Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Flokkakerfið er meinsemd

Sá mæti blaðamaður Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði nýlega í pistli hér í Morgunblaðinu um mátt stjórnmálamanna í baráttunni við kerfið og peningaöflin. Hann tók þar dæmi af Clinton Bandaríkjaforseta og segir m.a.:

... Bill Clinton hefði eftir forsetatíð sína á margan hátt þurft að játa sig sigraðan. Ýmis mál hefðu ekki náð í gegn, sakir fyrirstöðu fjármálaafla. Máttur peninga og manna á Wall Street hafi verið meiri en Bandaríkjaforseta, þó embætti hans sé stundum sagt hið valdamesta í heimi. Hugsjónirnar náðu ekki að sigra hagsmunina. Í því ljósi er því eðlilegt að spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir íslensku hafi einfaldlega þann styrk að geta lagt til atlögu við banka, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina sem varið hafa verðtrygginguna af öllum mætti. Þessar stofnanir eru máttugar en hinar pólitísku hreyfingar á margan hátt veikar.

Eins og oft áður hittir Sigurður hér naglann á höfuðið þegar kemur að vanda íslenskra stjórnmála. En það er þó ekki rétt að stofnanir stjórnmálanna séu í þessu efni of veikar. Það sem er of veikt er sjálfstæði stjórnmálamannanna sem starfa innan stjórnmálaflokkanna.

Vald til lagasetningar og framkvæmdavalds er innan stjórnmálaflokkanna en því fer fjarri að stofnanir þessar séu heilbrigðar lýðræðislegar stofnanir. Innan stjórnmálaflokkanna ráða hagsmunaöfl og peningaöfl ferðinni. Fáir komast til metorða í flokkum þessum nema vera þóknanlegir valdamiklum klíkum sem starfa innan flokkanna. Flokksþing eru oftar en ekki sambland af málfundi og skrautsýningu. Þeir sem ætla að hafa áhrif á gang mála hvort sem er við lagasetningu eða stjórnvaldsaðgerðir vita sem er að skilvirkasta leiðin liggur ekki um þingmennina sjálfa, hina rétt kjörnu handhafa valdsins heldur um „vinnuveitendur" þingmannanna, stjórnmálaflokkana.

Birtingamyndir þessa fyrirkomulags eru fjölmargar og þannig finnst mörgum eðlilegt að flokksbundnir menn og einkanlega hátt settir flokksmenn hafi greiðari og almennari aðgang að kjörnum fulltrúum heldur en almennir óflokksbundnir kjósendur. Þegar að er gáð er ekkert í okkar stjórnskipan sem réttlætir þannig hólfa- eða stéttaskiptingu kjósenda.

Margt af því misheppnaðasta í stjórn landsins á undanförnum árum má rekja beint til þess að þingmenn hafi með þvingunum og fortölum flokksræðisins verið sviptir sjálfstæði sínu og rétti til að fylgja eigin sannfæringu. Skýrast í þeim efnum er viðsnúningur VG liða í ESB máli en einkavæðing bankanna og samþykkt EES eru sama marki brennd.

Í ESB máli yfirstandandi kjörtímabils höfum við síðan fengið að kynnast því hvernig sterkir stjórnmálaleiðtogar geta í reynd nýtt flokksstofnanir sínar til þess að losna undan óþægilegum kosningaloforðum sem gefin voru öllum kjósendum en er eftir á breytt af litlum hópi þeirra.

Núverandi kosningakerfi er mjög hliðhollt flokkakerfinu og gerir t.d. einstaklingsframboð ómögulegt. Ein leiðin til framfara í þessum efnum liggur því um stjórnarskrárbreytingar á kosningakerfi en mikilvægast er þó lifandi vakning almennings fyrir því að hér er pottur brotinn og réttur allra kjósenda er sá sami. Við núverandi fyrirkomulag er eina leiðin út úr kerfinu að frambjóðendur bjóði fram í óháðum kosningabandalögum sem ekki mynda stjórnmálaflokk.

(Birt í Mbl 16. mars 2013) 


Rétt hjá Björvini G!

Björgvin G. Sigurðsson er nágranni minn hér í Latínuhverfinu á Selfossi og ágætur vinur. En við erum yfirleitt ósammála þegar talið berst að innlimun Íslands í ESB. Þessvegna er rétt að geta þess þegar þessu er á annan veg varið.

Það er rétt hjá þingmanninum að ESB málið er eitt það stærsta í komandi kosningum. Það er alls ekki svo að árás ESB á íslenskt fullveldi hafi verið hrundið. Nú um stundir flæða ESB peningar yfir opinbera geirann hjá ríki og sveitarfélögum. Engar skoðanir standast peningagjafir, hversu ágætar sem þjóðir annars eru.

Mesta hættan nú er fólgin í flækjustiginu og skrökinu. Þegar menn gangast inn á að sjálfsagt sé að spyrja ESB einu sinni enn hvað sé í pakkanum eða vilja kosningar um hvort málinu sé haldið áfram örlítið lengur - eru þeir flæktir í köngulóarvef vitleysunnar. 

Við eigum einfaldlega að slíta þessum viðræðum og það er fráleitt að efna til kosninga um málið meðan erlent stórríki rekur hér áróðursskrifstofu. Þegar Evrópustofa hefur pakkað saman og IPA styrkjum verið skilað er sjálfsagt að skoða það að efna til kosninga um framtíðarfyrirkomulag í samstarfi okkar við ESB og byrja á spurningunni um EES! 


mbl.is ESB eitt brýnasta kosningamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðsettir vinstrimenn!

Helgi Guðmundsson fyrrverandi Þjóðviljaritstjóri skrifar pistil á bloggsíðu sína, Þjóðviljann þar sem hann gagnrýnir okkur frambjóðendur Regnbogans fyrir að fara í framboð sem einvörðungu er stefnt til höfuðs öðrum vinstri mönnum! Heimild Þjóðviljans fyrir þessari túlkun er þó ekkert sem neinn okkar Regnbogamanna hefur sagt eða skrifað heldur fyrirsögn í því ágæta blaði DV.

Untitled-1

Nú kann einhverjum að þykja það ógna stöðu VG að þeir sem fylgja vilja fyrrverandi stefnumálum VG skuli boða til framboðs. Það verður þá svo að vera en í þessari sýn kemur óneitanlega fram mikil flokkshollusta en að sama skapi skeytingaleysi um skoðanir. Boðskapur gamla Þjóðviljaritstjórans er að sama hversu illa flokkur svíki sína stefnu þá beri mönnum að standa með honum og megi aldrei gera meira en að draga sig í hlé frá vettvangi ef þeim ekki hugnast að vera með lengur.

Framboði Regnbogans er engan veginn stefnt gegn neinu öðru framboði heldur einfaldlega með ákveðnum hugsjónum um þjóðfrelsi og fullveldi. Það má vissulega gagnrýna VG fyrir að hafa á yfirstandandi kjörtímabili ekki fylgt stefnu sinni í máli sem flokkurinn var nánast stofnaður um. Ef ekki hefði verið fyrir ESB hefðu allir vinstri menn farið í einn flokk um síðastliðinn aldamót. 

Nú er aftur á móti svo komið að VG kemur hreint fram sem ESB flokkur sem vill láta á það reyna til þrautar hvort koma megi Íslandi þar inn. Þar er reyndar enn farið með möntrur um að hagsmunum Íslands sé ef til vill best borgið með einhverjum hætti en stefnan er samt skýr, aðlögun, samningum og aðildarbrölti skal haldið áfram, "til dæmis" svo lengi sem þurfa þykir.

Framboð þeirra sem eru á móti ESB keppir því ekki beint við ESB flokkinn VG heldur fremur við aðra þá flokka sem hafa andstöðu við ESB aðlögun á dagskrá. Þeir flokkar eru flestir á hægri kvarða flokkakerfisins, Hægri grænir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur. Það hentar ekki öllum kjósendum að fara svo langt til hægri og við sem stöndum að Regnboganum fyllum því í ákveðið tómarúm stjórnmálanna. En við höfuðsitjum engan og unnum hverjum þeirra atkvæða sem kjósendur vilja færa þeim. 


Eiga þingmenn að taka þátt í hverju sem er!

Aulahrollur er vel skiljanlegur og raunar er ofuráhersla Ríkissjónvarpsins á þessa ekki frétt Þórs Saari álíka aulaleg. Allt málið er skrípaleikur og ég velti fyrir hvor ræðan hafi verið verri, ræða Birgittu eða Bjarna Ben sem sagði já en var ósammála texta tillögunnar.

Spurningin eftir daginn er vitaskuld hvort þingmenn verði að taka þátt í hvaða skrípaleik sem er... 


mbl.is Birgitta með aulahroll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð án flokks - jöfnuður og fullveldi

Eru stjórnmálaflokkar nauðsynlegir?

Við höfum nokkur rætt þann möguleika á undanförnum vikum að bjóða fram án þess að stofna stjórnmálaflokk. Regnhlífarsamtökunum Regnboganum er ætlað að vera brú milli frambjóðenda sem eiga sér ákveðinn samnefnara, samhljóm sem dugir til að atkvæði fari frá einu kjördæmi til annars.

Samnefnarinn er jöfnuður, félagshyggja og áhersla á fullveldi Íslands. Við viljum stöðva aðlögun Íslands að ESB, við viljum jafna kjör fólks og bæta úr kynbundnum launamun. Við viljum jafna kjör byggðanna og rétta hlut landsbyggðar. Við byggjum stefnu okkar á sjálfbærri þróun eins og hún birtist okkur í Ríó yfirlýsingunni. Við teljum brýnt að berjast gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Við teljum að enn sé mikið óunnið í skuldamálum heimila og rétti lántakenda. Þetta er það helsta en við kynnum stefnuna betur á allra næstu dögum.

Með því að koma fram án flokks teljum við okkur betur fær til að takast á við vankanta íslenskra klíkustjórnmála. Verstu afglöp í stjórnun þessa lands hafa verið ráðin á flokksskrifstofum,  EES, einkavæðing banka, ESB umsóknin, þjóðarsáttir sem gerðar voru á kostnað launþega og svo mætti áfram telja. Alþingi hefur svo verið stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnir og flokksskrifstofur. Þessu fyrirkomulagi verður ekki breytt nema með því að höggva á alræði flokkakerfisins.


Hefðirnar í Miðasíu og afskipti Evrópumanna

Það eru hefðir fyrir margskonar kúgun og ofbeldi í þessum harðbýlu löndum Miðasíu. Sagan sem sögð er í þessari frétt er því miður ekkert einsdæmi. En það eru líka hefðir hjá þessu fólki fyrir drenglyndi og fegurð í mannlegum samskiptum. Ég hef ekki komið yfir til Afganistan en verið gestur Phastunanna í fjöllunum Pakistanmegin landamæranna og dáist að þessu fólki þrátt fyrir grimmd þess og feðraveldi.

Ein hefð er sterkari en nokkur önnur í öllum þessum löndum og fyrir henni margra aldra reynsla. Það er sú hefð að gera þvert á það sem evrópskir postular segja. Peter Hopkirk sem skrifar skemmtilegan langhund um sögu Miðasíu (The great game, 1990) lýsir þessu kostulega. Hvernig breskir heimsvaldasinnar komu einn af öðrum og þóttust geta kennt þessum fornu menningarþjóðum betri siði og leitt þær til nútímans. Og fóru sneyptir til baka, þeir sem ekki enduðu hauslausir í ómerktri gröf. Okkur Vesturlandabúum er fyrirmunað að sjá að við höfum eitthvað af þessum þjóðum að læra og meðan svo er getum við heldur ekki kennt þeim neitt.

Staða öfgasinnaðra Múslima er sterkari nú í þessum heimshluta heldur en hún var jafnvel í valdatíð Talibana. Þeir heimamenn sem aðhyllast hófsöm viðhorf og nær okkar verða fyrir aðkasti fyrir að styðja innrásaröflin. Það kann að hljóma grimmdarlega en á þvælingi um þessi svæði velti ég því stundum fyrir mér hvort þetta væri ekki allt heldur afslappaðra og um leið á réttara róli í mannréttindum, kvenfrelsi og menntun ef ekki þvældust hér endalaust fyrir afskipti vestrænna nútímafræðinga!


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Hefð fyrir refsileysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrárfarsinn fær fimm stjörnur

Síðasti þátturinn í Stjórnarskrárfarsanum er óneitanlega vel heppnaður, bæði fyndinn og örlítið spennandi.

Nýkjörinn formaður Samfylkingar asnaðist til að segja sem satt er að málið allt sé rekið á sker og auðvitað fær hann bágt fyrir. Það er stórhættulegt að hafa slíkan formann í þessum flokki. Næst gæti hann farið að segja satt frá ríkisstjórninni, Jóhönnu og guð hjálpi okkur jafnvel ESB.

Nei, nei - alveg róleg. Auðvitað gerist ekkert slíkt og Árni Páll gáir að sér. Til þess að stilla til friðar hefur hann stungið upp á því að núverandi stjórnarmeirihluti fái að binda hendur þingsins á næsta kjörtæimabili. Mjög gagnlegt fyrir þessa tvo flokka því eftir kosningar verða þeir frekar litlir og margir þeir sem nú sitja fyrir þá á þingi horfnir til annarra starfa. Það er auðvitað eðlilegt, finnst Samfylkingunni og litlu samfylkingunni að völd þessa þingmeirihluta nái svolítið inn í eilífðina. 

Þór Saari bætir þó um betur og vill einfaldlega lengja þingið þar til málið er komið í höfn. Það verður reyndar varla gert nema fresta kosningunum eða þá sleppa þeim bara og hafa bara sama þing áfram. Það er alveg nauðsynlegt fyrir lýðveldið og lýðræðið að Þór fái að sitja ögn lengur og skiptir meira máli heldur en það að þingmenn gái að smámunum eins og þeim að það umboð sem kjósendur gefa er takmarkað í tíma.

Það hefði enginn hérlendur rithöfundur getað skrifað betri enda á farsa um stjórnarskrá og lýðræðisást! 


mbl.is Skoða áfangaskiptingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svindilbraskarar

Gamlar konur sem ég talaði við hér í Flóanum fyrir margt löngu notuðu orðið svindilbraskarar þegar talið barst að gaurum þeim sem héldu til í Gaulverjabæ fyrir 100 árum. Ég segi aðeins frá þessum köppum í pistli á Vinstri vaktinni og lærdóma þá sem við nútímabörn getum af þeim dregið. Sjá hér: 

 http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1285886


Það eru víða villikettirnir

Ásta Ragnheiður er óþekk. Hún hlýðir hvorki forsætisráðherra né sérstökum líflækni hennar, Þór Saari. 

Vitaskuld er hugmyndin um að keyra stjórnarskrármál í gegn með offorsi galin og það veit forseti þingsins. En hvaða uppnefni ætli ríkisstjórnarforystan kjósi þessum nýja villiketti sínum.

Eða er stjórnin orðið meðvituð um, að það er hún er sjálf sem er á villigötum og öll efni til köpuryrða um andstæðinga stjórnarinnar eru brosleg.


mbl.is Þingforseti breytir ekki dagskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband