Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Öflug innkoma L-lista fullveldissinna

Við sem bjóðum fram fyrir L-lista fullveldissinna. Framboðið var varla komið fram þegar það fór að mælast og hefur lyft sér heldur í Gallup-könnun sem kom fram í gær. Samkvæmt henni erum við með 1,9% fylgi en könnunin er unnin 6. - 11. mars þegar við erum rétt að segja frá framboðinu.

Af þeim þremur litlu sem bjóða fram - L-lista, O-flokki og Frjálslyndum stendur L-listinn uppúr eftir fyrstu vikuna. Það hafa í rauninni komið þrjár kannanir og í þeim öllum mælist okkar listi nálægt 2%. Frjálslyndi flokkurinn fór nú niður í 1,3% og í síðustu viku mældist O listi Borgarahreyfingar með 0,4%. 

Aðstaða þessara þriggja er þó talsvert ólík. Frjálslyndir hafa verið á þingi í áratug og fengu um síðustu helgi umtalsverða umfjöllun út á landsfund í Stykkishólmi.

Borgarahreyfingin gerir tilkall til að vera hluti af búsáhaldabyltingunni sem vakti þjóðina alla af værum blundi. Það gera reyndar margir tilkall til að eiga þá byltingu og mörg okkar á L-listanum unnum þar ötullega en við gerum samt ekki tilkall til þess að vera skilgreind sem hluti af öðru en sjálfum okkur.

L-listinn er því langyngst þessara þriggja, raunveruleg grasrótarhreyfing, og raunar á þeim upphafsreit að það er algerlega óraunhæft að reikna með að allir kjósendur hafi ennþá heyrt af okkur, hvað þá í okkur.

Starfið er framundan og það lofar góðu...


Bannaða greinin til varnar Davíð...

Í framhaldi af bloggi mínu í gær um Fréttablaðið hef ég fengið áskoranir um að birta hér greinina sem Fréttablaðið neitaði að birta - á þeirri forsendu að það hefði ekki pláss fyrir greinar frá almenningi. Eftir að hafa skensað okkur um að líklega væri sá höfundur sem skrifaði til varnar Davíð Oddssyni geðveikur og mætti því bíða lengi, svaraði umsjónarmaður aðsendra greina í Fréttablaðinu svo:

En að öllu gamni slepptu þá er staðan hjá okkur þannig að við hreinlegum getum ekki boðið fólki að senda inn aðsendar greinar - plássið er hreinlega ekki fyrir hendi.

Það var semsagt tekið til baka að við þyrftum að bíða lengi - sem hefði verið ásættanlegt. Okkur var tilkynnt að grein þessi myndi hreinlega aldrei birtast.

Það má margt um Davíð Oddsson segja og sjálfur hefði ég aldrei skrifað undir þá varnargrein sem vinur minn og frændi Benedikt Guðmundsson kaus að skrifa. En það síst ofsagt að Fréttablaðið og allir Baugsmiðlarnir lögðu sig í líma við að gera seðlabankastjórann fyrrverandi tortryggilegan og lögðust þar í hatursáróður.

Það er því er það enn merkilegra að blaðið telji sig hafa rétt til að neita þeim sem snýst Davíð til varnar um birtingu. Hvort grein Benedikts hafi á einhvern hátt ekki verið birtingarhæf læt ég lesendum hér á bloggsíðunni um að dæma um leið og ég birti hana með góðfúslegu leyfi höfundar. Greinin er hér:

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/833310


Mín dularfulla vinkona Anna Benkovic

Einn af mínum vinum hér í bloggheimum er Anna Benkovic sem oft kommenterar hjá mér og við erum sammála um margt en einkar ósammála um eitt atriði, sem er afstaðan til ESB aðildar. Þar er Anna ákafur talsmaður aðildar en ég á móti. Ég kann því vel að ekki séu allir sammála og rökræður við Önnu hafa oft verið mér svölun enda konan rökföst, greind og kurteis. annabenkovic.jpg

En ég er löngu hættur að skilja hvað snýr upp eða niður í íslenskri pólitík og það lagaðist ekki þegar ég sá að Anna er frambjóðandi á lista VG í Kraganum.

