Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Land sem lyktar af reiði og ódámum
7.7.2009 | 18:53
Landið lyktar af þeirri reiði sem útrásarvíkingarnir valda okkur og stjórnvöld keppast við að slá um þá skjaldborg. Í því efni er samt stjórnarandstaðan stjórninni verri.
Nú fara Björgólfsfeðgar fram á afslátt af kaupverði Landsbankans,- þeir voru ekki einu sinni búnir að borga bankann og gátu samt verið útausandi á fé eins og þeir ættu allan heiminn.
Um daginn þegar viðskiptaráðherra sagði réttilega að íslenska fjármálahneykslið líktist Enron-hneykslinu hljóp stjórnarandstaðan á fætur og varði kappana sem komið hafa landinu á kaldan klaka.
Ennþá berast okkur fréttir af umsvifum þessara manna sem skulda samt trilljónir og skrilljónir sem við þurfum að borga. Og það er ekkert gert.
Húsleitirnar eru eins og glæta í því myrkviði spillar og fýlu sem liggur yfir landinu en fráleitt nema aumleg viðleitni. Í öðrum siðuðum löndum væru tugir þessara manna í stofufangelsi ef ekki gæsluvarðhaldi. Hér rífa þeir kjaft í blöðum sem þeir eiga líka sjálfir!
Ég er farinn á fjöll og verð næstu daga á röltinu á Kjalvegi hinum forna. Þar ku enginn mannaþefur...
Kaupfélagsstuldur sem forleikur að útrásarævintýri
6.7.2009 | 11:24
Á skrollinu heitir heitir nýr útvarpsþáttur í Útvarpi Suðurlands sem undirritaður sér um og byggir á 10 mínútna pistli um allt og ekki neitt, mest þó pólitík. Fyrsti þátturinn var á fimmtudaginn kl. 16 þar sem ég fjallaði lítillega um það þegar Kaupfélaginu okkar hér á Selfossi var stolið um hábjartan dag og hvernig sá stuldur var um margt skyldur útrásarvitleysunni sem þjóðin stendur nú í flórnum af...
Sjá nánar hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/909089
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það heitir semsagt meðvirkni...
5.7.2009 | 13:10
Ég hef enga djúpa sannfæringu fyrir því að Davíð Oddsson hafi rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á Icesave samninginn og tel raunar að það mál allt sé gríðarlega flókið. Meðal annars vegna margra og misvísandi yfirlýsinga þriggja síðustu ríkisstjórna um ágæti bankakerfisins hér og ábyrgð okkar.
En mig furðar á svörum Steingríms J. Sigfússonar sem svarar engu efnislega, hvorki í gagnrýni Davíðs né nokkurs annars þó svo að honum standi til þess allir fjölmiðlar opnir. Sem kjósandi Vg í síðustu kosningum vona ég að það sé handvömm blaðamanns hvernig lokaorð viðtalsins við Steingríms líta út en þar segir hann um Davíð:
Ég hélt nú satt best að segja að þessum kafla í íslenskri stjórnmála- og fjölmiðlasögu væri lokið að allt færi af hjörunum þegar heyrist í Davíð Oddssyni. Ég var farinn að vona að hann væri sáttur við sitt hlutskipti, hættur í stjórnmálum og kæmist vel af en menn ætla seint að komast út úr þessari meðvirkni.
Ef það er raunverulega ætlan fjármálaráðherra að halda því fram að hvorki Davíð Oddsson né aðrir sem ekki eru á launaðir stjórnmálamenn megi skipta sér af stjórnmálum og það flokkist undir meðvirkni að hafa áhyggjur af kratastjórninni sem situr- ef það er svo Steingrímur, þá skuldarðu okkur kjósendum þínum afsökunarbeiðni. Við erum mörg lýðræðissinnar og viljum að allir hafi rétt til að taka þátt í hinni pólitísku umræðu.
Ósvífin og ódýr afgreiðsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Nýlendustefna í nýjum fötum
5.7.2009 | 11:20
Fylgjendur ESB aðildar Íslands halda því mjög á lofti að eftir seinni heimsstyrjöldina hafi hafist tímabil yfirþjóðlegra yfirráða og alþjóðastofnana. ESB sé einfaldlega staðfesting og fullkomnun í þeirri þróun. Hér gætir nokkurs misskilnings í túlkun á mannkynssögunni.
Mannkynssagan er saga af yfirgangi og yfirþjóðlegum yfirráðum og af þeim þætti er lítið nýjabrum. Krafan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðabrota er ung í þeirri sögu en hefur stöðugt vaxið ásmegin á allra síðustu áratugum. Aukið lýðræði og sjálfstæði ganga hér í takt. Samhliða hafa slaknað yfirráð fornra heimsvelda yfir leppríkjum, áhrifasvæðum og nýlendum.
Skýrasta dæmið um þetta er þróun mála í Afríku og Asíu en jafnvel þó misjafnlega hafi tekist til í stjórnarháttum í þessum álfum hafa löndin þar náð meiri árangri í þróun og hagvexti en þau gerðu sem nýlendur hinna evrópsku stjórnarherra. Engin lönd hafa farið eins illa út úr þessari þróun minnkandi yfirþjóðlegra yfirráða eins og gömlu nýlenduveldin sem mynda í dag kjarna Evrópusambandsins.
En heimsvaldastefnan lætur ekki að sér hæða og klæðist á nýjum tímum nýjum fötum. Vel má til sanns vegar færa að þau klæði hafi náð ákveðnu þróunarstigi með hinum afar torskilda og fræðilega búningi sem Evrópufræðingar sveipa stefnu þessa í dag. En undir og bakvið glittir jafnan í sama og sést best á yfirlýstum áhuga ESB forkólfa á áhrifum á Norðurheimsskautssvæðinu. Í þeim landvinningum er ESB aðild Íslands mikilvægur biti.
Aukin alþjóðasamvinna fullvalda ríkja í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna og starf eins og það sem Íslendingar taka þátt í með öðrum Norðurlandaþjóðum er jákvæð og helst í hendur við kröfuna um lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt. Heimsvaldastefna feyskinna stórvelda er alltaf andstæð almennu lýðræði og frelsi smáþjóða.
(Glósað eftir fyrirlestur hjá Eiríki Bergmann á Bifröst - birt í Mbl. í sl. viku).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hélt að þið væruð hjón!
3.7.2009 | 21:44
En fyrr má nú vera vináttan millum okkar.
Í þetta sinn var útvarpað af litlu borði á Austurvelli og þegar viðtali var lokið stóðum við Clausen á tali við fleiri þegar að okkur vindur sér ungur maður og réttir öllum í hópnum myndarlegt blað um hina árlegu og stórglæsilegu gay-pride daga í borginni sem verða reyndar ekki fyrr en eftir mánuð. Það er að segja, ég fékk eitt eintak, Linda Blöndal eitt eintak, Sigurður frá Umferðarstofu eitt eintak og svo framvegis en Ólafur fær ekki neitt.
Líst þér svona illa á Ólaf segi ég í stríðni við manninn en hann var svo sannarlega með munninn fyrir neðan nefið því hann svarar að bragði:
-Fyrirgefðu, ég hélt að þið væruð hjón!
Icesave er verðmiðinn á ESB
2.7.2009 | 19:46
Ég er sammála séra Halldóri Reynissyni presti á Reynivöllum sem skrifaði nýlega í pistli að Icesave sé verðmiði en okkur klerkinn greinir á um hvað fæst fyrir þann miða. Halldór vill meina að það sé traust. Sjálfur tel ég að þar gæti misskilnings.
Með Icesave kaupum við Íslendingar ekki traust heldur aðgang að þægilegum viðræðum um ESB aðild. Samhengið milli þessara tveggja mála, Icesave og ESB, er augljóst nú eftir birtingu gagna. Samhengið milli trausts og Icesave er vægast sagt görótt og byggir á ruglanda í röksemdafærslu.
Séra Halldór Reynisson sem orðar hlutina mjög skýrt segir í grein sinni m.a.:
Málið er lagatæknilegt, fjárhagslegt, það snýst um grunntraust á fjármálastarfsemi heillar álfu; að fólk geti lagt sitt sparifé inn í banka við lágmarksáhættu án þess að eiga það á hættu að spariféð gufi upp."
Þetta er rétt hjá Halldóri en það er líka dagljóst af fullyrðingunni að fjármálakerfi heillrar álfu var illa grundað og gallað í sinni uppbyggingu. Um það atriði er raunar ekki deilt. Deilan snýst um það hvort að ESB-löndunum sé heimilt að leggja ábyrgð á þessum galla á Íslendinga öðrum fremur, sem nær vitaskuld ekki nokkurri átt.
Réttlætishugsun ESB-landanna bakvið það plan er að með ESB-aðild verði ábyrgð og byrðar hinna 700 milljarða skuldbindinga hvort sem er jafnað yfir á alla Evrópubúa og við Íslendingar berum þá að tiltölu langt innan við 0,1% af heildinni.
Allt er þetta í trausti þeirrar vissu að áður en til afborgana kemur innan 7 ára verður ESB orðið að stórríki, Bandaríkjum Evrópu. Við Íslendingar eigum þar brotabrot af prósenti og eigum þá líka bara brotabrot af prósenti í auðlindum Íslands og Íslandsmiða.
Ef Icesave snerist um traust á Íslendingum mætti vitaskuld skjóta málinu til dómstóla. Það megum við ekki og samningsniðurstaðan er því ekki sæmandi fullvalda ríki. Niðurstaða málsins fyrir Alþingi snýst um það hvort kjósendur geti treyst þingmönnum til að standa með þjóð sinni og fylgja sannfæringu sinni framar en flokksskrúfum.
Kjósum af okkur Icesave
30.6.2009 | 11:31
Ég er í þeim hópi sem hefur óákveðinn þegar kemur að Icesave-málinu en eftir því sem meira í þeirri gjörð allri skýrist því mikilvægara sýnist mér að við Íslendingar höfnum samningunum eins og þeir liggja fyrir í dag og setjumst að nýju niður með "vinaþjóðum" okkar í Evrópu.
Auðvitað er samningsstaða okkar vond en þó ekki svo slæm að ekki megi útkljá málið fyrir dómsstólum og allt tal um að við verðum frystir í alþjóðasamfélaginu er hræðsluáróður. Því sama var hótað í landhelgisdeilunni og það er mikill misskilningur að halda að heimurinn versli við Ísland af vorkunnsemi. Við erum matarkista og það gildir meira en gagnslausar hótanir gamalla nýlenduvelda.
Nú er kominn af stað undirskriftasöfnun á vefnum kjósa.is þar sem heitið er á forsetann að sýna myndugleik og vísa Icesavemálinu til þjóðarinnar. Skrifum öll undir!
Kjarkur til sparsemi og kiðfættir vinstrimenn
28.6.2009 | 18:56
Mörg undanfarin ár hefur þjóðin verið á eyðslufylleríi og hið opinbera hefur þar gengið á undan. Nú þegar harðnar á dalnum er aðalleið ríkisins út úr vandanum að auka skatta. Það eru kiðfættir og klaufalegir ráðherrar sem nú stautast um án þess að þora öðru en að skattpína.
Ríkisvaldið ætlar áfram að ganga á undan með eyðslu og flottræfilshætti og skírasta dæmið þar um eru fyrirætlanir um að klára hið forkostulega tónlistarhús við höfnina. Fyrir brot af þeim peningi sem kostar að klára þá fordild mætti reisa fullt nógu stóra, fábrotinn en notadrjúgann tónlistarsal sem byggði á fjórum veggjum og þaki.
En það er ekki bara fordildin í tónlistarfólki sem má skera utan af nú þegar að kreppir. Hvarvetna sjáum við bruðl í rekstri sveitarfélaga sem reisa skólahús margfalt dýrari en þyrfti, leikskólar sem fyrir fáeinum árum gátu húsast í venjulegum húsakynnum eru nú tífaldir að verðlagi við íbúðarhús sem þó eru engir kofar á Íslandi. Í nútíma skólastofum sitja grunnskólabörn á snúanlegum skrifborðsstólum eins og þeim sem við systkinin öngluðum saman í handa karli föður okkar sextugum fyrir nokkrum árum af því að við héldum honum það hollt fyrir bakið, gömlum manninum.
Ríkið hagar sér ekkert betur í þjónustu sinni og byggir frekar 100 milljón króna hús fyrir fjóra á fjörtíu manna biðlista fatlaðra frekar en að sinna öllum og byggja ódýrt. Eins manns sjúkrahúsherbergin eru vitleysa af sama meiði.
Verst er þó bruðl Íslendinga þegar kemur að samgöngumálum og þegar kreppan reið yfir fyrir tæpu ári síðan var enn lag að stöðva fjölmargar óþarfar framkvæmdir. Ég ætla að taka hér til dæmis nokkur verk sem eru í gangi hér í nágrenni Selfoss og ég þekki ágætlega til. Framkvæmdir sem má réttlæta í góðæri en sjálfsagt að slá á frest í harðæri. Þar má nefna Bakkafjöruhöfn sem ólíkt ódýrara væri að leysa með hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar, Suðurstrandarveg sem tengir saman Grindavík og Þorlákshöfn og er ferðamannaleið sem nægilegt væri að sleikja malbiki ofan á gamla Ögmundarhraunsveginn í bili, Bræðratungubrúna sem engu mun breyta um megin samgönguleiðir í uppsveitum Árnessýslu en er þægilegur lúxus fyrir ferðamennsku og atvinnusókn Tungnamanna yfir í Gullhreppinn. Það fjórða sem var dæmafátt kjarkleysi hjá samgönguráðherra að skera ekki niður er fjórföldun á Suðurlandsvegi yfir Hellisheiði þar sem talsvert gagn gerir að gera veginn bara þríbreiðan að sinni og slá þá um leið á frest nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.
Það sem okkur vantar er stjórnmálamenn og flokkar sem þora að boða sparsemi og aðhald. Öðru vísi komumst við aldrei í gegnum þann skafl sem fram undan er...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þjóðarsátt eða krataklastur
27.6.2009 | 12:32
Ég veit að það er ljótt að stela og tekst yfirleitt að stilla mig um allt slíkt en þegar talið berst að hinni nýju þjóðarsátt get ég ekki stillt mig um að birta mynd sem datt inn í tölvuna mína af Moggavefnum. Hún segir eiginlega allt sem segja þarf um það að þetta sem kallað er stöðugleikasáttmáli og ku sátt um það eitt að Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson verði sammála um að Ísland lúti stjórn Jóhönnu og sigli inn í Evrópu. O tempora o mores...
(Semsagt, listræn ástarmynd rænt í pólitískum tilgangi af Moggavef, ljósmyndari að ég held Axel.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Æska landsins er mikilvægari en Icesave
26.6.2009 | 09:26
Samtök Fullveldissinna lýsa yfir andstöðu við fyrirliggjandi Icesave-samninga og lýsa undrun sinni á tilraunum ríkisstjórnarinnar til að hræða almenning og Alþingi með áróðri um einangrun þjóðarinnar frá alþjóðasamfélaginu verði samningarnir ekki samþykktir.
Samtök Fullveldissinna minna á skyldur ríkisstjórnar og Alþingis við æsku landsins og hvetur þingmenn til að minnast loforða sinna um að standa með þjóðinni í endurreisn landsins. Það er ekki gert með auknum skuldbindingum sem geta vegið að afkomu allra þegna hennar til frambúðar.
Alþingi ber skylda til að standa á rétti Íslands í Icesave-málinu og láta fara fram ítarlega úttekt á þeim þjóðréttarlegu atriðum sem það varðar. Í núverandi gerð stenst samningurinn ekki lög og milliríkjasamninga. Ákvæði EES samningsins og lög um Tryggingarsjóð Innstæðueigenda undanskilja ábyrgð ríkisins, sbr álit Ríkisendurskoðunar.
Sjá ályktunina í heild ásamt greinargerð: http://l-listinn.blog.is/users/a6/l-listinn/files/yfirlysing_25_06_2009.pdf