Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Öfgafullur ríkjasamruni elur af sér öfgafulla hægristefnu

Uppgangur Sannra finna, Framfaraflokksins í Noregi og annarra hægri þjóðernisflokka í Evrópu er áhyggjuefni. Þetta eru ekki þau viðhorf sem við þurfum á að halda til að leiða okkur út úr hruni frjálshyggjunnar.

En það er um leið umhugsunarefni hvað það er sem kyndir undir þessari þróun. Fyrst og fremst eru það öfgar Evrópukratanna sem sigla með mikilli óbilgirni gegn því fullveldi þjóðríkja sem hefur verið grundvöllur lýðræðisþróunar í Vestrænum samfélögum í meira en hundrað ár. Samhliða er keyrt á stóraukinni miðstýringu, skrifræði og óhugnarlegu hirðlífi Brusselíta. 

Öfgar hafa alltaf alið af sér öfga.


mbl.is Finnar tala um byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessvegna er Þráinn í VG

Hinn skeleggi listamaður, miðjumaður stjórnmála og ESB sinni Þráinn Berthelsson skýrir í hreinskilnu viðtali á Eyjunni í dag afhverju hann gekk til liðs við VG en ekki Samfylkinguna:

Ef mig hefði dreymt um huggulega og rólega daga hefði ég auðvitað gengið í Samfylkinguna, en mér fannst þörfin meiri í Vg fyrir liðsmann sem væri heill í stuðningi sínum við stjórnina.


Þrælslund aldrei þrýtur mann!

Stundum brenna sig inn í hugann einhver þau spakmæli sem maður veit ekki alveg hvernig eigi að skilja. Síðdegis á sunnudag var ég að hlusta á Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum af plötu í eigu móður minnar, sungin af félögum í Æskulýðsfylkingunni. Einstaklega áhrifaríkur söngur við lag Páls Pálssonar en þann mann sá ég í bernsku minni og vissi merkilegan þó að heilsan væri þá undarleg. 

En það sem festist í hausnum á mér síðdegis á sunnudag úr söng okkar gamla sósíalista um þessa fögru lilju, Sóleyju sólufegri, var þetta:

Fjötrið þá flagðið að bragði
marskálkur mælti og hló ...

Fígúran blés í pípu sín,
dreif þá að hoffins lið
alfinns sveina og tóra þóra
hlið við hlið:
nú skal hún ekki oftar
trufla vorn sálarfrið.

Gripu þeir hið einmana fljóð
og glaðir í prísund drógu,
afstyrmin með ölmusuna
æptu og hlógu
- þrælslund aldrei þrýtur mann,
þar er að taka á nógu.


Fer með Icesave eins og kerlinguna á Þorpum!

pink_elephant1.jpgIcesave er fíllinn í stofunni, lepur nú hver upp eftir öðrum og vísa þar í myndlíkingu og sálfræðikenningu um tapú inni á brotnu heimili þar sem einn fjölskyldumeðlima er alltaf fullur og heldur öllu í kringum sig í hers höndum með andlegu ofbeldi og öðrum þjóðlegum leiðindum.

En enginn dirfist að nefna það að kannski væri þeim hinum sama hollast að fara á Vog heldur stjákla í kringum þennan fyrirferðamikla sannleik eins og fíl sem stendur á miðju stofugólfi og ekki má nefna.

Bíddu, bíddu, - hvernig getur Icesave verið þessi fíll. Það er ekki svo að enginn hafi þorað að nefna hann, þvert á móti, það hafa allir talað látlaust um þennan meinta fíl þannig að heilbrigðu fólki er ekki lengur óhætt í heitu pottana. Mál sem er samt alls ekki svo stór sem af er látið, meira einhverskonar "keppnis" eins og ungmennin segja, einhverskonar metnaður hver hafi betur meðan milljörðum er sturtað orðalaust í allskonar vitleysu aðra og allt bendir til að málið sé löngu afgert með þrotabúinu. 

Nei, án efa,- Icesave er frekar gamallúinn íkorni og minnir mig líka hálfpartinn á kerlingarniðursetninginn á Þorpum sem var snarað fram og til baka yfir fjörð því báðu megin voru hreppstjórar þeir sem of góðir þóttust til að mylgra ofan í hana síðustu dagana sem öndin blakti. Sagan sú enti þegar kerling tók andvörpin sín þrjú krókloppin úti á firðinum miðjum og var úr sögunni.