En ég er kannski bara gamaldags að skilja ekki að hver einasti stjórnmálaflokkur á að rúma allar skoðanir! Það er örugglega einn rasisti líka á lista hins þjóðlega vinstri flokks -þó guði sé lof þekki hann ekki- og svona eins og tveir þrír virkjanasinnar. Eða hvað?


Illugi í vörn fyrir sjóði níu og Þorgerði Katrínu

Illugi Gunnarsson alþingismaður skrifar í Morgunblaðinu í dag vörn fyrir setu sína í stjóðsstjórn hjá Glitni og ver í leiðinni aðkomu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að útrásarbyltingunni. Ég veit ekki hvort er léttara verk en víst ferst höfundi það fyrrnefnda betur úr hendi enda stendur það honum nær að verja eigin stjórnarsetu. Ég sé ekki ástæðu til að efast um hér sé rétt farið með hjá þingmanninum.

Spurningunum sem er ósvarað í mínum er huga er í fyrsta lagi afhverju fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar sat í sjóðsstjórn fyrir banka í eigu Baugs og FL-group. Og í öðru lagi hverju það sæti að þingmaðurinn sem er titlaður stjórnarmaður í samtökum gegn ESB-aðild snerist á liðnum vetri og fór að tala fyrir því að Íslendingar legðu inn umsókn um aðild. 


Um Fréttablaðs-blaðamann sem bannar greinar

Bergsteinn Sigurðsson blaðamaður á Fréttablaðinu fer mikinn í athugasemdadálki hér í morgun og upplýsir þar að það var hann sem á síðasta hausti upplýsti mig um þá stefnu Fréttablaðsins að birta ekki greinar eftir almenning. Í samtali við mig orðaði blaðamaðurinn það þannig að þetta ætti við umgreinar eftir almenning. 

Ég, sem atvinnu-stjórnmálamaður gat og get líklega enn fengið grein birta - en samt eftir mikla bið. En almenningur, Jón Jónsson úti í bæ átti þess einfaldlega ekki kost. Ég hefði ekki þorað að skrifa um þetta í morgun eftir minni af tveggja manna tali en ég á einfaldlega staðfestingu á samtalinu í tölvuskeyti, sem ég birti hér meðfylgjandi í bakskjali sem sjá með því að tvíklikka hér: http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/832663

Á sama tíma heldur blaðið út vandlega völdum leigupennum, á launum, sem flestir (en ekki allir) eru þóknanlegir Baugsveldinu, landsölustefnu ESB sinna og helst haldnir almennri aðdáun á hinum kraftmiklu athafnamönnum sem hafa reyndar alveg óvart komið íslenskri þjóð á kaldan klaka.

Allt er þetta vandlega falið með þeirri ritstjórnarstefnu að almennur leikmaður veit ekki betur en að miðopnugreinin í dag eftir Þorvald Gylfason sé bara venjuleg aðsend grein. Við sem þekkjum til vitum að Þorvaldur er valinn pistlahöfundur, líklega með smá greiðslu fyrir þó ég viti það ekki. Og greinin er birt á besta stað í blaðinu.

Fyrir neðan grein Þorvaldar er aftur á móti lítill kassi sem er fyrir almenna greinarhöfunda (ég hef fengið að skrifa þar) en þeir verða að vera úr hópi stjórnmálaelítunnar. Aðrir fá ekki að skrifa í Fréttablaðið eins og Bergsteinn Sigurðsson fréttamaður staðfestir í póstinum hér til hliðar með eftirfarandi setningu;

En að öllu gamni slepptu þá er staðan hjá okkur þannig að við hreinlegum getum ekki boðið fólki að senda inn aðsendar greinar - plássið er hreinlega ekki fyrir hendi.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi Morgunblaðsins en það stendur upp á Fréttablaðið að svara því hversvegna Mogginn sem er orðinn talsvert minna blað hefur pláss fyrir aðsendar greinar frá öllum en Fréttablaðið er á hverjum degi með að minnsta kosti fjórar og stundum fleiri pólitískar greinar eftir fastapenna sem ritstjóri velur. 

Ég fullyrði að ekki einu sinni gömlu flokksblöðin eins og ég man þau, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið, hafi komist með tærnar þar sem Fréttablaðið er með hælana í sinni ritskoðunarstefnu.

PS: Ég hirði svo ekki um að rekja smámuni eins og þá að ég hafi sem gamall blaðamaður skammað Bergstein Sigurðsson fyrir hlutdrægni í starfi - það hefði ég mátt gera fyrr. En við höfum heyrst í síma eftir það þó Bergsteinn muni það ekki - ekki frekar en hann man hvort greinin góða sem hann neitaði að birta kom 2007 eða 2008.

PPS: Bergsteinn mundi heldur ekkert afhverju hann hefði haft á móti umræddri grein en hér í skeytunum til hliðar kemur fram að hann telur einmitt þær skoðanir að verja Davíð og ÓRG vera klepptækar. En hvað eins og menn muni svoleiðis smámuni sem kannski afgreiða skoðanir út í bæ sem geðveiki dag hvern...

Það var enginn sem varaði okkur við...

marmixa.jpgÍ bólunni léku sér flestir í sama tryllingnum og það var auðvelt að hrífast með. En það eru samt mikil öfugmæli þegar því er haldið fram að enginn hafi varað við þeirri þróun sem átti sér stað. Einn þeirra manna sem varaði mjög ákveðið við hættunni vorið 2007 var Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur og L-listamaður, sjá nánar um það hér.

http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/831443/


Lýðræðisást Fréttablaðsins...

Við höfum lengst af trúað að alvarleg skoðanakúgun og misbeiting fjölmiðla sé eitthvað sem bara gerist í útlöndum,- helst þriðja heiminum. En ég er farinn að efast.

Var að leggja frá mér Fréttablaðið, sem telur 48 síður + 8 í aukablaði, semsagt 56. Fljótlesið. Í blaði þessu eru tvær aðsendar greinar frá, ja segjum almenningi. (Önnur er frá borgarfulltrúa og hin þingmanni.) Síðan er leiðari og þrjár aðrar pólitískar áróðursgreinar eftir fasta og launaða pistlahöfunda Baugsveldisins. 

Síðasta haust hringdi kunningi minn í mig og sagðist vera búinn að skrifa grein þar sem hann færði fram vörn fyrir bæði Davíð Oddssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Í greininni var þetta gert með  mjög sannfærandi á málefnalegum hætti. Þessi kunningi minn bað mig að aðstoða sig við að koma þessu í Fréttablaðið og ég talaði þar við umsjónarmenn sem sjá um aðsent efni,- enda nokkrum sinnum fengið birta þar pistla meðan ég starfaði á Alþingi. 

Svar Fréttablaðsins var einfalt,- það birtir ekki greinar eftir almenning og síst taldi hinn hlutlausi starfsmaður ástæðu til að birta svo vondar skoðanir sem þessar. Ef blaði væri ritstýrt svona í Peking eða Kampala þá teldist það frétt í Reykjavík. En að það sé frétt á Íslandi að sömu menn og settu landið á höfuðið ráði skoðanamyndun og stjórni pistlahöfundum í stærsta blaði landsins,- er það nokkur frétt!!!


Munurinn á rógburði og umræðu um spillingu

Það er ekkert ömurlegra en rógburður og gildir jafnt í stjórnmálum sem öðrum sviðum mannlífsins. Í dag gekk félagi minn Björgvin G. Sigurðsson fram og lýsti sig saklausan af ásökunum sem hann varð fyrir í Silfri Egils og víðar. Gott hjá honum og til eftirbreytni.

Hinu er ég alls ekki sammála hjá viðskiptaráðherranum fyrrverandi að stjórnmál megi ekki snúast um gerðir og heiðarleika einstaklinga sem bjóða sig fram. Á því og rógburði er mikill munur.

Ég held einmitt að stjórnmál snúist um traust og það er misbrestur á öllu trausti í samfélaginu í dag. Við höfum á liðnum mánuðum horft ofan í meira hyldýpi spillingar og gripdeilda en nokkurn óraði. Það hafa komið fram rökstuddar ásakanir að stjórnmálamenn eigi hér hlut að máli. Það er algerlega óþolandi að þjóðin gangi til kosninga án þess að þeir stjórnmálamenn sem hér eiga hlut að máli geri hreint fyrir sínum dyrum.

Stjórnmálamenn sem geta líkt og Björgvin sagt, ég á ekkert og hef aldrei þegið neitt, ættu ekki að þurfa að kvíða neinu. En stórefnaðir stjórnmálamenn sem hafa verið virkir þátttakendur í viðskiptalífinu verða vitaskuld að gera grein fyrir sinni aðkomu. Annað er ófært.

Við höfum þegar fyrir okkur yfirlýsingar stjórnmálamanna sem hafa sagt fullum fetum að þeir ætli að gera hreint fyrir sínum dyrum, að þeir vilji að allt sé uppi á borðinu o.s.frv. en ekki gert neitt til að færa hlutina upp á borðið.

Ég hefi gagnrýnt nágranna minn Björgvin G. Sigurðsson fyrir að hafa ekki gert að fullu upp samband síns flokks við stærstu viðskiptablokk landsins, Baug sáluga. Þau tengsl komu fram þegar forstjóri þeirrar keðju taldi sig geta lesið skammir yfir sitjandi viðskiptaráðherra og ég endurtek hér að ég tel enn að Björgvin G. Sigurðsson eigi að gera skilmerkilega grein fyrir þessum tengslum. Og þetta þarf að verða áður en gengið er til kosninga. Þessi tengsl komu líka fram í umræðu um fjölmiðlafrumvarpið og í frægri Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Það er löngu tímabært að Samfylkingin geri hreint fyrir sínum dyrum.


Fullveldissinnar á flugi

Við sem skipum L-lista fullveldissinna finnum mikinn meðbyr þessa dagana og það er ekki hægt að kvarta undan verkefnaleysi.

Ég er að fara klukkan 16 á Útvarp Sögu þar sem ég verð í spjalli hjá Arnþrúði.

Var að koma úr upptöku á viðtali sem verður spilað í næsta Sprengisandi á sunnudag. Ég hefi oft gagnrýnt miðla 365 en það sem er af lífi þessarar nýju hreyfingar hefur Bylgjan ekki staðið sig verr en RÚV, nema síður sé.

Montnastir erum við svo í dag með Moggann þar sem við fullveldissinnar áttum fjórar greinar sem er eiginlega ígildi þess að vera stórflokkur.

Nú er bara að halda siglingunni enda tel ég næsta víst að við náum vaxandi byr næstu vikurnar.

Annaðkvöld, fimmtudagskvöldið 19. mars verð  ég svo í Hafnarfjarðarkirkju með frambjóðendum allra flokka að tala um siðferði og stjórnmál.


Spilltir stjórnmálamenn og sakleysi Baugsflokksins

Spilling í samkrulli stjórnmála og viðskipta er eitt stærsta vandamál Íslendinga síðari ár og hefur leitt gríðarlega skuldaklafa yfirþjóðarbúið. Sýslungi minn Sigurður Grétar Guðmundsson greinir þennan vanda í opnu bréfi til mín í Morgunblaðinu 16. mars sl. Niðurstaða hans er að Samfylkingin sé sýkn saka en helstur sökudólgur spillingar sá sem hér ritar fyrir dulítið bréfkorn um mæta flokkssystur.

Flokkur í gíslingu S - hóps

Það er rétt hjá Sigurði Grétari að undirrituðum varð á í frægri tölvupóstsendingu sem tengdist illvígum átökum innan Framsóknarflokksins sem ná allt aftur til þess tíma þegar flokkurinn klofnaði í afstöðunni til EES. Átök þessi snúast um fullveldi og frelsi Íslands. Í þeim átökum höfðu fylgismenn Valgerðar Sverrisdóttur marg oft beitt þeirri aðferð gegn þeim sem hér ritar og gegn sitjandi formanni, Guðna Ágústssyni, að senda nafnlaus skeyti til fjölmiðla. Slík vinnubrögð eru því miður alsiða í stjórnmálum og meira að segja gögn ríkisstjórna og utanríkisþjónustu leka með þessum hætti til almennings. Hér heima og erlendis.

Það varð mér mjög til happs að kunna ekki allskostar á klækibrögð sem þessi og því snerust tölvuskeytin í höndum mér. Í framhaldinu gat ég með góðri samvisku sagt af mér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn og skráð mig úr sama flokki. Þar með tel ég mig hafa axlað fulla ábyrgð á smávægilegri yfirsjón en um leið komið mér úr þeim ógöngum sem það var vissulega að vera í stjórnmálaflokki sem S-hópurinn gerir eilíft tilkall til að stjórna.

Í títtnefndu bréfi sem ég velti fyrir mér að ætti erindi á alla fjölmiðla rekja tveir Skagfirðingar sögubrot af spillingunni inni í Framsóknarflokknum og það bréf var sent mér án nokkurs trúnaðar. Mín mistök voru þau að senda það ekki áfram undir fullu nafni til alþjóðar.

Guðni flæmdur út!

Sigurður Grétar spyr hvort ég hafi ekki vitað af tilvist Finns Ingólfssonar þegar ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og ég get svarað því að ég þekkti til hans og fleiri Framsóknarmanna sem tengdust viðskiptum. Og þó ég hefði engar mætur á ofsagróða þessara manna þá grunaði mig ekki þvílíkt hyldýpi spillingar og óráðs hefði átt sér stað í útrásarbyltingunni á Íslandi. Ég var þar jafn grunlaus og allur meginþorri þjóðarinnar. En nú vitum við betur og ég skal viðurkenna að það var rangt að ganga til liðs við stjórnmálaflokk sem var jafn illa flæktur í net spillingar.

Framsóknarflokkurinn átti þó smá möguleika á uppgjöri við þá spillingu meðan Guðni Ágústsson leiddi þann flokk en vammlausari stjórnmálamaður er vandfundinn. En við sem næst honum störfuðum fundum einnig að hinar gömlu viðskiptaklíkur flokksins gáfu hér engin grið og tókst að lokum ætlunarverk sitt að flæma mætan dreng úr stóli og koma sér þóknanlegri manni til valda.

Borgarnesræðan og Baugsmálin

Sigurður Grétar sakar mig um ósannindi þegar ég lýsi bankaeinkavæðingunni með eftirfarandi hætti:

Þar fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eða aðilar þeim tengdir, hvorn sinn banka og aðilar tengdir Samfylkingu þann þriðja í gegnum FBA sem rann inn í Glitni.

Þetta er þó það sem alþjóð veit og það er brjóstumkennanlegt að flokksþrælar reyni nú að hvítþvo sinn flokk eins og telji líkt og Geir H. Haarde að enginn samflokksmaður sinn hafi gert mistök.

Eða um hvað snerist Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ef ekki að verja hennar eigin menn í stjórnmálum, eigendur Glitnis? Eða málflutningur Samfylkingar þegar Baugsmál stóðu yfir? Og hversvegna taldi Jón Ásgeir Jóhannesson sig hafa efni á að kalla fyrir sig og lesa skammir yfir þáverandi viðskiptaráðherra, nóttina sem Glitnir var þjóðnýttur? Og hversvegna töldu bæði formaður Framsóknarflokks og fulltrúar Samfylkingar við myndun núverandi ríkisstjórnar að ekki mætti skerða hár á höfði útrásarvíkinganna við rannsókn bankamála? Krafa sem virkar fyndin nú nokkrum vikum síðar.

Fjórflokkurinn sem hér hefur ráðið ríkjum mun einn og hjálparlaust aldrei leysa upp þau óæskilegu bönd sem hafa verið milli viðskipta og stjórnmála á Íslandi. Í bankahruninu hefur okkur opinberast betur en áður hversu háskaleg blanda þetta er. Sá sem hér ritar býður fram krafta sína í komandi kosningum til að endurreisnar og telur sér það frekar til tekna en hitt að hafa þó axlað ábyrgð á eigin mistökum.

Sigurður spyr mig einnig í grein hvernig ég ætli Íslandi að komast af án þess að afsala sér fullveldinu og ganga í ESB. Ég mun með ánægju svara þeirri spurningu í sérstakri grein.

(Birt í Morgunblaðinu 18. mars)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband