Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Að velja á stjórnlagaþing
23.11.2010 | 19:33
Það er erfitt verk að velja á stjórnlagaþing. Við sem erum í forsvari fyrir Heimssýn og þar með andstöðuna við aðild Íslands að ESB erum mörg spurð hvern eigi að kjósa til þess að koma í veg fyrir að Ísland gangi í ESB. Stórt spurt.
Nýlega auglýsti Heimssýn eftir afstöðu frambjóðenda til fullveldisins og nú hefur nokkur hópur svarað. Þann lista má sjá hér.
Það er auðvitað mjög umdeilanlegt að setja þessa kosningar í skotgrafir baráttunnar um ESB aðild og ekki frá okkur andstæðingum aðildar komið. ESB hefur beinlínis kallað eftir þessum víglínum því í nýlegri ársskýrslu þess um viðræðurnar við Ísland er því haldið fram að Íslendingar muni á Stjórnlagaþingi breyta stjórnarskránni í þá veru að gera fullveldisafsal auðveldara. Smekkleysi þessa stórveldis í afskiptum af innanlandsmálum eru engin takmörk sett.
Sjálfum er mér illa við að hlutast til um lýðræðislega kosningu til Stjórnlagaþings með þeim hætti að segja að þessir séu fullveldinu og lýðveldinu þóknanlegri og aðrir séu það ekki en rétt er að benda á að öllum frambjóðendum er frjálst að svara Heimssýn,- eða gera það ekki.
Svo eru vitaskuld til fleiri leiðir. Þannig hefur verið smíðuð sérstök leitarvél þar sem hægt er að slá inn ákveðnum hugtökum og leita í stuttum stefnupunktum sem frambjóðendur hafa kosið að setja á vef dómsmálaráðuneytisins. Vélin er hér: http://www.andrimar.is/malefnaleitin
Hér er hægt að slá inn hugtökum eins og fullveldi, lýðræði eða jafnrétti en það eitt að orðið komi fyrir er vitaskuld ekki trygging fyrir neinu en auðveldar engu að síður leitina að viðhorfum frambjóðenda.
Bókadómar bókakaffisins
22.11.2010 | 20:05
Sunnlenska bókakaffið heldur úti síðu þar sem m.a. eru birtir stuttir palladómar um bækur, nú þegar eru komnir þar dómar um bækur Þórunnar Valdimars, Kristínar Steins, Kristínar Eiríks, Óskars Magnússonar, Megasar, Bergsveins Birgissonar og svo er eitthvað minnst þar á Sigurð fót eftir undirritaðan...
Fleiri koma síðar
Best í heimi...
21.11.2010 | 13:58
Best í heimi er að vakna klukkan átta á sunnudagsmorgni og lúra sér ofan í góða bók, þangað til maður er kominn með náladofa í hendina en herping neðan við vömbina og fara þá fram og koma aftur í rúmið með mikið kaffi og ristað brauð með gulu marmelaði og setja það við hliðina á konunni sinni og lesa svo áfram og borða öll ristuðu brauðin og nöldra í henni að ná nú í meira af því ég náði í áðan og sofna svo með margar ristabrauðssneiðar og líter af kaffi í maganum og konan er ýmist í rúminu eða ekki og stundum nakin að striplast við rúmgaflinn eins og nývaknaðar konur gera og böðuð og það er lykt og það er löngu kominn dagur og bókin er þykk og góð og kaffið gutlar í maganum og samt sofnar maður smá og hrekkur upp og nær jafnvel að hafa smá móral yfir að vera latur og drekkur kaldar dreggjar af þykku kaffinu og það er ennþá smá biti eftir af síðasta brauðinu en Elín vill hann ekki og er farin og kemur aftur nokkrum sinnum í svona mjög kvenlegu húsrábi, alklædd og fer að tala um skúringar en er samt miklu skárri en konan hans Lúðvígs í bókinni hans Braga Ólafssonar með langa nafninu sem er eiginlega svo leiðinleg, konan en ekki bókin, að úr því að hún er aftur komin inn á söguna set ég örlítið bréfsnifsi innan í hana miðja, ekki konuna enda myndi ég aldrei gera það heldur bókina, loka og fer í sokkana sem lykta af támeyru og hugsa um að kannski eigi ég að skipta um sokka þegar ég er búinn að skúra eða skúra sokkalaus nema það sé hægt að nota þetta með sokkana sem einhverskonar viðbáru gagnvart þeim ósköpum að þurfa að skúra en svo horfi ég á konuna sem er ekki í bókinni heldur á svefnherbergisgólfinu og sé að þetta er allt vonlaust...
Upplestur á bókakaffinu í kvöld
18.11.2010 | 16:41
Við verðum þrír sunnlenskir höfundar sem ríðum á vaðið í jólabókalestrinum í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld. Þar les Guðmundur Kristinsson úr nýrri og allsérstæðri viðtalsbók sinni, Óskar Magnússon Fljótshlíðingur les úr smásagnabók sinni og sjálfur mun ég svo lesa úr Sigurðar sögu fóts.
Allir velkomnir, aðgangur ókeypis og húsið er opnað klukkan átta.
Gott landsbyggðarblað
18.11.2010 | 16:38
Bændablaðið kom út í dag og það fyllir mig jafnan stolti - hafandi komið að stofnun þessa blaðs og rekið það fyrstu sjö árin.
Það var svo sérstakt ánægjuefni að sjá að blaðinu nú fylgir aukablað um málefni landeigenda í landinu. Þar ber þjóðlendumálin hæst og öll umræða um þau afar mikils virði.
Stjórnar Jón Bjarnason umræðunni...
17.11.2010 | 17:38
Ég er ekki vanur að nota þessa síðu til að auglýsa pólitíska fundi hjá Samfylkingunni en auglýsing fyrir fundinn með Baldri Þórhallssyni í kvöld hrópar á athygli og kætir okkur mörg. Líklega erum við bara á réttri leið.
Samfylkingin og Evrópumál:
Erum við að gera nóg eða stjórnar Jón Bjarnason umræðunni?
Allir velkomnir. Stjórnin
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2010 kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Kortlagning risa stóra bróður
10.11.2010 | 16:02
Við getum haft mismunandi skoðanir á ESB aðild og því ferli sem er nú í gangi en sú kortlagning sem Timo Summa segir frá í dag vekur spurningar.
Það eru nokkrir mánuðir síðan mér barst til eyrna orðrómur um að ESB væri að kortleggja og vinna að yfirliti yfir afstöðu mismunandi þjóðfélagshópa á Íslandi til ESB og pólitískra álitamála með viðamiklum spurningalistum og viðtölum. Nú hefur sendiherra ESB á Íslandi staðfest að þetta er rétt.
Þegar valdið og í þessu tilviki erlent stórveldi tekur sig til að kortleggja þjóðina með þessum hætti þá erum við komin talsvert lengra heldur en jafnvel Orwell datt í hug að hægt væri að fara. Og þetta gerist þó að við séum hvorki í ESB né nokkur meirihluti fyrir inngöngu inn í það.
Hver sá sem hefur gögn eins og þessi í höndunum getur leikið sér með skoðanir okkar og afstöðu eins og unglingur í tölvuleik. Heillandi veruleiki!
ESB kortleggur Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Maður bara lifir... - af óborganlegu viðtali
8.11.2010 | 17:33
Ég er oft seinn, lærði til dæmis ekki að meta Guðberg Bergsson fyrr en á fimmtugsaldri og svo var ég líka seinn til að heyra viðtal sem var við sama höfund í Sjónvarpinu í Kiljunni fyrir viku. En þetta er eitt það albesta sjónvarpsviðtal sem ég hefi hlustað á, það má horfa á það hér.
Guðbergur kom hér fram fyrir þjóð sína sem sambland af guðdómlegum sveitamanni og víðlesnum heimspekingi. Minnti mig á veseríinn mikla í lok Birtings í Voltaire í einfaldleika sinnar speki.
Þegar Egill vildi veiða upp úr honum svör við lífsgátunni kom svarið svo blátt áfram,- maður bara lifir. Og um kreppuna sagðist honum svo að það þyrfti engan að undra að þessi þjóð lenti í slíku, þjóð sem aldrei hefði lifað með sjálfri sér heldur í hálfa öld undir bandarískum her og slag í slag með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn. Þetta er vitaskuld ekki orðrétt tilvitnun enda ætlast ég til að lesendur hlusti á viðtalið sjálft þar sem skáldið kvað svo upp úr með að það eina sem einhver mynd er á í þessu landi eru sjómenn og bændur.
Lasinn og sæll...
6.11.2010 | 22:14
Það hljómar eins og bilun að njóta þess að vera með kvefpest enda góð heilsa mikils virði. En þegar maður er alla jafna svo sæll að búa að góðri heilsu getur einn dagur undir sæng í mátulegri vesöld verið hvíld frá erli dagsins.
Ég hefði eiginlega átt að liggja í gær en þá var útgáfuteiti okkar Sigurðar fóts sem tókst afskaplega vel og var firna vel sótt. Kærar þakkir til ykkar allra sem mættuð. Í dag hefi ég svo legið undir sæng og lesið og dormað.Ef mér tekst að liggja þetta úr mér um helgina er ég sáttur, verra að þurfa að liggja á mánudag... eiginlega afleitt.
Í þessum heimi bókanna koma fyrir rangæskir hríshaldarar, örlyndar skaftfellskar konur, örvinglaðir kvennamenn og gufuruglaðar barflugur. Nú er ég farinn undir sængina aftur...
Partý í Mál og menningu á Laugaveginum
5.11.2010 | 15:49
Í tilefni af útkomu bókarinnar Sigurðar saga fóts er útgáfupartí í Mál og menningu á Laugavegi í Reykjavík. Það hefst klukkan átta í kvöld. Megas mætir ásamt Karítum Íslands og Hilmar Erni Agnarssyni. Höfundur (semsagt undirritaður) les úr bók sinni og gestir gamna sér. Allir velkomnir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)