Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Gaman í Parísarmýrinni

Kom til Versala í gær þar sem fyrr sátu kóngar en nú ríkir þar túrisminn einn. Hér er hátimbrað og sagan þykk eins og Austfjarðaþokan. Í hetjuskap, úrkynjun og grimmd. Hingað komu mestu andans menn sögunnar en hér bjuggu líka kóngar sem komust ekki hærra í hetjuskap en að skjóta kanínur. Og hingað ruddist múgurinn til að sækja Lúðvík 16 undir fallöxina...

Annars bý ég í Mýrinni (Marais) sem ku mesta hommahverfi Parísar en líka það menningarlegasta! Líklega bjargar það mér frá ástleitni að ég geng yfirleitt með listakonuna Elínu mér við hlið. Hún er hér heimamaður á listamannagarði í tvo mánuði og ég fæ að trufla hana í viku. Hér eru listamannapartí á hverju kvöldi og sum skrautleg. Svona garði þurfum við að koma okkur upp heima á Íslandi og var reyndar meiningin með Héraðsskólann að Laugarvatni en tókst ekki.

Fer í dag að hitta Parísarprófessorinn Einar Má Jónsson sem skrifaði Bréf til Maríu en það er bók sem enginn Framsóknarmaður ætti ólesna að láta...

Kem heim 1. sept.


Krónan, Kjarval og hin óskiljanlega ríkisstjórn

Vegir guðs eru óskiljanlegir og langt síðan við mannanna börn sættum okkur við það. Hitt er nýtt að hafa yfir okkur veraldlega landsfeður sem ganga óskiljanlega vegi.

Þannig hefur forsætisráðherra boðað efnahagsaðgerðir í rúmt ár en gefur svo út yfirlýsingu um það á miðju sumri að það hafi skilað gríðarlegum árangri að gera ekki neitt. Af hverju var þjóðinni þá boðað að ríkisstjórnin væri að undirbúa aðgerðir ef best var að engar yrðu.

Á sömu lund er sú yfirlýsing að ríkisstjórnin muni nú búa þjóðina undir að uppfylla öll skilyrði til Evrópusambandsaðildar og myntbandalags til þess eins að ganga svo í hvorugt!

Kjarvölsk fyndni

Allt minnir þetta mig á fyndnisögu af Jóhannes Kjarval listmálara sem ég heyrði sem barn og einhverjir kunna söguna betur en svona var hún þegar Páll Dungal garðyrkjubóndi sagði okkur strákunum í Laugarási hana fyrir áratugum.

Meistarinn borðaði á Hressingaskálanum á þeim árum og segir einhverntíma þegar hann kemur út á tröppur veitingastaðarins:

- Það er alveg að koma!

Orðin voru sögð hátt og skýrt þannig að vegfarendur um Austurstræti heyrðu og meistarinn löngu orðinn viðurkenndur og þekktur. Því dreif að svolítinn mannfjölda og bjóst nú við að einhver snilldin væri á næsta leyti og enn fjölgaði þegar Kjarval endurtók sömu setningu nokkrum sinnum með drykklangri þögn á milli. Að lokum var þetta orðinn nokkur söfnuður þegar sjöunda andvarp listamannsins kemur úr hans munni og segir nú:

- Það er komið!

Enginn varð reyndar var við að nokkuð hafi gerst en gárungar giskuðu helst á að meistarinn hefði leyst vind að viðstöddu fjölmenni.

Þetta er auðvitað ekki viðeigandi fyndni í umræðu um grafalvarleg efnahagsmál. Staðreyndin er þó að útúrsnúningar stjórnarliða eru hér litlu skárri og Pétur Blöndal bætti reyndar um betur í umræðu um gjaldmiðilsmál þjóðarinnar þegar hann sagði um daginn að þegar og ef að því kemur að íslenska þjóðin nær þeim árangri að uppfylla skilyrði evrópska myntsamstarfsins væri það slíkur árangur að örugglega hefði þá enginn áhuga á að skipta krónunni út.

Aðrir kostir en evra

Þessi fullyrðing Péturs er rétt að nokkru leyti en leysir íslensku þjóðina þó ekki undan þeirri spurningu hvort það sé skynsamlegt að halda hér úti sjálfstæðum fljótandi gjaldmiðli. En hún svarar því að nokkru leyti hvaða leiðir eru færar út úr vandanum og hverjar eru það ekki. Það vita nefnilega allir sem vilja vita að líkurnar á að hið sveiflukennda íslenska hagkerfi uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í myntsamstarf evrunnar eru afar litlar. Eiginlega hverfandi eins og staðan er í dag.

Það eru aftur á móti ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni og fjöldi hagfræðinga hefur bent á aðrar leiðir sem eru utan við sjónarhring þeirra sem bundnir eru nauðhyggju Evrópusambandsins. Það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki leitað hófanna hjá sínum nágranna og samstarfslöndum um myntbandalag. Slíkt samstarf er algengt í henni versu. Við getum líka hreinlega íhugað tilraun með fjölmyntarkerfi sem getur frekar gengið hér en víða vegna mikillar kortanotkunar. Slík kerfi eru þekkt í alþjóðlegum flughöfnum.

Við vitum að minnsta kosti að þessar leiðir myndu ekki ógna sjálfstæði þjóðarinnar með sama hætti og innganga í ESB og því heldur ekki skipta þjóðinni upp í tvær andstæðar fylkingar með sama hætti og ESB - aðild hlýtur að gera.

Engar af þessum hugmyndum hafa verið slegnar út af borðinu með rökum og engin þeirra verið skoðuð ofan í kjölinn. Einhvern veginn hefi ég efasemdir um að núverandi ríkisstjórn komi slíkri skoðun í verk frekar en öðru sem þar liggur fyrir á borðum.

( Birt í 24 stundum laugardaginn 23. ágúst 2008)


Birkilanskur álagablettur og guðdómlegt sumar

Eiginlega ekki þorandi að blogga þessa dagana. Ekki vegna neins sem er að gerast úti í henni versu heldur hinu hvað ég er áhrifagjarn sjálfur. Hef næstliðnar nætur rennt í gegnum hina ómótstæðilegu ævisögu Jóhannesar Birkilands og ekki örgrannt um að ég geti verið undir áhrifum þeirrar bókar. Og þó svo að Birkiland hafi verið snillingur þá er hann tæpast góð fyrirmynd þeim sem er í pólitík. birkiland

Heyrði það einhverntíma kallað Birkilönsk fræði þegar menn upphefja mikinn harmagrát, sjálfsvorkunn og mælgi um illsku veraldarinnar. Margt í samtímanum minnir reyndar á þessi fræði, s.s. allur sá óragrúi viðtala við stjórnmálamenn sem barma sér undan illsku annarra stjórnmálamanna. DV sérhæfir sig einnig í fræðum þessum. En tölum ekki um það í dag. 

Það er reyndar alltof ódýr lýsing á Harmsögu ævi minnar eftir Birkiland að telja hana harmagrútinn einan, í henni er líka að finna stórsnjallar bölmóðslýsingar á samfélagi Íslendinga frá torfbæjum til stríðsgróða, kostulegar mannlýsingar og ótrúlega andagift. Jóhannes hafði undirtitil á bók þessari; Hvers vegna ég varð auðnuleysingi og síðasti kaflinn minnir mig að heiti Hörmulegasta tímabil allrar minnar harmsögulegu ævi...

Sjálfur hef ég fátt harmsögulegt fram að færa og verð því seint skáld en lenti um daginn í einstæðri fjórhjólaferð með Skaftfellingum um Lakasvæðið, Miklafell og Blæng. Leiðsögumaður var Ragnar Jónsson í Dalshöfða. Myndirnar hér að neðan eru úr ferðinni.

Þetta var sömu helgina og hlaup hófst í Skaftá. Á sunnudagsmorgni losaði ég svefn í þéttskipuðum skálanum í Blæng við einhvern hinn undarlegasta óþef. Eiginlega of undarlegur til að stafa frá nokkrum þeirra Skaftfellinga sem lágu við hlið mér og mikið rétt,- þetta var þá hlaupþefurinn undan iðrum jarðar.

 

DSCF0036

DSCF0011


Til hamingju Óskar!

- Hvað er nú Framsókn að draga íhaldið upp úr fúlum pytti í borgarstjórninni! Hefði ykkur ekki verið nær að standa með Tjarnarkvartettinum að málefnalegri stjórnarandstöðu í borginni.Oskar

Eitthvað á þessum nótum var samtal sem ég átti á þessum morgni, á fyrsta degi nýs meirihluta í Reykjavíkurborg. Þetta hljómar giska rökrétt. Eða kemur það Óskari Bergssyni eitthvað við þó íhaldið sé með alltniðurumsig í samstarfi við þá kumpána Gunnar Smára, Jakob Frímann og Ólaf F. Megum við Framsóknarmenn ekki  bara njóta þess að sjá þennan sjálfumglaða stuttbuxnaflokk í vandræðum! Ætli ekki.

En svo einfalt er málið samt ekki. Allir sæmilega jarðbundnir menn eru sammála um að óstjórn ríkti í borginni og stjórnarkreppa þrátt fyrir meint meirihlutasamstarf F - lista og Sjálfstæðismanna. Meirihlutasamstarf sem minnti á stundum frekar á gíslatökumál þar sem borgarstjórinn hélt þessum stærsta flokki borgarbúa í herkví. Herkví sem Sjálfstæðisflokkurinn kom sjálfum sér í en allt bitnaði það svo á borginni sjálfri, fjárhag hennar og stjórnun.

En þó Sjálfstæðisflokkurinn eigi vissulega skilið rassskellingu þá eiga borgarbúar betra skilið. Okkar maður í borgarstjórninni, Óskar Bergsson, er með þessu meirihlutasamstarfi að axla þá ábyrgð sem borgarbúar leggja á hann og eiga heimtingu á. Borgarfulltrúar eru á launum hjá borgarbúunum sjálfum, ekki stjórnmálaflokkunum. Það er þessvegna frumskylda hvers borgarfulltrúa að gera allt það sem hægt er til að borgarstjórnin sé ekki eitthvað sem íbúar lands og borgar þurfi að skammast sín fyrir.

Af viðtölum við Ólaf F. nú í kvöld er alveg ljóst að Tjarnarkvartettinn átti ekki möguleika á endurkomu. Það hefði því aðeins verið hægt ef Ólafur hefði skilyrðislaust sagt sig frá setu í borgarstjórn. Eini starfhæfi meirihlutinn í þessari hreppsnefnd er þessvegna sá sem nú er þar sestur að völdum og við sem erum á hliðarlínunni getum ekki annað sagt en - til hamingju borgarbúar, - já og til hamingju Óskar.

Þetta er nú annars orðið óttarlega mærðarlegt hjá mér - get ekki stillt mig um að bæta því við að ég vonast til að hinn nýi meirihluti gangi hægt um gleðinnar dyr og hlífi okkur Árnesingum við miklum gassagangi hér í Bitru og Hverahlíð...


Vegbætur strax milli Hveragerðis og Selfoss

Þó allir leggist á eitt eru engar líkur á tvöföldum vegi milli Hveragerðis og Selfoss á þessu kjörtímabili. Til þess er kerfið of svifaseint og samningsferli við landeigendur og fleiri of stutt komið.

En það er alveg óviðunandi ef ekkert verður að gert fyrr. Krafa okkar Sunnlendinga hlýtur því að vera að gerðar verði vegbætur á núverandi vegi, einkanlega við gatnamótin sem eru hver öðru hættulegri. Þó ég sé sjálfur alveg í góðu meðallagi kjarkaður á vegunum þá er mér það alltaf svolítið fyrirkvíðanlegt ef ég þarf á að taka vinstri beygju á þessum kafla .

Þetta má laga mjög mikið með því að setja upp eitt eða tvö hringtorg á þessari leið (sameina þannig Nýbýlavegar, Hvols og Kirkjuferjuútkeyrslu í eitt torg og hugsanlega Gljúfurs, Kotferju og Arnarbælis í annað). Setja svo smá breikkun í veginn við önnur gatnamót (t.d. Þórustaði og Velli) þannig að bílar sem bíða eftir að taka vinstri beygju bíði ekki í sjálfri akreininni heldur í sérstakri aðrein sem skilgreind er í vegarmiðju.

Þetta eru mjög veigalitlar og ódýrar framkvæmdir sem hægt er að ráðast í strax og gætu skilað okkur miklu í auknu öryggi á þessum stórhættulega kafla - til bráðabirgða vitaskuld fram að  fram að tvöföldun.


mbl.is Sveitarfélög tefja vegabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera úreltur!

Ekkert er nýtt undir sólinni segir í Predikaranum og hefur svo sannarlega reynst orð að sönnu svo sem hugmyndir, stefnur og straumar ganga aftur staflaust millum okkar, sumt árþúsunda gamalt.

Af öllum þessum draugum er enginn eins þrálátur, hvumleiður og ódrepandi eins og sá armi Bör Börsson í okkur öllum. Hin nýríki, uppskafningslegi spjátrungur sem ævinlega skal trúa því að Predikarinn hafi rangt fyrir sér, allt gamalt sé ónýtt, afar okkar kjánar og allt nýtt sé nýtt. Hann birtist okkur á Íslandi í steypuskrímslum í miðbænum sem hann lét illu heilli reisa í stað gamalla timburkofa. Ætli Bör þessi heiti ekki metrómaður í dag, stífgreiddur og straujaður.

Mætir okkur í dyrunum með útlent skoffínsglott og hrátt fuglaket sunnan úr heimi, búinn að brenna allar þær brýr sem hann fundið gat að baki sér. Og trúir því að síðustu að bæði þjóðríkið sé úrelt og lýðræðið sé prump sem megi míga á með því að láta almúgann kjósa aftur og aftur um sama hlutinn. Já og þjóðleg menning er honum úrelt hugmynd fyrir elliheimilin.

Bör þessi á sér sína draumadaga og hefur átt mörg sældarskeið, bæði með hækjum alþjóðasinnaðra sósíaldemókrata og uppstrílaðra frjálshyggjudrengja sem trúa blint á alþjóðavæðingu og alheimskapítalisma. En á því herrans ári 2008 er hann blessunarlega úreltur!

Det forandres

Á síðasta velsældarskeiði Börs þessa átti ég því láni að fagna að taka þátt í samnorrænu verkefni um grænar fjölskyldur, þ.e. umhverfisvænan lífsstíl við heimilishald. Síðan eru full 15 ár en ég hef eftir megni reynt að viðhalda því sem við lærðum í þessu verkefni, bæði hér heima og í námskeiði suður á Jótlandi. Þaðan er mér jafnan minnisstætt samtal við einn danskan umhverfissinna sem mjög talaði móti því að vörum væri endasent millum heimsálfa að óþörfu. Í því væri fólgin mikil umhverfissóun verðmæta og mengun. Þjóðir og héruð ættu að framleiða allt það sjálf sem þau gætu með viðunandi hagkvæmni og lágmarka flutning á til dæmis landbúnaðarvörum milli landa. Hann var hálfgerður Gandhisinni.

Þó þessi málflutningur hrifi vissulega mitt Framsóknarhjarta þá var ég samt fullur efasemdar um að þessi sjónarmið næðu nokkru sinni máli og hafði þær efasemdir á orði við þennan dana. Taldi sem von var að heimurinn væri að skreppa saman og markaðir hans sömuleiðis. Því myndi það bara aukast að fólk á norðurhveli æti ket af nautum af suðurhveli en klæddist flíkum úr austurálfum. Þetta væri þróun sem yrði varla stöðvuð.

„Det forandres," sagði daninn og glotti. Bætti því við að það yrði frekar fyrr en síðar sem þjóðir heims yrðu að beita skynseminni í þessum efnum í stað þess að trúa blint á markaðslögmálin. Orkuskortur, fæðuöryggi og framtíð jarðar væri hér í húfi. Og þó ég hafi á þeim átt bágt með að trúa svo stórum hlutum í einu hefur þessi sannleikur smám saman síast inn hjá mér og fengið stöðugt öflugri stoðir í umhverfi heimspólitíkurinnar.

Bylur hæst...

Við feikum ekki veröldina og allt eru þetta hliðar á sama peningi. Þjóðræknin, menningarvarðveislan, tungan, viðhald landbúnaðarins í landinu, byggðastefnan og varðveisla sjálfstæðisins. Við getum hent einu og ógnum þá því næsta. Og leyfum hinum íslenska metrómanni að hrópa að þetta sé allt úrelt og hér sé næsta skref að leyfa hömlulausan innflutning á hráu keti, hvað sem líður hreinleika landsins og atvinnuhagsmunum þúsunda Íslendinga. Við Íslendingar erum reyndar þegar í hópi þeirra þjóða sem mest leyfum af tollalausum matvælainnflutningi.

Allt tal um hvað sé úrelt verður broslegt nú þegar stærstu hagsmunir stjórnmálamanna víðast hvar á Vesturlöndum eru einmitt að viðhalda atvinnunni. Á tímum þegar Doha viðræðurnar sigla í strand undan frekju stórfyrirtækjanna. Þessa sama einokunarkapítalisma og ber nú ábyrgð á verstu heimskreppu í manna minnum.

Í öllu þessu er gaman að hlusta á Bör og aðra talsmenn metrómannsins. Þar bylur svo sannarlega hæst í tómri tunnu.


Davíð á förum og öþrifaráð Geirs...

 Helgin er búin að vera góð - hef mest staðið í búðinni minni og afgreitt latté, djöflatertur og eina og eina bók. Seldi meðal annars bókina um Drauma - Jóa sem er stórmerkilegt rit úr safni Djúpalækjar-Kristjáns...

Eyjan er að verða minn uppáhaldsfréttavefur og þar sé ég að forsætisráðherra er enn að ansvítast út í stjórnarandstöðu og almenning fyrir að krefjast aðgerða af ríkisstjórninni. Orðrétt af Eyjunni en svosem ekki bein tilvitnun í Geir:

Hann segir mikilvægt að fólk gangi ekki með þá grillu í höfðinu að það sé hægt að grípa á vanda sem steðjar að með örþrifaráðum upp á dag hvern.

Í framhaldinu þakkar Geir það aðgerðarleysi stjórnarinnar að vöruskiptajöfnuðurinn er nú í bata. Veit ekki hvort þetta er skynsamlegt útspil hjá forsætisráðherra sem verst nú allri gagnrýni með svona svörum. Það er auðvitað rétt að örþrifaráðin eru aldrei góð og stöðugar stjórnvaldsaðgerðir orka tvímælis. En eitthvað má nú milli vera. Stjórnin hefur boðað aðgerðir alveg síðan á aðalfundi Seðlabanka Íslands í vetur leið. Og það er ekki farið beinlínis hratt yfir en kannski telur eforsætisráðherra að það lykti um of af örþrifaráðum að gera hlutina hratt og skörulega.Eitthvað ku þó í farvatninu.

Mínar heimildir segja reyndar að nú liggi fyrir nýtt stjórnarfrumvarp um Seðlabankann og samkomulag liggi fyrir um að skáldið Davíð fari á eftirlaun á komandi vetri.

Kannski Geir verði skörulegri foringi á eftir, hver veit!


Byggðastefna ríkisstjórnarinnar

Byggðastefna ríkisstjórnar Geirs H. Haarde birtist okkur enn á ný með úrskurði umhverfisráðherra vegna álvers á Bakka þar sem ákveðið er þvert á faglega niðurstöðu Skipulagsstofnunar að setja málið allt í heildstætt umhverfismat.

Það ætlast enginn til að framkvæmdir þarna sleppi við mat á umhverfisáhrifum en úrskurður ráðherra sýnir afstöðu ríkisstjórnarinnar til verksins. Samstarfsráðherrar Þórunnar geta auðvitað sent út misvísandi skilaboð og þóst stikkfrí en verða það samt aldrei.

Þetta er sami ráðherra og hafnaði nákvæmlega sömu kröfu varðandi Helguvíkurálver og það hefur engum tekist að skýra muninn á þessum verkefnum með neinum sannfærandi hætti. Mjög sennilega er þetta ávísun á að Helguvík verði á undan og fái þar með gjafalosunarkvóta ríkisins en Bakki verði að kaupa. Allt fyrir það sem ráðherra Þórunn ákveður nú!

Þetta er sami ráðherra og ákvað að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs yrðu í miðborg Reykjavíkur og kemst næst landsbyggðarstefnu með því að flytja Náttúrufræðistofnun frá Hlemmi suður í Garðabæ.

Þetta er sami ráðherrann og stendur ráðþrota í alþjóðaviðræðum Íslendinga um mengunarkvóta.

Og þetta er sami ráðherrann og stendur í stríði við sveitarfélögin í landinu um skipulagsvaldið og er af mörgum talsmönnum þeirra talin enn ein tilraun til að flytja valdið suður. Hér gildir ráðherravald en ekki samræðustjórnmál...

Og þetta er sama ríkisstjórnin og hefur staðið slag í slag í meiri niðurskurði fiskveiðikvóta en nokkur glóra er fyrir. Og lofað mótvægisaðgerðum á móti  - en án efnda.

Þetta er sama ríkisstjórnin og hefur skorið niður stofnanir á landsbyggðinni, lagt niður umdæmisskrifstofur t.d. Fasteignamats, hundsað óskir sett umgjörð landbúnaðarins í uppnám með hugmyndum um hrátt kjöt, Doha-aðgerðir þó engir Doha samningar séu á borðinu o.s.frv. o.s.frv.

Þetta er sama ríkisstjórnin og hefur á stóli byggðamálaráðherrann Össur Skarphéðinsson sem hefur lofað landsbyggðinni tugum starfa en ekki fært henni neitt!

Verst er ríkisstjórnin þó stærstu byggð landsins, byggðinni við Faxaflóa sem blæðir nú fyrir óstöðugleika, verðbólgu og okurvexti sem ekkert er unnið á móti. Þó margt megi um neyslufyllerí undanfarinna ára segja þá gerir illt verra að fylgja þeirri heimsku frjálshyggjulínu að aðhafast ekkert í efnahagsmálum. Og kemur verst við þá sem síst skyldi!

Æi - er þetta hægt að vera blogga svona á jafn fallegum degi - og ég að fara í kjólföt til heiðurs Ólafi Ragnari. Leiðist reyndar alltaf á tildursamkomum - en samt til hamingju Ólafur!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband