Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Í súpu hjá sægreifanum...

kápa_tillaga_1 copyLenti með Jóni Inga og Hrönn í súpu á Sægreifanum. Hef ekki komið þar áður en þetta er einstakur staður og Kjartan vert hreint óborganlegur.

Ég fékk semsagt að hætta snemma í bókabúðinni og Elín tók við. Kom við í Odda þar sem bókin Farsældar frón er að detta út úr prentvélunum og verður væntanlega komin í dreifingu á miðvikudagsmorgun. Fór meðal annars í smá kynningarátak útaf henni í dag og tók svo saman mitt hafurtask á þingskrifstofunni. Leit við í þinginu og var auðvitað eins og uppvakningur þar en það á við mig.

Auðvitað blendnar tilfinningar en samt meira af feginleik en flestu öðru. Kjartan sægreifi vildi í kvöld að ég lofaði sér að fara aftur í pólitík. Ég lofa engum neinu um það að sinni.

Hef annars verið að undirbúa 1. des. hátíðina og verð reyndar með Gránufélagsfund líka þann dag. Meira um það síðar...


Eydís og Diddú mæta 1. des.

Dagskrá fullveldisfagnaðar Heimssýnar er að taka á sig mynd. Við kynnum vonandi dagskrána á morgun en ég læt eftir mér að leka því hér út að meðal listamanna sem þar koma fram verða þær Eydís Franzdóttir óbóleikari og Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir einsöngvari með Jónasi Ingimundarsyni sem undirleikara.

Enn vantar okkur nokkur nöfn á auglýsingu Heimssýnar til að ná settu marki í fjársöfnun og ég vil hvetja alla fullveldissinna sem aflögufærir eru að senda okkur línu eða þá bara að borga beint inn reikning. Sjá nánar með því að klikka á þetta undirstrikaða orð hér.

Sjá glimt af Silfrinu þar sem Egill ræddi við Þorvald Gylfason. Það er ótrúlegt að heyra fullvaxinn einstakling tala eins og aldrei hafi verið nein mannkynssaga og við lifum á einhverju astralplani þar sem allir eru góðir. Alveg útilokað hjá prófessornum að alþjóðastofnanir eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið geti borið annað en föðurlega og allt að því guðlega umhyggju fyrir hagsmunum Íslendinga. Nei, nei útilokað að nokkur ásælist auðlindir okkar.

Auðvitað er Ísland í varnarbaráttu þessi misserin fyrir fullveldi sínu. Í þeirri baráttu hafa útrásarvíkingar og evrópukratar þessa lands einfaldlega tekið sér stöðu vitlausu megin víglínunnar...


Að keppa við þúsund milljarða mennina

Það hefur ekkert verið gert fyrir atvinnulífið, sagði greinagóður endurskoðandi í samtali við RÚV um helgina og það er rétt. Enda mörg lítil og meðalstór fyrirtæki við það að stöðvast og skuldirnar víða ókleyfir múrar. En mestu skiptir þó að kippt verði úr sambandi og teknir úr umferð í atvinnulífinu allir þeir sem hafa hér undirboðið allt í atvinnulífinu og safnað skuldum. Þúsund milljarða maðurinn Jón Ásgeir er einn þeirra en ekki sá eini. Það hafa allir þessir stóru einokunarhákarlar gert þetta og um leið skákað litlum út af borðinu. Og eru að því ennþá. Ég er ekki að tala um þetta eingöngu sem stjórnmálamaður (eða fyrrverandi slíkur) heldur ekki síður sem bóksali og lengi blaðaútgefandi. Eða hvaða vit er í því að hinar ógnar skuldsettu verslunarkeðjur selji nú bækur við hliðina á kjötfarsi með engri álagningu. Láti í rauninni mjólkurlítrann borga fyrir bókaumsetninguna. Það er stundum talað um RÚV sem hið óeðlilega inngrip í auglýsingamarkaðinn. Ég held að stórkapítalisminn hafi raunar verið með mun óeðlilegri inngrip í markaðinn enda keyrt hann svo hart að auglýsingaverð í landinu hefur eiginlega staðið í stað í áratugi. Þegar ég byrjaði sem blaðaútgefandi seldum við heilsíðuna á svipaðri krónutölu og gert er enn í litlum blöðum. Og þetta var árið 1987. Og hvernig gera þessir mógúlar þetta. Jú með því að reka sjoppur eins og 365 með milljarða tapi sem síðan er velt á herðar almennings og nafninu breytt í Rauðsól! Það er reyndar ekkert langt síðan þessir herramenn montuðu sig af því að reka fjölmiðla sína með tapi – þeir væru svo fjáðir af öðrum rekstri og gætu millifært. Fjáðir!? 

Hvenær ætla ríkisbankarnir að stöðva þessa ósvinnu og hleypa heilbrigðri og eðlilegri samkeppni að. Það verður auðvitað ekkert gert nema með því að skipta þessum stórkeðjum upp, hvort sem það er á sviði verslunar, blaðaútgáfu eða hvaða sviði sem er.

Það duga engin vettlingatök á þessa drengi lengur!

Fleiri tilvísanir í Davíð en Dorrit

Nokkur orð um ævisöguna sem þjóðin þurfti ekki árið 20085718

Mér liggur yfirleitt gott orð til bóka, næstum því allra bóka enda næstum alltaf eitthvað á þeim að græða.

Mér liggur líka yfirleitt alltaf gott orð til forseta vors, Ólafs Ragnars Grímssonar. Þó ég hafi ekki kosið hann í fyrstu kosningunni þá hefur mér líkað ágætlega hvernig hann hefur staðið sig og þó einkanlega hvernig hann hefur talað. Ólafur Ragnar er bæði þjóðhollur og réttsýnn.

En ég verð að játa að mér líkar ekki þessi stórpólitíska ævisagnaritun nú á þessum tíma. Okkar ágæti forseti hefði betur fengið útgáfufyrirtækið og Guðjón Friðriksson til að bíða til embættisloka. Eins og nú ástatt í samfélaginu hellir bók þessi olíu á eld óróa og ósættis í samfélaginu. Ég veit ekki hver þáttur Ólafs var í ákvörðun um útgáfu þessa en finnst ósennilegt að hún hefði verið unnin ef hann lagst gegn því. Sem hann hefði átt að gera.

Og það vekur athygli mína að enginn maður á jafn margar tilvísanir í nafnaskrá þessarar bókar eins og núverandi Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson. Meira að segja eiginkonur forsetans sem eru í sömu opnu í nafnaskránni eru með færri vísanir en Davíð.

Ég er ekki með þessu að taka neina afstöðu með Davíð og oft undrandi á þeim manni en líka oft hrifinn og held reyndar að ræðan sem hann flutti í vikunni hafi einfaldlega verið stórgóð og þörf. En hann líkt og Ólafur leikur sér samt að eldinum í samfélagi sem er að springa í reiði og vonbrigðum.

Það er eins og það sé einhver púki inni í landsfeðrunum okkar, en hvað ferst mér prakkaranum að hneykslast á því...


Upp rísi sveit!

skjaldarmerkiDagarnir fara í bóksölu og þess utan að undirbúa á fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember en þá verður fullveldi vort 90 ára. (Það er semsagt aðeins yngra en Framsóknarflokkurinn og lifir enn.)  Oft var þörf en nú er nauðsyn að við stöndum vörð um fullveldið og það gerum við best með því að fylkja liði, þvert á flokkslínur.

Við erum nú að safna saman fólki sem vill aðstoða okkur við að auglýsa hátíð þessa upp með því að setja nöfn sín undir dagblaðaauglýsingar. Um leið lýsum við yfir einarðri andstöðu við ESB aðild landsins.

Heimssýn sem standa að þessu eru þverpólitísk samtök þar sem sitja í stjórn fulltrúar allra flokka og flokksleysingjar. Dagskráin verður nánar kynnt hér á síðunni en þó fyrst á síðu Heimssýnar strax eftir helgi.

En það er ekki ókeypis að auglýsa og því förum við fram á 5000 krónur frá hverjum þeim sem vill vera með – minna þó frá námsmönnum, öryrkjum og eldri borgurum.

Nánari upplýsingar er að finna hér – en einnig er hægt að senda á mig línu og þá bæti ég viðkomandi beint á listann eða sendi nánari upplýsingar eftir því hvað beðið er um. Nú eða einfaldlega að kommentera hjá mér hér að neðan.


Evrópuhraðlestin höktir

Nýjasta ESB könnun Samtaka Iðnaðarins er mjög athyglisverð og líka athyglisvert hvað fjölmiðlar gera henni lítil skil. Ástæðan er einföld. Evrópuhraðlestin höktir nefnilega og er raunar komin í bakkgír ef kannanir Fréttablaðsins eru teknar með í reikninginn.EU&ISL-70x70 Núna eru 53% þeirra sem taka afstöðu hlynnt inngöngu og 27% andvíg. Ef teknir eru allir sem svara eru tölurnar umtalsvert lægri eða 47% á móti 22%.

Við áttum öll, jafnt ESB sinnar sem aðrir, von á stórauknu fylgi við ESB aðild en það stendur í stað. Tölurnar eru þær sömu og var í sumar, nei 0,2% fleiri vilja nú í ESB en í júní. Það eru líka 2% fleiri andvígir ESB aðild en heldur en þá og óvissum hefur fækkað að sama skapi. Gallup metur þetta svo að tölurnar nú séu sambærilegar því sem var í vor. Það er allur árangurinn.

Ef við berum þetta saman við kannanir fyrri ára þá er breytingin sáralítil frá því sem gerst hefur í fyrri boðaföllum í íslensku efnahagslífi. Nánast sömu tölur komu upp t.d. í febrúar 2002 og einhverntíma á árinu 1998 líka en allar þessar tölur eru þannig að þær benda til að aðild yrði felld í þjóðaratkvæði. Það er einfaldlega reynsla fyrir því, t.d. úr Noregi að aðildarsinnar fæ jafnan meira fylgi í könnunum í kosningum. Eina umtalsverða breytingin nú er hvað fylgi við ESB hefur hrunið meðal Sjálfstæðismanna meðan það sækir heldur á meðal annarra flokka - en þar skiptir nú líka máli að t.d. minn eigin flokkur hampar í þessari könnun minna fylgi heldur en ég vil nefna upphátt.

Svo er smá skoðanakönnun hér á síðunni: Hverjum þykir fáninn hér að ofan heillandi. Ég bjó hann ekki til sjálfur heldur er honum flaggað á heimasíðu Samtaka iðnaðarins sem harðast talar fyrir ESB aðild...


Klumsa...

Ertu alveg klumsa, man ég að afi minn sagði einu sinni við mig. Ég hef áreiðanlega ekki verið mikið meira en sjö og við vorum í bíl pabba á leið upp í Tungur. Og ég sem samkjaftaði yfirleitt ekki, ekki þá frekar en síðar, var allt í einu kjaftstopp. Og afi segir þetta og varð svo að útskýra fyrir mér þetta sérkennilega orð sem ég hef síðan alltaf haldið mikið upp á.

Suma daga núna líður mér eins. Ekki vegna þess að það sé ekkert að segja heldur vegna þess að það er of margt. Og svo bætast við fregnir um að ég sé að stofna flokk. Það er auðvitað orðum aukið. Ég er í flokki og hef ekkert hugsað mér að breyta því meðan stefnu hans hefur ekki verið breytt. Og meðan ég er að hugsa þetta er ég mikið klumsa og dagarnir fara í að hlusta á annað fólk. Reyndar svo mjög að ég er löngu kominn með hlustaverk í eyrun og ríg í hálsinn.

Kannski er rígurinn líka ónotatilfinning útaf Icesave málinu sem mig hryllir við og krossa fingur fyrir að eitthvað sé í ermum Geirs sem við ekki vitum. Annars eru mál virkilega komin á versta veg. Kannski skýrist eitthvað um það mál í þingumræðu á morgun.


Ég skil

Ég skil að Magnús Stefánsson sé reiður. Við framsóknarmenn erum allir í nokkru uppnámi eftir atburði gærdagsins. Við Magnús áttum gott samstarf í þingflokki Framsóknarflokksins og ætlan mín var ekki sú að varpa rýrð á hann eða aðra mæta framsóknarmenn.

En ég vona að það skipti máli hvað ég sagði raunverulega en ekki útúrsnúningur fjölmiðla eða bloggara þar um. Ég sagði aldrei að við Guðni værum einu sönnu framsóknarmennirnir. Bara aldrei!

Öll þessi blogg eru hér neðar.

Ég stend við allt sem ég hef sagt og vitaskuld er það svo að þeir taka það til sín sem eiga. Ég hafði Magnús Stefánsson ekki sérstaklega í huga í þessu sambandi og þykir miður að hann skuli misskilja hlutina með þessum hætti.


mbl.is „Bjarni móðgar framsóknarmenn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andrés önd

Andrés önd var að detta í hús en þær bókmenntir lesum við feðgar af áfergju en síður konan mín. Núna fór hún að horfa ofan í þessi blöð eins og þar væri eitthvað merkilegt og segir svo grafalvarleg:

- Bjarni, þú ert alveg eins og Andrés önd.Ég svosem alltaf vitað þetta en vonaði í lengstu lög að hún fattaði það ekki. Og það hefur gengið í 20 ár en nú er líka það farið. Líka það.

Annars er svo sem ekki tóm til að vera í bulli og ég mæli því með að menn fari af þessari bloggsíðu um sinn og lesi ræðu Davíðs Oddssonar. Þann karl hef ég oft gagnrýnt og þá einkanlega vaxtastefnuna en hann hefur samt óþægilega mikið til síns máls í dag...


Farsældar Frón

Daginn sem ég sagði af mérkápa_tillaga_1 copy þingmennsku ákvað ég að koma á prent
bókarskræðu sem ég var byrjaður að öngla í á síðasta vetri. Var búinn að salta hana til síðari tíma. Þetta er greinasafn frá síðastliðnum árum sem ég svo bæti með smá játningakafla þar sem ég játa nokkrar yfirsjónir.

Eiginlega sjálfsgagnrýni að hætti maóista!

Gekk frá öllum texta í bókina um helgina og var síðustu nótt að klára leiðréttingar á próförk. Góð vinkona mín hér af Selfossi, Elín Esther Magnúsdóttir umbrotsmaður á Mogga aðstoðaði mig við útlit og uppsetningu. Læt hér uppkast að kápunni fylgja þessari færslu.

Auk þess að fjalla um eigin afsögn segi ég aðeins frá minni fyrstu eldskírn í stjórnmálum sem var þegar til stóð að framlengja líf ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég hef um margt frjálsari hendur nú en áður til að segja frá því hvernig sú atburðarás öll var.

Ég fjalla líka mikið í bók þessari um fullveldi landsins og ESB, byggðapólitík, umhverfismál og nýbúa á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband