Stórvirki Jóns í Vorsabæ og snilld Guðbergs

Þó fjöldi sunnlenskra bóka í ár svari ekki að öllu leyti til íbúafjölda á Suðurlandi er eitt mesta stórvirki þessara jóla komið hér af Suðurlandi og það úr hjarta landbúnaðarsveitanna, frá Jóni Eiríkssyni bónda í Vorsabæ á Skeiðum, Jarðabók Skeiðahrepps. jardabok

Bókin er nú loksins komin í sölu í Sunnlenska bókakaffinu og kostar litlar 14.990 en er þó miðað við þyngd ein ódýrasta bók hússins. Bók þessi er prentuð á Indlandi og vegna aðstæðna á þessu hausti dróst að hún kæmist í skip. Um tíma var óttast að Sómalskir skæruliðar kynnu að ná kjörgrip þessum á sitt vald og örugglega gert sér mat úr. En úr öllum hættum var verki þessu borgið og komst á Reykvískan hafnarbakka fyrir þremur dögum og samdægurs hingað austur. Og við erum hér að tala um  bók sem unnið hefur verið að í sex áratugi...

Jón hefur frá því snemma á fimmta áratug tuttugustu aldar fengist við söfnun og skráningu örnefna í sinni heimasveit. Mun óhætt að fullyrða að fáar sveitir á Íslandi hafa í þessum efnum notið eins mikillar natni. Nú kemur þetta æviverk Jóns út á bók sem er stór bók og  í  stóru broti og er öll hinn mesti kjörgripur. Hér að finna litprentaðar loftmyndir  af gudberguröllum jörðum sveitarinnar ásamt örnefnaskýrslum þar sem fjallað er um hvert örnefni. Ennfremur gerir höfundur grein fyrir helstu þjóðleiðum um Skeið og nálægar sveitir á liðnum öldum, rakin saga Skeiðahrepps á 20. öld og í bókarbyrjun er almenn sveitarlýsing. Með hverri jörð er getið ábúenda allra jarða allt frá árinu 1703 og sagt frá breytingum á búskaparháttum síðustu 100 ára í máli og myndum.

En þegar hugurinn þreytist á að þræða sig eftir fornum þjóðleiðum og örnefnasögum Skeiða og Flóa er góð tilbreyting að lesa Guðberg Bergsson sem eins og fyrri daginn kemur lesendum sínum á óvart. Nú með barnabók sem er samt ekki við hæfi barna, en um leið uppeldisbók sem ég er ekki viss um að sé við hæfi kennara eða foreldra - en er samt bók sem á samt erindi við okkur öll. Börnin í tossabekk leggja hér í mikið ferðalag hugmynda, fordóma, sleggjudóma og hitta fyrir sinn eigin ótta, hugaróra og fíflsku í bráðskemmtilegri ferðasögu um þessa og annars heims kjallaraherbergi skólans.


Við höfum skyldur við börn okkar og barnabörn

Góðir tilheyrendur

 

Ég vil byrja á því þakka forsjóninni fyrir jólalegt veður á þessum degi, yfirvöldum fyrir að leyfa okkur að koma hér saman og Landsbankanum fyrir að vera hér á þessum stað. En þá er nú búið með þakkirnar.

 

En við erum samt ekki komin hér saman vegna einhvers þakklætis eða af þeirri auðmýkt að vilja kyssa á vöndinn. Slíkt höfum við gert nógu lengi í góðri trú um að allt væri nú á þokkalega réttu róli. Og við höfum verið höfð að fíflum.

 

Kannski er okkur þess vegna ekki of gott að þola nokkrar kárínur eigin fíflsku, þola nokkra skuldabyrði eftir að hafa mörg hver dansað með gagnrýnislítið um gullkálfinn. Og megum nú einnig þola að útlendingar brosi í kampinn og telji Íslendinga einhverskonar aulabárða sem við með nokkrum hætti vorum.

 

En jafnvel þó værum nú tilbúin til að kyssa vöndinn í skömm þess sem veit sig hafa brugðist þá berum við hér aðrar og meiri skyldur. Við höfum skyldur til að skila af okkur öðru til barna okkar og barnabarna en drápsklyfjum skulda og óuppgerðar sakir.

 

Okkur sem nú erum um og undir miðjum aldri var skilað íslensku þjóðarbúi í því fari að og við þá vaxtamöguleika að allt horfði nokkuð vel. Raunar bar okkur ekki erfiðara hlutskipti en að halda þeirri ávöxtun, fordjarfa ekki því sem okkur var falið og tókst lengst af bærilega. Hvenær okkur bar af leið frá þeirri leið ætla ég ekki að fullyrða en aðdragandi þess var nokkurra ára. Hann var ekki bara við síðustu stjórnarskipti og mig grunar raunar að fara þurfi lengra aftur en til stjórnarskiptanna þar á undan, eða að minnsta kosti 20 ár aftur í tímann. Um þær markalínur verða menn aldrei alveg sáttir enda ekki aðalatriði. Þó svo að uppgjörið skipti ekki aðalmáli þá þarf það að fara fram. Þjóðarsálin verður aldrei hrein nema loftað verði út og farið yfir af einlægni og heiðarleik. En ég segi ykkur, þetta er samt ekki aðalatriði.

 

Aðalatriðið er að óráðvendnin og sukkið nemi staðar. Að við fáum réttlæti í núinu. Að þeirri ósvinnu verði hnekkt að þeir menn sem fremst gengu í græðgisvæðingu undanfarinna ára haldi áfram að braska með líf okkar og eigur. Því hver á þau atvinnutæki, þær verslanir, þær flugvélar, þá kontórana og faktoríur sem velt hafa þúsund milljörðum yfir á herðar almennings. Nema almenningur sjálfur sem nú tekur á sig ábyrgð af öllu saman. Og hvenær fær að fara saman í landi okkar ábyrgð og völd. Í stað þess að hreinsa hér til hafa yfirvöld í landinu rétt sömu öflum sama matadorinn og bera því við að það þurfi hér menn með innsýn í hlutina. Þar ræður meiru sjónarmið reddinga en réttlætisins og það er aldrei farsælt.

 

Eftir því sem lengra líður án þess að hér sé gripið inn í aukast líkurnar á að sömu menn geti öðru sinni hagnast og auðgast á auðmýkt okkar, þægð og lítilþægni. Og ætlum á sama tíma að kyssa á vönd okkar fornu eljara á Bretlandseyjum,- nokkuð sem óhugsandi hefði verið í tíð þeirra stjórnskörunga sem hér leiddu landhelgisstríð þjóðarinnar til sigurs. Við áttum hér jafnvel þá skörunga sem stóðu upp í hárinu á þriðja ríkinu en nú gúlpna íslenskir ráðamenn gagnvart breskum krötum.

 

Við lifum í litlu landi þar sem hagsmunavefir liggja víða. Við völd eru nú tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsmanna og ef til vill fylgir sá böggull því skammrifi að því stærri sem flokkarnir eru því fleiri þræðir liggja um þeirra hús. Víst er að sá hlífiskjöldur sem stjórnvöld halda yfir útbrunnum útrásarvíkingum þessa lands er miður heppilegur og rýrir stjórnvöld og það traust sem þau þurfa að búa við á erfiðum tímum.

 

Það er fleira sem rýrir traust stjórnvalda og þá einkanlega það algera andvaraleysi sem hefur einkennt ráðamenn um langa hríð. Fyrir liðlega ári síðan, eða nánar tiltekið um 15 mánuðum, komu upp raddir um að ef til vill væri byggingaiðnaðurinn að stefna þjóðinni í ógöngur. Verið gæti að húsin væru að verða alltof mörg miðað við þarfir markaðarins. Sjálfur komst ég svo nærri valdastofnunum landsins á þessum tíma sem þingmaður í stjórnarandstöðu að ég gat lagt þá spurningu fyrir starfsmenn úr efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og spurði þá hverju það sætti að deilur væru um þessar tölur. Hvort flókið væri að telja fjölda íbúðanna og fjölda landsmanna og komast að hinu sanna. Svar embættismanna ráðuneytisins var að þetta væri sáraeinfalt, hefði verið gert og ekkert benti til að neitt væri að, framboð og eftirspurn í eðlilegum farvegi. Hver er ábyrgð þessara útreikninga á því hvernig nú er komið fyrir byggingariðnaði okkar landsmanna. Þar með afkomu og atvinnu fjölmargra verktaka, bæði smáfyrirtækja og stærri. Þar er um að ræða vandamál sem mjög brennur á okkur Selfyssingum.

 

Aðstæður nú kalla á endurmat og þær kalla á naflaskoðun. Og þær kalla fram miklar hættur. Fjölmargir vilja nota sér bágar aðstæður okkar til að koma okkur enn verr en þegar er orðið. Verum þess minnug að með samtakamætti þjóðarinnar, samvinnu einstaklinga, stétta og fyrirtækja sem og öfgalausri sýn á hlutina tókst okkur Íslendingum að vinna okkur frá því að vera langfátækasta þjóð Evrópu yfir í það að vera þar í fremstu röð. Sá sigur náðist þrátt fyrir smæð landsins, hrakspár margra og þó svo að þeir sigrar sum unnust hafi verið algerlega órökréttir. Hér sannaðist sem fyrr að trúin flytur fjöll. Og þrátt fyrir áföll nú erum við enn í framvarðasveit þeirra þjóða sem hvað best lífskjör hafa.

 

Við getum tapað þeirri stöðu og við getum haldið henni. Allt eftir því hvernig haldið verður á málum í gegnum brimskafl komandi árs. Þar skiptir mestu að í landinu verði nú sem fyrr stjórnvöld sem trúa á íslenska þjóð og trúa á gildi þess að réttlætið ríki framar ómerkilegum reddingum.

 

(Ræða flutt á útifundi við Landsbanka Selfoss 18. desember 2008)


Borgaraleg mótmæli á Selfossi í hádeginu

Veit ekki hvað það er langt síðan haldinn hefur verið mótmælendafundur hér austanfjalls. Kannski ekki frá því í Áshildarmýrinni hér um árið en allavega efna nokkrar valkyrjur hér í bæ til útifundar við Landsbankann klukkan 12:30 í dag. Sjálfur verð ég þar meðal ræðumanna en auk þess Sigríður Jónsdóttir skáldkona og Elín Björg Jónsdóttir verkalýðsleiðtogi.

Mætum öll.


Húspostilla vorra tíma

1014854

Evrópuvitund heitir ein af jólabókunum í ár, gefin út af stofnunum Háskóla Íslands. Hér er komin húspostilla vorra tíma því bók þessi hefur að geyma mikilsverðar trúarjátningar þeirra sem vilja gera það sem höfundar í kveri þessu kalla Evrópu-rétt, ekki þó í því samhengi hvað tilheyri lagabálkum eða réttarfari heldur í samhenginu hvað sé rétt og hvað sé rangt út frá Evrópu. Grein um þetta ber semsagt heitið: "Evrópurétt" og "Evrópu-rangt": Hvernig hægt er að klúðra innleiðingu evrópskra tilskipana í íslenskan rétt. Útfrá sömu sjónarmiðum væri þá kannski hægt að tala um Íslands-rétt og Íslands-rangt og þykir örugglega frekar hallærislegt.

Fyrir heiðingja á akrinum eins og undirritaðan er einnig fróðlegt að lesa rit þetta til þess að kynnast þeim framandi þankagangi sem þarf til að gera stjórnsýslufræði að trúarbrögðum. Í heilli grein er fjallað um evrópuvitund utanríkisráðherra Íslands - kemur ekki á óvart að Davíð karlinn er þar talinn heldur vitundarlítill!

Ritið er skrifað í kansellístíl sem hæfir vel efninu og víða í því er að finna sögulegar réttlætingar t.d. þar sem leitað er uppruna Evrópuhugsjóna í frumkristni, Rómverska heimsveldinu og grískri fornmenningu. Bók þessi er nauðsynleg öllum Evrópu-réttþenkjandi heimilisfeðrum til upplestra á kvöldvökum.

En nú hefur mér semsagt tekist að blogga um bækur og pólitík í senn og líklega mál að linni. Vil samt í lokin minna á upplestrarkvöldið í Sunnlenska bókakaffinu annaðkvöld, klukkan átta, en þá mæta til okkar Þórhallur Heimisson, Heimir Már Pétursson, Úlfar Þormóðsson og Hallur Hallsson.

 


Furðuleg kveðja frá Helgu Sigrúnu

Helga Sigrún Harðardóttir sendir mér heldur kaldar kveðjur á bloggsíðu sinni í gær undir fyrirsögninni Étt´ann sjálfur Bjarni Harðarson. Þó ég kunni vel við hreinskilni og tæpitungulausa orðræðu held ég einhvernveginn að pistlar eins og þessir dæmi sig sjálfir. Fyrir utan að vera uppfull af reiði í minn garð leyfir Helga sér að fara með margskonar ósannindi, furður og endaleysur um mig og meintar hugsanir mínar. Slíkt verður hún að eiga við sig.

Það er auðvitað rangt að ég hafi lært á tölvu hjá Helgu Sigrúnu, að ég hafi skipt um skoðun í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum vorið 2007, að ég hafi reynt að bola Jóni Sigurðssyni frá formannsstóli, að ég hafi ekki rætt málin við Helgu Sigrúnu, að naflinn á mér sé eitthvað óvanalegur, að ég aðhyllist baktjaldamakk og trúi á samsæriskenningar, gruni menn um græsku og hafi haft uppi dólgshátt á fundum. Það voru aðrir sem það gerðu, Helga! Og um græsku varstu ekki grunuð heldur staðin að verki.

Og það er rangt, Helga, að kjósendur Framsóknarflokksins hafi ákveðið að losa sig við okkur Guðna Ágústsson og fá aðra í staðin. Flokkseigendafélag sem gerir mönnum óvinnandi túlkar ekki vilja kjósenda. Og ég hef hvergi gefið svo mikið sem í skyn að ekki eftir neitt heiðarlegt fólk í Framsóknarflokknum. Allt er þetta tilhæfulaust með öllu. En ég hef haldið því fram að þeir sem voru á póstlista Jóns Sigurðssonar fyrrverandi formanns hafi stundað óheiðarlega undirróðursstarfssemi í flokknum í formannstíð Guðna Ágústssonar. Það er ekki samsæriskenning, það styðst við gögn sem lögð hafa verið fram og er staðfest í viðtali við Jón sjálfan.

Kostulegast er þó þegar þingmaðurinn Helga Sigrún beinir spjótum sínum að Guðna Ágústssyni og raunar flokki þeim sem hún hefur starfað fyrir. Segir í fyrri hluta pistilsins að aldrei hafi neinn reynt að hafa áhrif á hana innan flokksins og sjálf sé hún alsaklaus af því að hafa staðið í illindum við fyrrum formann flokksins. Segir síðan:

Þá má spyrja sig um það hversu vel formaðurinn var í stakk búinn að standa undir hlutverki sínu og hvort hann lagði ekki sjálfur, með dyggri aðstoð Bjarna sjálfs drög að eigin falli?  Ég varð vitni að því þegar menn voru kallaðir á teppi formannsins ef þeir höfðu frumkvæði að því að birta eigin hugmyndir án þess að formaðurinn hefði lagt blessun sína yfir þær. Sumum sagt að hætta að skrifa í blöðin. Öðrum sagt að formaðurinn réði. Punktur. Og fylgið féll.

Semsagt, flokkurinn var gallalaus, enginn reyndi að hafa áhrif á Helgu Sigrúnu í öðru orðinu en svo kemur visnúningur í greinina sem ég hélt að enginn nema Ragnar Reykás réði við. Skyndilega er það fjöldi manna sem verður fyrir grímulausri kúgun Guðna Ágústssonar sem bar þar með ábyrgð á fylgishruni flokksins. Þetta eru þvílíkar staðleysur að engu tali tekur.

Fer nú að hætta þessu enda til efs að ég eigi að svara í þessu tilfelli. Sé ekki betur en að meira að segja flokksskrifstofa Framsóknarflokksins skammist sín hálfvegis fyrir pistil þennan því þar hefur tilvísun á hann verið tekin út í dag og annar eldri settur í staðin. En í miðri greini Helgu Sigrúnar er eftirfarandi sem ég eftirlæt lesendum að dæma og halda það sem þeir réttast telja:

Halda menn í alvöru að Halldór Ásgrímsson hafi ekkert betra við sinn tíma að gera en að fjarstýra Framsóknarflokknum frá Kaupmannahöfn? Halda menn í alvöru að Jón Sigurðsson hafi verið strengjabrúða þegar hann gekk út úr Seðlabankanum og bauð sig fram til formanns og til Alþingiskosninga?


Vaxandi Sjón og nakinn Heimir Már

Það er ljúfara að blogga um bækur en pólitík og þessvegna blogga ég núna um tvær nýjar skræður sem liggja hér í púltinu hjá mér. rokkurbysnir

Rökkurbýsn eftir Sjón er bók mikillar kápu og mikillar eftirvæntinga. En kannski vegna þess að verðlaunabókin Skugga Baldur stóðst ekki fyllilega væntingar mínar þá tók ég þessa fram með nokkurri tortryggni. En nú hef ég tekið þennan sveitunga minn á Bakkanum í sátt. Tök hans á sautjánda aldar fræðimanninum Jóni lærða eru meistaraleg og um leið óvanaleg.  Hér er fjallað um Maríudýrkun á öld siðbótar, víg útlendra skipbrotsmanna, baráttu við drauga og endalaust stríð mannsins við magt myrkranna. Athyglisverð pæling. Fær allavega 7.

Svo er það Heimir Már Pétursson sem birtist nakinn, nei grínlaust, það er bókin hans sem heitir Nakinn og er ljóðabók, líklega sú fimmta frá höfundinum sem er þekktari þjóðinni sem fréttamaður. Ég kann varla að gefa ljóðum einkunnir en giska á 7 og bendi lesendum á að dæma sjálfir, með lestri þessa sýnishorns hér á eftir eða með því að mæta í Sunnlenska bókakaffið á fimmtudagskvöldið þar sem skáldið verður ásamt þeim Úlfari Þormóðssyni, Halli Hallssyni og Þórhalli Heimissyni á síðasta upplestrarkvöldi vikunnar.

Líklega dregur bókin nafn af eftirfarandi:HeimirMar

Nakinn strákur

Nakinn strákur á stríðum hesti
hleypir yfir gula akra
út dalinn

móti sól

aftur og aftur
alltaf að fara

þegar ég vakna og man
að langt er um liðið...

 

Fallegur hestur

Þetta er fallegur hestur
þessi blái þarna
sem frýsar innan um þá hina

verst hvað hann haltrar
og tefur sláturhússtarfið.


Syninum fórnað fyrir mannorð ritstjórans

Farsinn á DV er í anda þess sem við höfum margir haldið fram,- fjölmiðlar útrásarvíkinga eru ekki frjálsir fjölmiðlar. Ömurlegast er samt að sjá Reyni Traustason fórna mannorði Jóns Trausta sonar síns til að svamla á hundasundi undan almenningsálitinu. Og með þeim afleiðingum að báðir standa eftir ærulitlir.
mbl.is Breyttur leiðari DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur í gíslingu S - hópsins

Jóhann Hauksson sem fyrr á árum naut virðingar sem útvarpsmaður en skrifar nú á DV lætur þau orð falla í blaði sínu nú í byrjun aðventu að undirritaður hafi með frægri tölvupóstsendingu sýnt af sér mikinn óheiðarleika og síðan komið sér undan maklegri refsingu með afsögn frá þingmennsku.

Sá sem hér ritar hefur fyrr vikið að þeim óheiðarleika blaðamanna Baugsmiðla í landinu að leggja hvern þann stjórnmálamann í einelti sem talað hefur af einurð gegn ESB aðild Íslands. Þar gengur blað Jóhanns sínu lengst eins og gleggst kemur fram í frámunalegum skrifum um Seðlabankastjóra. Fráfarandi formaður Framsóknarflokksins hefur ekki farið varhluta af rógskrifum þessum og á sama hátt hafa blöð Baugsmanna ítrekað hælt og hampað bæði Samfylkingarkrötum og þeim hluta Framsóknarflokksins sem er fylgispakur útrásarvíkingum í sínum ESB áróðri.

Það kastar þó tólfunum þegar í sömu grein er kallað eftir afsögn manna vegna mistaka í starfi en þeir sem þá leið fara eru í hinu orðinu sakaðir um að smokra sér undan refsingu! En til þess að almenningi gefist nú kostur á þeirri refsingu sem blaðamaðurinn telur maklega er rétt að undirritaður ræði umrædda tölvupóstsendingu því  ekkert er betur fallið til krossfestingar en að hinn seki verji málstað sinn.

Óþarfa afsögn og afbrotin verri

Enda er það svo að margan hefi ég hitt sem taldi afsögn mína algerlega óþarfa og að þarflausu miðað við umfang brots. Síðan hún átti sér stað hafa enda komið upp á yfirborðið þær aðrar bréfasendingar millum manna í Framsóknarflokki sem lýsa miklu einlægari brotavilja gagnvart flokkssystkinum. Ber þar hæst tölvubréf sem Jón Sigurðsson fráfarandi formaður hefur ritað völdum hópi samherja innan flokksins þar sem beinlínis er lagt á ráðin um aftöku þáverandi formanns, Guðna Ágústssonar.

Slag í slag voru þannig send skilaboð um hvar menn verði að sýna samstöðu í að mótmæla orðum formanns og jafnvel skipulagt út í æsar hverjir fari fram á tilteknum fundum vegna tiltekinna mála. Nægir hér að vísa í umfjöllun í blaði Jóhanns Haukssonar, DV. Að þessum vinnubrögðum komu á þeim tíma bæði varaformaður flokksins, ritari, framkvæmdastjóri, skrifstofustjóri og fleiri lykilmenn í trúnaðarstöðum. Og vitaskuld var allt þetta okkur hinum kunnugt þó við hvergi hefðum aðstæður til að opinbera þær heimildir.

Af því eina bréfi Jóns Sigurðssonar sem birt hefur verið orðrétt er ljóst að í þessu stríði var engu skeytt um skömm né heiður, sannleik eða lygi.

Flokkur í gíslingu

Það mun raunar ekki ofmælt að allt lýðræðislegt starf Framsóknarflokksins hafi verið í gíslingu lítillar harðsnúinnar klíku í liðugan áratug eða allt frá valdatöku Halldórs Ásgrímssonar í formannsstóli. Sá sem hér ritar taldi að með skyndilegu burthvarfi Halldórs hefðu skapast aðstæður til að endurvekja þann gamla og félagslega sinnaða flokk sem Framsókn var í tíð Steingríms Hermannssonar og hans forvera.

Hálfs annars árs þingmennska fyrir Framsóknarflokkinn sannfærðu mig smám saman um hið gagnstæða. Hvevetna í starfi flokksins var komið að múrveggjum flokkseigendafélagsins hvort sem ætlunin var að rífa upp grasrótarstarf í flokknum eða ræða stefnumál. Allsstaðar voru á fleti fyrir þeir fótgönguliðar fyrrum formanna sem höfðu með lagni og liðsinni hluta þingflokks möguleika á að bregða hér fæti fyrir. Verst kom þetta sitjandi formanni sem allan sinn formannsferil mátti búa við undirróður og róg af þeirri stærðargráðu og gerð að engum manni er ætlandi í slíku að lenda.

Farsæl mistök í tölvupóstssendingu

Og vitaskuld er það rétt að þessi vonda tölvupóstsending kallaði ekki ein og sér á afsögn mína frá þingmennsku. Fyrst og fremst var afsögnin viðurkenning á þeim afglöpum undirritaðs að telja að hægt væri að koma Framsóknarflokki á réttar brautir. Hin klaufalega tölvupóstssending gaf mér tækifæri á að hverfa þar frá enda þá algerlega útséð með að  verk mitt í mínum gamla flokki mætti lukkast.

Ég hlýt hér að fjalla um þetta enda get ég engum óskað að lenda í sömu sporum pólitískrar eyðimerkurgöngu og undirritaður rataði í. Þaðan af síður er það verjandi að nokkur heiðarlegur stjórnmálamaður lendi í sporum Guðna Ágústssonar. Þeir sem telja að ég sé hér að ósekju að sparka helsærðan Framsóknarflokk verða að eiga þá blindu sjálfir og einir. Staðreyndin er að það er flokkseigendafélag Framsóknarflokksins sem hefur grafið undan þeim flokki og skemmt á allan hátt. Það er til lítils að kenna þeim um sem segir frá. Hinir bera meiri ábyrgð sem horfðu á óhæfuna í flokknum öll þessi ár og þögðu.

Það sem á eftir minni afsögn kom með aðför að Guðna Ágústssyni var staðfesting á þeim veruleika sem hér er fjallað um. Nú er svo komið að gamli S-hópurinn getur í friði fyrir okkur hinum sveitalegu Framsóknarmönnum tekið sinn gamla flokk og leitt fulltrúa sinn til formennsku. Sami hópur hefur lengi talið að hin sveitalegu viðhorf þvælist fyrir því að flokkurinn nái fylgi og nú er þeirra að sanna mál sitt.

Stuðningsmönnum mínum í pólitík, fyrr og nú, innan og utan Framsóknarflokks, sendi ég mínar einlægustu jólakveðjur. Með nýju ári hefst ný barátta.

Íslandi allt.

(Birt í Mbl. 16. des.2008)


Fjölmiðlamenn á mála hjá útrásarvíkingum

Það er vissulega svo að formleg völd samfélagsins liggja hjá stjórnmálamönnum og víst brugðust stjórnmálamenn ekki síður en fjölmiðlarnir. En stjórnmálamaður sem ekki nýtur sanngirni fjölmiðla er í okkar nútíma samfélagi algerlega máttlaus til verka. Sjálfur hef ég verið í hópi þeirra sem átt hefur frekar greiða leið að fjölmiðlum en þó brá mér nokkuð í brún fyrir ári síðan þegar ég árangurslaust reyndi að koma að varnaðarorðum í efnahagsmálum og stóð þá á þeim palli að vera einn þriggja fjárlaganefndarmanna stjórnarandstöðunnar. Fjölmiðlar höfðu einfaldlega ekki áhuga á svartsýni á þeim tíma enda þjónaði það ekki hagsmunum þeirra. Ekki nema viðkomandi væri til í að benda patentlausnir eins og þær að Ísland ætti að ganga í ESB.

Ég vil trúa því að í úttekt á spillingu og ofurgræðgi undanfarinna ára verði grafist fyrir um alla anga þess máls. Einnig hvernig útrásarvíkingar keyptu fjölmiðlamenn til fylgilags og gerðu sjálfir út menn inn í stjórnmálin til að ota sínum tota. Bersýnilegast þar er framganga nokkurra borgarfulltrúa í erindum FL group í máli sem kennt er við REI. En slík úttekt bíður síns tíma.

Sjá nánar í pistli undirritaðs á fréttasíðunni AMX, hér http://amx.is/pistlar/1157/


Sjálfstæðisuppgjöf tilkynnt í útlöndum

 Jeg tror ikke Island har noe valg etter den knekken vår valuta har fått, sier kultur- og utdanningsminister Katrín Gunnarsdóttir fra Selvstendighetspartiet til Klassekampen. (I lauslegri þýðingu segir varaformaður Sjálfstæðisflokksins að land hennar eigi enga aðra möguleika eftir kreppuna en að ganga í ESB.)

Þetta segir komment Þorgerðar Katrínar í norsku kommablaði sem heitir upp á gamalnorsku Stéttabaráttan. Það lýsir svo innilegri fyrirlitningu og forheimskan þegar íslenskir ráðamenn telja sig geta sagt eitt í útlöndum og annað hér heima. Nema þetta sé með ráðum gert að gefa út pólitískar stefnuyfirlýsingar út í útlöndum og láta það svo heyrast í íslenskum fjölmiðlum að það sé talað við þá á útlensku. Og einkar smekklegt að endanleg uppgjöf þess flokks sem kennir sig við sjálfstæði landsins sé gefin út á norsku.

Það hefur lengi legið fyrir að Þorgerður er harðákveðin ESB-sinni en hún gat sýnt þann manndóm að tilkynna um svo afdráttarlausa lotningu fyrst á Íslandi. Mestu vonbrigði helgarinnar er aftur á móti hvernig Illugi, Árni Math og Geir hafa allir snúist á sveif með aðildarviðræðum og eiginlega ekki annar eftir en Björn til að leiða Sjálfstæðisflokk sem aðhyllist sjálfstæði...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband