Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Jón Baldvin frjálshyggjukrati og Jón Baldvin vinstrimaður og Mogginn hans
30.11.2008 | 10:51
Morgunblaðið er að verða skrýtin skepna og aðallega málgagn markaðskrata og þeirra annarra sem séð hafa ljósið í ESB málum. Laugardagsmogginn tók öðrum fram því þar átti Jón Baldvin tvær miðopnugreinar. Aðra í leiðaraopnunni og hina í miðopnu Lesbókarinnar.
Það merkilega við þessar greinar er að það er enginn samhljómur með þeim. Í leiðaraopnunni talar ESB-Jón fyrir þeirri skoðun að stærstu mistök stjórnmálanna hér á landi hafi verið að skapa auðmagninu ekki nógu mikið frelsi og ekki nógu góðar aðstæður til þátttöku í því sem Jón Baldvin Lesbókarinnar kallar frjálshyggju. Allt hið óhefta sem EES samningurinn skapaði hér í rekstri banka og fjármálastofnana er í leiðaraopnugreininni bara dæmi um hraðbraut sem aðallega var til að auka umferðaröryggi. Síðan koma algildar klisjur þess sem trúir blint á frelsi stórkapítalismans. Það er ekki kerfinu, stefnunum og aðstæðunum að kenna að einhverjir óku eins og drukknir.
Lesbókar-Jón er við allt annað heygarðshorn og dregur upp trúverðugari mynd af því hvernig heimurinn fór raunar eftir rangri stefnu - lagði semsagt hraðbraut sem var upphaf vandræðanna. Þar er kveðið skýrt að - þetta var röng hugmyndafræði, ekki drukknir bílstjórar!
Hér er skuldinni mjög skellt á Reagan og Thatcher, Hayek og olígarkanna. Allt rétt svo langt sem það nær en vitaskuld var fjórfrelsisbraut EES samningsins hluti af þessari mynd og það vita allir sem skoða þá mynd enda ekkert apparat stjanað jafn dyggilega undir einokunar- og stórkapítalisma heimsins eins og Evrópusambandið...
Verkalýðshreyfing í tilvistarkreppu
29.11.2008 | 21:56
Það ber ótrúlega lítið á verkalýðshreyfingunni í þeirri öldu mótmæla sem nú gengur. Og þá sjaldan við heyrum frá leiðtogum launþegahreyfingarinnar þá eru þeir yfirleitt farnir út um víðan völl og langt út fyrir valdsvið sitt.
Það er nefnilega rétt sem félagi minn Benedikt af ætt Tyrfinga bendir á í frábærri grein að aðilar vinnumarkaðarins eru ekki kjörnir til að taka afstöðu til viðkvæmra pólitískra mála heldur til að standa vörð um ákveðna hagsmuni innan þess ramma sem löggjafarvaldið og lögleg stjórnvöld setja hverju sinni. En innan þess er mikið svigrúm.
Gylfi Arnbjörnsson hagfræðingur er einn þessara leiðtoga sem gerir fátt nema skjóta sig í fæturna þessa dagana. Tekur afstöðu með verðtryggingu, með ESB aðild, móti kosningum og svo framvegis. Í stað þess að standa upp og tala með einföldum hætti fyrir kjörum launafólks. Kostulegast er að hlusta á Gylfa fyllast réttlátri reiði yfir kjörum alþingismanna því þó ég styðji ekki eftirlaunavitleysuna þá hef ég trú á að verkalýðsleiðtogar séu upp til hópa á ekki lakari kjörum en þingmenn,- margir raunar miklu betri. Og hvenær fáum við aftur verkalýðsleiðtoga úr verkalýðsstétt í stað hagfræðinga sem jú læra um kjör láglaunafólks í skólum!
En svona gæti ég rausað áfram en samt hvergi komist með tærnar þar sem Henry Þór Baldursson er með hælana því hann getur teiknað sem er miklu hættulegri notkun á penna heldur en bara að skrifa - og hér segir kappinn allt sem segja þarf.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hugsað um spillinguna og flokkana
28.11.2008 | 18:13
Það sýður á okkur, sagði mætur framsóknarmaður sem gekk hér út úr búðinni hjá mér fyrir stundu og vísaði til þess að okkur öllum svíður hvernig komið er fyrir íslensku hagkerfi og kjörum fólks. Mest fyrir fánahátt stuttbuxnadrengja sem héldu að þeir væru ríkir. Og tókst þetta vegna spillingar í stjórnmálum og viðskiptum.
