. Sá tími er liðinn. Í hönd fer krepputími með atvinnuleysi og á slíkum tímum er mikilvægt að standa saman um að verja þau störf sem við þó höfum. Frjáls innflutningur á fersku kjöti og í framhaldinu lækkun tolla eins og Samfylkingararmur ríkisstjórnarinnar hefur lofað er ekki það sem við þurfum á þessari stundu.
Við höfum á undanförnum árum tekið þátt í alþjóðlegri lækkun tolla á matvörum ýtt úr vegi ýmsum hindrunum. Þar höfum við síst verið eftirbátar annarra vestrænna þjóða. En hugmyndin um að heimila innflutning á hráu kjöti til landsins er hættuleg bæði innlendri framleiðslu, innlendu lífríki, náttúru landsins og fólkinu sem í landinu býr. Við erum eyríki en ekki hluti af meginlandi Evrópu og eigum að njóta þess.
Lífshætta fyrir fólk
Það hefur reyndar komið fram í mati dýralækna að dýrastofnum hér og villtri náttúru stafi ekki stórkostleg hætta af þessum innflutningi en þó einhver. Tríkín verði vafalaust landlægt í rottum o.s.frv. Alvarlegra er þó að viðurkennt er að neytendum stafar vissulega hætta af þessum innflutningi. Þannig er viðurkennt að með þessu aukum við verulega hættu á salmonellusýkingu í fólki og opnum fyrir möguleika á smiti af kúariðu sem er banvænn sjúkdómur. Salmonellusmit geta valdið varanlegri örorku.
Ávinningurinn er möguleg lækkun kjötverðs sem er þó svo óveruleg að hún mælist ekki þegar tekin er kvarði á vísitölu neysluverðs. Verst er að í þeim þrengingum og verðbólgu sem nú gýs upp er hin hallærislega tillaga landbúnaðarráðherra um hrátt kjöt það eina sem lagt er til! Ráðherrann fór í Valhöll á fund frjálshyggjukrata síns flokks og barði sér á brjóst. Eins og hægt sé að bjarga andliti og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar með því að etja fólki saman á móti bændum.
Þjóðarsátt í stað illinda
En það eru sem betur fer Framsóknarmenn í öllum flokkum og við urðum margir fyrir vonbrigðum með landbúnaðarráðherrann nýja í þessu máli. Töldum hann máske í okkar liði. Við Framsóknarmenn höfum lagt fram heilsteyptar og mótaðar tillögur til þess að koma til móts við heimilin í landinu í vaxandi dýrtíð. Þar höfum við m.a. lagt til að matarskattur verði afnuminn samhliða víðtækri þjóðarsátt um aðgerðir gegn verðbólgunni.
En kratastjórninni sem nú situr hentar ekki að horfa til þjóðarsáttar. Í stað þess að þjappa þjóðinni saman skal stéttum att saman, leitað óvina og í metingi og stríði sem engu skila.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mega stjórnmálamenn vera geðveikir?
16.4.2008 | 00:53
(Var beðinn um að skrifa pistil í blað Geðhjálpar um ofanritað - birtist þar í síðustu viku.)
Spurningin hér að ofan er vitaskuld rökleysa því við spyrjum aldrei að því hvort við megum fá sjúkdóm. Við fáum þá bara. Fyrir þeim sem les ævisögur stjórnmálamanna, hvort sem er innlendra eða erlendra, miðalda eða nýaldar, leynist ekki að margir þeir færustu meðal leiðtoga hafa náð að nýta sér allskonar sambland af því sem við alla jafna teljum til veikleika og galla. Ofvirkni, einhverfu, maníu að ógleymdri ofsalegri frekju sem er af sumum talin nauðsynleg öllum góðum leiðtogum.
Það á nefnilega við um marga þá sjúkdóma sem herja á okkar andlega líf að þar liggur oft í senn styrkleiki mannsins og veikleiki. Þannig er með hópa einnig og þjóðir. Hin íslenska þjóðarsál er tæpast sú heilbrigðasta í heimi en kannski ein sú skemmtilegasta. Við höfum tamið okkur að fara í hagrænum efnum með boðaföllum og á stundum rassaköstum um vísitölurnar. Því fylgja líkt og í lífinu sjálfu óskaplegt fjör og skelfilegur harmur.
Við getum auðvitað lamið okkur niður fyrir þetta og gerum raunar reglulega. Berum okkur þá gjarnan saman við ólíkt jafnlyndari og stöðugri samfélög og teljum allt betra þar. Þegar að er gáð hefur okkur samt vegnað flestum betur í baráttunni um brauðið og líkt er oft farið þeim sem glímir við og veit af annmörkum sínum. Sá er vís til á súldarlegum dögum að telja allt sitt verra en annarra en á sér líka stærri og meiri hamingju suma aðra. Galdurinn er að njóta hinna góðu en umbera þá gráu. Og þá er eiginlega komið aftur að spurningunni um geðheilbrigðið og stundum held ég að þetta sé eintómur misskilningur að hægt sé að flokka okkur mennina í heilbrigða og geðveika. Þetta er miklu meira spurning um dagamun og ef það er heilbrigði eiga hann sem minnstan þá megi guð forða okkur sem lengst frá þeirri skúffu.
Heilbrigt samfélag er að þekkja og geta tekist á við sveiflur þær sem yfir það ganga og meðan það er líf og vöxtur þá verða einnig sveiflur. En víst þurfum við að þekkja hvenær þær verða of krappar. Sama á við sálartetrið. Það þarf líka á sínum sveiflum að halda. Til lengdar er ekkert eins leiðinlegt og geðleysi nema ef vera kynnu langvarandi veðurleysur.
En nú skal ég loks aðeins tala um stjórnmálamennina í þessu samhengi því þeir eru mér hugþekkir og nálægir og víst tilheyri ég þeirri stétt sjálfur. Það er einfaldlega þannig að stjórnmálamenn eiga að vera allt í senn heilbrigðir og viðkvæmir því engir nema tilfinningaverur eiga að hafa mannaforráð. En fyrst og síðast verða stjórnmálamenn að vera hreinskilnir, opnir og sannsöglir.
Þó svo að í eina tíð hafi verið rætt um geðsveiflur, alkóhólisma og þungsinni í skúmaskotum með hvíslingum þá á sá tími að vera löngu liðinn. Stjórnmálamenn eiga þar að ganga á undan með góðu fordæmi. Þeir hafa vitaskuld líkt og allir aðrir allt leyfi til að vernda eigið einkalíf og velja sjálfir hverju úr eigin högum þeir vilja segja frá. Aðalatriðið er að þeir gefi samfélaginu aldrei þau skilaboð að það sé bannað eða skammarlegt að leita sér sjálfsagðrar aðstoðar eða hafi með almennt manngildi að gera að láta um sig spyrjast veikindi af einu tagi eða öðru!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fyrsta íslenska útlagastjórnin
14.4.2008 | 18:06
Við Íslendingar höfum nú átt margskonar stjórnir, bæði utanþingsstjórn, þjóðstjórn, vinstri stjórn, viðreisnarstjórn, nýsköpunarstjórn en aldrei fyrr en nú höfum við átt að hætti stríðshrjáðra landa ÚTLAGASTJÓRN.
Venjulega verða slíkar stjórnir til þar sem réttmætir valdhafar flýja undan innrásarher eða öðrum valdaræningjum. Hér er stjórnin á flótta undan eigin aðgerðaleysi nema þá að Seðlabankastjóri hafi rænt völdum í landinu og hvorki Ingibjörg né Geir þori að tjá sig um hagkerfið nema í gegnum síma í öruggri fjarlægð frá nefndnum bankastjóra...
Á Vísi má lesa að stjórnin er að gera alla aðra hluti en að sinna stjórnunarstörfum hér heima, þannig er Ingibjörg að ræða við Condulezu Rice líklega um lista hinna staðföstu þjóða (NOT), Björgvin og Össur úti í þriðja heiminum að bjarga við mannréttindum og fleiru, Möller í Brussel og sjálfur er Geir á slíkum faraldsfæti að hann þyrfti helst að vera í tvítaki þessa dagana og væri þó enginn tími til að huga að efnahagsmálum. Loks er íhaldskratinn Þorgerður í fríi í Þýskalandi. Þeir sem heima eru,- ja þeir eru allavega ekki að tala við Seðlabankann...
Algert aðgerðaleysi og sinnuleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart efnahagsvandanum er orðið að mjög alvarlegu vandamáli. Á sama tíma gýs hér upp verðbólga og enginn sem reynir að stilla saman strengi milli atvinnulífs, almennings, fjármálafyrirtækja og ríkis. Raunar eins átakanlegt sambandsleysi millum ríkis og aðila vinnumarkaðarins ekki sést um áratugi en samráðshópur stjórnarinnar við ASÍ og fleiri var síðast kallaður saman sumarið 2007.
PS: Vísur Gunnars Thorsteinssonar sem hann sendi mér eiga vel við þennan pistil en báðar fjalla þær um útþrá ráðherranna:
Haarde er með Ingibjörgu á randi
með einkaþotu fljúga þau úr landi,
láta fjármuni flæða
og fólkinu blæða.
Þau eru orðinn þjóðhagslegur vandi.
Það er lítt með þessi tvö að gera,
þó væri tveimur vandamálum eytt.
Þau ættu bara í útlöndum að vera,
enginn hérna saknar þeirra neitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.4.2008 kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)