Suðurnesin eru land tækifæranna!
4.10.2007 | 01:46
"Hvílík hneisa fyrir þig Bjarni minn sem þingmaður framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi að slá af álver í Helguvík..."
Eftir ágætt útvarpsviðtal við Höskuld félaga minn og þingmann flokksins í Norðausturkjördæmi í gær (efnislega sama kom líka í sjónvarpi) hafa nokkrir Suðurnesjamenn hringt og sumir talið að við Guðni værum hér með orðnir sérlega andsnúnir okkar eigin héraði. Hinir eru þó fleiri sem hafa lýst stuðningi við þessi viðhorf en gagnrýnina ber að virða af heilindum og virða svars. Tilvitnun hér að ofan er eitt dæmi um þessi viðhorf en þetta er úr kommenti sem kom á síðuna hjá mér í gærkvöldi.
Nokkuð er þetta málum blandið. Framsóknarflokkurinn hefur engan hug á að slá af álver í Helguvík og raunar er Höskuldur aðeins að segja það sem augljóst er að forgangsröðun stjórnvalda hefur verið og er væntanlega enn þessi, Bakki, Helguvík og síðan Þorlákshöfn og Keilisnes. Pólitísk og efnahagsleg rök mæla líka með því að nú þegar verði ráðist í framkvæmdir nyrðra en hinkrað við hér syðra. Þetta er spurning um hagsmuni almennings og þar með hagsmuni almennings í Reykjanesbæ, - ekki einvörðungu hagsmunagæslu fyrir sveitarsjóði eða hag stórfyrirtækja.
Það er nefnilega mikill misskilningur að álversuppbygging á Suðvesturhorninu sé skynsamleg á þeim þenslutímum sem nú ríkja á því svæði og þeir sem það gera hafa ekki verið að hlusta á efnahagsráðgjafa eða þá hæstvirtan Seðlabankastjóra sem einn má nú glíma við að kæla hagkerfið.
Ég sé að í nýju fjárlagafrumvarpi eru veikburða tilraunir til að slá á þenslu með því að klípa einhverja milljón af styrk til skátahreyfingar og aðra af ungmennafélögunum. Það verður til harla lítils ef við ætlum okkur að ofkeyra hagkerfið með stóriðjuvæðingu í landi þar sem hvorki er vöntun á störfum né hagvexti.
Einhver kynni að segja að hagvöxtur sé alltaf af hinu góða og aldrei nógur en það er einfaldlega rangt. Meira að segja mjög mikil vitleysa. Ofþensla í hagkerfinu er slæm fyrir hag almennings, spennir upp kostnað, vexti, íbúðaverð, brask, eftirspurn eftir vinnuafli o.s.frv. Þeir einu sem græða á því að ráðast í álversuppbyggingu hér og nú og strax, hvort sem er í Þorlákshöfn eða Reykjanesbæ, eru í rauninni þeir sem byggja álverin sjálf, gróðaöflin sem eru í kapphlaupi um ódýra eða ókeypis losunarkvóta.
Hagur almennings er fyrst og síðast að hér verði jafnvægi og stöðugleiki í efnahagslífinu. Og það eru ekki bara beinir peningalegir hagsmunir fólks sem kalla á það. Allt mannlíf er mengað og undirlagt af þeirri ofurspennu sem ríkir í samfélaginu. Of mikil eftirspurn eftir vinnuafli á öllum sviðum bitnar á daglegu lífi okkar allra, samveru okkar með börnum og ættingjum, menningarlífi okkar og mér liggur við að segja vitsmunalífi því hvenær er hægt að hugsa í þesser um skarkala öllum. Þar fyrir utan hefur verið mikil pólitísk óeining um stóriðjuuppbyggingu og ef við ætlum ekki að færa öfgafullum andstæðingum slíkrar uppbyggingar alla sigra á silfurfati þá verðum við að hægja á ferðinni. Hamagangurinn er engum til góðs.
Sjálfur er ég hvorki stóriðjusinni eða stóriðjuandstæðingur, neita hreinlega að láta draga mig í slíka dilka. Ég tel að stóriðja geti oft átt rétt á sér og tel raunar að álver muni koma í Helguvík og það er vel. En ef við böðlumst um of áfram, bæði þar og í virkjunum í neðri hluta Þjórsár færum við öfgaöflunum í Vinstri grænum og þaðan af róttækari hreyfingum öll tromp í hendurnar og uppbygging atvinnulífsins mun líða fyrir þeirra forræði. Við sem viljum byggja upp verðum að kunna okkur hóf.
Loksins þetta: Það er misskilningur að það séu aðeins vandamál á landsbyggðinni á Íslandi. Vissulega er stöðnun og samdráttur vandamál byggðarlaga eins og Þingeyjarsýslnanna og Vestfjarða að ég tali nú ekki um mínar kæru Skaftafellssýslur. En á öllu Suðvesturhorni landsins er líka mjög mikill aðsteðjandi og erfiður vandi ofþenslu. Þessi ofþenska bitnar fyrst og fremst á hag þess fólks sem býr á hinu ofurspennta svæði. Ríkisstjórnin stendur sundurlynd gagnvart þeim vanda og innan sveitarstjórna á svæðinu heyrist stundum (einkanlega þar sem D-listar eru í meirihluta) að græðgisvæðingin ein skuli ráða og ríkja. Allir sem augu hafa í höfðinu sjá að brýnasta vandamálið í stjórnmálum í dag er að slá á þenslu á suðvesturhorninu og álversuppbygging á Keilisnesi, Helguvík eða Ölfusi er örugglega ekki leiðin til þess!
Því fer fjarri að almenningur á Suðvesturhorninu sé svo heillum horfinn að heimta álver einum rómi. Í allri kosningabaráttunni og prófkjörsbaráttu síðasta haust talaði ég fyrir nákvæmlega sömu sjónarmiðum og Höskuldur gerði í útvarpi í gær og fékk góðar undirtektir. Sérstaklega kom mér á óvart hvað fundarmenn á einum prófkjörsfundinum í Framsóknarhúsinu í Reykjanesbæ voru mér margir sammála í þessari forgangsröðun. Auðvitað voru ekkert allir sammála mér enda væri nú lítið varið í þann heim þar sem allir væru sammála um allt og margir af álverstalsmönnum færðu mjög málefnaleg rök fyrir sínum skoðunum, m.a. atvinnuleysistölur sem eru í hærra lagi á Suðurnesjum og þar hafa líka margir lækkað í launum eftir brotthvarf hersins. Allt eru það atriði sem kalla á umhugsun en það er líka mjög mikil gerjun í atvinnulífi þar suðurfrá og heilt álver með öllum ruðningsáhrifum sem við þekkjum af stóriðju verður böl en ekki blessun við núverandi aðstæður í Reykjanesbæ. Það er ekki þannig að við getum farið þá leið að byggja allt upp, að við getum fengið allt og sleppt engu. Þannig er það aldrei í hinum raunverulega heimi. Álver mun ýta til hliðar, fresta og skúbba jafnvel út af borðinu öðrum og meira spennandi hugmyndum á Rosmhvalanesi, bæði netþjónabúum, útrás á flugvallarsvæði, háskólauppbyggingu o.s.frv.
Það er kannski auðveldara að vera þingmaður Suðurnesja með allt aðrar skoðanir og vera þar með í álverskórnum. En ég er í stjórnmálum en ekki vinsældaleik og það sem ég hefi hér skrifað var mín skoðun í prófkjörsbaráttunni fyrir ári síðan, í kosningabaráttunni í vor og þetta er enn mín skoðun og mínar skoðanir eru aldrei leyndarmál, hvorki fyrir né eftir kosningar!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru orð að sönnu Bjarni. Stóriðjuuppbyggingu hér fyrir austan hefur verið kennt um þá þenslu sem verið hefur í íslensku athafnalífi undanfarin ár, en það er staðreynd að þessi uppbygging hér er ekki nema eins og dropi í hafið á öllum þeim framkvæmdum sem farið hafa fram á Torfunni. Það er líklega búið að byggja húsnæði, ýmist atvinnu eða íbúðar, fyrir umtalsvert hærri upphæðir á Suðvesturhorninu heldur en farið hafa í uppbyggingu hér á Austurlandi, og alltaf virðist bætast meira og meira í, og orðið löngu tímabært að reyna að ná jafnvægi á þessu þéttbýlasta horni landsins. Það er ekki hægt ef að það á að bæta þessum stóriðjuáformum ofan á allt sem fyrir er.
Einnig er það nauðsynlegt ef að það á að byggja upp stóriðju á annað borð að nýta hana sem uppbyggingartæki fyrir svæði sem eru í bullandi vörn, og það á við um norðurland rétt eins og það átti við um austurland, en nú horfir til betri vegar hér, og röðin er komin að nágrönnum okkar í norðri.
Eiður Ragnarsson, 4.10.2007 kl. 05:40
Ég get ekki með nokkru móti fallist á það Bjarni, hér eftir, að þið Guðni getið kallað ykkur þingmenn fyrir Suðurnesin.Þið vitið báðir tveir að Hitaveita suðurnesja er langt komin með að virkja fyrir álver í Helguvík, orka er því sem næst tryggð ,og kannski er ekkert eftir nema að tryggja mengunarkvóta.En aðalatriðið er það að þið Guðni gangið gegn þeirri stefnu sem Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkurinn boðaði í heilt ár fyrir kosningarnar.Ég kíkti inn á fundinn í Keflavík sem þú vitnar í, og bæði hlustaði á Jón Sigurðsson og átti við hann orðastað.Andstæðingum Framsóknarflokksins verður allt að vopni.
Sigurgeir Jónsson, 4.10.2007 kl. 10:52
Sæll
Ég verð að þakka þér það að þú fallir ekki í þá grifju sem einkennt hefur marga Íslenska stjórnmála menn. Þú ert greinilega á þingi fyrir alla Íslensku þjóðina en ekki eitt kjördæmi.
Alex Björn (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 11:04
Þar fyrir utan gerir þú illt verra að fara nú að halda því fram að þú hafir sagt í prófkjörsbaráttu, að fresta skyldi eða jafnvel slá af álver í Helguvík.Ég fór á alla prófkjörsfundi þína hér á suðurnesjum,að ég held og þú minntist ekki á það einu orði.Guðni ekki heldur.Þið minntist ekki heldur á það í kosningabarátunni sjálfri fyrir Alþingiskosningarnar.Vinur er sá er til vamms segir.
Sigurgeir Jónsson, 4.10.2007 kl. 11:07
Þessir suðurlandsþingmenn framsóknar eru hringólfar, maður veit ekkert hvað er hvers og hvurs er hvers. Blaðamannafundur í fyrradag þar sem sagt að "alger eining" sé í framsókn um að slá af álver á suðurnesjum. síðan koma greinar frá einhverjum framsóknarmönnum á suðurnesjum, eins og Eysteini nokkrum Jónssyni http://www.vf.is/adsent/numer/33243/default.aspx sem segir að nú þurfi menn að standa saman um að halda uppbyggingu í Helguvik áfram. Er EKKERT AÐ MARKA ÞESSA MENN????
Johann (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 15:33
sigurgeir - það er einfaldlega ekki fallegt að segja ósatt eða fullyrða um hluti sem maður hefur ekki kynnt sér. ég get auðvitað kallað fólk til vitnis sem var með mér á fundi í framsóknarhúsinu í reykjanesbæ síðastliðið haust - ég man ekki hvort þú varst þar en það var vel mætt á fundinum og góðmennt. þetta kvöld bar álversmálin meðal annars á góma - að frumkvæði nokkurra hestamanna sem þarna voru og ég lýsti þar skoðunum mínum. það sama hefi ég gert á þessari bloggsíðu minni, til dæmis í greininni Hafnfirðingum vorkennt, 26. febrúar (http://bjarnihardar.blog.is/admin/blog/?entry_id=132971) og þó enn frekar í greininni Ál í hvert mál á Rosmhvalanesi frá 18. janúar sl. (http://bjarnihardar.blog.is/admin/blog/list.html?offset=160&blog_id=5761) sem einnig var send til birtingar í Víkurfréttum og fór amk þar inn á vefinn, en í grein þessari segir orðrétt:
"Álver á dýru landi á suðvesturhorni landsins orkar mjög tvímælis. Á öllu þessu svæði er ofhitnun í hagkerfinu og ekkert sem bendir sérstaklega til að það breytist á næstu misserum eða árum. Hið fyrirhugaða álver í Helguvík mun bitna á náttúru svæðsins og lífsgæðum þeirra sem næst svæðinu búa. Slík fórn er því aðeins réttlætanleg að alvarlegur skortur sé á atvinnu en svo er ekki."
Mín afstaða er aftur á móti ekki nein flokkslína og líkt og í öllum öðrum flokkum (nema VG) eru skiptar skoðanir um þetta mál og Eysteinn Jónsson bæjarfulltrúi hefur líkt og ég verið mjög staðfastur í sinni pólitík. Við höfum einfaldlega virt skoðanamun okkar í þessu máli og munum gera, héreftir sem hingaðtil.
Bjarni Harðarson, 4.10.2007 kl. 20:42
ps. vísanirnar í greinarnar hér að ofan eru lykilorðvarðar en hér eru vísanir í þær aðgengilegar öllum (smásvonatæknidraslvesen):
http://www.bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/?offset=120
http://www.bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/?offset=160
Bjarni Harðarson, 4.10.2007 kl. 20:50
Það eru að sjálfsögðu mannréttindi að þingmenn fari eftir sinni sannfæringu hverju sinni og er reyndar skylt að gera það samkvæmt stjórnarskrá.Og auðvitað ber öllum að virða skoðanir fólks.En það fór alveg framhjá mér að þú vildir slá af álver í Helguvík og kannski sýnir það bara það hvað þú ert slyngur stjórnmálamaður.En ég ítreka þá skoðun mína að formanni stjórnmálflokks ber að fylgja stefnu flokksins eða segja af sér ella.
Sigurgeir Jónsson, 4.10.2007 kl. 21:24
"öfgafullum andstæðingum slíkrar uppbyggingar"?
Bjarni ert þú að gera okkur öllum sem erum á móti álgræðgisvæðingu Framsóknar það upp að vera öfgamenn? Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Það að ég sé á móti virkjunarhryðjuverkunum í Þjórsá eða Kárahnjúkadrullupollinum hefur ekker með álver á Bakka að gera enda hef ég ekki kynnt mér þau mál nógu vel. En skv. þér er ég og sá sem er á móti þeim hugmyndum undir sama hatti á hillu hjá þér merktri öfgamönnum.
Ég bjóst við meira og betra frá þér.
Ævar Rafn Kjartansson, 4.10.2007 kl. 22:13
Ef menn eru ekki sammála í flokki um einhver tiltekin mál, þá geta þeir alveg eins sleppt því að segja að það sé "alger einhugur" um málið" eins og stjórn framsóknar sagði á blaðamannafundi. um að það ætti að blása álverið í Helguvík af (þeir ráða bara litlu um það blessaðir, sem betur fer).
Sáum hvernig Villi Bæjó engdist um í sjónvarpsviðtali við að útskýra það með miklum sko/hérna/náttúrulega frösum, með kolskakkt nælonið á skallanum að það hefðu verið eðlilegar umræður um söluna á heita vatninu í borgarstjórnarmeirihlutanum. Honum kom þó ekki til hugar að segja að það væri "einhugur" um málið. Svona góður náungi er Villi. Segir bara að það hafi verið umræður um málið, þó allir viti að borgarstjórnarflokkurinn hjá Sjálfstæðismönnum var á móti þessari atburðarrás eins og hann lagði sig.
Pólitíkin byrjar ekki vel. Gamla litla hækjan hún framsókn komin í stjórnarandstöðu og veit ekkert hvernig hún á að láta. Ekki vön að vera í minnihluta, er tekin í bókinu hvað eftir annað við að vera á móti því sem hún stóð fyrir síðasta vor.
Stóra hækjan Samfylking veit heldur ekkert hvernig hún á að láta, jánkar bara öllu sem Sjálfstæðisflokkurinn segir og er búin að kokgleypa öll sín háleitumarkmið sem hún setti sér kosningar núna tæpum tveimur sólarhringum eftir að þingið hefur komið saman. Alltaf gaman að sjá hvernig menn geta tekið svona U beygjur bara við það að komast hinu megin að kjötkötlunum.
Eina sem er hægt að treysta á er að bæði framsókn og kratar hafa litlar hugsjónir aðrar en að komast í stjórn. Þeir setja bara stefnuskrána í pappírstætarann og samþykkja svo það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir þeim að samþykkja. Kannski er það líka bara best. sýnist stjórnarandstaðan þetta kjörtímabilið ætla að verða sú hin sama og síðasta kjörtímabil, og kjörtímabilið þar á undan Aka. Stiengrímur J. Sigfússon.
Johann (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 23:21
skynsamur maður Bjarni, ég segi eins og Axel þú ert á þingi fyrir alla landsmenn, gaman verður að fylgjast með þér og fleirum í vetur.
Hallgrímur Óli Helgason, 5.10.2007 kl. 21:45
Veit ekki Hallgrímur, finnst nú vera frekar lítil eftirspurn eftir Bjarna og öðrum framsóknarmönnum á suðurnesjum þessa dagana eftir þessi ummæli um að slá af álverið í Helguvík. Kannski á eftirspurnin eftir að aukast ef Bjarninn nær að slípa sig til og læra betur á landakortið, hvar kjördæmið byrjar og hvar það endar. Reyndar voru að koma jákvæðar fréttir um umhverfisáhrif v. álversins í Helguvík.
Johann (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.