Og svo ég haldi áfram að vitna í þennan kaffifélaga minn þá brennur á okkur öllum að vekja upp nýtt Ísland þar sem spillingin verður upprætt og stjórnmálamenn starfa á eigin ábyrgð. En auðvitað er skilningur manna á spillingu í stjórnmálum mjög svo allavega og þannig sé ég að Samfylkingarfólk skilur ekki að það sé neitt athugavert við að viðskiptalíf og baktjaldaklíkur stjórni stjórnmálaflokkum. Greinilegt til dæmis af bloggi Bryndísar Ísfoldar sem ég rakst inná.
Þar og í miðlum Baugsveldisins er talað um að ég hafi gefið út heila bók til að koma höggi á Framsóknarflokkinn. Ekkert er fjær sanni. Þessi bók er mikill óður til þess flokks og þeirra hugsjóna sem hann hefur staðið fyrir. En ekki neinn halelúja - óður. Ég segi hér kost og löst á og mér er annt um að það fari fram endurmat og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Þar er enginn flokkur undanskilinn og slík endurskoðun getur aldrei orðið nema allir leggist á eitt. Stjórnmálamenn þori að tala um það sem aflaga hefur farið. Bryndís Ísfold telur sjálfsagt að það sé einfaldlega ekki frá neinu að segja varðandi Samfylkinguna!
Sjálfur lifi ég ekki í þannig heimi. Ég stóð á þeim tímamótum eftir að ég stóð upp af þingi að ég taldi mér einfaldlega skylt að ríða hér á vaðið. Ég hafði til þess betri aðstæður en þeir sem inni sitja. Svo má auðvitað halda því fram að ég hafi ekki sagt nóg. Egill Helgason er einn þeirra sem gagnrýnir mig fyrir að upplýsa ekki hvaða menn þetta eru. Því er fljótsvarað. Ég veit það ekki. Það voru ekki höfuðpaurarnir sem hjóluðu í mig heldur sendisveinar. Ég nefni einn þeirra í bókinni en það hefði kannski betur verið ógert. Og þegar ljóst var að ég léti ekki að stjórn forðuðust margir að vera í sambandi. Það er ekkert skrýtið við það. Ég hef þessvegna sagt eins mikið opinberlega og ég get staðið á. Framhaldsverkefnið er blaðamanna - og þá er svoldið atriði að þeir fái ekki skilaboð um það frá húsbændum sínum að tengsl stjórnmálaflokka við hagsmunaklíkur séu eðlileg og jákvæð og auk þess eitthvað sem ekki megi fjalla um.
Og enn og aftur. Ég held alls ekki að þetta ástand sé vitund verra hjá okkur Framsóknarmönnum en öðrum. Að sumu leyti urðum við frjálsari við andlát SÍS. Svo er þetta aðallega verra eftir því sem flokkar eru stærri og inngrónari í atvinnulífið. Sjálfstæðisflokkurinn á þannig margan djöful að draga í þessum efnum en kannski eru tengsl Samfylkingarinnar við Baugsveldið eitt það hættulegasta og ömurlegasta sem sést hefur í spillingarmálum um áratuga skeið.
Það er engin tilviljun að bæði útrásarvíkingar og allir þeirra kratar sjá ESB sem töfralausn.
(Annars á ekki að vera að þessu spillingar-bloggi núna, þarf að skella bókabúðinni í lás og taka til við viðgerðir á uppþvottavélinni sem tók upp á því í dag að spúa vatni fram á gólf og ég hef fyrir vikið orðið að vaska upp í kúnnana hér í dag í höndunum og verið nokkur handtökin. En samt bara skemmtilegt eins og alltaf þegar það er mikið að gera.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
Þórarinn og Bjarni á bókakaffinu í kvöld
27.11.2008 | 13:27
(Orðrétt stolið af vef bókakaffisins af einskærri eiginhagsmunasemi!)
Þórarinn Eldjárn skáld og Bjarni Harðarson fyrrverandi alþingismaður kynna bækur sínar í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld, fimmtudagskvöldið 27. nóvember. Húsið opnar klukkan 20:30.Þórarinn Eldjárn þarf vart að kynna en hann hefur verið í hópi fremstu rithöfunda og ljóðskálda þjóðarinnar í áratugi. Kvæðasafn Þórarins kom út á árinu og geymir mikinn skáldskaparfjársjóð. Þar í eru allar ljóðabækur hans, átta talsins og úrval úr fimm barnaljóðabókum. Hér má finna afar fjölbreytilegan ljóðaforða en skáldið er jafnvígt á ýmis ólík stílbrögð og efnistök ljóðlistarinnar.
Einn af vertum staðarins, Bjarni Harðarson bóksali og fyrrverandi alþingismaður kynnir splunkunýja bók sína, Farsældar Frón. Í henni er að finna úrval af greinum höfundar frá síðustu árum þar sem fjallað er um dægurmál og strauma og stefnur. Meðal þess sem hér er fjallað um eru nashyrningar, Evrópumál, Framsóknarflokkurinn, trúmál, umhverfismál og fyrstu 50 blaðsíðurnar eru helgaðar íslenska efnahagsundrinu.
(Myndin að ofan er frá heimsókn Þórarins í bókakaffið haustið 2006.)
Ömurlegar fréttir frá Mumbai
27.11.2008 | 09:48
Fréttir af hryðjuverkum eru alltaf ömurlegar. Þessi af árás öfgamanna í Mumbai kemur meira við mig margar þeirra því einmitt í þessum hótelturni Taj Mahal hótelsins héldum við Elin upp á 10 ára brúðkaupsafmæli okkar - fyrir næstum 11 árum síðan.
Bombay eða Mumbay eins og heimamenn vilja nú kalla borgina er um margt heillandi borg þrátt fyrir fátæktina. Einmitt í Taj Mahal hótelinu mætist með öfgafullum hætti gríðarlegt ríkidæmi þeirra sem inni eru og átakanlegur skortur betlandi barna á hótelstéttunum fyrir utan. Ég er ekki að kenna því um þessa atburði en mikil kúgun og mikil misskipting auðs er samt eitt af því sem fóðrar öfgahópa og illvirki víðs vegar í þriðja heiminum.
Engir gíslar á Taj Mahal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að vera blaðamaður eða vera málpípa Baugs...
26.11.2008 | 18:16
Þegar ég var að byrja minn feril sem blaðamaður fyrir aldarfjórðungi síðan voru að enda sinn feril "blaðamenn" menn sem litu á blaðamannsstarfið sem áróðursstarf. Sumir þessara voru mjög meðvitaðir um þá breytingu sem hafði orðið til góðs í þessum efnum og ég get með góðri samvisku nefnt hér til kynni mín af Þórarni Þórarinssyni - Tíma Tóta.
Hann byrjaði sem blaðamaður hjá Jónasi og lærði að stíla eftir símtölum frá foringjanum. En fréttavinnslan á þeirri tíð var mjög fjarlæg þeirri hlutlausu fréttamennsku sem Þórarinn varð seinna talsmaður fyrir sem ritstjóri Tímans um áratuga skeið.
En alltaf sannast betur og betur að tíminn er ekki lína heldur líkt og þeir austanmenn sögðu, þá er tíminn hringur. Þessvegna gerist það að ósiður sem einu sinni er útrekinn eins og hlutdrægni í fréttamennsku getur alltaf komið aftur og jafnvel orðið sínu verri í afturgöngunni. Þannig er það í dag og hefur verið meira og meira áberandi alla þessa öld. Kastar þó fyrst tólfunum nú allra síðustu misseri þegar útrásarvíkingarnir engjast í dauðanum og beita blöðum sínum fyrir sig með meiri krafti en nokkru sinni. Einasta von þessara manna er að koma landinu hratt í ESB og geta með nýrri mynt og nýjum veruleik tekið aðra umferð á íslenska þjóðarbúinu.
Allir við sem höfum talað gegn ESB aðild verðum þessvegna að skotspæni Baugsblaðamannanna og megum þola að vera þar affluttir, snúið út úr fyrir okkur og gerðir tortryggilegir. Við þjóðhollir Framsóknarmenn höfum sérstaklega mátt líða fyrir þetta í "fréttamennsku" Fréttablaðsmanna þar sem þeir Þorsteinn Pálsson og Björn Ingi Hrafnsson ráða ríkjum.
Þannig komst einn af skósveinum þeirra félaga yfir inngangskafla að bók minni, Farsældar Frón og var nú aldeilis kominn í feitt. Ekki vegna þess sem þar er skrifað um samband viðskiptalífs og stjórnmála, ekki vegna þess að þar sé upplýst að klíkur úti í bæ hafi reynt að hafa áhrif á stjórnarmyndun. Nei, hversvegna ætti blaðamaður á vegum Þorsteins og Björns Inga að skrifa um svo óþægilega hluti. Baugur er nú einu sinni húsbóndinn.
Svo fréttapunktur Fréttablaðsins er - Bjarni laug. Ekkert um annarlega hagsmuni, ekkert um prinsipp í stjórnmálum, ekkert um neitt sem skipti máli. Og eftir þessa dæmalaust illa unnu "frétt" í dag þar sem meint ósannindi mín eru hvergi borin undir mig sendi blaðamaðurinn ungi mér fyrirspurn í dag í tölvupósti:
"Í ljósi þess sem þú nú heldur fram um þátt þinn í stjórnarslitunum neyðist ég til að spyrja: Hvort er ósatt?"
Semsagt blað sem hefur þegar logið upp á mig að ég sé ósannindamaður vill nú ræða þessar lygar við mig! Mér var heitt í hamsi þegar ég las þessa spurningu frá blaðamanninum í dag og sendi eftirfarandi svar sem ég veit svosem ekki á hvern hátt verður snúið út úr á morgun,- en svona fór það frá mér:
Hvorugt. Eins og ég segi frá í bók minni nú þá bauðst ég á þessum tíma til að standa upp úr mínu þingsæti vorið 2007 þannig hefði ég lagt minn skerf fram til þess að stjórnarsamstarfið héldi áfram. Ég gerði mönnum þá algerlega grein fyrir að þetta væri samvisku minnar vegna eina leiðin sem ég ætti til að standa ekki í móti og þar afleiðandi með ákvörðun meirihluta þingflokks. Mér bar aftur á móti engin skylda til að útskýra þessa hluti í smáatriðum í viðtali á þeim tíma og hef ekki tamið mér að fara með ósannindi í samtölum við blaðamenn, jafnvel þó að þeir vinni hjá jafn ómerkilegum miðli og Fréttablaðið greinilega er."
Farsældar Frón í búðir í dag
26.11.2008 | 09:30
Kiljan sem ég er að senda frá mér fer í búðir í dag og það er gaman að vera komin á kaf í alvöru lífsbaráttu. Geri mér vonir um að selja fyrir prentkostnaði en það þarf svoldið til því þar sem ég er hér að skrifa reikninga þá eru það ekki nema 1203 krónur sem ég hef út úr hverri bók. Rest fer í álagningu og virðisaukaskatt þannig að samtals verður útsöluverðið 1980.
Birti hér til gamans smá kafla - um hina úreltu - og er svo rokinn af stað...
Við feikum ekki veröldina og allt eru þetta hliðar á sama peningi. Þjóðræknin, menningarvarðveislan, tungan, viðhald landbúnaðarins í landinu, byggðastefnan og varðveisla sjálfstæðisins. Við getum hent einu og ógnum þá því næsta. Og leyfum hinum íslenska metrómanni að hrópa að þetta sé allt úrelt og hér sé næsta skref að leyfa hömlulausan innflutning á hráu keti, hvað sem líður hreinleika landsins og atvinnuhagsmunum þúsunda Íslendinga. Við Íslendingar erum reyndar þegar í hópi þeirra þjóða sem mest leyfum af tollalausum matvælainnflutningi.
Allt tal um hvað sé úrelt verður broslegt nú þegar stærstu hagsmunir stjórnmálamanna víðast hvar á Vesturlöndum eru einmitt að viðhalda atvinnunni. Á tímum þegar Doha viðræðurnar sigla í strand undan frekju stórfyrirtækjanna. Þessa sama einokunarkapítalisma og ber nú ábyrgð á verstu heimskreppu í manna minnum.
Í öllu þessu er gaman að hlusta á Bör og aðra talsmenn metrómannsins. Þar bylur svo sannarlega hæst í tómri tunnu.
Ímuskarð og spor eftir steina
25.11.2008 | 23:06
Veit ekki nema ég hafi skrifað um þetta skarð áður sem enda er maklegt - það hafa svo fáir aðrir gert og mörg önnur skörð miklu þekktari. Er þó Ímuskarð ekkert ómerkara en Khyperskarðið í Pakistan eða Almannaskarð austur við Hornafjörð.
Skarð þetta er utast af skörðunum framan í Ingólfsfjalli, næst vestan við Djúpadal þar sem malarnáman er. Það er bratt og ekki neitt alltof árennilegt. En samt segja kerlingabækur úr Ölfusinu að Íma sem var frilla Ingólfs Arnarsonar hafi farið um þetta skarð til útfarar húsbónda síns uppi á hábungu fjallsins, í Inghól. Hún hefur auðvitað ekki mátt fara með líkfylgdinni og Hallveigu Fróðadóttur landnámskonu. Frillur eru lágt metnar - sérstaklega ef ástmaður þeirra er dauður.
Mig hefur lengi langað um Ímuskarð upp á fjallið og lét það eftir mér í dag. Er reyndar að verða búinn að riðlast á öllum skorum þessa fjalls og fæ aldrei af því nóg. En ég ætla ekkert að mæla með þessu sem almennri gönguleið,- hún er frekar ill og mikið lausagrjót eftir skjálftana í vor. Reyndi við Ímu einu sinni fyrr en lenti þá í myrkri og ófæru utan megin í skarðinu. Nú fór ég austanað og reyndar aldrei ofan í sjálfa bláskoruna heldur þvældi mér upp kletta í austurbarminum. Þurfti að klifra þar sem verst var en allt samt skaplegt.
Neðst í rótunum má sjá spor eftir steina, manndrápsbjörg sem hafa skoppað og hoppað niður hlíðina og skilið eftir sig sár sem verða lengi að hverfa. Sum aldrei. Stórfenglegt að sjá hvernig skjálftinn hefur leikið þetta fjall og hrikaleiki náttúrunnar engu líkur...
Forlögin og spádómar Reynis Katrínarsonar
25.11.2008 | 12:49
Var í skemmtilegum útvarpsþætti með Bubba Morthens í gærkvöldi og var bara dæmalaust gaman. Eiginlega svo gaman að ég ákvað að láta flakka sögu sem ég hef verið i vafa um að ég ætti að láta hana heyrast í fjölmiðlum. Einhverjir gætu haldið að ég væri orðinn vitlaus en það er nú kannski ekkert til að hafa áhyggjur. Reyndar áreiðanlega einhverjir sem telja hvort er að ég sé vitlaus!¨
Allavega - úr því að ég lét Bubba heyra söguna er ekki nema sanngjarnt að ég setji hana á flot hér á blogginu líka. Þetta snertir skyndilega afsögn mína og ástæður hennar en þremur kvöldum eftir að þá atburði kom konan mín upp i herbergi til mín þar sem ég sat að venju yfir tóbaki og bókum og sagði:
- Manstu þegar við vorum í Garðinum?
- Hvaða garði? Svaraði ég kannski ögn önugur enda aldrei hrifinn af truflunum í mínum bóklestri.
- Suður í Garði,- á sýningunni um daginn og þú hittir spámanninn!
- Já.
- Og manstu hverju hann spáði?
Eftir það kom löng þögn. Elín rifjaði upp spádóminn en ég kom ekki upp orði. Og sannast sagna var ég óvanalega lengi að festa svefn þetta kvöld.
Ég hef alltaf verið laus við að leggja trúnað á miðla og spámenn - en líka forðast svoleiðis fólk eftir mætti. Í þetta skiptið var á ferðinni einstaklega geðugur maður, Reynir Katrínarson, sem bauðst til að kasta upp fyrir mig heiðnum spáflísum, steinum guðanna kallaði hann það, með myndum og rúnum fyrir helstu goð og gyðjur ásatrúarinnar. Og gerði það. Síðan las hann út úr þessum töflum mannlýsingu sem gat svo sem átt við marga en bætti svo við:
- En svo á eitthvað mjög merkilegt og já - alveg rosalegt, eftir að koma fyrir þig í nóvember, nálægt miðjum nóvember. Eitthvað mjög, mjög alvarlegt og dramatískt en það mun verða til góðs þegar upp er staðið. Og það færi að koma í líf mitt nýtt fólk.
Er nema von að mér hafi ekki orðið svefnsamt. Ekki þar fyrir að ég er dulítið forlagatrúar. Hef alltaf verið svag fyrir slíkri trú síðan ég dvaldi ungur með múslimum.
En það hefur aldrei hvarflað að mér að trúa því að nokkur geti í raun og veru lesið þessi forlög. En nú stendur jafnvel það á völtum fótum. Það er flest af manni tekið þessa síðustu og verstu daga!
Reyndar held ég enn að þetta geti kannski verið tilviljun,- já, eiginlega ákveðið að trúa því! Kannski!
Er Ingibjörg af þessari þjóð...
25.11.2008 | 01:13
Ingibjörg Sólrún svaraði almennum borgarafundi í kvöld á þá leið að hún teldi afsagnarkröfu fundarins ekki túlka þjóðina. Hún telur sig þrátt fyrir allt hafa þjóðina að baki sér enda staðið af sér vantrausttillögu í þinginu í dag. Merkilegt.
Nú liggja einmitt fyrir skoðanakannanir sem sýna að aðeins þriðjungur styður ríkisstjórnina og að aðeins helmingur þjóðarinnar vill einhvern af sitjandi flokkum að landsstjórninni. Það er greinilegt að þessar kannanir skipta Ingibjörgu engu máli og ekki heldur rödd þúsunda á borgarafundum.
Hvaða þjóð er það sem Ingibjörg er að vitna til að vilji vonlausu ríkisstjórnina hennar og Geirs.
Þetta er þjóðin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |