Fyrsta boðorðið er að svíkja ...
5.4.2011 | 16:56
Ég er svo lánsamur þessa dagana að vera í aukavinnu við að lesa gömul og gengin skáld, (verkefnið er ennþá leyndarmál en ég segi frá því seinna.)
Í gær var ég að lesa ljóð Jóhannesar úr Kötlum og datt ofan í gamalt uppáhald, Sóleyjarkvæði. Kannski á þjóðin einmitt að lesa Sóleyjarkvæði þessa dagana. Þar í eru þessar hendingar:
Eitt sinn var boðorðið eitt í landi:
eigi vikja -
nú er öldin önnur
og önnur boðorð sem rikja
- fyrsta boðorðið er:
að svíkja.En óvissan kvelur tóra þóra:
erum við þrjátíu og tveir?
nei, við erum fjörtíu og tveir!
og hvorttveggja sverja þeir
- þeir ruglast í sinni eigin tölu
alltaf meir og meir.
Þegar guð brosti til smælingjanna
2.4.2011 | 19:36
Tveir af mínum kærustu vinum, Benedikt Guðmundsson Tyrfingssonar og Þór Vigfússon áttu afmæli í gær og héldu það heilagt á Draugabarnum þar sem saman var komið fjölmenni og þrátt fyrir ræðubann var ég rekinn upp á svið og til þess að brjóta ekki ræðubannið flutti ég eftirfarandi um þá félaga sem eru báðir Selfyssingar en rekja ættir til fátækra og heiðarlegra sveitamanna og endalausrar sögu sem ég reyndi af vanmætti að festa í mynd og var samt ekki með myndavél þannig að myndin hér á vefnum er gömul og segir frá henni hér neðar, en hér kemur pistillinn:
Hvað eiga bæirnir Stekkholt í Biskupstungum
og Kálfholtshjáleiga í Holtunum sameiginlegt
annað en að þar tróðu moldina í þúsund ár
kiðfættar og fjólubláar hrossætur
undir endalausum útburðarvæl,
fyr útsynning sem stundum varð endalaus
eins og vorsulturinn
og tíðindaleysið.
Nema álfkonur sátu hlakkandi
á gránibbu og röktu garnir
og vélindu úr óþekkum
niðursetningi.
Og húsfreyjan rúmliggjandi á annan áratug
og ól samt bónda sínum
tólf börn og einn þeirra
var umskiptingurinn sem hló
við tungli.
En stafkarlar gengu á vatni og
kýrin gerði það eina gagn í sulti sínum
að segja börnum sögur á jólanótt
löngu eftir að kertið var útbrunnið
og soginn mergurinn úr gamalánni
sem fannst uppþembd
í bæjarlæknum í vikunni á undan hinni vikunni,
sem var í vikunni áður en
presturinn kom ríðandi á glófextu
og hafði yfir feitu andlitinu skelmissvip
eins og Múhameð Gaddafi.
Allt eru þetta senur úr gærdegi í lífi
þeirra heiðursmanna sem ekki gátu orðið
annað en góðmenni svo mjög sem á brunnu
áheit frá margvisum ömmum
hvísl frá draugi sem faldi sig í vorvindinum
og andvarp djúpt innan úr heygaltanum.
Mest samt endalaust ættgöfgi þeirra manna
sem komnir voru af írskum þrælum og áttu
stórriddarakrossa merkta á bak sér
af illa lyntum böðli og drukknum sýslumanni,
manna sem hlógu
daginn sem þeim var neitað um úttekt
í henni Eyrarbakkahöndlun
og hrintu Flóðalabba ofan í Markarfljót
þegar hann þvældist fyrir dróginni þeirra
sem ekki var annað en beinin og sitt pundið af hvoru
einasta á hnúskóttum kattarhryggnum,
sem gömul frænka á prestsetrinu
hafði laumað framhjá stoltinu
að þeim fátæka
og samt var allt gott.
Nema hvað það var leiðinlegt
að vera búinn úr kútnum í miðjum Flóa
og vakna hálfur ofan í dælu
en samt svo fastur liður og dásamlegur hluti tilverunnar
að kannski var ekkert betra
nema bara að mega þukla
þá botnóttu um bógana á vori sem hún var ekki reisa
sem bara gerðist í góðu vori,
þegar guð brosti til smælingjanna
þannig að þeir fundu þá hamingju
sem hreppstjórinn vissi ekki
að var til.
Og var kannski alls ekki til nema hjá þeim
armingjum sem var í beinu sambandi
við drauga og forynjur þær
sem allir vita nú að voru aldrei til
rétt eins og allir þá vissu að aldrei
yrðu hér í endalausri mýrinni
til þeir hamingjudrengir sem
nú sem brosa við veröldinni í dag,
í sínu afmæli
algerlega jafnaldra þó að tímamunur í Tungum og Holtum
hafi varnað þeim að fermast saman.
Skál.
(Á myndinni sem er gömul er ég með blómin
en ekki afmælisbörnin en þannig er það oft
í verunni að sá sem á að fá blóm fær ekkert
og Inga Lára lengst til hægri er hálf
prakkaraleg af því að hún fattar
hvað þetta á eftir að
verða skrýtilegt allt sem flest verður)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gott áttu Sturlungar
17.3.2011 | 20:55
Er að lesa séra Gunnar Benediktsson þar sem hann skrifar um Sturlungaöldina. Bókin heitir Ísland hefur jarl. Um þennan tíma hafa margir skrifað en kannski enginn af sömu skarpskyggni og Gunnar.
Það vekur mig til umhugsunar að sumpart voru Þórður kakali og Gissur jarl öfundsverðir. Þeir þurftu ekki að fara um landið og halda fundi til þess eins að sannfæra kotkarla um ágæti þess að véla landið undir erlendan kóng.
En af sögunni er alveg ljóst að yfirstétt Sturlungaaldar gekk fram undir smömu rökum og beitt er af ESB sinnum í dag:
Íslendingar eru slíkur ribbalda lýður að þeir geta ekki stjórnað sér sjálfir. Þessvegna er betra að fá gott og göfugt fólk í útlöndum til þess að friða landið.
Hinn mikli sigur aðildarsinna ...
10.3.2011 | 20:42
Síðan ég var gerður að ráðuneytismublu hef ég mikils til lagt af að blogga um pólitík enda fer það ekki vel við núverandi starf. Stundum get ég samt ekki stillt mig eins og þegar ég heyri siguróp ESB aðildarsinna. Þau byggja nú á því að örlítið fleiri eru jákvæðir fyrir því að ganga inn og að sama skapa færri jákvæðir fyrir fullveldi Íslands.
Litlu verður vöggur feginn. Myndin sem birt er fremst í nýjustu Gallup könnuninni segir meira en mörg orð um þennan sigur. En það er gott að vakin er athygli á þessu því vitaskuld verða allir að halda vöku sinni í þessum slag. Smellið á myndina til að fá hana skýrari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í þriðja sæti á metsölulista
10.3.2011 | 17:59
Útivistarhandbókin Góða ferð er nú í þriðja sæti á metsölulista Eymundsson verslana í flokki handbóka, fræðirita og ævisagna. Ofan við hana eru aðeins Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson og Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson. Semsagt Selfyssingar í tveimur toppsætum en Elín Esther Magnúsdóttir björgunarsveitarkona er vitaskuld Selfyssingur.
Í lista yfir heildarsölu er bókin í áttunda sæti og þetta er í fyrstu söluviku. Góð byrjun hjá góðri bók. Á myndinni er útgefandinn með höfundunum Helen og Elínu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bókaveisla í Iðu á morgun
4.3.2011 | 18:19
Þær stöllur Elín og Helen kynna á morgun laugardag kl. 14-16 nýja bók sína Góða ferð, handbók um útivist. Sjá nánar um gripinn hér. Á staðnum verða höfundarnir, trúbadúr sem syngur rútusöngva, flatkökur til næringar, kakó, kaffi og kleinur. Semsagt sannkölluð útilegustemning.
Góða ferð er handbók sem er ómissandi öllum sem ætla að leggja fyrir þvæling um íslenska náttúru, upplögð í pakkann handa fermingarbarninu og ekki síður fín fyrir afa sem er hættur að vinna og ætlar loksins að fara að hreyfa sig...
Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá voru gerðar strangar kröfur til útvarpsins ...
28.2.2011 | 18:12
Það er séra Gunnar Benediktsson kommúnisti og kennari í Hveragerði sem hér segir frá árinu 1942. Hann er á náttborðinu hjá mér kallinn og frekar skemmtilegur!
En þessi lýsing á útvarpinu 1942 vakti mig til umhugsunar. Eftir árið 1942 átti blaðamennska á Íslandi þó enn margt ólært og fór mikið fram. Flokksblöðin flest gömlu dóu að lokum drottni sínum og fram kom blaðamannastétt sem hélt sig við hlutleysi eftir því sem hún hægt var.
Ég kynntist þessum veruleika vel þegar ég byrjaði áratuga blaðamannsferil upp úr 1980.
Undir aldamót fór margt að fara til baka, bæði í viðhorfum og hegðan í samfélaginu. Þá varð þess aftur vart að blaðamenn teldu aðalhlutverk sitt að koma eigin skoðunum og meiningum á framfæri líkt og var meðan flokksblöðin voru í essinu sínu.
Ríkisútvarpið hefur nú fyrir löngu kastað öllu hlutleysi fyrir óðul og í þáttum þess keppast viðmælendur við að jánka skoðunum þáttastjórnenda.
Á því herrans ári 2011 erum við komin langt aftur fyrir árið 1942.
Stærsta netbókabúð landsins
24.2.2011 | 21:52
Ef litið er til vöruúrvals þá er enginn vafi að netbókabúðin okkar bokakaffid.is er sú stærsta í landinu. Titlarnir eru nú orðnir rúmlega tólf þúsund talsins og sífellt að bætast við. Það þarf líka ef þessi fjöldi á að haldast því mikið fer út og stundum er kapp að ná eftirsóttum titlum.
Af þessum tólf þúsund titlum eru um tíu þúsund notaðar bækur sem aðeins eru til hjá okkur í einu eða tveimur eintökum og verðið er hagstætt. Þrátt fyrir allmarga gullmola þá er meðalverðið aðeins um 1100 krónur og hér er að finna fjölmargar bækur á 200, 300 og 400 krónur. Alls eru um 5000 titlar sem velja má um fyrir 700 krónur eða minna.
Sextánhundruð níutíutvær bækur í flokki íslenskra fagurbókmennta og nítjanhundruð tuttuguogfjórar af erlendum segja líka sína sögu. Við erum ekki síður hreykin af ævisagnahillunum okkar sem telja nú 1589 titla.
Athyglisverður evrufundur í hádeginu
23.2.2011 | 09:45
Sænski þingmaðurin Jonas Sjöstedt heldur erindi á fundi Heimssýnar miðvikudaginn 23. febrúar í hádeginu í sal 131 í Öskju við Háskóla Íslands. Fundurinn hefst kl. 12:30.
Jonas situr núna á rikisdeginum en var áður þingmaður á Evrópuþinginu. Hann beitti sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu árið 1994 og aftur þegar Svíar höfnuðu evru tæpum áratug síðar. Jonas er í utanríkisnefnd ríkisdagsins og Evrópunefndar þingsins.
Sigurður fótur er útvarpssaga
19.2.2011 | 23:50
Í kvöld klukkan 22 hefur göngu sína í Útvarpi Sögu ný útvarpssaga, Sigurðar saga fóts. Höfundur les. Sögukvikindi þetta varð til suður í Eþjópíu og segir frá ólánssömum Íslendingum sem fyrir einkennilega tilviljun og mest af misskilinni kurteisi setja Ísland á hausinn, þjóð sinni og sjálfum sér til nokkurrar blessunar. Við sögu koma lykilpersónur í íslensku samfélagi liðinna ára;
- miðlarar sem selja Alþingismenn,
- mafíóósar sem sulta kaupfélagsstjóradrengi ofan í dósir,
- bísnesmenn sem ekki kunna að reikna,
- málstola heimasæta sem óvart verður framsett eins og bedfordbíll,
- skemmtanaglaður prestshundur
- guðsmenn, dópistar og hrekklausir bankastjórar
(Á myndinni má sjá höfundinn þar sem hann bjó um skeið á afrísku hóruhúsi í fjöllum uppi og vann að ritstörfum. Ljósm.: Egill Bjarnason.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.2.2011 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)