Kannski síðasta Icesave krónan renni úr þrotabúinu ofan í bresku kóngstunnuna í miðjum málaferlunum, dómarinn með hamarinn á lofti, marbendillinn Sigurjón hlær en útburðir svikinna hugsjóna væla í bakröddum. 

(Ég lofa að skrifa seinna um það hver hann er þessi bleiki fíll, því hann er til hér eins og á öllum bæjum.)


... og stígvélin leka

(Svona samhengislaust ætti nú enginn að skrifa en það kemur stundum  í mig púki og ég set þá saman bréf sem líkjast mest frásagnarstíl  Guðrúnar suðu sem var norðlendingur eins og frændinn sem ég  var hér að skrifa í vikunni. Birt hér engum til eftirbreytni.:)

 

Sæll kæri frændi og fyrirgefðu sein svör og enga frammistöðu en stundum er þetta ekki betra þegar vikan er ekki nema rétt sjö dagar og þar af fara átta í vesen og nokkrir þar utan í vinnu sem er tímasóun og eftir það bæti ég mér yfirleitt upp vonsku veraldarinnar með því að liggja í rúminu fram að hádegi þegar ég get og er alltaf þegar kemur að reikningsskilum fjórtán árum á eftir með allt og stígvélin leka.

 

en semsagt, það sem ég vildi sagt hafa, enn er stefnan sett á það að halda fund daginn fyrir 1. maí og þessvegna þori ég ekki að lofa mér norður þó hálfpartinn sé ég orðinn fúll og viðskotaillur ef ekki beinlínis með böggum þeim sem úr kúm leka ofan í flórinn meðan kálfurinn er leiddur frá og skorinn svo ekki verði neitt vesen á bænum en ekki kemur það kýrinni málið við hvað geð mitt verður langsamt heldur hitt að nú held ég að mennirnir séu að heykjast á að halda fundinn þessa helgi og þá verð ég bæði af því að tala við róttækt fólk sem er ekki til hér og eiga ferðalag í norðurlandið sem árnesingurinn í mér segir nú að hljóti að vera ómerkilegt land og óbyggilegt en hin skagfirska taug togar í ekki síst vegna þess að þaðan hef ég bæði montið og kvensemina og vínhneigðina og gott ef ekki ófyrirleitnina af hálfu en hinn hlutinn af þeiri hneigð er kominn frá nonna frænda sem alla drakk undir borð meira að segja í tjaldi

 en svona er nú það, vonast til að geta litið við seinna á þessu sumri og þá spjallað um land og gagn og nauðsynjar ef einhver er slík lengur í landinu. kveðjur kærar -b.


... eins og lygar sniðugra blaðamann

Ég er enn með höfuðið með séra Gunnari Benediktssyni uppgjafarframsóknarmanni, uppgjafarprestisósíalista, rithöfundi, kommúnista og hugsuði. Á árunum eftir að hann kastar hempunni fyrir hugsjón alþýðunnar skrifar hann mikið um kristindóm og skrifar á einum stað um þær athafnir sem fram fara í dómkirkjunni í Reykjavík:

Maður getur staðið steinhissa yfir því, hvað þetta alvörulausa röfl prestanna um kærleika guðs, tign Jesú Krists og náðargjafir heilags anda getur haft mikil áhrif á fólk og jafnvel þá, sem alls ekki geta talist heimskir menn. 

En það er með þetta gaspur eins og með lygar sniðugra blaðamanna, það er hægt að endurtaka þetta svo oft, að maður fari hugsunarlaust að meðtaka þetta eins og einhvern viðurkenndan sannleika. 

Þó að þetta sé skrifað árið 1932 á þetta ekki síður erindi í dag en þá og víst er að sniðuglegheitum blaðamanna hefur síst farið aftur á þessum 80 árum. 


... hafnaði alltaf í sósíalisma!

Séra Gunnar Benediktsson prestur í Saurbæ og seinna rithöfundur íHveragerði var á þriðja áratug 20. aldar virkur í starfi Framsóknarmanna í Eyjafirði. Hann var því fenginn til að setja Eyjafjarðafélaginu lög og stefnu en það fór ekki vel:gunnarbenediktsson_sagathinersagavor.jpg

En þegar ég fór að brjóta heilann um höfuðlínur í stefnuskrá félagsins og sökkva mér niður í viðfangsefnin, sem fyrir lágu, þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að ég hafnaði alltaf í sósíalisma, sem ég þekkti þá ofurlítið til.

Og svo fóru leikar, að ég tilkynnti félagsbræðrum mínum það, að ég væri sósíalisti og ætti ekki samleið með þeim. Sögu þessa sagði ég einu sinni Jónasi frá Hriflu, þegar hann spurði mig, hvernig á því hefði staðið, að ég varð sósíalisti, og þá sagði hann. Það var slæmt, að þú skyldir fara að grufla út í þetta.

(Gunnar Benediktsso: Skriftamál uppgjafaprests, skráð vorið 1932)


Enn úr Sóleyjarkvæði

Einhverra hluta vegna hefur mjög almenn tilvísun mín í Sóleyjarkvæði vakið athygli. Það er raunar fátítt að slíkar bókmenntatilvísanir fljúgi mjög víða en vitaskuld var Jóhannes úr Kötlum engum líkur. Og nú má ég líka segja hversvegna ég ligg í að lesa kallinn. Það er semsagt verið að vinna að kvikmynd um skáldagötuna í Hveragerði og ég var beðinn um að koma þar að handritsgerð. En hættum nú þessu masi og höldum áfram með Sóleyjarkvæði, annað brot sem á alltaf við í henni versu:

 

Enn er þytur í lofti
enginn fuglinn þó syngi,
súr eru berin
á þrældóms lúsalyngi,
hrafninn flýgur um aftaninn
hann á að mæta á þingi.

Húkir við heinabergið
á hriflingum grátt sem blý
- deilt er um sálaðan sauð
kropp í, kropp í,
strý verður ekki troðið
nema stebbi troði strý.

 


Það sem fyndið á að vera ...

gerdi_thad_aftur.jpgÉg er hálf skömmustulegur í kvöld, ekki yfir því að það hafi skriplast úr tölvunni fjölmiðlapóstur til fjölmiðla enda mitt hlutverk í embætti að senda þeim pósta. Í þessum pósti stóð ekkert það sem fjölmiðlar áttu ekki einmitt að fá að vita og smá um það hvernig þeir fengju að vita það sama. Ennþá hef ég alltof lítið séð um það mál sem fjallað var um í þessum póstum en það kemur hjá okkar góðu pressu.

En það sem ég skammast mín hálfvegis  fyrir er að hafa sýnt blaðamanni Vísis pirring þegar hann þráspurði út í það hvaða forrit ég hefði notað, sannast sagna var dottið úr mér heitið á þessum búnaði en mundi það auðvitað um leið og maðurinn var farinn úr símanum, það heitir Lotus forritið sem við notum í stjórnarráðinu. 

Það gerist oft að póstar fara tvist og bast - sjálfur fæ ég öðru hverju svoleiðis frá hinum og þessum. Það eru vitaskuld ekki tíðindi. En auðvitað verður það svo að ef einhver kemst í póst frá mér og þá sama hvernig sem það gerist, þá þykir það fyndið og ekki ætla ég að bera móti því.

Þetta er einmitt það sem fyndið á að vera og ef pólitíkin væri aldrei illvígari en þetta væri nú gott að lifa. Semsagt, - jú, óneitanlega, þetta var smá fyndið!


Fyrsta boðorðið er að svíkja ...

johannes_kotlum.jpgÉg er svo lánsamur þessa dagana að vera í aukavinnu við að lesa gömul og gengin skáld, (verkefnið er ennþá leyndarmál en ég segi frá því seinna.)

Í gær var ég að lesa ljóð Jóhannesar úr Kötlum og datt ofan í gamalt uppáhald, Sóleyjarkvæði. Kannski á þjóðin einmitt að lesa Sóleyjarkvæði þessa dagana. Þar í eru þessar hendingar:

Eitt sinn var boðorðið eitt í landi:
eigi vikja -
nú er öldin önnur
og önnur boðorð sem rikja
- fyrsta boðorðið er:
að svíkja.

En óvissan kvelur tóra þóra:
erum við þrjátíu og tveir?
nei, við erum fjörtíu og tveir!
og hvorttveggja sverja þeir
- þeir ruglast í sinni eigin tölu
alltaf meir og meir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband